08.05.1974
Efri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4299 í B-deild Alþingistíðinda. (3901)

8. mál, skólakerfi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég verð að ítreka þau mótmæli mín, sem ég hafði uppi hér í nótt um þau vinnubrögð, sem eru viðhöfð í sambandi við þessar umr. Það kom skýrt fram, bæði í ræðu minni og ræðu hv. 6. þm. Reykv., að okkur hafði ekki unnist tími til þess að athuga og bera saman þær brtt., .sem voru bornar fram af menntmn, þessarar hv. d. í gær, fram að þeim þingfundi. Sá þingfundur stóð síðan til kl. 4 í nótt, og ég gat ekki heyrt betur en það væru eingöngu hv. stuðningsmenn þessarar ríkisstj., sem héldu uppi málfundi til kl. 2 í nótt, þannig að aðrir menn komust ekki að, og svo á núna að keyra málið áfram strax kl. 10 árdegis, án þess að tóm gefist til að athuga nánar þessi mál og undirbúa þær brtt., sem við höfðum boðað við 2. umr. málsins. Ég er ekki það gamall hér í þingsölunum, að mér sé kunnugt um það eða geti borið saman, hvernig vinnubrögðunum hefur verið háttað fram að þessu. En ég er ekki í neinum vafa um það, að þetta er algjört einsdæmi. (Gripið fram í.) Þessi hv. þm., sem gripur fram í, hv. 4. þm. Norðurl. v., ég hafði orð á því við hæstv. forseta í gær, að ég þyrfti að leggja nokkrar spurningar fyrir frsm. menntmn. Hann var ekki inni, og hæstv. forseti gerði enga tilraun til þess að nálgast þm., svo að ég held, að það sé réttast fyrir þennan hv. þm. að sitja hér inni og reyna að hlusta og reyna að svara þeim spurningum, sem til hans er beint, í staðinn fyrir að grípa hér fram í og vera með einhvern æsing út af þessu. Honum hefði verið skammar nær að sitja hér í þd., á meðan málið var rætt í nótt. Og ég ítreka það, sem ég sagði einnig þá, að það væri ekki í fyrsta skipti, sem þessi hv. þm. léti sig hafa það að vera fjarverandi við umr. hér í d., þegar hann er frsm., og átti hann þó erindi hingað í ræðustólinn í gær. Hann átti erindi við þá umr., þar sem hann í sínum sérstaka tillöguflutningi ásamt hv. 1, þm. Vestf., — eins og rakið mun verða í sambandi við grunnskólafrv., — var sérstakur flm. að einni brtt., sem sérstaklega var beint að Reykjavík, Og það var athyglisvert, að þegar hæstv. menntmrh. sem á að heita einn af þm. Reykv., fór að tala um brtt., sem voru til umr. í gær, sleppti hann því alveg að tala um þessa sérstöku gr. Hann talaði mikið um, að mikill sé undirbúningurinn að þessu máli, allt sé vandað og allt sé vel unnið, en hleypur svo sjálfur til á síðasta þingdegi á elleftu stundu og samþykkir tillgr., sem hann er sjálfur í algjörri andstöðu við, um Reykjavíkurborg og þá uppbyggingu á skólakerfinu, sem hér er höfð. Er þetta eitt með öðru, sem lýsir þeim vinnubrögðum, sem á að hafa í þessu efni.

Ég sagði í gær, að það væri undarleg sú mikla áhersla, sem væri lögð á þessi mál hér, og sú afbrigðilega meðferð, sem höfð væri á þessu. Ég gat ekki fundið það, eftir að málið kom til Ed. eftir páska og ég var að fylgjast með því og spyrjast fyrir um það hjá hv. 6. þm. Reykv., hvernig gengi athugun málsins í menntmn., vegna þess að ég hafði verið spurður um það af skólamönnum hæði í Reykjavík og annars staðar, hvernig athugunin gengi og hvenær frv. yrði tekið til 2, og 3. umr., — þá gat ég ekki fundið, að það lægi mikið á. Síðan var hlaupið til, eftir að stjórnin hafði klofnað, — þegar minni hl. Alþingis hafði komið sér saman um að reka meiri hl. heim., — og málin afgr. frá menntmn. í svo miklu írafári, — eins og fram kom hjá hv. þm. Ragnari Arnalds, að ekki gafst einu sinni tóm til að kalla þá menn, sem sömdu frv., fyrir n., sem átti að fjalla um málið, Svo mikið var írafárið. Á sama tíma og öll þessi læti eru uppi höfð í sambandi við þetta mál, hefur, eins og ég sagði í gær, ekkert verið gert til að ýta á eftir einu af þeim stórmálum, sem þeim hæstv, ráðh., sem flytur þetta mál., ber embættisleg skylda til að beita sér sérstaklega fyrir að hljóti afgreiðslu á þessu Alþingi, vegalögunum. Það er kannske vegna þess, að þessi hv. þm. er ókunnugur úti á landi, að hann leggur ekki meira upp úr því að það mál nái fram að ganga, heldur en raun her vitni. Ég hafði haldið, að það væri eitt af þeim málum, sem væri óhjákvæmilegt að afgr. nú á þessu þingi. Ég minntist á það í gær, að það veitti ekki af því, og ég minntist á það í gær, hvernig komið væri þeim málum. Ég veit ekki betur en að bæði þær tölur, sem eru í frv. um einstaka framkvæmdaliði, og eins fjárhagsáætlunin séu með þeim hætti, að óvinnandi sé eftir vegáætluninni. Það er í fyrsta lagi, að það stendur nú ekki nema helmingurinn eftir af þeim tölum, sem eru í vegáætlun, að framkvæmdamagni. Það er ekki aðeins það, heldur jafnvel vafasamt, að þeir peningar náist inn, sem mundi þurfa til þeirra framkvæmda.

Ég vil líka minna á, að það eru Ýmis önnur mál. sem liggja fyrir þessu háa Alþ., sem var búið að lofa að kæmust í gegn. Ég get t.d. minnst á mál eins og það frv., sem liggur fyrir og fjallar um það, með hvaða hætti eigi að úthluta. viðbótarritlaunum handa listamönnum. Okkur er öllum kunnugt um það, hvílíkt reginhneyksli var framið í þeim efnum nú á þessum vetri, þegar menn, sem gefið höfðu út bækur ár eftir ár, fengu ekki eyri af þessu fé, þó að þeir hefðu sótt um. Við getum minnst á ástsælustu ljóðskáld þjóðarinnar, menn eins og Kristján frá Djúpalæk. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hér, hversu mjög sá maður átti skilið að fá þau viðbótarritlaun; sem þarna var um að tala, hafði sjálfur gefið út eina merkustu ljóðabók, sem út kom það ár, og hefur hæði með framkomu sinni í sambandi við ljóðagerð sína alla tíð, blaðaskrifum, þýðingum og ekki síst með léttum söngvum yljað mörgum manninum, og átti vissulega ekki skilið að fram hjá honum yrði gengið. Þetta frv. hefur verið lagt fram, en engin áhersla hefur verið lögð á að fá það afgr. frá hinu háa Alþingi, þrátt fyrir yfirlýsingar þar. Ég var fullvissaður um það fyrr í vetur, að á það yrði lögð áhersla, að þessi mál yrðu tekin til rækilegrar athugunar, og hafði ég sannarlega hlakkað til þess hér í hinni háu Ed. að fá að segja eitthvað um þau mál og fá að koma fram aths. um það, en því miður vannst ekki tími til þess.

Ég get líka minnt á önnur mál, sem veitti ekki af að fengju afgreiðslu hér frá hinu háa Alþingi. Einu af þeim málum beitti forveri núv. hæstv. félmrh, sér sérstaklega fyrir, það var um Félagsmálaskóla alþýðu. Eins og öllum er kunnugt og eins og allir eru sammála um eftir þá kjarasamninga, sem gerðir voru nú í vetur, veitir sannarlega ekki af því, að uppi sé haldið almennri fræðslu og leiðbeiningum um það, hvernig standa beri að samningsgerð og um hina ýmsu þætti þjóðfélagsins. Þetta mál hefur sofið hér í þessari háu deild, svo að vikum skiptir. Ég flutti um það brtt., og liggur hún fyrir frá mér og hv. þm. Tómasi Karlssyni, varamanni hæstv. utanrrh. Þessi brtt. hefur ekki komið til atkv. Hún hefur legið hér í d. síðan fyrir páska.

Það má svo enn minnast á það, þó að ég geri ekki ráð fyrir, að þeir menn, sem eru nú í stjórnaraðstöðu, telji mikla ástæðu til að ræða það mál, sem er kannske stærsta málið, sem ætti að ræða í dag, og það er það, að búið er að leggja fram vantraust á núv. hæstv, ríkisstj. Það á líka eftir að sýna sig og mun koma í ljós, að það verður ekki talin ástæða til þess af því Alþingi, sem nú situr, að ræða það mál, og er það þó langstærsta málið, sem liggur fyrir þinginu. Það verður að segjast eins og er, eftir þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. hefur gefið um það, hvað eftir annað hér í hinu háa Alþingi, að hann muni ekki fara frá, nema það verði flutt á sig vantrauststill. og hún samþ. Nú er komin upp sú staða, að hann er kominn í minni hl., og nú á eftir eða á morgun mun hann hlaupa til, og mun ekki þola umr, né atkvgr. um málið, og hefur hann þó lýst því yfir oft og vitnað í þekkingu sina sem lögfræðingur um það, að hann muni ekki skorast undan því að slíkt mál fengi þinglega afgreiðslu, heldur var það sérstök leiðbeining til okkar í stjórnarandstöðunni, að það væri rétta leiðin til að koma honum frá að flytja vantrauststill. Nú mun koma í ljós, að þetta mál verður ekki tekið til afgreiðslu, heldur er hlaupið, eins og ég sagði til umr. um grunnskólafrv., sem hefjast rétt fyrir miðnætti og án þess að mönnum gefist nokkurt tækifæri til þess að athuga þær brtt., sem fyrir liggja. Er þó þeim mun meiri ástæða til að ræða vantraustið núna en maður hefði kannske getað haldið, eftir þær yfirlýsingar, sem komu frá hæstv. forsrh. í gær um það, að þær till., sem hann hefur lagt fram til viðnáms efnahagsvandanum, eru ekki merkilegri en svo að hans eigin áliti, að þær duga ekki til 1. sept., nema gengisfelling komi til, auk þess sem enginn maður veit, hvað það er af þessu frv. og þessum till., sem sjálf ríkisstj., sú sem eftir er, kemur sér saman um að standa að. Nei, hér er verið að halda okkur uppi á allskonar fundarhöldum, en alveg sneitt hjá stærstu málunum, Það er farið fram hjá efnahagsvandanum, sem hæstv. forsrh, sagði þó, að nú kæmi til kasta þingsins. Nú ættu hv. alþm. að sýna ábyrgðina, nú ættu þeir að taka á málefnum þjóðarinnar, sem ekki þyldu neina bið, nú ætti það að sýna sig, hvort Alþ. væri vert trausts þjóðarinnar. Með þessum formmálsorðum voru þau mál lögð fyrir. — og hvert er svo framhaldið? Þorir hæstv. forsrh. að láta þessi mál koma til kasta þingsins? Þorir hæstv. ríkisstj. að taka þátt í umr. um vantraust? Þorir yfirleitt hæstv. ríkisstj. að láta vilja þingsins koma fram?

Í sambandi við það frv., sem hér er til umr., frv. um breytta skólaskipan, er það eitt af þeim atriðum, sem þar kemur fram, að það á að lengja skólaskylduna um eitt ár, og hefur verið rökstutt með mörgum hjartnæmum orðum, að það sé nauðsynlegt. Nú hef ég spurt um það hér úr þessum ræðustóli hvað eftir annað, ég hef spurt t.d. að því, hvað það séu margir nemendur, sem hafa hrökklast, t.d. á þessum vetri eða í fyrra, úr öðrum bekk, úr skyldunámsbekknum, hætt að vera í skóla og ekkert hefur verið skipt sér af, sem hafa hreinlega gufað upp um veturinn, án þess að nokkur aðili hafi gripið inn í. Hvað skyldu þeir vera margir? Það væri fróðlegt að fá um það nokkrar upplýsingar til þess að geta fylgst með, hvernig ákvæði um skólaskyldu hafa yfirleitt reynst. Hvað ,er það, sem skólayfirvöldin gera, hvað ,er það, sem menntmrn. gerir ef unglingarnir fást ekki til að sækja skólana, ef það eru t.d. einstæð foreldri, sem standa að unglingunum? Við getum hugsað okkur, að þetta einstæða foreldri þurfi kannske að fara í vinnu á nokkuð öðrum tíma en barnið fer í skóla og hafi svo ekki tök á því að vera heima um daginn og fylgjast með því, að barnið lesi og læri undir skólann og taki þátt í skólastarfinu. Síðan hrökklaðist barnið úr skóla, og hvað er þá gert? hvað grípur inn í, eins og þetta er núna? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvað það er sem gerist í því máli samkv. því frv., sem verður fjallað um í næsta dagskrárlið. Þar eru sérstök ákvæði um það, hver heri ábyrgðina á því, ef barn sækir ekki skóla á skyldunámsstigi. Hver ber ábyrgðina því núna? Og hefur einhvern tíma verið látið reyna á þessa ábyrgð? Allt tal um að lengja skólaskylduna nú, er á bak við það einhver vilji til þess að lengja skólaskylduna í rann og veru? Á að koma til þarna aukið aðhald, eða hvað á að gera? Svo er líka annað atriði, sem er mjög mikilsvert og hefur ekki verið talað um í sambandi við þessar umr. nú, eftir að málið kom úr menntmn., og það er þetta: Það liggur fyrir, að meiri hl. skólastjóra gagnfræðaskólanna, — ég man ekki betur en Félag gagnfræðaskólastjóra hafi beinlínis ályktað um það, — er andvígur lengingu skólaskyldu í gagnfræðaskólum, og ég veit, að hið sama er upp á teningnum um mikinn hluta, ég skal ekki segja, hvort það er meiri hl. eða minni hl. framhaldsskólakennaranna, sem kenna í 2. og 3. bekk. Og hver er svo ástæðan til þess, að þessir kennarar og þessir skólastjórar eru á móti lengingu skólaskyldunnar? Það er ekki það, sem stundum er verið að gefa í skyn, að þeir menn, sem þannig líta á, séu á móti því að mennta unglingana, séu á móti því að halda börnunum að námi, vilji ekki, að hver og einn þroskist í þjóðfélaginu. Einn virðulegur skólamaður sagði, þegar ég spurði, hvernig ætti að bregðast við, að ég væri á móti strjálbýlinu. En það þýðir ekki að tala um málið svona. Það verður að gera sér grein fyrir því, hvernig stendur á því, að mikill hluti kennarastéttarinnar og skólastjóra gagnfræðaskólanna er á móti lengingu skólaskyldunnar, eins og nú er. Það er það, sem við verðum að kryfja til mergjar. Og ástæðan fyrir því, er sú, eins og ég hef margrakið hér á hinu háa Alþingi, að skólakerfið er þannig byggt upp, að það er ekki fyrir alla. Skólarnir koma ekki til móts við alla unglinga og öll börn. Þvert á móti er skólakerfið og námsskráin miðuð við þá, sem eru í betra meðallagi eða mjög góðir námsmenn. Ég sagði það einu sinni í ræðu, þar sem skólamál voru til umr., og þar sem einnig voru barnaskólakennarar, að ég teldi, að þeir nemendur, sem mest væru seinþroska og síst búnir undir bóklegt nám, tækju að dragast aftur úr á 10–11 ára aldri. Þá sagði mér þrautreyndur kennari, sem kennir í fyrstu bekkjum barnaskólanna, að það væri fyrr, börnin byrjuðu að dragast aftur úr strax 8 ára gömul. og síðan héldu þau áfram að dragast aftur úr og því meir sem lengra liði. Þegar komið er í 12 ára bekk og sérstaklega eftir að komið er í gagnfræðaskólann er ástandið þannig, að vitandi vits og með opnum augum er samkvæmt námsskrá og samkvæmt fyrirmælum námsstjóra og ugglaust með a.m.k. þegjandi samþykki allra þeirra skólasálfræðinga og uppeldisfræðinga og hvað þetta heitir, sem er hrúgað saman í vissar stofnanir og eru þar á háum launum, þá eru vítandi vits gerðar þær námskröfur, að vonlaust er fyrir fram, að það sé einu sinni hægt að komast yfir nema lítinn hluta af því, sem kenna á, vegna þess að börnin eru svo illa undirbúin, að þess er enginn kostur einu sinni að ræða um málið.

Í sambandi við þetta hef ég oft vitnað til þess, að enn þá skuli kennd málfræði Björns Guðfinnssonar. Ég hafði á sínum tíma mikla ánægju og mikið gagn af þessari málfræði. Ég var svo heppinn að mér leiðbeindi þar einn af merkustu skólamönnum þessa lands, Gunnar Guðmundsson fyrrv. skólastjóri, og það var vissulega gaman að fást við þetta námsefni. Síðar, eftir að ég fór að kenna þessa bók, skil ég raunar ekki, hvernig stóð á því, að honum tókst að gera þetta svo einfalt sem raun ber vitni, því að sannleikurinn er auðvitað sá, að þessi bók er allt of þung, allt of erfið til þess að kenna börnum, sem ekki eru fermd, og börnum eftir fermingaraldur, þannig að þau tileinki sér allt það, sem í bókinni stendur, á tveim árum. Það er aftur viðurkennt af fræðsluyfirvöldunum, að námskröfurnar t.d. í þessu fagi séu of miklar á unglingaprófi. Fyrir unglingapróf eiga börnin að kunna alla málfræði Björns Guðfinnssonar eins og hún leggur sig. Menn eiga að kunna samsettar tíðir og allt heila gumsið. Síðar, þegar kemur upp í gagnfræðapróf, er haldið áfram að kenna sömu kennslubókina. Þá er viðurkennt, að prófkröfurnar hafi verið of miklar í 2. bekk, og þá er verið að kenna undir það próf graut úr því, sem átti að kenna allt tveim árum fyrr. Það væri kannske ögn skynsamlegra að hafa yfirferðina ofurlítið minni þarna fyrst, meðan fyrsta yfirferðin var, og herða svo heldur róðurinn, brimróðurinn, frekar en að sleppa árunum.

Það hefur lítið verið talað um það, hvaða ástæður liggi til þess, að ýmsir merkir skólamenn, bæði skólastjórar og kennarar, eru hræddir við lengingu skólaskyldunnar nú. Það hefur ekki verið rætt mikið um það. Ástæðan er sú, að skólarnir eru ekki viðbúnir því að fullnægja núgildandi skólaskyldu, þannig að það megi verða til aukins þroska og gagns og þannig að það falli að persónuleika allra nemenda upp í 2. bekk. Þeir eru ekki búnir undir það, hvað þá ef þeir ætla að lengja þetta enn einu sinni. Það er meira að segja talið af mörgum merkum skólamönnum, að það sé nauðsynlegt aðhald fyrir unglingana, að þeir viti, að það er ekki skylda að hafa þá í skólanum. Það er t.d. svo í mörgum gagnfræðaskólum, að það eru settar ákveðnar reglur um það, hvernig með skuli farið, strax eftir að skólaskyldu lýkur, í sambandi við lélega ástundun nemenda. Það hafa verið búnar til sérstakar reglur um það, að nemandi, sem kemur svo og svo oft seint, vantar svo og svo marga daga í skóla, er svo og svo mikið fjarverandi, skuli sjálfkrafa rækur úr skólanum, ef hann nær þar ákveðnum stigafjölda. Það hefur verið rætt um að setja sams konar reglur eða reyna að koma sams konar aðhaldi við á skólaskyldualdrinum. En skólarnir hafa ekki gert tilraun til þess að halda uppi sams konar aga í 2. hekk gagnfræðaskólans og í 3. bekk, vegna þess að þegar börnin eru í 2. bekk þá er ekkert við brotum þeirra að segja. Skólinn er skyldugur til að hafa börnin innan veggja, hvort sem þau haga sér vel eða illa, hvernig sem á stendur, og á þetta lagið ganga margir unglingar. Þeir finna, að þeir eru óhultir. Þeir finna, að skólavaldið, skólinn hefur enga aðstöðu, ekkert það vopn í hendi, sem getur hjálpað honum til þess að aga örlítið nemandann. Það er þetta, sem skólamennirnir eru hræddir við. Hvernig gengur að halda uppi aganum í stóru gagnfræðaskólunum, eftir að búið er að lengja skólaskylduna og eftir að það litla aðhald, sem hefur verið í 3. bekk, er ekki lengur til staðari Hitt er alveg rétt, og ég tek undir það með hv. 3. þm. Austf. Páll Þorsteinssyni, að það væri auðvitað mjög jákvætt, ef það væri hægt að standa þannig að þessum málum, að það mætti verða til þess að hjálpa strjálbýlinu og ekki síst þeim héruðum, sem fámennust eru og hafa versta aðstöðuna. Ég mundi vera mjög fús til þess að reyna að finna leiðir í þá átt, og er það vissulega mái. sem nauðsynlegt er að íhuga. Það er nú svo, að núv. skólaskylda er ekki uppfyllt víða um land. Það er ekki búið að fullnægja núgildandi ákvæðum um skólaskyldu. Og hvar er ekki búið að því? Það er ekki búið að því í fámennustu héruðunum úti á landsbyggðinni. Það er n:í engin skuldbinding að koma til móts við þessi héruð fyrr en eftir 10 ár, svo að ég veit ekki, hvað þau segja í því efni. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að með því að hafa fræðsluskyldu og með því að hafa af opinberri hálfu fjárhagslegan stuðning til þess að auðvelda unglingum að komast í framhaldsskóla muni þetta ástand mjög breytast. Við vitum vel, að það hefur ósjaldan beinlínis komið í veg fyrir áframhaldandi skólagöngu unglinga úti á landi, að þeir hafa ekki fengið inni í neinum skóla. Það hefur oft verið hin raunverulega ástæða fyrir því, að um skólanám var ekki að ræða.

Svo er einnig annað mál, sem kemur þarna inn í og veldur því, að unglingarnir til sveita og í sjávarplássunum eru ekki jafnólmir í að halda áfram í skólanum hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er vegna þess, að viða úti um land eru unglingarnir í miklu nánari snertingu við atvinnulífið, hið raunverulega líf þjóðarinnar, það líf, sem þjóðin lifir. Unglingarnir þar eiga þess kost og það er beinlínis oft eftir því sóst, að þeir hjálpi til við að bjarga verðmætum, t.d. í sjávarplássunum. Og við vitum, að til sveita byrja unglingarnir, strax og þeir geta gengið, að hjálpa til við búskap. Ef þeir geta ekki hjálpað til við búskap, hinn raunverulega búskap, koma þeir sér upp öðru búi í hlaðvarpanum. Þessir unglingar eru þannig aldir upp við það að standa að verki með fullorðnu fólki, taka þátt í verðmætasköpun þjóðfélagsins, og áhugi þeirra beinist að því að halda áfram þeirri uppbyggingu, sem er í þeirra heimabyggð. Áhugi þeirra beinist að því og það er þeirra draumsýn að beita kröftum sínum til þess, að sveitin þeirra megi halda áfram að vera í byggð, en verði ekki fólksflóttanum að bráð. Þessir unglingar, sem þannig hugsa og þrá það að leggja gjörva hönd á margt, þeir finna ekki í skólanum það líf, sem er utan skólans. Þeir finna það ekki að skólinn sé á neinn hátt reiðubúinn til að veita neina þekkingin, sem gæti komið að gagni í sambandi við þetta.

Ég hef oft haldið því fram, og það eru margir skólamenn mér sammála um það, að fyrir þennan leka verði að setja. Sumir menn hafa stungið upp á því, að það væri eðlilegt, að það væri ævinlega starfandi skólanefnd, sem hefði til athugunar og endurskoðunar gildandi skólalög í landinu, í þessari n. ættu sæti fulltrúar atvinnurekenda, bæði fulltrúar sjómanna, iðnaðarmanna, útvegsmanna, bænda og fleiri stéttarfélaga, og þessir aðilar bæru saman bækur sínar og athuguðu það, skiptust á skoðunum um það, hvernig hægt væri að gera skólana lífrænni og meira í tengslum við hið lifandi líf í landinu. En þessi hugsun hefur því miður ekki komist inn í það grunnskólafrv., sem hér er til umr., og það skólakerfi, sem lagt er til að taka upp. Það hefur af hálfu skólayfirvalda og af hálfu menntmrn, og og fræðsluyfirvalda ekki verið litið svo á, að ástæða sé til þess að hafa nokkra hliðsjón af athafnalífinu í uppbyggingu skólanna, enda er svo komið, að æ stærri hluti unglinga er farinn að legg,ja fyrir sig í langskólanámi bæði í háskóla og öðrum stofnunum margvíslegar námsgreinar, sem ekki eru miðaðar við grundvallarþarfir þjóðfélagsins, heldur alls konar föndur eða skemmtun, alls konar námsgreinar, sem hafa ekki þann raunverulega tilgang, að fólk, sem hefur útskrifast í þeim, geti fært nýja þekkingu og víkkað út sjónhringinn hjá þeim mönnum, sem standa að verðmætasköpuninni í landinu. Og aðrir, sem leggja stund á viðfangsefni, sem mundu koma sér vel úti í atvinnulífinu, — ég get tekið viðskiptafræðinga sem dæmi, — það hefur líka sýnt sig um þá, að þeir leita fyrst og fremst að ríkis- og bankajötunni. Þar geta þeir starfað í miklu atvinnuöryggi og fá há laun, en leita síður út í atvinnulífið, þar sem átökin eru meiri.

Við höfum svo orðið vör við það, að þessi þróum hefur smátt og smátt leitt til þess, að það er að verða til í þjóðfélaginu fólk, sem fer frá einu landi til annars og föndrar við einhvers konar framhaldsnám og fær til þess ótal styrki og lán af opinberri hálfu, og fær styrkina vegna þess, að það hefur ekki unnið fyrir sér. Hins vegar er mér sagt það af mikilli útgerðarstöð hér á landi, þar sem málum hefur verið svo háttað alveg frá því að sú stöð var sett upp, að skólafólk hefur leitað þangað yfir sumarið. Það hefur passað alveg, að þegar skólunum hefur lokið á vorin, hefur þessi útgerðarstöð verið opnuð, og síðan hefur henni verið lokað rétt í sama mund og skólar byrja að haustinu. Nú er mér sagt, að svo hafi brugðið við s.l. sumar, að nokkrir þessara skólapilta hafi sagt upp vinnunni á miðju sumri og ekki viljað vinna lengur, aðrir hafi haldið áfram. Svo kom það í ljós við námslánaúthlutunina, að þeir skólapiltar, sem stóðu við skuldbindingar sínar og voru á útgerðarstöðinni til haustsins, fengu ekki námslán, af því að þeir hefðu haft of miklar tekjur, Hinir unglingarnir aftur, sem fóru burt á miðju sumri, höfðu miðað tekjuöflun sína við það, að þeir héldu fullum réttindum sínum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, og fengu þess vegna námslánin. Þetta er sagt við mig, og ég hef ekki ástæðu til að rengja, að þetta sé satt. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem ég hef orðið var við, að það er ekki þakkað í sambandi við fyrirgreiðslu af þessu tagi, að menn reyni að vinna í sumarleyfum og leggi á sig einhverja vinnu til þess að létta undir bagga hjá heimilinu, kannske fjölskyldumenn, sem hafa eignast barn og stofnað fjölskyldu, áður en þeir hafa lokið námi.

Ég sagði áðan, að meginástæðan til þess, að margir skólamenn eru á móti lengingu skólaskyldunnar, væri sú, að reynslan hefur sýnt, að það er allt annað og miklu auðveldara að hafa aga á nemendunum, ef þeir eru ekki skyldugir til að fara í skólann. Svo kemur líka annað til, eins og hv. 3. þm, Reykn. talaði um við 1. umr. málsins. Þá kom hann fram með þá athyglisverðu hugmynd, hvort ekki gæti verið rétt að byrja skólaskylduna fyrr en nú er gert og ljúka henni einnig ári fyrr, en haga þannig námi og starfi í 2. og 3. bekk gagnfræðaskóla, að nemendurnir væru helming ársins í skólanum, 6 mánuði, en helminginn utan skóla við heilbrigð störf. Þetta rökstuddi þessi hv. þm, með því, að á þessum aldri, sem er breytingaaldurinn, gelgjuskeiðið, væri hugur unglinganna í meira uppnámi en annars og unglingarnir þyrftu því að fá meiri útrás og þyrftu á meiri hreyfingu að halda. Það mundi hjálpa þeim að komast í gegnum þennan aldur. Ég get staðfest það miðað við þá reynslu, sem ég hef sem kennari, að það er einmitt á þessum árum, sem margur unglingurinn dregst mjög aftur úr í námi, þannig að hann á kannske síðar erfitt með að taka upp þráðinn að nýju, og í sumum tilfellum hefur það beinlínis valdið því, að hann hafi horfið frá námi. Þessi hugmynd hv. 3, þm. Reykn. og sá rökstuðningur, sem hann hafði uppi um það mál hér við 1. umr. málsins, er vissulega þess virði, að henni sé nánar gaumur gefinn.

Það er áreiðanlegt, að sú hugsun er röng, að skólarnir mundu bera mestan árangur, ef þeir héldu áfram allt árið og ekkert sumarleyfi væri gefið. Ég hef ekki heyrt einn einasta mann halda því fram, að það gæti verið markmið út af fyrir síg að loka börnin inni í skólanum alla 12 mánuði ársins. Og ef menn fallast á það, að það geti verið nauðsynlegt að gefa eitthvert sumarleyfi, hljótum við að viðurkenna um leið, að því eru takmörk sett, hversu lengi rétt sé að halda skólastarfinu áfram á hverju ári. Það hefur sagt mér einn af merkustu skólamönnum þessa lands, að þegar skólarnir voru lengdir úr 7 mánuðum í 8 mánuði, hefðu hann og ýmsir aðrir skólastjórar tekið því mjög fagnandi og hlakkað til þess að geta komið þeim mun meira námsefni að og upplýst unglingana þeim mun meira, þar sem heill starfsmánuður hafði bæst við í skólunum. Þessi skólastjóri sagðist hafa á skólastjóraþingi mörgum árum síðar varpað þeirri spurningu fram við þá, sem þar voru, hvort það væri reynsla þeirra að meiri og betri árangur hefði náðst á þessum 8 mánuðum en áður á 7 mánuðum. Hann sagði mér, að skólastjórarnir hefðu allir verið sér sammála um það eða a.m.k. margir, að árangurinn væri ekki meiri, en hann taldi þó, að árangurinn hefði ekki orðið raunverulega neitt minni. Hann taldi ekki, að útkoman hefði orðið neikvæð. Nú er búið að lengja skólana upp í 81/2 mánuð, og samkv. þeirri breytingu, sem ætlunin er að koma á hér, er enn gert ráð fyrir því að lengja skólana. Nú heldur þessi hv. skólamaður, sem ég vitnaði til. fram, og margir aðrir eru sama sinnis, og mér skilst, að sú sé einnig orðin raunin á og þær raddir séu nú æ háværari sums staðar í öðrum Norðurlöndum, að lenging skólaársins nú úr 81/2 mánuði í 9 mánuði geti beinlínis verkað neikvætt, slík lenging geti beinlínis valdið því, að unglingarnir læri minna á hverju ári en þeir þó læra núna, það sé komið yfir suðupunktinn, það sé farið að ofgera þeim. Þetta er rökstutt með því, að eftir hið langa skammdegi, hinn langa vetur, þær miklu innisetur, sem nemendur hafa, sé nauðsynlegt að komast fljótt út í sólskinið, út í vorið og hreyfa sig. Ég álít, að þessum málum verði að gefa nokkurn gaum, og ég álít t.d., að það sé röng stefna hjá menntmálayfirvöldum að gera hvort tveggja í senn, lengja skólaárið og stytta og fækka leyfisdögum, það muni aðeins valda meiri þreytu og leiðindum.

Enn er það eitt atriði í sambandi við lengingu skólaskyldunnar, sem við verðum að hugleiða. Þeir hv. þm., sem nú greiða atkv. með lengingu skólaskyldunnar, eru um leið að gefa skólunum eins og þeir eru reknir núna, það siðferðisvottorð, að þeir treysti þeim til þess að fara með það vald að geta beinlínis þvingað unglinga til þess að sitja innan þeirra veggja 9 mánuði samfleytt, marga tíma á dag. Með því að þvinga unglingana til að gera þetta hlýtur ríkisvaldið um leið að skuldbinda sig til þess að vera með eitthvað þar á dagskrá, sem unglingarnir mega hafa gagn af. Nú mundi ég vilja líta á það með miklum velvilja og nú mundi ég líta á það sem einhver rök í málinu, ef hæstv. menntmrh hefði raunverulega fullan vilja á að stuðla að því að raunverulegri lengingu skólaskyldunnar verði komið á. Ég sagði: raunverulegri lengingu skólaskyldunnar, því að ég lít ekki á það sem lengingu á skólaskyldu, eins og það er hugsað af okkur, að þvinga unglingana til að ganga í skólana án þess að hafa neitt til að kenna þeim, án þess að leggja fyrir þá nokkurt námsefni í neinni grein, sem unglingarnir hafa tök á að tileinka sér. Ég kalla það ekki að lengja hina raunverulegu skólaskyldu, því að markmiðið með skólaskyldunni er að uppfræða unglingana og gera þá að betri og nýtari þjóðfélagsþegnum og ein aðalleiðin til þess að gera það er að fá unglingana til samstarfs og samvinnu, örva þá til samstarfs og samvinnu bæði til bókarinnar og einnig í hinu verklega námi. Ef við getum skrifað undir það og ef við erum allir þeirrar skoðunar, sem hér erum inni, að skólarnir, eins og þeir eru reknir núna, gagnfræðaskólarnir, hafi raunverulega einhver tök á því við þá nemendur, sem eru slakastir og mest seinþroska, en þó heilbrigðir, — a.m.k. þegar þeir koma í skólana, — að búa þeim námsskrá og námsefni, sem þessir unglingar finna gleði og ánægju af að fást við, — ef hliðsjón væri höfð af því í skólastjórninni að haga námskröfunum eftir getunni, ef við gætum sagt, að skólinn kæmi niður til minnst megandi þegnanna og gerði við þá sem jákvæð stofnun, þá væri horfandi á þetta mál. En ég er einn af þeim, sem halda því fram, að skólarnir geri þetta ekki.

Ég er einn af þeim, sem halda því fram, að í menntmrn. hafi ekki verið unnið að því á undanförnum misserum að koma til móts við þá unglinga, sem verst eru settir að þessu leyti. Það hefur ekki verið gert. Það er til ein allsherjarnámsskrá fyrir allt unglingaprófið, sem allir unglingarnir eiga að læra eftir, sem hafa náð þessum aldri, og allir unglingar eiga að ná prófi, alveg burtséð frá því, hvort þeir hafa allir nokkra möguleika á því að tileinka sér hana eða ekki. Upp að 3. bekk á að halda öllum í sömu klemmunni, og þó vita allir, líka grunnskólanefndin, að með þessu er í raun og veru verið að mismuna þegnunum, og þessi mismunun er verri en mörg önnur vegna þess að hún bitnar í flestum tilfellum á þeim börnunum og þeim unglingunum, sem eru mest minni máttar, á þeim börnunum og unglingunum, sem hafa kannske minnst á hak við sig. Hún bitnar ekki á hinum. Þessi mismunun hitnar ekki á þeim unglingum, sem eru vel hæfir til bóklegs náms. Þessi mismunun hitnar ekki heldur á þeim unglingum, sem eiga kannske menntaða foreldra, sem geta hjálpað þeim og ýtt undir, ef á þarf að halda, og hafa metnað til þess að koma börnum sínum áfram. Þessi mismunun bitnar ekki á þeim unglingum og þeim nemendum, enda þarf enga skólaskyldu til að halda þeim unglingum í skóla. En þessi mismunun hitnar á þeim unglingum, sem skólaskyldan á að tryggja að hljóti einhverja uppfræðslu og einhvern þroska í skólanum. Það er þetta, sem er það alvarlega, að við erum hér að tala um að koma upp og lengja skólaskylduna, en við ræðum svo aldrei um þann alvarlega hlut: Af hverju viljum við hafa skólaskyldu? Á bak við þann vilja er hugsunin þessi, að við viljum reyna að koma öllum unglingum til einhvers þroska, eins og Erlingur Skjálgsson forðum. Við getum svo sett okkur í spor lítils nemanda, — ég þori nú hvorki að nefna pilt né stúlku á þessum síðustu jafnréttistímum, þegar ekki má lengur nota orðið „matráðskona“ í skólum, heldur verður að nota orðið „bryti“ og þar fram eftir götunum. Þó er nú raunin sú, að einhverjir piltar lærðu að verða hjúkrunarkonur, á meðan enn voru lög um það, talað var um hjúkrunarkvennaskóla, en það er annað mál. Ég held, að fólkið í landinu sé nú ekki jafnviðkvæmt fyrir öllum þessum mismun kynjanna eins og hér er. Við skulum hugsa okkur ungan pilt, ungan hraustan pilt, sem hefur engan áhuga á því, eftir að komið er í 3. bekk gagnfræðaskóla, að halda áfram veru sinni í skólum. Síðan er þessu máli vísað til barnaverndarnefndar eða einhverra sálfræðinga, og þeir koma til piltsins og spyrja hann: Hvernig í veröldinni stendur á því, að þú hættir í skólanum og mætir ekki í skólanum? Og pilturinn segir við þá: Ég er svo illa undirbúinn í mínu námi, og ég er ekki betur gefinn en það, að ég hef ekkert gagn af því að vera í skólanum. Skólinn hefur ekkert fram að færa við mig, sem ég hef gagn af. — Á þá að banna þessum pilti að vinna? Þeir hafa varpað fram þessari spurningu, námsstjórar í Noregi, hvort þjóðfélagið hafi nokkurn rétt yfirleitt, og mér finnst það mikil spurning, hvort það yfirleitt stenst þær mannréttindahugsjónir, sem við íslendingar hrósum okkur svo mjög af, að við viljum í heiðri hafa, að halda þannig unglingunum í skólum ár eftir ár, án þess að neitt sé gert af opinberri hálfu til þess að koma til móts við þá.

Staðreyndin í málinu er sú, að skólakerfið er staðnað, það er ekki lifandi. Skólarnir eru því miður margir hverjir dauðar stofnanir, og þeir eru það vegna þess, að embættismannavaldið, miðstjórnarvaldið, sem heldur skólunum í kreppunni, er stirðnað og dautt. Lítum á gömlu gagnfræðaskólana, sem var stjórnað hverjum með sínum hætti. Við getum hugsað okkur gamla gagnfræðaskólann á Akureyri með þeim höfuðkempum Stefáni Stefánssyni skólameistara, Sigurði Guðmundssyni, Jóni Hjaltalín, Sá skóli var ekki aldeilis dauður. Og við getum nefnt ýmsa aðra skóla. Héraðsskólinn að Laugum var ekki aldeilis dauður. En svo byrjuðu skólarnir smátt og smátt að deyja, eftir því sem miðstjórnarvaldið varð meira, eftir því sem stjórnin var meir tekin úr höndum skólamannanna, sem áttu að vinna verkið. Skyldi nokkrum manni í nokkurri annarri grein detta í hug, að það fari vel á því um reynda og hæfa menn, eins og margir okkar skólamenn eru, að það geti staðist til lengdar og yfirleitt kunni góðri lukku að stýra að setja þeim fyrir fram reglur um alla hluti, að láta ekki skólana þróast og dafna nokkuð hvern með sínum hætti. Það getur ekki verið neitt tjón fyrir þjóðfélagið í heild, — ég get ekki séð það, — þó að nokkuð mismunandi blaðsíðufjöldi sé lesinn í hinum mismunandi bókum eftir gagnfræðaskólum. Sannleikurinn er sá, að ef við ætlum að gera grunnskólann eða hvað við eigum að kalla okkar skyldunám, — ef við ætlum að gera hann lifandi, þá eigum við auðvitað að auka frjálsræði skólanna. Við eigum að gera skólunum kleift og gera t.d. hugsjónarmönnum — ég nefni bara af handahófi Magnús Jónsson skólastjóra Gagnfræðaskóla verknáms, — það á að veita skólamönnum af þessu tagi möguleika til þess að standa að öðruvísi skólastarfsemi en hér hefur verið rekin, og það mundi verða af hinu góða.

En það er ekki nóg með það, að öllum skólum skuli sett sama námsskráin og öllum unglingum, hvernig sem þeir eru af guði gerðir, hvernig sem þeir koma úr barnaskólanum. Ég man eftir einum unglingi, sem kolféll á barnaskólaprófi. Svo var hann settur upp í gagnfræðaskóla, og faðirinn kom nú til skólastjóra barnaskólans og spurði hann að því, hvernig stæði á því, að drengurinn sæti ekki eftir, hann hefði fallið á barnaskólaprófinu. Af hverju fer hann þá upp í gagnfræðaskóla? Svarið var þetta: Við viljum losna við hann. — Þeir vildu ekki hafa hann lengur. Þó var þetta afskaplega þægur og elskulegur piltur, en hann passaði ekki inn í kerfið.

Eins og ég sagði, þá eigum við að láta skólamennina ráða meira en gert er ráð fyrir í þessu frv. Við eigum að leyfa skólamönnunum að móta nokkuð sína skóla, það, sem þar fer fram, og þær námskröfur, sem gerðar eru. Með þeim hætti eru miklu meiri líkum til þess en nú er, að hægt sé að byggja upp í framtíðinni þá lifandi stofnun, sem ég veit að allir hér í hinu háa Alþingi eru sammála um að rísa verði.

Einn alvarlegasti hluturinn í sambandi við það nýja skólakerfi, sem nú er veríð að koma upp, og má raunar segja að snerti ekki beint það mál, sem hér er til umr., er það, að á sama tíma og ríkisstj. beitir sér fyrir 40 stunda vinnuviku hjá fullorðnu fólki, tekur hún ekki til greina ábendingar kennarasamtakanna um það, hvort ekki sé rétt, að þetta skuli einnig gilda um unglingana. Ég hef orðið var við það, að ýmsir menn halda, þegar ég er að ræða um, að það eigi að stilla í hóf vinnuviku unglinga, að það mundi stytta vinnu kennarana. Það er ekki það sem hér er á bak við. Kennararnir munu auðvitað vinna sinn fulla starfsdag, hversu lengi sem unglingarnir eru í skólanum. Það, sem er á bak við þetta, er, að unglingarnir voru, eins og ég gat um í gær, 6 daga í skólanum áður, og það var eðlilegt, að á 6 dögum væri hægt að hafa kennslustundirnar fleiri en eftir að dögunum fækkaði í 5. Það var eðlilegt. En eins og þetta mál nálgast núna, er ekki gert ráð fyrir því, að kennslustundum fækki, þótt aðeins verði kennt á 5 dögum í staðinn fyrir 6. Það sýnir eitt með öðru, hvernig vinnubrögðin eru hér í hinu háa Alþ., að ég lagði fram um það þáltill. einhvern tíma í októbermánuði, að Alþingi ályktaði að beita sér fyrir því m.a. að kanna, hvort námstími gagnfræðaskólanemenda með hliðsjón af 5 daga skólaviku væri ekki of langur. Þetta mál hefur ekki komið frá n. Þetta var nú samt eitt af fyrstu málunum, sem lögð voru fram um skólamálin á þessu þingi. Sem sagt, hér er ekki tekin hliðsjón af leiðbeiningu kennarasamtakanna um þetta efni.

Nú þarf ég ekki að segja hv. þdm. það, að auðvitað er afskaplega misjafnt, hversu mikla vinnu börn og unglingar leggja í sitt nám. Eins og ég sagði áðan, eyða margir þeir unglingar, sem algerlega hafa orðið utanveltu við skólann og ráða alls ekki við það, sem þar fer fram, miklum tíma til að búa sig undir næsta dag. Þó þekki ég dæmi um unglinga, sem hafa einmitt verið í þessum flokki, þeir hafa setið við, þegar þeir hafa komið heim, þó að þeir hafi engin tök á að ráða við neitt af því, sem fram fór, setið við allan eftirmiðdaginn og fram á kvöld og um helgar og ekki náð neinum námsárangri, og sjá allir, hversu hollt það er fyrir unglinginn, þegar þannig er. Miklu algengara er hitt, og það er hið eðlilega í sambandi við skólastarfið, þegar hinn daglegi námstími er orðinn of langur, að til að byrja með og sérstaklega getum við sagt í tímunum frá 9 á morgnana og jafnvel fram undir hádegi og í fyrsta tímanum eftir hádegi eru unglingarnir vel vakandi og auðvelt að vekja áhuga þeirra. Eftir því sem tímunum eftir hádegi fjölgar, fer þetta að verða erfiðara. Við getum sett okkur í spor unglinganna. Það er afskaplega erfitt verk í rauninni, það er ekkert áhlaupaverk að reyna að setja sig inn í kannske tvö erlend tungumál, læra þar ný orð og orðatiltæki og fá skilning á nýjum setningafræðilegum atriðum, eiga jafnframt að fást við eðlisfræði, stærðfræði, ný atriði í stærðfræði, og aðrar greinar frá 8 að morgninum samfleytt til 3 og 4 á daginn og fá enga almennilega hressingu að morgninum, að vísu einn klukkutíma í hádeginu, en að öðru leyti eru þarna engin hlé. Þessi mikli kennslustundafjöldi hefur ekki í för með sér að mínu viti annað en meiri kostnað fyrir ríkissjóð, og einnig veldur hann því, að unglingarnir leggja sig ekki eins fram við n'amið og ella mundi. Unglingar, sem eru búnir að vera í skóla frá 8 að morgninum til 4 um daginn eru ekki í skapi til þess eftir það að sitja yfir kennslubókum og námsbókum og læra allar þær greinar, sem teknar verða fyrir daginn eftir. Það er auðvelt að sjá, ef maður er að fást við að læra erlent tungumál. Hvað ætli það taki meðalgreindan nemanda langan tíma að búa sig undir næstu kennslustund í ensku, næstu kennslustund í dönsku, stærðfræði og þar fram eftir götunum? Hann talaði um það, hv. 6. landsk. þm., í ræðu sinni við 1. umr. og þótti engin tíðindi, þótt gagnfræðaskólanemendur ynnu 80 stundir á viku. Þetta er að sjálfsögðu til. Ég þykist vita, þótt sá hæstv, menntmrh., sem nú fer með það embætti, og þótt sá þingmeirihl., sem nú virðist ráða lögum og lofum hér, hafi ekki skilning á því, að það er ekki til góðs að þjaka unglinga of mikið yfir skólabókum á degi hverjum, og ég geri ráð fyrir því, að venjulegt, heilbrigt, skynsamt fólk skilji, að hóf er best í öllum hlutum. Ég geri ráð fyrir því. Ég geri þess vegna einnig ráð fyrir því, að kennarasamtökunum muni auðnast, eftir að ráðherraskiptin hafa farið fram, að sannfæra þá menn, sem með þessi mál fara þá, um það, að unglingarnir séu líka fólk og að unglingarnir þurfi líka á hvíld að halda.

Eins og ég sagði og eins og hv. 3. þm. Reykn. minntist réttilega á í gær, er kannske aldrei auðveldara að ofgera unglingum en einmitt á breytingaaldrinum, gelgjuskeiðinu, þegar unglingarnir eru að taka út kynþroska. Þá eru þeir óværastir, órólegastir. Ég tek undir með hv. 3. þm. Reykn., að það er einmitt á þeim árum, í 2. og 3. bekk, sem væri afskaplega fróðlegt að sjá, hvað kæmi út úr því, ef hinn árlegi skólatími yrði styttur og nemendurnir þess í stað látnir vinna að hollum störfum, bæði við sjávarsíðuna og ég tala nú ekki um upp til sveita.

Því hefur verið haldið fram hér og er talið, að það sé eitt af þeim atriðum, sem séu hvað mest jákvæð í sambandi við grunnskólafrv. og það nýja skólakerfi, sem hér er verið að tala um að koma á, að með því eigi að vera hægt að stytta skólagönguna um eitt ár, en kenna sama námsefnið. Ég hef heyrt þessari hugsun haldið fram. Ég hef aldrei séð né heyrt drög að þeim námsskrám, sem þeir, sem þessu halda fram, hugsa sér að leggja fyrir skólana að kenna eftir. En hitt veit ég, að þetta er algjörlega út í bláinn sagt. Þeir skólamenn, sem halda því fram, að það sé hægt að kenna öllum þorranum það á 9 árum, sem nú er gert á 10 árum, fara þar með algjört fleipur, til allrar hamingju vil ég segja, því að þá væri skólakerfið fyrst illa komið, ef það væri hægt að hrista það fram úr erminni og það væru svo sem engin vandkvæði á, bara væri hægt með einu lagafrv. á Alþ. án þess að lengja árlegan skólatíma neitt verulega að stytta skólagönguna um eitt ár. Ef það væri enginn vandi að gera slíkt og kenna samt allt það sama, þá væri ekki vel að staðið nú.

Auðvitað verður niðurstaðan sú um þetta frv., að ef grunnskólaprófið á að vera eitthvað sambærilegt próf við það, sem nú heitir landspróf, og ef það er hugsunin að gera einhverjar svipaðar kröfur undir grunnskólaprófið og nú er gert fyrir landspróf eða gagnfræðapróf, þá mun það sýna sig strax, alveg eins og það hefur sýnt sig núna, að börnin munu verða jafnlengi að þessu, þau munu taka þetta í 3. og 4. bekk, alveg eins og þau hafa gert, og það mun vera alveg sami hópurinn, sem verður lengur að því, og alveg sami hópurinn, sem verður fljótari. Það er nefnilega á þessum árum, að þroski unglingana skiptir svo miklu máli, — þroskinn og jafnvægið. Þroskinn er til að tileinka sér hluti og jafnvægið er til að standa að náminu eftir gelgjuskeiðið. Þess vegna hefur það líka komið í ljós um margan unglinginn, sem hefur kannske verið heldur laus við og hefur kannske ekki staðið sig allt of vel, þegar hann hefur farið í landsprófsdeild, og hefur af þeim sökum kannske, eins og nú er farið að gera, farið síðan í gagnfræðapróf og þaðan í framhaldsdeildir og þá leiðina inn í menntaskóla, að margir þessir nemendur hafa staðið sig býsna vel í menntaskóla og síst verr en hinir, sem landspróf stóðust. Ástæðan fyrir því að svo er, er náttúrlega þessi, að þeir hafa þroskast, þeir eru í meira jafnvægi.

Það er mikið talað um það, og ég hef heyrt því haldið fram, ég heyrði það m.a. í afskaplega hjartnæmri ræðu hæstv. menntmrh. í gærkvöld eða í nótt, — hann var afskaplega hjartnæmur, hæstv. menntmrh., áður en hann vó að fræðslumálum Reykjavíkurborgar, það vantaði ekki bláu augun og sakleysislega yfirbragðið þá, hann var afskaplega hjartnæmur þá, þegar hann talaði um, að þetta frv. væri svo afskaplega vel unnið, það hefði verið lagt fyrir fleiri en eitt Alþ., lagt fyrir Alþingi af fyrrv. hæstv. ríkisstj. og af honum tvisvar sinnum, held ég. Samt eru nú allar þessar brtt. Samt komu nú fram 80 brtt. um málið í Nd. Og sá fundur fór þannig fram, að það vissi í rauninni enginn eftir 2. umr., hvað hafði verið samþ. og hvað hafði ekki verið samþ.hv. d. leit einnig þannig á, að það væri ekki nema með eins atkvæðis mun, sem lenging skólaskyldunnar væri samþ. Eins og ég sagði áðan, en þessi hæstv. menntmrh. hefur ekki komið inn á, er kjarni málsins þessi: Ég og aðrir, sem erum á móti lengingu skólaskyldunnar, erum ekki á móti henni vegna þeirra góðu kosta, sem hún hefur í för með sér. Við erum ekki á móti lengingu skólaskyldunnar vegna þess, að við séum á móti því, að börnin læri. Við erum ekki á móti lengingu skólaskyldunnar, ef það gæti stuðlað að meira jafnvægi og jafnrétti milli nemendanna. Við erum á móti því að auka vald menntmrn. og fræðslustjórnarinnar, þegar hún kemur ekki meir til móts við þá nemendur og þá unglinga, sem nú eru í gagnfræðaskóla og verst eru settir, heldur en hún gerir. Við erum á móti því að láta þá menn, sem hafa staðið sig illa í sambandi við að koma á þeirri fræðsluskyldu og skólaskyldu, sem nú er, koma í gegn samþykkt plaggs upp á marga tugi blaðsíðna án þess að þeir sýni nokkra viðleitni í þá átt að bæta ráð sitt. Ef við mundum nú á þessari stundu samþ. lengingu skólaskyldunnar, værum við einnig með því að leggja blessun okkar yfir það, hvernig staðið hefur verið að skólaskyldunni fram að þessu, þær námskröfur, það námsefni, það framferði, sem þar er haldið uppi, og það er þetta, sem ég vil ekki gera.

Ég tel mig hafa sýnt fram á það með rökum, — og undir það hafa margir skólamenn tekið og þakkað mér fyrir það, — að af opinberri hálfu, að af hálfu menntmrn. hefur ekkert raunverulegt átak farið fram í því að athuga, með hvaða hætti hægt sé að hafa skólana fyrir alla. Í grunnskólafrv. er talað um mismunandi gerðir unglinga, ég man nú ekki orðalagið á því. Þar er sem sagt viðurkennt, að unglingarnir eru misjafnir. En það á ekki að viðurkenna það í sjálfu grunnskólafrv. Og það er annað í þessu máli. Þeir menn, sem sömdu þetta grunnskólafrv., sendu það inn í þingið, mennirnir, sem hugsuðu grunnskólafrv., bjuggu það til, vildu ekki taka verknámið inn í sitt frv. sem sérstakan lið á námsskrá. Þeir vildu ekki taka verknámið inn í grunnskólafrv. sem sérstakan lið á námsskrá, vegna þess að grunnskólafrv. er ekki hugsað út frá þeirri forsendu, að það geti verið hollt og gott fyrir unglingana og börnin að hafa verklega þekkingu eða standa að atvinnulífinu. Þessu var hins vegar breytt í Nd. og aftur vakin upp sú gamla hugsun og hugsjón, sem sett var í gömlu fræðslulögin frá 1946. En það er ósköp eðlilegt, að þeir menn, sem nú fara með völdin í menntmrn., séu ekki afskaplega áfjáðir í að flagga mikið með verknámið, eftir að svo er komið, að þeir eru búnir að drepa eina verknámsskólann, sem var hér í Reykjavík, Gagnfræðaskóla verknáms, sem nú er orðinn almennur hverfisskóli, og eftir að búið er að leggja niður að verulegu leyti þann annan skóla, sem hafði með verknám að gera, Lindargötuskólann. Skal ég þó segja það til hróss, ekki núv. fræðsluyfirvöldum í menntmrn., heldur þeim mönnum, sem stóðu að þeirri skólastofnun, að sjóvinnudeildin, sem þar var stofnuð og starfrækt, hefur haft bann lífskraft, að þrátt fyrir að skólinn var lagður niður, var fallist á það með sérstökum ráðstöfunum að leyfa henni að halda áfram.

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að mótmæla því, að á dagskrá skyldi tekið fyrirvaralaust grunnskólafrv. í gærkvöld. Það var ekki tekið á dagskrá fyrr en á tólfta tímanum. Ég lýsti því yfir við þá umr., og hv. 6. þm. Reykv. hafði líka lýst því yfir við þá umr., að við þyrftum á einhverjum tíma eða tómi að halda til þess að undirbúa brtt. fyrir 3. umr. málsins. Ég lýsti því yfir þá og ég sagði frá því þá, að það væru ýmis atriði í þessu frv., sem ég vildi ræða áfram við skólamenn hér í höfuðhorginni. Sá kostur var valinn af hæstv. ráðh. og sú fyrirskipun gefin forsetum Alþingis að virða óskir okkar 6. þm. Reykv. að vettugi. Sú hefur verið afgreiðsla þessa máls, og er hún ekki í samræmi við það mál, sem hér er til umr., þýðingu þess. Ég reyndi að koma til móts við óskir stjórnarmeirihl. í gærkvöld og nótt með því að stytta mjög mál mitt og bjóst við því í staðinn, að sýnd yrði einhver tillitsemi, en það var auðvitað ekki við því að búast, að það gæti orðið.