07.05.1974
Sameinað þing: 85. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4231 í B-deild Alþingistíðinda. (3809)

330. mál, mjólkursölumál

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 9. landsk. þm. á þskj. 764, vil ég taka eftirfarandi fram, í fyrsta lagi í tilefni af því, sem hann sagði áðan um, að ég hefði vikið mér undan að svara fsp. um niðurstöðu n. þeirrar, sem vann að þessu máli í vetur. Það er ekki rétt með farið, því að nál. lá ekki fyrir, og ég hef ekki tamið mér að miða við annað en það, sem fyrir hefur legið. Nú liggur nál. hins vegar fyrir, og skal ég kynna það.

Í fyrsta lagi eru till. n. þessar:

1. Tekin verði upp sérstök skráning á heildsöluverði nýmjólkur, rjóma, súrmjólkur og fleiri mjólkurvara, sem nú eru ekki skráðar sérstaklega í heildsölu. Smásöluverðsálagning verði einnig ákveðin sérstaklega á þessum vörutegundum. Þessi verðskráning svo og ákvörðun um heildsöluverð verði gerð af 6 manna n. eða þeim verðlagsyfirvöldum, sem síðar kynni að verða falin verðskráning búvara.

2. Einkaréttur Mjólkursamsölunnar eða mjólkursamlags á sölu mjólkur, rjóma og skyrs nái aðeins til heildsöludreifingar, en ekki til smásöludreifingar, eins og verið hefur.

3. Við dreifingu mjólkur, rjóma, skyrs og annarra skyldra vara, svo sem súrmjólkur, undanrennu o.fl., skal heildsöluaðili taka sérstakt losunargjald, sem ákveðið er af 6 manna n. Skal gjald þetta ákveðið án tillits til þess fjármagns, sem losað er hverju sinni frá biðreið heildsöluaðila við útsölustað.

4. Ekki skal leggja neinar hömlur á, hvaða smásöluverslanir megi selja umræddar vörur, en þó má ekki selja vörurnar í verslunum, sem heilbrigðisyfirvöld og viðkomandi sveitarfélög telja, að fullnægi ekki kröfum, sem gera verður um hreinlæti og annan aðbúnað.

Þetta eru niðurstöður af till. n. þeirrar, sem vann þetta mál.

Í framhaldi af þessu lét ég vinna þetta mál sem einn kafla í frv. til l. um framleiðsluráð landbúnaðarins og hafði hugsað mér að leggja það fyrir þetta hv. Alþ. En eins og kunnugt er, hef ég verið hér með allmörg mál á vegum landbrn., m.a. í þessari hv. d., og hafa hv. þm. d. notað sér aðstöðu sína til þess að tefja fyrir þeim málum svo sem mögulegt er og ekki látið þau ná fram að ganga. Það hefur verið mín ákvörðun, að ég færi ekki að bera þennan kafla fram sérstaklega sem breyt. á l. um framleiðsluráð, heldur frv. í heild. Þegar séð var, að þau mál, sem ég hafði lagt hér fyrir snemma á þinginu, mundu tæplega ná fram að ganga eða ekki, þá ákvað ég að geyma þetta frv. til síðari tíma. Hins vegar var ég jafnákveðinn að taka þennan kafla inn í frv., eins og ég hafði ákveðið að fylgja niðurstöðu n. þeirrar, sem ég skipaði til þess að athuga þetta mál. Þó að það hafi verið umdeilt, þá taldi ég, að fyrir því væru þau rök, sem réttmæt væru, og þeim mundi ég fylgja. Hv. fyrirspyrjandi verður því við sjálfan sig og aðra að deila um það, að hér hafa landbúnaðarmál yfirleitt verið stöðvuð, svo að þetta nær ekki heldur fram að ganga á þessu þingi.