06.05.1974
Sameinað þing: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (3799)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég saknaði þess, að Gylfi Þ. Gíslason skyldi ekki taka til máls hér á undan mér og fagna þeim tíðindum, sem gerst hafa, því að eins og hæstv. forsrh. sagði frá hér áðan, þá er hinn mikli draumur, sameiningardraumurinn, sem hefur ráðið nokkuð ferðinni.

Þegar ég stend nú frammi fyrir þeim tíðindum, sem gerst hafa í þeim flokki, sem ég tilheyrði og batt mínar vonir við og kom eins og græningi inn í pólitíkina, þá segi ég nú á þessari stundu: Já, það var nú það. Það er það. Já, svona er nú það.

Það er sagt um Vilhjálm Þýskalandskeisara, þegar hann hrökklaðist frá völdum eftir fyrra stríð, þá dundaði hann sér við það í ellinni að kljúfa við. Hannibal Valdimarsson er einn sá stórkostlegasti klofningsmaður í íslenskum stjórnmálum, sem við þekkjum, og nú í ellinni heldur hann því áfram að kljúfa. Og ef hann fer í Selárdal, þá getur hann haldið áfram að kljúfa þar rekavið, áður en allt um þrýtur, og þjóna þannig lund sinni.

En þetta er ekki bara hörmungarsaga SF, þetta er líka hörmungarsaga vinstri manna, og þetta er líka hörmungarsaga núv. ríkisstj., sem kristallast í stórkostlegasta sameiningarmanni allra tíma, Vestfjarðagoðanum. Það er mikil skelfing fyrir okkur hina, sem erum yngri að árum, að sjá, hvernig einstakir menn geta með geðshræringarlegum tilburðum í ræðustólum heillað fólk til fylgis við sig og svo reynist þessi veiði vera hreint hjóm og hégómi. Og þegar kosningasigurinn er sem stærstur, þá er ósigurinn mestur. Allt speglast í einu vetfangi í sögu þessa einstaka þm., Hannibals Valdimarssonar.

Sá ráðh., sem kemur nú fram og talar um mistök núv. ríkisstj., ætti ekki að segja mjög margt, því að ég get fullyrt af minni þekkingu og kunnáttu, að þessi hv. meistari í sameiningarmálum allra vinstri manna var andvígur myndun núv. ríkisstj. og líka sá maður, sem liggur nú á sjúkrahúsi og nefndur er Björn Jónsson. Þessir menn vildu ekki mynda núv. ríkisstj., en voru knúðir til þess af fyrst og fremst hæstv. núv. menntmrh., Magnúsi T. Ólafssyni, og mér, þegar við lá strax klofningur forustumanna. Þannig hafa þessir tveir menn, Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson, alla tíð setið á svikráðum við núv. stjórn vinstri manna. (Gripið fram í: Hver sveik hana fyrst) Hver sveik hana fyrst? Hví skal svarað. Það var sú ákvörðun verkalýðsforingjanna(!) — og ég set nú upphrópun á eftir því nafni — að krefjast gengisfellingar í des. 1972, þrátt fyrir það að þessir aulabárðar höfðu gagnrýnt viðreisnarstjórnina í 10 ár fyrir gengisfellingarstefnu og það var beinlínis mótað í stefnuskrá ríkisstj. að grípa ekki til gengisfellinga gagnvart ríkjandi efnahagsvanda.

Nei, þá koma þessir verkalýðsforingjar(!) með upphrópunarmerki á eftir — og krefjast gengisfellingar. Ég vil skjóta því inn, og ég bið hæstv. forseta að ávíta mig á eftir, ef ég nota of ljót orð, ég kalla svona menn rumpulýð í íslenskum stjórnmálum. Síðan er allan tímann vegið að stjórninni og innan þingflokksins með tengslum við Gylfa Þ. Gíslason, sem hefur lagt allt kapp á að kollvarpa stjórninni. Þetta hefur nú verið hreinleikinn í baráttunni. Svo eru menn að tala um, að ég hafi brugðist þessari stjórn. Ég hygg nefnilega, að fyrrv. samherjar mínir, hinn stórkostlegasti sameiningarmaður allra tíma, Hannibal Valdimarsson, og Björn Jónsson, hafi beinlínis að verulegu leyti eyðilagt þessa stjórn frá upphafi vega. Og það fer ákaflega vel á því á síðustu dögum þessarar stjórnar, að þá skuli SF þurfa að halda þingflokksfund á sjúkrahúsi. Mér hefur stundum dottið í hug, hvort það væri ekki best að hafa þá á gjörgæsludeild.

Sannleikurinn er sá, að það er hörmulegt til þess að vita, að menn í nafni verkalýðshreyfingarinnar, í nafni vinstri stefnu skuli geta rótað upp fylginu og hugum vinstri manna, eins og þessir tvíburar hafa gert. Og niðurstaðan blasir við. Hvað vilja þessir tvíburar? Þeir vilja bara nýja viðreisnarstjórn, ekkert annað. Og það hefur aldrei verið annað vakandi fyrir þeim.

Svo er náttúrlega ein lexía, sem ég vil gjarnan, að komist í alþingistíðindin. Það er það, að sá háttur skuli vera á hafður í SF, að það skuli vera fjögurra manna þingflokkur og það skuli vera gengið þannig frá því, að það er þingflokkurinn, þessir 4 menn, sem ákveður afstöðu til ríkisstj. Í öllum öðrum stjórnmálaflokkum er það miðstjórn, þar sem er allt að 60 manna stjórn. En hinn stórkostlegasti sameiningarmaður allra tíma, og Björn Jónsson, gegnsýrður af lýðræðishugsjónum í kommúnistafélögunum hérna fyrir tveimur áratugum, þeir hafa komið því svo fyrir, að ákvörðun um afstöðu flokksins til ríkisstj. er tryggð innan fjögurra manna þingflokks, en ekki hjá flokksfélögunum. (Gripið fram í: Samþykktir þú ekki þessa till.?) Þetta er dálítið sýnishorn af þessum ræfilsflokki.

Ég vil bara segja það, að þróun mála er mjög ömurleg, og ég hefði óskað þess, að minn gamli vinur, Magnús T. Ólafsson, hefði kveikt á perunni fyrr, skilið dálitið betur, hvað var að gerast, hvernig var að vinna með þessum mönnum. Þá væri staða okkar Magnúsar Torfa dálítið önnur. En það breytir ekki öllum hlutum. Málin hafa sinn gang. En hitt vildi ég segja, að nú er svo komið, að Magnús Torfi Ólafsson, sem gekk allt of lengi klyfjaður undir asnaspörkum Vestfjarðagoðans og Björns Jónssonar, er nú væntanlega orðinn nýr þingflokkur í þinginu, og þá fer nú allur ljóminn af mér. Og þá vill svo til, að við tveir úr SF erum orðnir tveir þingflokkar og svo rumpulýðurinn hinum megin. Magnús T. Ólafsson hafði lýst yfir því í afskaplega fallegum stíl, ég vil kalla það jómfrúarstíl, að hann hafi fellt niður störf í þingflokknum. Hvað merkir það? Það merkir, að hann er farinn úr þingflokknum. Og ég held, að það væri nú ráð fyrir Vestfjarðagoðann, hinn stórkostlegasta sameiningarmann allra tíma, að reka Magnús T. Ólafsson, það er um ekkert annað að gera.

Ég hef vissulega verið þessari ríkisstj. erfiður, og hún hefur átt það skilið. Þar fyrir eru þær mannlegu taugar í mér, að ég skil þessa ömurlegu þróun hlutanna. Ég held nefnilega, að fyrsta boðorðið í íslenskum stjórnmálum núna sé að hreinsa út — og vona ég, að hæstv. þingforseti slái í bjölluna, — hreinsa út rumpulýðinn. (Forseti: Ég hef áminnt hv. þm. tvisvar um að nota ekki þetta orð, og ég óska eftir því, að hann fari eftir því og forðist það.)

Eins og málin hafa þróast, hefur hæstv. Vestfjarðagoði Hannibal Valdimarsson og hans tvíburabróðir Björn Jónsson, haft það að meginverkefni að sameinast Alþfl. Ég held, að ég verði nú að óska Alþfl. til hamingju. Það er enginn vafi á því, að það mun færast mikil kyrrð og rósemi yfir Alþfl., þegar tvíburarnir ganga í þann flokk. Þá mun ríkja sátt og samlyndi. Sérstaklega væri æskilegt, ef tvíburarnir gætu komið því til vegar, að allri ákvörðun í flokknum, hæði um aðild að ríkisstj. og annað slíkt, væri komið fyrir í 6 manna þingflokki. Þá væri hægt að þurrka út það, sem eftir er af Alþfl.

En það er margt, sem blandast inn í þessi mál. Það er ekki bara það að óska Vestfjarðagoðanum til hamingju og farsældar um það, að hann megi á ellidögunum kljúfa rekavið í Selárdal. Það er líka hitt, sem ég vil leggja áherslu á, það er það, hvernig hann og Björn Jónsson, þar sem þeir bera ábyrgð á núv. ríkisstj. og hafa verið í ríkisstj., skuli bregðast forsrh. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar, að það sé aðdáunarvert hjá forsrh., hvernig hann hefur tekið á þessum málum. Hann stendur frammi fyrir þeim vanda, að það þarf að gera úrræði í efnahagsmálum, og hann gerir sitt besta, þrátt fyrir það að hann veit, hve örðug aðstaðan er á Alþ. Og ég tel, að hæstv. forsrh. sé verður alveg sérstaks lofs. Það er skoðun mín, þrátt fyrir það að ég tel. að hans ríkisstj. hafi látið reka á reiðanum og þessir hlutir hefðu ekki átt að gerast. En þegar komið er í vandann, þá er virðingarvert af forsrh. að risa upp og reyna að leysa þann vanda, sem blasir við þjóðinni.

Hvað gerist þá? Þá gerist það, að hlaupastrákar í pólitíkinni koma sér undan þessu. Ég hef það fyrir satt, að sú till., sem hefur valdið mestum deilum í þessu frv., m.a. um að fresta löggildingu þeirra kjarasamninga, þar sem gert er ráð fyrir meira en 20% grunnkaupshækkun, sé komin frá Alþb. og Birni Jónssyni. (Forseti: Ég vil fara þess á leit við hv. þm., að hann stytti mál sitt, það eru margir menn á mælendaskrá og þessi umræðutími utan dagskrár er ætlaður til þess, að menn gefi meiri háttar yfirlýsingar.) Já, ég vil bara benda á það, að þegar í svona óefni er komið og hæstv. forsrh. hefur að mínu viti haldið mjög lofsvert á þessum málum, þá skuli þeir menn, sem beinlínis hafa átt hugmynd að þeim till., sem þar eru frammi, hlaupast frá sínum eigin till. Þetta er líka athyglisvert. En að hæstv. forseti beinir þessu nú til mín og hann verður að hafa dálítið umhurðarlyndi, því að ég hef verið dálítill þátttakandi í þróun þeirra samtaka, sem kölluð eru Samtök frjálslyndra og vinstri manna, og nú eru þau klofin — ég kann ekki að nefna, í hversu marga parta, það skiptir ekki máli, en það er eitthvað tragískt við þetta Og svo að ég gefi meiri háttar pólitískar yfirlýsingar, eins og hæstv. forseti óskar, þar sem við á, vil ég beina því eindregið til hæstv. forsrh., að hann hleypi engri skátasveit í ráðherrastólanna til þess að leysa þessi mál. sem við er að glíma, heldur rjúfi þing og efni til kosninga, og þá vil ég vænta þess, að Íslendingar verði þess umkomnir að losna við þann rumpulýð, sem ríður hér húsum.