07.05.1974
Efri deild: 120. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4252 í B-deild Alþingistíðinda. (3835)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Hildur Einarsdóttir:

Herra forseti. Það er í senn forvitnilegt og nýlunda fyrir mig að eiga þess kost að sitja nokkra þingfundi á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Í sölum Alþingis má segja að varðveitt sé fjöregg þjóðarinnar, hér eru málefni hennar rædd og úrskurðuð, enda Alþ. æðsta vald í þeim efnum. Fyrir þjóðfélagsþegna varðar það miklu, að vel sé að málum staðið og vel á haldið, svo að þau geti orðið alþjóð að sem mestu gagni.

Að undanförnu hefur mönnum orðið mjög tíðrætt um efnahagsmál, sem brýna þörf ber að finna fullnægjandi lausn á, það þoll enga bið, því að að öðrum kosti fari allt í glundroða, Eigi að síður líða dagar og vikur, en ekkert raunhæft gerist. Tækni og aðstoð efnahagsráðunauta hefðu átt að geta flýtt hér fyrir, en hvað veldur. Mikil spenna hefur ríkt í peningamálum, og er nú svo komið, að margir hafa keppst við að eyða eða breyta peningum sínum í einhvers konar annað eignaform. Jafnvel fólk í strjálbýli hefur talið hyggilegra að festa kaup á hvers konar steinkössum í Reykjavík heldur en að leggja peninga sína á vöxtu, þrátt fyrir að það hyggist ekki nota hina keyptu aðstöðu til búsetu. Slík er vantrúin því miður orðin á gjaldmiðli þjóðarinnar. Bankar og sparisjóðir eru svo til lokaðir sem lánastofnanir, enda aðeins lagt fyrir ótryggt sparifé, sem fólk verður nauðsynlega að hafa við höndina frá degi til dags, og sparifé barna og gamalmenna, sem þau síðarnefndu hafa varðveitt og geymt sér í öryggisskyni til elliáranna. Þessa óheillaþróun verður að stöðva og sem fyrst, enda óhæfa, að forsjálu fólki, sem leggur fé sitt á vöxtu til að tryggja framtíðarstöðu sina, jafnframt því sem það með sparnaði sínum gerir kleift að lána fé til ýmiss konar nauðsynlegra framkvæmda, sé hegnt fyrir slíka hollustu við þjóðfélagið. Sparifé verður að verðtryggja, og þeir, sem fá það lánað, verða að greiða fyrir þá þjónustu eins og hún raunverulega kostar. Ég hef aldrei getað skilið, að þessu réttlætismáli skuli ávallt hafa verið ýtt til hliðar í áranna rás.

Ég kem úr strjálbýli, þar sem ég er fædd og uppalin. Þar hef ég af fremsta megni reynt að taka þátt í ýmiss konar félagsmálastarfsemi, sem þar hefur þurft að vinna. Mér eru því ofarlega í huga nú á þessum stað ýmis málefni strjálbýlis og vænti, að mér verði ekki legið á hálsi, þó að ég viki máli mínu að þeim vandamálum og viðfangsefnum, sem þar er helst við að glíma. Mikið hefur verið rætt og ritað um þau mál.

Höfuðvandamál hinnar strjálu byggðar tel ég fyrst og fremst fólgið í skorti á íbúðarhúsnæði og heilbrigðisþjónustu. Það var alvarlegt áfall fyrir strjálbýlið, þegar samningarnir um byggingu Breiðholtsíbúðanna voru gerðir. Þeir mismunuðu mjög aðstöðu og hafa sogað ótaldar fjölskyldur utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Þar sem atvinnuástandið er gott og ég þekki til. er alls ekki hægt að fullnægja eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sem skyldi. Fylgja verður fast eftir, að húsnæðisskortur hamli ekki eðlilegri byggðaþróun.

Heilbrigðisþjónustan er vægast sagt langt frá því að vera samboðin siðmenntuðu þjóðfélagi. Menntun og tækni hefur fleygt fram, en að sama skapi hnignar heilbrigðisþjónustunni víðast hvar, þeirri þjónustu, sem manneskjunni er svo mikilvæg. Þar sem ég þekki best til, er stöðugt unnið allan ársins hring langa vinnudaga að þjóðnýtum störfum, og verður ekki þolað öllu lengur, að við séum líkt á vegi stödd á svíði heilbrigðisþjónustu og gerist viða á meðal vanþróaðra ríkja. Læknir kemur til okkar þrjá daga í viku og losnar jafnan ekki sökum mikils annríkis, fyrr en nýr dagur hefur hafið göngu sína. — Menn hafa skiptar skoðanir um, hverjar muni helstu ástæður fyrir þessu ófremdarástandi. Að mínu mati eru þær ástæður helstar, að læknar hafi farið í sérnám og ekki talið vera næg verkefni og svigrúm í greinum sínum úti á landsbyggðinni, en jafnframt hafa forráðamenn heilbrigðisþjónustu ekki gert sér grein fyrir, að leggja þurfi áherslu á menntun heimilislækna til að leysa af hólmi gömlu héraðslæknana, sem smám saman voru að týna tölunni. Úr þessu ófremdarástandi verður að bæta. Óumflýjanleg eru stór átök hið bráðasta, ef ekki á illa að fara. Hraða verður uppbyggingu læknamiðstöðvanna. Alla starfsaðstöðu þar og í læknishéruðum verður að byggja upp með bestum fáanlegum búnaði miðað við aðstæður á hverjum stað eftir ráðleggingum sérfróðra manna þar um. Slíkt auðveldar áreiðanlega að fá lækna, sem vanist hafa í námi og störfum þar að lútandi bestu starfsaðstöðu á nútíma mælikvarða. Okkur finnst við ekki hafa unnið til þess að vera meðhöndluð sem nokkurs konar annars flokks fólk, ef ég mætti nefna það svo, hvorki í heilbrigðisþjónustu né öðru. Það á að vera stolt þjóðarinnar, að íbúar strjálbýlisins njóti á hverjum tíma jafnréttis á við aðra þegna þjóðfélagsins.

Ýmsa aðra þætti mætti nefna í sambandi við byggðajafnvægið, svo sem jöfnunarverð á rafmagni, símagjöldum, vöruverði vegna flutningskostnaðar í mörgum tilvikum og ranglátan söluskatt af tilfallandi flutningskostnaði. Mér er ekki kunnugt um, að fólk í strjálbýli fái hærri laun fyrir vinnu sína eða útflutningsatvinnuvegirnir hærra verð fyrir afurðir sínar, þó að tilkostnaður sé hærri í þessum tilvikum. Gjörbreyta þarf stjórnsýsluháttum. Flytja þarf aukinn sjálfsákvörðunarrétt til hinna ýmsu byggða, eftir því sem frekast er unnt að framkvæma, úr höndum stjórnvalda í höfuðborginni út til íbúanna í strjálbýlinu. Tryggja verður, að við getum notið sambærilegrar almennrar aðstöðu, þjónustu og þæginda, eins og best gerist á þéttbýlissvæðum. Þar sem á annað borð eru stunduð þjóðnýt störf, er óréttlátt að mismuna þegnum á þessum sviðum. Til þess þurfa einingarnar að sjálfsögðu að vera það mannmargar, að eðlileg samskipti og þjónusta geti farið að kröfum tímans.

Hér hefur tímans vegna aðeins verið stiklað á stóru í málefnum strjálbýlis, þó að freistandi væri að koma inn á fleiri þætti þess. Mér finnst vera vaxandi skilningur á þessum málum og fagna því heils hugar. Við höfum ekki efni á að leggja niður lífvænlegar byggðir landsins, slíkt væri einnig þjóðarskömm. Ef þjóðin á að lifa efnahagslega sjálfstætt, verður hún að nýta gæði landsins, þar sem þau eru að finna. — Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.