07.05.1974
Efri deild: 123. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4296 í B-deild Alþingistíðinda. (3894)

9. mál, grunnskóli

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það skulu vera fá orð. — Hv. 3. þm. Austf. talaði hér áðan eins og út úr mínu hjarta um mörg þau mál, sem mestu skipta varðandi þetta frv. Hann talaði þar skynsamlega og rökrétt og færði fyrir máli sínu eins og hans var von og vísa, þau rök, sem ég hygg, að fáir muni geta hrakið með nokkrum rétti. Ég get þess vegna verið stuttorður.

Ég er satt að segja furðu lostinn yfir því, hve margir hafa hræðst þá hugsanlegu annmarka, sem kunna að vera á þessu frv. Það er nákvæmlega eins og hér sé verið að setja einhver óumbreytanleg lög. Ég ítreka enn, að þeir hljóta blátt áfram að verða sniðnir af. Það á ekki að ætla neinum skólayfirvöldum annað en að verstu annmarkar, sem í ljós koma, verði af sniðnir.

Mér datt það í hug áðan undir ræðu hv. frsm. menntmn., þegar hann var að tala um píninguna. Ég veit ekki, hvort það er viðeigandi:

„Það er sumra manna mál,

mögnuð er sú kæra,

ekki pína unga sál

of mikið að læra.“

Vesalings fólkið, sem pínt er. Það er verið að tala um þessi 4%, þessi 5%, þessi 6%, sem verið er að pína, og það er talað um þetta eina ár, sem sé verið að kvelja þau í skóla. Þessi prósent þurfa alls annars með, — annars, sem hefur gleymst allt of mikið í okkar skólakerfi. Ég hef t.d. ekki orðið var við þá miklu umhyggju, sem sumir virðast nú hafa fyrir þessu fólki, í skólakostnaðarlögunum, sem hafa þrengt svo að hinum smærri skólum, að þeim hefur verið gjörsamlega ómögulegt að hlynna að þessum hrelldu sálum, sem hafa svo sannarlega verið hrelldar, vegna þess að þær hafa ekki fengið þá hjálp og þá nauðsynlegu aðstoð, sem þær þurftu á að halda. Það er ekki þetta eina ár, sem skiptir máli. Það er spurningin um það, hvernig eigi að hlynna að þessu fólki í öllu þeirra námi.

Ég vil taka það alveg skýrt fram, að ég tel það spor aftur á bak, ef á að fara að færa skólaskylduna til baka aftur. Ég held, að það sé ekki umhyggja fyrir þessu fólki, sem þarna ræður ríkjum. Hún yrði þá að koma fram, eins og ég sagði, í allt annarri mynd, — í þeirri mynd, að það yrði hlynnt almennilega að þessu fólki, svo að það geti stundað skólanám sitt allt frá upphafi til enda með þeirri nauðsynlegu hjálp og nauðsynlegu aukaaðstoð, sem það þarf á að halda. Þessi umhyggja, sem fólk er að bera fyrir sig nú, er hræsnin einber. Miklu fremur ræður þarna um hrein afturhaldssemi.. Það er nefnilega raunin sú, og verður örugglega sú, sem hv. 3. þm. Austf. benti á, að smærri skólarnir og smærri skólahéruðin, það eru þau, sem útundan verða, hvað sem allri fræðsluskyldu líður. Ég þekki það nefnilega af eigin raun, hvernig er að koma á því viðbótarári, sem hér um ræðir. Ég veit um þá erfiðleika, sem í því eru fólgnir, og ég treysti engu öðru en fullkominni skólaskyldu til þess að tryggja okkur í smærri héruðunum þennan dýrmæta rétt okkar til að fá þetta viðbótarár. Ég get þess vegna ekki stillt mig um að mæla eindregið á móti þeirri till., sem ég sé, að 6 fulltrúar menntmn. hafa flutt og hafa flutt að því er virðist af umhyggju fyrir einhverju fólki, sem hefur gleymst miklu fyrr á skólastiginu.