07.05.1974
Sameinað þing: 85. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4232 í B-deild Alþingistíðinda. (3810)

330. mál, mjólkursölumál

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. það svar, sem felst í þeim upplýsingum, að n. hafi komist að þeirri niðurstöðu, að einkaréttur á smásölu á þessum vettvangi sé felldur niður. Sú niðurstaða er auðvitað langmikilvægasta ákvörðunin og er í samræmi við það frv. og þann málflutning, sem ég hef haft hér í frammi á hv. þingi.

Mér þykir það hins vegar miður, að afgreiðsla annarra landbúnaðarmála skuli tefja þetta réttlætismál, sem allir eru nú sammála um, að eigi að verða að lögum, og ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðh. muni láta þetta mál fá eðlilegan gang og eðlilega afgreiðslu án tillits til sjónarmiða og afstöðu þm. til annarra mála, sem eru að sjálfsögðu algerlega óskyld.

Ég þarf ekki að tíunda þetta frekar. Ég endurtek það, að ég þakka svarið og legg mikla áherslu á, að þetta mál, sem allir eru sammála um, fái hér skjóta afgreiðslu, hvort sem það verður nú á þessu þingi eða því næsta.