07.05.1974
Sameinað þing: 85. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4235 í B-deild Alþingistíðinda. (3816)

431. mál, réttarstaða tjónaþola

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í fsp. þeirri, sem hér er borin fram af hv. 3. þm. Reykn. og greind er á þskj. 779, II. lið, er spurt um framkvæmd þál., er samþ. var á síðasta þingi um könnun á réttarstöðu tjónaþola vegna skaða af völdum flugumferðar í nágrenni flugvalla.

Nokkur athugun hefur verið gerð í dómsmrn. á lagastöðu á því réttarsviði, sem um er fjallað í þál., og mun þeirri athugun haldið áfram. Núgildandi lagareglur um þetta efni er að finna í loftferðalögum, nr. 34 frá 21 maí 1964, einkum í 133. gr. þeirra, en svo sem þar kemur fram, er aðalregla l. um þetta efni, að ábyrgð á tjóni, er hlýst af notkun loftferða, er ótakmörkuð án tillits til saka.

Nánari grein er gerð fyrir þróun alþjóðaréttar um þetta efni í grg. frv. að loftferðalögum á þskj. 20 1963, í almennum aths. um X. kafla, sem fjallar um skaðabætur. Svo sem þar er greint frá, hafa milliríkjanefndir unnið að því árum saman að semja reglur um skaðabætur vegna tjóns af völdum loftfars á jörðu niðri. Síðast var undirritaður alþjóðasamningur í Róm 1952 um þetta efni á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Allmörg ríki hafa undirritað samning þennan, en fá fullgilt hann, og er talið óvíst, hvort hann muni öðlast gildi í raun í þeirri mynd, sem hann var undirritaður.

Það er ljóst, að reglur, sem stefnt er að á þessu sviði, verða að þróast á alþjóðavettvangi, og má taka undir það, sem segir í fyrrnefndri grg. Þá er fastar alþjóðareglur hafa myndast um þessa ábyrgð,verður að endurskoða þennan kafla laganna. Ekkert Norðurlandanna hefur enn treyst sér til að endurskoða lagareglur um þetta efni, og eru íslensku lagareglurnar mjög áþekkar hinum dönsku. Danir hafa undirritað Rómarsamninginn, en ekki fullgilt hann og bíða átekta, uns afstaða stórþjóðanna skýrist, og eiga smáríkin tæpast annarra kosta völ. Sama á við um Norðmenn, að þeir telja rétt að bíða átekta í þessu efni. Réttarsvið þetta er mjög margþætt, þar sem saman fer almennur skaðabótaréttur, almennur vátryggingaréttur og alþjóðlegur loftferðaréttur. Er líklega, að við Íslendingar munum þar sem í fleiru frekast eiga samleið með öðrum Norðurlandaþjóðum.

Eins og ég sagði áðan, mun athugun í þessu efni haldíð áfram á vegum dómsmrn., en að sjálfsögðu í samráði við samgrn. vegna þróunar loftferðaréttar, en þan málefni, sem þar að lúta, heyra undir það rn.