07.05.1974
Sameinað þing: 86. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4236 í B-deild Alþingistíðinda. (3819)

433. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Skýrsla þessi um Framkvæmdastofnun ríkisins er lögð fram samkv. ákvæðum þar um í lögum um Framkvæmdastofnunina. Henni hefur verið dreift fjölritaðri á borð hv. þm. Hún var komin í prentun, þegar prentaraverkfall hófst, en hefur af skiljanlegum ástæðum ekki fengið afgreiðslu í prentsmiðju og bíður þar. En jafnskjótt og því lýkur, verður haldið áfram við prentun hennar, og verður hún þá prentuð og send út til hv. alþm.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þessa ítarlegu fjölrituðu skýrslu, sem hér hefur verið úthýtt og menn geta lesið og kynnt sér. Eins og menn sjá, er skýrslan í þremur köflum, eins og eðlilegt er. Fyrsti kaflinn er um hagrannsóknadeild á 1. bls. og áfram, síðan um áætlanadeild á bls. 11 og áfram og svo lánadeild á bls. 26 og áfram. Ég leyfi mér að vísa til þess, sem segir í þessum köflum um þessi efni. Ég sé ekki, að það þjóni neinum tilgangi, að ég fari að endursegja það hér, sem í skýrslunni stendur og menn hafa hjá sér á borðunum.

Ég skal aðeins geta þess, að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins hélt 17 stjórnarfundi á árinu 1973. Á þeim voru samþ. 339 lán til Byggðasjóðs og 43 til Framkvæmdasjóðs, svo og afgreidd fjöldamörg önnur mál. Þá var samþykkt fjáröflunar- og útlánaáætlun fyrir Framkvæmdasjóð Íslands. Settar voru starfsreglur um lánveitingar Byggðasjóðs til fiskiskipakaupa og nýsmiði fiskiskipa, svo og reglur um lánveitingar Framkvæmdasjóðs og Byggðasjóðs til kaupa á vinnuvélum. Þá voru samþykktar rekstrar- og starfsáætlanir fyrir stofnunina. Að þessu mun nánar vikið í þessari skýrslu, sem hér liggur fyrir.

Framkvæmdaráð stofnunarinnar hélt nær daglega fundi og vikulega með forstöðumönnum deilda, þegar reglu var við komið, en annars eftir þörfum. Fundir voru haldnir með bankastjórum Seðlabanka Íslands um fjáröflun til stofnfjársjóða, svo og með stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands og bankastjórum Landsbankans og Útvegsbankans til samráðs við gerð frystihúsaáætlunar. Náið samstarf hefur verið haft við Iðnþróunarsjóð, Iðnlánasjóð, Fiskveiðasjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð, svo og aðra stofnfjársjóði. Þá hafa verið höfð mjög náin samráð við viðskiptabankana, þegar tilefni hafa gefist til. Framkvæmdaráðsmenn hafa sótt fjölmarga fundi og ráðstefnur víðs vegar um landið og hafi stöðugt samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga. Þá hefur verið efnt til sérstakra funda úti á landi um áætlanagerð og einstakir landshlutar skipulega heimsóttir. Ég hef nefnt hér örfá atriði, sem raunar koma öll fram nánar í þessari skýrslu.

Þetta er fyrsta skýrsla Framkvæmdastofnunarinnar um starfsemi á heilu ári, vegna þess að sú skýrsla, sem flutt var um þetta efni síðast, náði í raun og veru ekki til eins árs, því að áætlanadeildin starfaði aðeins tíma á árinu 1972 og fór sá tími eðlilega nokkuð í að byggja upp starfsemi hennar.

Ég skal svo standa við það, sem ég sagði, herra forseti. Ég skal ekki fara að endursegja það, sem í þessari skýrslu segir, en ítreka, að hún mun, þegar unnt er, verða send út prentuð til þm., og þá geta þeir kynnt sér þessi málefni nánar. Þarna er að finna ítarlegar upplýsingar um þau atriði, sem Framkvæmdastofnunin hefur haft með höndum, m.a. um lánaúthlutanir í einstökum landshlutum.