08.11.1973
Neðri deild: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

24. mál, kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi fluttum við þm. Norðurl. e. frv. um kaupstaðarréttindi fyrir Dalvíkurhrepp. Þetta frv., varð ekki útrætt á þingi í fyrra, en við munum endurflytja frv. nú á næstu dögum.

Ég vil taka undir það, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að þessi mál þarf að athuga öll í samhengi, og það eru fleiri þéttbýlisstaðir en Seltjarnarnes og Dalvík, sem munu óska eftir því á næstunni að fá kaupstaðarréttindi. Í þessu sambandi er líka vert að athuga, að sveitarstjórnarmenn hafa bent á þá leið, að þessi mismunur á hreppum og kaupstöðum ætti í raun og veru að hverfa og ætti að samræma þetta tvennt með einhverjum hætti. Ég held, að þessi mál séu nú í athugun, hvernig úr þessu væri skynsamlegast að leysa. Það er t. d. svo á Dalvík, að þeim þykir illt að hafa yfirvald sitt á Akureyri og vilja fá það í kaupstað sinn eða hrepp, og það mun vera höfuðástæðan fyrir því, að þeir óska eftir, að við endurflytjum þetta frv. nú. En sem sagt, ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að þessi mál þarf að skoða öll í samhengi.