07.05.1974
Efri deild: 123. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (3892)

9. mál, grunnskóli

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það væri að vísu ástæða til þess að flytja nokkuð langt mál um þetta mikilvæga frv. Ef til vill er þetta mikilvægasta málið, sem þetta þing afgreiðir, ef við berum gæfu til þess að afgreiða það, svo sem ég vona.

Málið hefur haft langan aðdraganda, eins og sagt hefur verið, og farið í gegnum a.m.k. þrjú frv.-drög. Það hefur áhrif á alla framtíð þessarar þjóðar, hygg ég, að segja megi. Það hefur áhrif á uppeldi og undirbúning hvers æskumanns fyrir störf í okkar þjóðfélagi, og er því mikilvægt, að ekki sé kastað til þess höndum. Ég hygg jafnframt með tilliti til þess, sem ég sagði um langan undirbúning þessa máls, meðferð þess um land allt, á þingi, bæði á síðasta þingi og nú, sé sæmilega tryggt, að svo sé. Ég hefði að vísu kosið, að þessi hv. d. hefði getað haft málið lengur til meðferðar, en ég tel hins vegar ófært með öllu, ef þetta frv. á nú enn einu sinni að daga uppi í meðferð Alþingis. Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að hv. þm. hafa að sjálfsögðu allir kynnt sér efni þessa frv. fyrr. Þeir, sem sátu á síðasta þingi, þegar málið var til meðferðar, gerðu það örugglega þá, og ég efast ekki um, að þm, hafa skoðað þetta frv. vandlega, jafnvel áður en það kom til meðferðar í d., svo mikilvægt sem það er.

Ég skal viðurkenna, að ég hef verið hikandi um sum atriði þessa frv. Ég hef t.d. verið hikandi við þá lengingu skólaskyldunnar, sem fram hefur komið í frv., því að ég tel, að margt annað en hið bóklega nám sé mikilvægt til þess undirbúnings, sem ég nefndi áðan. Hins vegar viðurkenni ég, að þetta fer mjög eftir því, hvernig framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður, tekst. Þótt frv. sé ítarlegt, að sumu leyti nálgist það að vera eins og reglugerð, þá eru þó sem von er fjölmörg atriði, sem ekki verða nákvæmlega skilgreind í frv. og eru háð framkvæmd rn. Við öðru er ekki að búast. Það er til dæmis ákaflega mikilvægt, að vel takist með hinar ýmsu verklegu valgreinar. Það er ekki æskilegt í okkar þjóðfélagi, því fer víðs fjarri, að beina öllum ungmennum inn á bóklegt skólanám. Því er mjög mikilvægt að mínu viti, að með framkvæmd þessa máls megi takast að innleiða í langtum ríkara mæli en nú er verklegt nám, kynni af okkar atvinnuvegum og góðan undirbúning undir mikilvæg störf á þeim sviðum.

Eins og ég sagði áðan, þá ætla ég ekki að hafa um þetta langt mál. Ég vildi hins vegar fara örfáum orðum um það, sem ég hef nú sagt um frv. almennt, og sérstaklega stóð ég þó upp til að beina einni spurningu til hæstv. menntmrh. Ég veit ekki, hvort hann heyrir til mín þarna inni, en e.t.v. mætti hann vera að því að flytja sig hingað inn. — Ég sagði, að ég vildi gjarnan — e.t.v. má segja til að friða mína eigin samvisku — beina einni spurningu fyrst og fremst til hæstv. menntmrh. Í 4. gr. frv. segir:

„Í strjálbýli skal stefnt að heimanakstri nemenda, þar sem honum verður við komið vegna vegalengda, vegakerfis og veðurfars. Heimilt er rn., að fenginni till. hlutaðeigandi fræðsluráðs að koma á fót útibúum frá aðalskóla skólakerfis fyrir 7–10 ára börn, þar sem heimanakstri til aðalskóla verður ekki við komið.“

Hér er að mínu viti komið að mjög miklu viðkvæmnis- og tilfinningamáli fyrir margar smærri byggðir þessa lands, þar sem foreldrar ákaflega eðlilega og skiljanlega leitast við og vilja, að nemendur fái notið náms eins lengi og kostur er heima, að nemendur á unga aldri þurfi ekki að fara til heimavistar í e.t.v. nokkuð fjarlægum skóla, oft á þeim svæðum, sem lokuð eru af snjóum mikinn hluta vetrar, þannig að þau fá kannske ekki komist heim nema með löngu millibili. Eins og hæstv. menntmrh. þekkir að sjálfsögðu manna best, er þetta mál nú víða til athugunar og mjög leitað eftir því að fá lengdan þennan tíma til náms í skólum í heimabyggð. Mín spurning er því sú, hvort þetta ákvæði útiloki nám barna á þessu stigi í heimabyggð lengur en til 10 ára aldurs. Ég geri mér grein fyrir því, að í 16 gr. frv. er heimild til þess að setja á fót skólahverfi, þar sem aðeins hluti grunnskóla er staðsettur. Þarna virðist mér e.t.v. vera nokkur glufa, þ.e.a.s. það mætti ákveðnu skólahverfi í slíkri byggð, og mér sýnist, að í slíku skólahverfi með hluta grunnskóla komi til mála, að nemendur geti verið lengur en til 10 ára aldurs. Það var með þetta í huga, sem ég flutti ekki brtt. við 4. gr., og ég vildi gjarnan fá þetta staðfest af hæstv. menntmrh. eða leiðrétt, ef ég hef skilið þetta rangt.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta atriði. Þetta er eins og ég sagði, ákaflega mikið kappsmál víða. Hins vegar kemur fram í grg. með frv., að þeir, sem það hafa samið, telja erfitt að halda uppi litlum skólum fram eftir aldri barna, og það er skiljanlegt með tilliti til þess sérnáms, sem gert er ráð fyrir að aukist með þessu frv. Ég hef hins vegar oft spurt þeirrar spurningar, hvort ekki sé unnt og ekki sé rétt að haga fremur niðurröðun námsgreina eftir aðstæðum í okkar landi en eftir því, sem sérfróðir menn í námsefni kunna að telja hentugast án tillits til smæðar víða í okkar byggð. Ég á sem sagt við, að e.t.v. mætti taka sérnám það, sem krefst stærri eininga, fremur fyrir á seinni árum grunnskólans:

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta, en ég vil segja það um brtt. frá menntmn. almennt, að ég hef átt hlut að þeim brtt, að sjálfsögðu og sumar eru frá mér komnar. Ég vil sérstaklega taka það fram, að ég hef lagt áherslu á í þeim brtt., sem ég hef hreyft í n., að kveða betur á en mér þótti í frv. gert um frumkvæði sveitarstjórnar í ýmsum málum skólans. Mér þótti þetta óljóst, en nauðsynlegt, að greinilegar sé kveðið á um það. Þannig eru margar þessar brtt. til komnar, og ég held, að þar sé fremur um nánari skilgreiningu að ræða en efnisbreytingu. Ég vil einnig taka það fram, að ég er sammála því, sem komið hefur fram, t.d. hjá síðasta hv. ræðumanni, að auka beri sem mest ráð landshlutasamtaka og heimamanna almennt um skólamálin. Hins vegar er það staðreynd, að landshlutasamtökin hafa ekki fengið þá lögfestingu, sem ég hef hvatt til. Ég harma það, að frv., sem liggur fyrir hv. Alþ., fær ekki, að því er virðist, framgang, og sýnist mér nokkuð erfitt að fela þessum samtökum svo mikilvægt verkefni eins og veruleg ráð um byggingu og rekstur grunnskóla, áður en þau hafa fengið staðfestingu hjá löggjafanum. Því hef ég ekki talíð mér fært að fylgja brtt. að þessu leyti lengra en n. í heild hefur orðið sammála um í þeim anda, sem ég lýsti áðan.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjalla um þessar brtt. Það hefur frsm. n. gert ítarlega. Ég vil hins vegar minnast aðeins með fáum orðum á brtt. á þskj. 863, sem er grundvallareðlis og fjallar um annars vegar 9 ára fræðsluskyldu, en 8 ára skólaskyldu. Ég get raunar tekið undir það, sem frsm. sagði um þessa till. Ég vil leggja áherslu á það, að ég hef verið hikandi í þessu máli, ég viðurkenni það, og ég hef þurft að hugsa mig nokkuð um, áður en ég gerðist meðflm. að þessari till. Ég viðurkenni, að það fer mjög eftir framkvæmd þessa máls, eins og ég hef sagt, hvort æskilegt er að binda nemendur með lögum við 9 ára nám eða hvort rétt getur talist að veita þeim aukið frelsi, aukið val um nám eða ekki nám, eftir 8 ár. Staðreyndin er sú, að þar sem ég hef kynnst þessu nokkuð erlendis, eins og t.d. á Norðurlöndunum, hef ég enn í dag orðið var við mjög skiptar skoðanir um þetta ákvæði, sem þó hefur þar verið í framkvæmd um nokkurn tíma. Ég hef heyrt því haldið fram þar, að þessu þurfi að breyta. Ég tel hins vegar svo mikilvægt, að þetta mál fái framgang, að ég er tilbúinn að endurskoða afstöðu mína til þessarar brtt., ekki síst með tilliti til þess, að ekki er gert ráð fyrir því, að þetta ákvæði komi til framkvæmda fyrr en að 6 árum liðnum frá gildistöku þessara laga. Því sýnist mér, að e.t.v. mætti því tryggja Alþingi tækifæri til endurskoðunar og Alþingi getur að sjálfsögðu, ef það óskar, á þeim tíma, hvenær sem það vill, tekið málið að nýju til endurskoðunar og mér sýnist e.t.v. að það geti verið leið, ef menn óttast, að þessi brtt. leiði til þess, að málið fái ekki framgang. Ég fellst því á það með 1. flm. brtt. að draga till. til baka til 3. umr. og athuga málið á þeim tíma, sem þannig gefst.