08.11.1973
Neðri deild: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

24. mál, kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi

Flm. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Þm. Reykjaneskjördæmis, sem sæti eiga í þessari hv. d., flytja á þskj: 25 frv. til laga um kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi. Frv. er flutt, eins og grg. ber með sér, skv. beiðni hreppsnefndar Seltjarnarneshrepps, en á fundi hreppsnefndar 8. júní s. l. var samþ. með atkv. allra hreppsnefndarmanna till. um breytingu á stöðu Seltjarnarneshrepps sem sveitarfélags.

Það sýnist eðlilegt, að svo ört vaxandi byggðarlag sem Seltjarnarneshreppur, er hefur 1. des. s. 1. 2393 íbúa og á næstu árum stefnir í 6–8 þús. manna byggðarlag, óski eftir því, að stöðu þess verði breytt og það gert að bæjarfélagi, sem þá hefði innan marka lögsagnarumdæmisins alla þá starfsemi, sem bæjarfélag getur veitt þegnum sínum, jafnframt því sem sveitarfélagið mundi við það styrkjast mjög út á við. Það sýnist því óeðlilegt og getur beinlínis staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun byggðarlagsins, að íbúar þess séu ekki aðnjótandi allrar þeirrar þjónustu, er ríkið lætur íbúum bæjarfélags í té. Það er hins vegar kunnugt, að ríkið veitir íbúum bæjarfélaga betri þjónustu en hreppsfélaga. Meðal þeirrar þjónustuaukningar, sem felst í stofnun kaupstaðar, er, að í sveifarfélaginu verður staðsett innheimta ríkissjóðs, stjórn dóms- og löggæslumála, varðveisla veðmálabóka, skrásetning bifreiða, umboð Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlag. Nú sækja íbúar Seltjarnarneshrepps þessa þjónustu til Hafnarfjarðar, og má gera sér grein fyrir annmörkum þess, þegar 8 þús. manna byggðarlag þarf að sækja alla slíka þjónustu 15 km vegalengd, og sýnist því beiðni þeirra í alla staði mjög sanngjörn.

Á síðasta þingi voru samþ. lög um breytingu á lögsagnarumdæmi Gullbringu- og Kjósarsýslu til leiðréttingar fyrir íbúa Suðurnesja og þá gert ráð fyrir því, að aðsetur sýslumannsembættis Gullbringusýslu yrði flutt til Keflavíkur. Það frv., sem hér er flutt, gengur í sömu átt, flutt til þess að auka þægindi þeirra fjölmörgu íbúa, sem búa í Seltjarnarneshreppi.

Í frv. eru ákvæði, sem segja til um það, með hvaða hætti skuli fara með ýmis vafaatriði, sem af eðlilegum ástæðum koma upp við þá lögsagnarumdæmisbreytingu, sem hér er gert ráð fyrir. Er gert ráð fyrir því í 6. gr. frv., að ef frv. verði samþ., öðlist það lagagildi frá 1. jan. 1974. Er hér um hagkvæmnisatriði að ræða, þar sem öll reikningsskil og uppgjör embætta eru miðuð við áramót. Til þess að komast hjá aukabæjarstjórnarkosningum er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir því, að núverandi hreppsnefnd fari með stjórn kaupstaðarins, þar til almennar sveitarstjórnarkosningar hafa farið fram hinn síðasta sunnudag í maímánuði n. k. Frá Seltjarnarneshreppi hafa byggst tvö sveitarfélög, annars vegar Reykjavík 1784 og Kópavogur 1946. Það væri því mjög vel viðeigandi, að á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar verði það, sem eftir er af þessu elsta sveitarfélagi, gert að kaupstað.

Það er von þm. Reykn., að þetta frv. fái góðar undirtektir og fáist samþ. fyrir jólaleyfi.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði að lokinni 1. umr. vísað til félmn.