07.05.1974
Neðri deild: 122. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4262 í B-deild Alþingistíðinda. (3870)

113. mál, skipulag ferðamála

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hér er til meðferðar frv. um skipulag ferðamála. Ferðamálin eru vissulega bæði víðtækur og þýðingarmikill málaflokkur. Í rauninni er þar um að ræða einn af atvinnuvegum þjóðarinnar, meira að segja vaxandi atvinnuveg.

Ef við værum nú stödd á fyrri hluta þings og frv. væri í fyrri d., mundu óhjákvæmilega hafa orðið um slíkt frv. miklar umr. En hvort tveggja er nú, að frv. er komið frá hv. Ed. og hefur verið þar til meðferðar mestan hluta þingtímans, þ.e.a.s. það hefur verið þar til rækilegrar meðferðar, og eins hitt, að nú er skammt til þingloka. Þess vegna varð n. sammála um að láta það sitja fyrir öllu að koma málinu áfram fyrir þinglok, gera engar breyt. á því, þar sem það yrði þá að velkjast á milli d. og gæti dagað uppi, Betra væri, taldi n., að fá á það reynslu og láta hana síðan segja til um breytingaþörf.

Í viðbót við það, sem nú þegar er sagt, er rétt að gefa þess, að þetta frv. var lagt fram á seinasta þingi til kynningar og var þá rætt allmikið. Einnig er rétt að upplýsa, að frv. er samið af n. manna, sem nákunnugir eru ferðamálum, en það voru þeir Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, sem var nefndarform., Heimir Hannesson lögfræðingur, einnig mikill áhugamaður um ferðamál. og Lúðvík Hjálmtýsson framkvæmdastjóri ferðamálaráðs. Auk vandaðrar þingmeðferðar er því málið mjög vel undirbúið af hinum hæfustu mönnum.

Svo sem ég áðan sagði, varð n. með tilliti til alls þessa sammála um að mæla með því við hv. þd., að hún samþ. frv. óbreytt, og vil ég vænta þess, að framangreind rök verði af þd. tekin til greina og á þetta fallist, svo sem nú stendur á.

Vissulega er það svo, að enn eru uppi fjöldamargar brtt. við frv., þrátt fyrir þær breyt., sem á því voru gerðar í Ed. Sumar þessara brtt. eru að vísu smávægilegar, en aðrar byggjast á skoðanamun um grundvallaratriði. En það er eins í þessu máli sem flestum öðrum, að menn verða seint sammála í öllum atriðum. Eftir því verður þannig ekki beðið, og er þá sá kostur einn fyrir hendi að láta reynsluna heldur skera úr, og það vill samgn, að gert verði í þessu tilfelli. Raunar varð n. sammála um, að æskilegt hefði verið, að betur væri að fjárhagsgrundvelli Ferðamálasjóðs búið, honum séð fyrir traustari og stærri tekjustofnum, þó að nokkur úrbót sé að þessu leyti gerð í frv. Menn höfðu þar vissar hugmyndir um fjáröflun til handa sjóðnum, en hurfu samt frá því að bera þær fram í tillöguformi, þar sem það hefði getað stöðvað framgang málsins.

Herra forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þetta mikla mál. ræði ekki einstaka þætti þess, læt máli mínu lokið. N. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Ed.