07.05.1974
Sameinað þing: 85. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4232 í B-deild Alþingistíðinda. (3811)

326. mál, almenningsbókasöfn

Fyrirspyrjandi (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég held, að það hafi verið hinn 19. apríl, sem ég lagði fram fsp. á þskj. 750 til hæstv. menntmrh. um almenningsbókasöfn. Það hefur dregist, að þessari fsp. yrði svarað. Hún var þess efnis, hvað liði undirbúningi löggjafar um almenningsbókasöfn og hvort þess væri að vænta, að frv. um það efni yrði lagt fyrir yfirstandandi þing. Ástæða þess, að ég spurði, var sú, að mér þótti dragast nokkuð lengi, að frv. kæmi frá menntmrn., en mér var kunnugt um, að n., sem skipuð var 1970 til þess að semja frv. um þetta efni, hafði skilað áliti í apríl 1971.

29. apríl var lagt fram í Ed. frv. til l. um almenningsbókasöfn, og að því er ég best veit hefur það þegar verið tekið til 1. umr. Þannig hefur þessari fsp. minni verið svarað í verki og fyrir það þakka ég.