07.05.1974
Efri deild: 123. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4275 í B-deild Alþingistíðinda. (3888)

9. mál, grunnskóli

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur hlotið mikinn undirbúning. Þetta mun vera þriðja þingið, sem frv. um grunnskóla liggur fyrir, og áður en það var tekið til verulegra umr. hér á þingi, var frv. víða kynnt af hálfu n., sem vann að undirbúningi þess, meðal skólamanna o.fl. úti um land. Með þessu frv. á að fella skyldunámið í ákveðinn farveg og með því leggja grundvöll að framhaldsnámi. En áður en sá grundvöllur er ákveðinn, er mjög óaðgengilegt að gera breyt. á framhaldsnáminu, svo að það er því nokkurt undirstöðuatriði í sambandi við endurskoðun á skólakerfinu í heild, að þessi löggjöf nái nú fram að ganga. Það er því sjónarmið mitt, að það sé rétt að stefna að því að lögfesta þetta frv. nú á þessu þingi. Hitt er mér ljóst, að þetta frv. er svo viðamikið, að það má búast við, að reynslan leiði í ljós, að það þurfi að gera breyt. á vissum ákvæðum þess. En það er ekki nein ný bóla í löggjöf hjá okkur, sem er viðamikil og hefur margþætt ákvæði að geyma. Má í því efni minna á tryggingalöggjöfina. Ég man vel eftir því, þegar hún var sett á þinginu 1945–1946, að ég ætla, þá voru ýmsir þeirrar skoðunar, að það ætti ekki að lögfesta svo viðamikið frv., heldur að fresta málinu. En þingið ákvað að afgreiða málið. Reynslan hefur síðan leitt í ljós, að það hefur þurft að gera ýmsar breyt. og lagfæringar, þó að tryggingalögin að stofni til standi, síðan frv. var lögfest á þeim tíma, sem ég nefndi.

Menntmn. hefur nú athugað þetta frv., eftir því sem henni gafst tóm til á þeim tiltölulega stutta tíma, sem það hefur legið fyrir þessari hv. d., og n. er sammála um að flytja allmargar brtt., sem prentaðar eru á þskj. 862 og frsm. n. hefur gert grein fyrir. Ég ætla því ekki að ræða um þær brtt. og hef engu við það að bæta, sem frsm. tók fram um þær. En á þskj. 863 er brtt., sem 6 nm. flytja, en ég gerðist ekki flm. að þeirri till., og mun það hafa valdið því, að hún var ekki felld inn í þær brtt., sem n. flytur. Ég tel því rétt, að ég geri með örfáum orðum grein fyrir þeirri skoðun minni, sem liggur til grundvallar þessari afstöðu.

Ég hef skilið þetta frv., svo, að grundvallaratriði þess séu, að fella eigi saman í eina heild barnafræðslustig og gagnfræðastig, að þekkingarstig nemandans eigi að samsvara því, sem nú er krafist við gagnfræðapróf, þegar grunnskólanámi lýkur, og að allir unglingar nái þessu þekkingarstigi, áður en skyldunámi er lokið. Grunnskólanámið á síðan að veita nemandanum rétt til inngöngu í ýmsa framhaldsskóla í mörgum greinum. Grunnskólanámið á þannig að opna nemandanum leiðir út á margar námsbrautir, og þá eiga allir unglingar, sem útskrifast úr grunnskóla, að standa jafnt að vígi að velja námsbraut við sitt hæfi til framhaldsnáms. Og ég skil frv. svo, að með því eigi að leggja grundvöll að því að samræma inntökuskilyrði í marga framhaldsskóla, þannig að maður, sem lokið hefur grunnskólaprófi eða skyldunámi, eins og frv. ákveður, hafi náð því þekkingarstigi, að hann sé hæfur til þess að velja sér námsbrautir í mörgum greinum. Eins og nú er, eru inntökuskilyrði hinna ýmsu framhaldsskóla nokkuð ósamhljóða, og það hlýtur því að verða eitt af fyrstu verkum þings og stjórnar, þegar sá grundvöllur hefur verið lagður, sem í þessu frv. felst, að samræma þessi inntökuskilyrði. Það er t.d. misjafnt um inntökuskilyrðin nú í bændaskóla, fiskvinnsluskóla, iðnskóla, stýrimannaskóla o.s.frv., eftir því í hvaða grein námið er. Ætlast er til. að því þekkingarstigi, sem krafist er í grunnskóla og veita á réttindi til margvíslegs framhaldsnáms, verði náð á skemmri tíma, sem nemur , einu skólaári, heldur en nú fer til barnafræðslu og gagnfræðanáms samanlagt. Til þess að auðið sé að fækka skólaárum nemandans um eitt ár án þess að skerða námsefni, er árlegur skólatími lengdur og skólaskyldan lengd um eitt ár. Með því á að tryggja það svo sem auðið er, að allir unglingar, já, öll ungmenni, hvar sem þau búa á landinu, stundi grunnskólanám til loka þess og njóti til fulls þeirrar fræðslu, sem grunnskólinn getur veitt, og öðlist þá um leið þau réttindi, sem grunnskólanáminu fylgja. Lenging skólaskyldunnar kemur þó ekki til framkvæmda í reynd fyrr en að 6 árum liðnum, en á grundvelli þessara laga verður þegar í stað gerð ný námsskrá, þar sem námsefni verður raðað á námsár á nýjan leik, og því er nauðsynlegt að hafa fyrir augum þegar í stað, hvar lokamarkið er sett. Ég held, að sá skilningur, sem ég hef hér dregið fram í stuttu máli um meginákvæði frv., meginstefnu þess, sé réttur.

Ég skal taka fram, að þegar þetta frv. kom fram, var mér sú grein, sem fjallar um árlega lengingu námstímans, þyrnir í augum. Ég álít, að í skólum, sem starfa í sveit t.d. eða úti á landsbyggðinni í góðri samvinnu við heimilin og þar sem aðstaða er til náms í kyrrð og næði og oft heldur fámennir bekkir eða ársdeildir í skóla, sé auðið að ná samsvarandi þekkingarstigi og þroska nemenda á skemmri námstíma en gerist í kaupstöðunum, og ég styð þessa skoðun mína við nokkra reynslu, sem ég tel mig hafa í því efni. En við meðferð málsins í hv. Nd. hefur þessari gr. verið breytt nokkuð og dregið úr ákvæðum um hinn árlega námstíma í grunnskólum, þannig að ég get fallist á þessa gr. frv. eins og hún er nú orðin.

Núgildandi lög kveða svo á, að skólaskylda sé frá 7–15 ára aldurs. Þó er sveitarfélögum heimilt að færa skólaskyldu upp í 16 ára aldur samkv. núgildandi lögum, en mér er ekki kunnugt um, að nokkurt sveitarfélag hafi notað þá heimild, heldur hefur framtak sveitarfélaganna beinst að því að skapa hvert á sínu sviði aðstöðu til þess að fullnægja fræðsluskyldu. Sum sveitarfélög hafa raunar þótt heldur svifasein í því efni, en við höfum þó orðið varir við það hér á hv. Alþ., að áhugi sveitarfélaga um skólabyggingar og um að búa þannig í haginn, að auðið sé að fullnægja fræðsluskyldu, hefur verið svo mikill, að þingið hefur átt erfitt með að veita þær fjárveitingar til skólabygginga, sem sótt hefur verið um.

Nú höfum við búið við þessi lagaákvæði í aldarfjórðung, og ég tel, að árangurinn af því hafi orðið verulegur og sums staðar svo verulegur, að það er rétt, sem sagt hefur verið, að t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu munu milli 90–100% af ungmennum á 15–16 ára aldursskeiði halda áfram námi á gagnfræðastigi, þó að skólaskyldunni sé lokið. Þetta mun vera rétt. En ég tel, að þau fskj., sem fylgja grunnskólafrv., m.a. töflur um skólasókn í eiginlega hverjum hreppi landsins, séu skilríki, sem taka af allan vafa um, hvernig þessu er raunverulega háttað, Ég lít á þessar töflur eins og niðurstöðu af rannsókn, sem farið hefur fram, og að um þetta þurfi því engar ágiskanir að hafa. Og það er rétt, sem kom fram hjá frsm, n., að ef litið er á landið í heild, þá mun niðurstaðan vera sú, að a.m.k. á þeim tíma, þegar þessi rannsókn var gerð og frv. undirbúið, munu um 82% af aldursárganginum 15–16 ára hafa verið í skóla á gagnfræðastigi, þegar litið er á landið í heild. En ef við skoðum þessi fskj. nánar og lítum á, hvernig skiptingin er milli hinna einstöku sveitarfélaga, sjáum við, að þessi 18%, sem á skortir að njóti gagnfræðanáms á þessu aldursskeiði, eru að miklum hluta til úti um hinar dreifðu byggðir, enda milli 90 og 100% af aldursárganginum í gagnfræðaskólum hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta tel ég vera staðreyndir, sem ekki er hægt að horfa fram hjá, og þá er þetta niðurstaðan af þróuninni, eins og hún hefur orðið í aldarfjórðung á grundvelli gildandi skólalaga. Sveitarfélögin hafa í reynd haldið uppi fræðsluskyldu og vilja kosta kapps um að búa í haginn með skólabyggingum, eins og ég tók fram áðan, eftir því sem þan hafa séð sér fært, en nú er þetta niðumstaðan, Í frv. er með því að hækka skólaskylduna um eitt ár, stefnt að því að ganga alveg hreint til verks og lögbjóða það og þar með tryggja það, að jöfnuður sé í þessum efnum, allir unglingar, hvort sem þeir eru úti í dreifbýlinu, í sjávarþorpunum eða hér á höfuðborgarsvæðinu, komi í skóla til náms á þessu aldursskeiði þeirra.

En með brtt., sem samnm. mínir flytja og ég gerðist ekki flm. að, þá skilst mér, að í stað skólaskyldunnar sé stefnt að því að lögbjóða, að það sé fræðsluskylda til 16 ára aldurs. Gagnvart sveitarfélaginu hlýtur þessi skylda að þýða það, að það eigi að sjá fyrir aðstöðu til þess, að öll ungmenni á þessum aldri innan sveitarfélagsins geti notið fræðslu. En gagnvart einstaklingnum hlýtur þetta að koma fram á þann hátt, að eftir að hann er orðinn 15 ára, sé hann frjáls að því, hvort hann stundar skólanám eða ekki. Einstaklingnum er þá ekki gert að skyldu að ná lokamarki grunnskóla. Það á að vera honum frjálst, hvort hann hagnýtir sér aðstöðu á 9. skólaári til náms eða ekki. Í þessu felst það, að einstaklingurinn þarf þá ekki að afla sér réttinda til framhaldsnáms, þarf ekki að komast á það þekkingarstig, að hann öðlist réttindi til framhaldsnáms, frekar en hann sjálfur vill. Þá vaknar spurning í mínum huga: Verður þá nokkur breyting frá því, sem verið hefur og nú er? Verður þá ekki þróunin svipuð, að á höfuðborgarsvæðinu séu milli 90 og 100% af fólki á þessum aldri í gagnfræðanámi, en í einstökum byggðarlögum úti á landsbyggðinni allt niður í 50% eða jafnvel lægra hlutfall, eins og töflurnar sýna. Þetta er spurning, sem kannske er erfitt fyrir fram að gefa svar við, en ég tel nokkra hættu á, að þróunin haldist í þessa stefnu.

Nú viðurkenni ég, að það er vissulega álitamál. hvað langt á að ganga í því að skylda 15–16 ára unglinga til þess að sitja í skóla. En það getur líka verið álitamál, hvort sé rétt að hafa 13 eða 14 ára barn eða ungmenni í skóla, ef því sárleiðist námið. Það er erfitt að draga mörk við einstök ár að þessu leyti, Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, að þegar 6. landsk., Helgi F. Seljan, talaði í þessu máli við 1. umr., en hann er, eins og kunnugt er, reyndur skólamaður í kauptúni úti á landi, þá vék hann að því í ræðu sinni, að sin reynsla væri sú, að sum ungmenni, sem hefðu helst úr lestinni eða orðið aftur úr á námsbrautinni, þegar skyldunámi lauk, sjái eftir því nokkrum árum síðar, þegar þau þurfa að fara að keppa við aðra um atvinnuréttindi o.s.frv. Ég held, að það hafi komið fram í ræðu þessa reynda skólamanns, að hann hafi orðið fyrir þeirri reynslu, að ungmenni, sem áður höfðu verið í skóla hjá honum, hafi síðar komið og sagt: Hvers vegna léstu mig ekki læra meira, læra eitthvað? — Ég hef orðið fyrir svipaðri reynslu og skal ekki fjölyrða um það. En ég vil þó segja, að mín reynsla er sú, að þegar ungmenni hefur hætt námi — við getum kallað það helst úr lestinni eða fallið út úr röð þess aldursflokks, sem ungmennið á samleið með, — þá þarf nokkurt átak til þess, kannske allmörgum árum síðar, að fara að setjast á bekk með fólki, sem þá er miklu yngra og á öðru þroskastigi að vissu leyti, og þetta vill farast fyrir.

Nú er fjarri mér að álíta, að skólaganga ein veiti skilyrði til menntunar. Menntun er allt annað og meira eða víðtækari en skólaganga, og ég vil meta mikils þá menntun, sem fengin er með því að bergja af ýmsum lindum, sem geta veitt mönnum þekkingu og þroska, þó að það sé ekki gert með setu á skólabekk. En hinu megum við ekki gleyma, að við lifum í stéttaþjóðfélagi, þar sem stéttabarátta er í algleymingi og réttindabarátta er ákaflega hörð. Þegar fólk, sem er í sjálfu sér þroskað og vel menntað, en hefur engin réttindi, kemur til að keppa á vinnumarkaðinum við aðra, sem hafa gengið skólabraut og hafa próf til að hafa réttindi, þá rekur það sig oft mjög harkalega á, hvað vantar til þess að vera talið hlutgengt í réttindabaráttunni og atvinnuleitinni. Þetta atriði finnst mér miklu athyglisverðara nú, eins og þjóðfélagshættir eru, heldur en það hefur nokkru sinni verið áður, og það er vegna þess, hvað fólksflutningar eru tíðir og hvað það er orðið algengt, að fólk á ýmsum aldri og þá ekki síst ungt fólk hverfi úr sínum heimahögum, frá þeirri atvinnugrein, sem það hefur alist upp við, og bæði vill og þarf að leita sér aðstöðu og atvinnu á öðrum sviðum. Þess vegna tel ég ákaflega mikils virði, að grundvöllur skólalöggjafarinnar sé lagður þannig, að fullur jöfnuður eigi sér stað, hvar sem ungmennin búa á landinu. Það er hugboð mitt, að þessi ,jöfnuður náist ekki fyrst um sinn, nema við stigum skrefið til fulls og samþykkjum frv. óbreytt um skólaskyldu upp í 16 ár.

Þetta eru í fáum orðum þau sjónarmið, sem liggja því til grundvallar, að ég gerðist ekki flm.till. á þskj. 863.

Nú er það auðvitað hárrétt, sem oft hefur verið sagt, að það ber mikið, já, allt of mikið á námsleiða, hv. 6. landsk. vildi kalla það blátt áfram leti. Þetta er auðvitað alveg rétt. En þetta kemur fram ekki einungis hjá þeim eina árgangi, sem hér er um að ræða, hvort eigi að njóta skyldunáms eða hafa valfrelsi um nám sitt, heldur kemur þetta fram viðar í skólakerfinu. Menn geta verið latir og leiðir á námi, þótt yngri séu en 15–16 ára. Og ég veit ekki, hvar við ættum staðar að nema, ef við færum að haga lagaákvæðum eftir því.

En það er vissulega lítill hluti af ungmennum þannig þroska búin, að þeim nýtist ekki nám nema að takmörkuðu leyti. Það má vel vera um þau 3–5% af fólki á gagnfræðaskólaaldri, t.d. hér í Reykjavík, sem ekki sækja skóla, að það megi færa þau í þennan flokk, og það er sjálfsagt mjög svipað hlutfallslega, hvar sem er á landinu. Þá er spurningin, ef við stigum það skref að lengja skólaskylduna: Hvernig á þá að fara með þetta fólk? Á skilyrðislaust að knýja það til náms, kannske umfram það, sem þroski þess leyfir og það hefur áhuga á? Þessu vil ég mæta með því, þar sem svona fólk er, hvar á landinu sem það er, með því að nota til hins ítrasta þá heimild, sem í frv. felst, til þess að meta þátttöku í atvinnulífinu sem hluta af verklegu námi í skóla. Ég held, að ef við notum þá heimild til hins ítrasta, getum við siglt hjá erfiðum og hættulegum skerjum að þessu leyti.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég vildi með þessum orðum gera grein fyrir því sjónarmiði, sem liggur til grundvallar afstöðu minni um þetta eina tiltekna atriði frv., sem vissulega er nokkuð mikilvægt.