18.10.1973
Sameinað þing: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í ræðu sinni áðan sagði Gylfi Þ. Gíslason, að verið væri að semja við bandarískan auðhring á sama hátt og viðreisnarstjórnin samdi við svissneska álhringinn 1966. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi. Hér er um algerar andstæður að ræða, en ekki hliðstæður. Álbræðslan í Straumsvík er að öllu leyti eign útlendinga, undanþegin íslenskum lögum og dómstólum og fær orku langt undir kostnaðarverði. Samningurinn um hana var einhver sá óhagstæðasti og ósæmilegasti, sem íslensk stjórnvöld hafa nokkru sinni gert. Samt átti samningur þessi að verða upphaf að allsherjarinnrás erlendra auðhringa. Þessari óþjóðhollu stefnu hefur verið gersamlega hnekkt af núv. ríkisstj. Ef til þess kemur, að stofnuð verði fyrirtæki í orkufrekum iðnaði, sem engin ákvörðun hefur enn verið tekin um, verður þar einvörðungu um íslensk fyrirtæki að ræða, sem lúta í einu og öllu íslenskum lögum og dómstólum og ákvörðunum Alþ. Samvinna við erlenda aðila kemur því aðeins til greina, að þeir séu í algerum minni hl., en úrslitavöldin öll í höndum landsmanna sjálfra. Tilraunir Gylfa Þ. Gíslasonar til að gera stefnu núv. ríkisstj. og viðreisnarstjórnarinnar að hliðstæðum á þessu sviði eru til marks um það, að hann kann ekki lengur að gera greinarmun á íslenskum og erlendum hagsmunum, og kemur það raunar engum á óvart.

Í þessu sambandi kemst ég ekki hjá því að minnast á þá furðulegu till. Bjarna Guðnasonar, að hætt verði við Sigölduvirkjun, en fjármununum í staðinn varið til fiskiðnaðar. Sigölduvirkjun er að sjálfsögðu Íslendingum lífsnauðsyn, hvað sem líður öllum hugmyndum um orkufrekan iðnað í eigu Íslendinga. Án aukinnar orku verður engin framþróun í atvinnumálum, ekki heldur í fiskiðnaði, nema Bjarni Guðnason hugsi sér að taka aftur upp miðaldavinnubrögð hér á landi.

Á þeim stutta tíma, sem hér er til umráða, ætla ég að öðru leyti einvörðungu að fjalla um eitt stórmál, sem æðimikið hefur borið á góma í þessum umr., þá ákvörðun stjórnarflokkanna, að bandaríski herinn hverfi frá Íslandi í áföngum og skuli að því stefnt, að þeim brottflutningi verði að fullu lokið á kjörtímabilinu. Ekkert ákvæði stjórnarsáttmálans hefur vakið aðra eins taugaveiklun hjá sumum fulltrúum stjórnarandstöðunnar og málgögnum hennar. Um ekkert mál hefur verið fjallað af meiri vanstillingu og vanþekkingu. Á engu öðru sviði hefur verið kappkostað á jafn ofstækisfullan hátt að villa um fyrir fólki. Lengi vel var því haldið fram, að hér væri ekki um neitt raunverulegt samkomulag að ræða, heldur innantóm orð, sem engin samstaða væri um, og til þess að réttlæta þá túlkun var hamast við að hártoga og leggja rangar merkingar í hverja þá setningu, sem fulltrúar stjórnarflokkanna, þm. og ráðh., létu falla um þetta mál. Þessari iðju má nú heita lokið. Eftir að endurskoðun hins svokallaða varnarsamnings hófst með formlegu bréfi íslensku ríkisstj. 25. júní í sumar, hefur einnig stjórnarandstaðan neyðst til að viðurkenna þá staðreynd, að stjórnarflokkarnir þrír eru staðráðnir í að framkvæma þetta fyrirheit. Enda hafa fulltrúar allra stjórnarflokkanna lýst yfir því síðustu vikurnar, að endurskoðun samningsins snúist alls ekki um, hvort herinn eigi að fara, heldur aðeins hvernig og hvenær.

Nú hafa erindrekar erlendrar hersetu á Íslandi hörfað í aðra víglínu. Að undanförnu hafa þeir lagt áherslu á það, að þótt herinn fari, verðum við áfram í Atlandshafsbandalaginu og verðum að fullnægja öllum skuldbindingum okkar við það bandalag, vegna aðildar okkar að NATO verði herstöðin á Miðnesheiði að halda áfram starfsemi sinni, engu umsvifaminni en verið hefur. Gylfi Þ. Gíslason, formaður Alþfl., hefur, eins og hann lýsti í ræðu sinni hér áðan, fært þessar hugsanir í kerfi með því að leggja til, að brottför hersins verði fólgin í því einu, að hermennirnir fari úr einkennisbúningum sínum og flíkurnar verði fluttar vestur um haf, en eftir verði svipaður hópur og gegni sömu iðju og fyrr. Jafnframt hefur hann lagt til, að Íslendingar taki við ýmsum störfum, sem hingað til hafa verið flokkuð undir hernaðarverkefni, verði þannig hluti af styrjaldarkerfi Bandaríkjanna og eins konar vísir að íslenskum her. Í því sambandi er rétt að minna á, að Gylfi Þ. Gíslason greiddi atkv. gegn aðild Íslands að NATO 1949.

Það er vissulega rétt, að í stjórnarsáttmálanum segir, að Íslendingar haldi áfram aðild sinni að Atlantshafsbandalaginu að óbreyttum aðstæðum. Síðan gengið var frá málefnasamningi ríkisstj., hafa þessar aðstæður hins vegar gerbreyst gagnvart Íslandi, eftir að tvö aðildarríki bandalagsins hafa um meira en eins árs skeið traðkað á íslenskum lögum og annað þeirra fylgt lögbrotunum eftir með hernaðarofbeldi. Ég er sannfærður um, að eftir þessa reynslu er mikill meiri hluti þjóðarinnar andvígur aðild Íslands að þessum hernaðarsamtökum, og á það verður fljótlega látið reyna, hver viðhorf Alþ. eru. Hitt er rétt, að á meðan við höfum ekki sagt okkur úr NATO, ber okkur að uppfylla þær skuldbindingar, sem við höfum á okkur tekið.

En hverjar eru þá þær skuldbindingar? Þær voru skilgreindar mjög nákvæmlega, þegar íslendingar voru gerðir aðilar að bandalaginu 1949 12. mars það ár fóru stjórnmálamennirnir Bjarni Benediktsson, Emil Jónsson og Eysteinn Jónsson til Bandaríkjanna til þess að kanna forsendurnar fyrir aðild Íslands að NATO. Í skýrslu, sem þeir undirrituðu 26. mars 1949, segja þeir m. a. svo um árangur viðræðna sinna:

„Í lok viðræðnanna var því lýst yfir af hálfu Bandaríkjamanna:

1) Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu og var í síðasta stríði og það mundi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té.

2) Allir samningsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.

3) Viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.

4) Ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.“ Þetta eru einu skuldbindingarnar, sem Íslendingar hafa á sig tekið gagnvart Atlantshafsbandalaginu, og á þessi atriði lögðu stuðningsmenn aðildar hina þyngstu áherslu í umr. þeim, sem urðu á Alþ. Ég gæti vitnað í margar ræður, m. a. ýmissa þeirra manna, sem enn sitja á þingi, en ég læt mér nægja að vitna í nokkur orð, sem þáv. leiðtogi Sjálfstfl., Ólafur Thors, mælti á þingi 28. mars 1949 um Atlantshafssáttmálann:

„Hann er, hvað Íslendinga sérstaklega áhrærir, sáttmáli um það, að þar sem Íslendingar engan her hafi, skuli þeir heldur engan her þurfa að stofna og enga hermenn leggja af mörkum, þótt til styrjaldar komi. Hann er sáttmáli um það, að engin þjóð skuli nokkru sinni hafa her á Íslandi á friðartímum. Hann er sáttmáli um það, að aldrei skuli herstöðvar vera á Íslandi á friðartímum.“

Þetta og þetta eitt eru skuldbindingar Íslands gagnvart atlantshafsbandalaginu. Allar staðhæfingar um aðrar skuldbindingar eru tilhæfulausar með öllu. Og hinu skulum við ekki gleyma, að þetta eru einnig skuldbindingar Atlandshafsbandalagsins gagnvart Íslendingum. Það hefur verið og er siðferðileg skylda bandalagsins að halda þannig á málum, að hvorki sé erlendur her né herstöðvar á Íslandi á friðartímum. Sú skuldbinding hefur verið svikin í nær aldarfjórðung, og er mál, að linni.

Varnarsamningurinn svokallaði var gerður við Bandaríkjastjórn, en ekki við Atlantshafsbandalagið, og í honum felast engar nýjar skuldbindingar gagnvart NATO. Í 7. gr. þess samnings segir svo um það, hvað gert skuli, þegar herinn fer og starfsemi herstöðvarinnar leggst niður:

„Meðan aðstaðan er eigi notuð til hernaðarþarfa, mun Ísland annað hvort sjálft sjá um nauðsynlegt viðhald á mannvirkjum og útbúnaði eða heimila Bandaríkjunum að annast það.“

Það sjálfsögðu fellur þetta ákvæði úr gildi um leið og samningurinn sjálfur og bindur Íslendinga ekki á neinn hátt. En jafnvel þótt einhverjir kynnu að vilja hlíta þessu ákvæði, felst ekkert annað í því en viðhald á mannvirkjum og búnaði, engin hernaðarumsvif, hvorki á vegum Íslendinga né Bandaríkjamanna, sem haft hafa fataskipti.

Ég minntist áðan á það, að Íslendingar hófust handa um endurskoðun hins svokallaða varnarsamnings 25. júní í sumar, en þá hafði legið fyrir vitneskja um ákvarðanir ríkisstj. í nærri tvö ár. Svo brá við, að bæði Bandaríkjastjórn og NATO voru mjög sein í viðbrögðum sínum þrátt fyrir þennan langa aðdraganda. Það var ekki fyrr en í síðasta mánuði, að Luns, framkvstj. Atlantshafsbandalagsins, flutti ríkisstj. mat herforingjanna á gildi herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Bandaríkjastjórn hefur allt til þessa ekki verið reiðubúin til neinna efnisviðræðna um málið, og þær munu ekki hefjast fyrr en í nóv., rúmum mánuði áður en komið getur til einhliða uppsagnar af hálfu Íslendinga. Þessi rólegu viðbrögð eru einkar fróðleg og ekki í neinu samræmi við þann vanstillingaráróður Geirs Hallgrímssonar og Morgunblaðsins, að svokölluð valdahlutföll í heiminum séu farin gersamlega úr skorðum, þegar dátarnir hverfa af Reykjanesi. Við vitum ekki, hvað vakir fyrir bandarískum stjórnarvöldum. Hitt vitum við, að þeir valdamenn Bandaríkjanna, sem hæst var hreykt og leiðtogar Sjálfstfl. trúðu á, njóta nú minna álits heima fyrir og erlendis en nokkru sinni fyrr, og sama máli gegnir um þá stefnu, sem þeir eru fulltrúar fyrir. Það eru ekki nema rúmar tvær vikur síðan öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti, að fækka skyldi í herjum Bandaríkjanna erlendis um 110 þús. manns á næstu tveimur árum með því að leggja niður herstöðvar. Vel má vera, að herstöðina á Íslandi sé einnig að finna í þeim niðurskurði. Svo ör og furðuleg sem þróun hefur verið í Bandaríkjunum að undanförnu, svo gersamlega sem hún hefur afhjúpað siðferðilega spillingu vaktamanna þar í landi, kann svo að fara fyrr en varir, að Geir Hallgrímsson og aðrir, sem trúað hafa á Spiro Agnew og Richard Nixon, fái að kynnast því, að upphefð þeirra kemur ekki heldur að utan. Góða nótt.