08.05.1974
Efri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4314 í B-deild Alþingistíðinda. (3902)

8. mál, skólakerfi

Jón Árnason:

Herra forseti. Um þessi mál, sem hér eru tekin til umr., sýnist allt hníga í þá átt, að það eigi að afgreiða þau núna, áður en þingi lýkur. Ég er ekki búinn að vera lengi í þessari hv. d. Þessi mál eru búin að vera undanfarin ár á dagskrá Nd., og það hafa verið fluttar mjög margar brtt. við þessi frv. og er enn, þegar málin koma í þessa d., að þá koma á skömmum tíma fram margar brtt., svo að það hendir allt til þess, að það sé ýmislegt óunnið enn þá og þurfi enn að taka málin til rækilegrar athugunar. En ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess að reyna að keyra þessi mál svona hratt áfram, vegna þess að stórmál bíða enn afgreiðslu í þinginu, sem þingið hlýtur að fá til meðferðar, eins og efnahagsmálin. Eins og hæstv. forsrh. hefur lýst varðandi þau mál, hlýtur að taka nokkra daga að afgr. þau hér á hv. Alþ. Við vitum einnig, að það er komin fram vantrauststill. á núv. ríkisstj., og við vitum einnig, að hæstv. forsrh. hefur marglýst því yfir, að hann víki ekki eða stjórn hans nema fyrir vantrausti. Komið þið bara með vantrauststill., og þá skulum við bera hana undir þingið, hefur hæstv. forsrh. sagt. Þess vegna má fullvíst telja, að þar sem vantrauststill. hefur nú verið lögð fram, þá liði enn nokkrir dagar, áður en þingi verði lokið að þessu sinni. Ég vil a.m.k. mega vænta þess, að efnahagsmálin, — allir eru sammála um, að stefnt sé í óefni í þeim málum, — hljóti nauðsynlega skoðun og afgreiðslu hér á hv. þingi, áður en þm. verða sendir heim.

Það er út af fyrir sig gott að hafa glæsilega skólalöggjöf og ramma um skólastofnanir. En sú þjóð, sem vill skipa þeim málum vel, verður líka að undirbyggja aðra þætti þjóðfélagsins að sama skapi. Það heldur enginn uppi kostnaðarsömum skólarekstri án þess að byggja efnahagsmál sín á traustum grundvelli, svo að ríkissjóður geti staðið undir rekstri slíkra skólastofnana. Eins og atvinnulífið blasir við í dag, þá segir það sig sjálft, að horfur í þeim málum eru á allt annan veg en þann, að við getum gert okkur vonir um, að ríkissjóður hafi að óbreyttri stefnu nokkra möguleika á því að standa undir auknum kostnaði í sambandi við skólarekstur. Það, sem merkilegast er í sambandi við þessi frv., sem hér eru til umr. og hér liggja fyrir, er, að það skuli ekki liggja fyrir nein áætlun um, hver kostnaðaraukinn verður eða hver afleiðingin verður að því leyti, hvað mikið kostnaðurinn eykst við skólahaldið, eftir að þessi löggjöf hefur komið til framkvæmda. Það er út af fyrir sig skiljanlegt, að þeir, sem standa að þessum frv., hafi áhuga á að koma þeim áfram. Þau eru búin að sitja ár eftir ár í Nd. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gera hlé á máli sínu, vegna þess að eindregið hefur verið óskað af form. Sjálfstfl., að þessum þingfundi yrði frestað til kl. 12. og ég vil gjarnan verða við þeirri ósk, en fundurinn heldur áfram aftur kl. 12. Fundinum er frestað.) — (Fundarhlé.)

Herra forseti. Ég var að tala um það, þegar ég lauk máli mínu áðan, að ég skildi vel, að þeir, sem stæðu að þessum skólafrv., vildu koma þeim áfram. En það virðist samt vera svo, að þrátt fyrir langan meðgöngutíma, sem þessi frv. hafa haft hér, séu þau ekki enn þá fullbúin. T.d. þegar grunnskólafrv. var til umr. í Nd., eftir að það var búið að vera til umr. á mörgum þingum áður, komu fram milli 90 og 100 brtt. við málið. Og á þeim tiltölulega skamma tíma, sem málið hefur verið í þessari hv. d., eru komnar til viðbótar milli 40 og 50 brtt. ásamt undirliðum, a. b og c, þannig að það er sýnilegt, að þessi frv. þarf að taka til enn þá ítarlegri athugunar, og þar sem þm. eru jafnsammála um, að frv. hafi verið meingölluð, sérstaklega grunnskólafrv., og þurft hafi að gera á því svo miklar breytingar sem raun ber vitni, þá á Alþingi tvímælalaust að gefa sér tíma til að skoða þessi mál öllu betur niður í kjölinn. Eins og ég sagði einnig áðan, get ég varla skilið annað en að nægur tími sé til þess í þessari hv. d. Það ætti að vera nægur tími til að athuga málið lengur, vegna þess að sýnilegt er, að Alþingi lýkur ekki á næstu dögum. Það hlýtur að taka nokkurn tíma að mynda nýja ríkisstj., því að vantrauststill. er borin fram á núv. ríkisstj., lögð fram hér á Alþingi í gær, og eftir þeim yfirlýsingum, sem hæstv. forsrh. hefur gefið áður á þinginu, má öllum ljóst vera, að sú till. verður rædd og afgr. Hann hefur margítrekað við hv. alþm., sem hafa hvatt hann til þess að leggja niður stjórnarstörf, að það mundi hann því aðeins gera, að fram kæmi vantraust á ríkisstj., og ef vantraust yrði samþ., mundi hann að sjálfsögðu fara frá og biðjast lausnar. Þetta hlýtur að gerast í dag eða á morgun. Síðan er ekkert óeðlilegt, að það taki nokkurn tíma að hræða flokka saman um nýja stjórnarmyndun, og á meðan ætti að vera tími til að skoða þessi mál öll betur niður í kjölinn, í stað þess að ætla sér að flaustra þeim af á svo örskömmum tíma eins og raun ber vitni í þessari hv. deild.

Satt að segja, þegar um slíkt stórmál er að ræða, má segja, að það gegni furðu, að ekki er byrjað að ræða málið hér fyrr en á tólfta tímanum í gærkvöld. Það er komið fram undir miðnætti, þegar byrjað er að ræða málið, og það merkilega á sér stað, þegar umr. stendur yfir, að þá eru margar af þeim till., sem menntmn. hafði komið sér saman um, dregnar til baka, a.m.k. til 3. umr., og bendir allt til þess, eftir því sem orð hafa fallið, að það sé meiningin að kippa þessum till. til baka. En vegna hvers á að kippa till. til baka og bæta þeim ekki inn í frv., ef það hefur verið meining n. og sannfæring, að frv. mundi batna með því, að þær breytingar yrðu gerðar á lagafrv., sem í þessum brtt. felst.

Ég vil enn á ný koma að því, sem ég vék að fyrr í ræðu minni, varðandi efnahagsmálin, sem mér finnst að eigi að ræða, að það sé ekkert óeðlilegt, að efnahagsmálin séu rædd jafnhliða því sem verið er að ræða jafnkostnaðarsama löggjöf og þessa. Það hlýtur að eiga sér stað stóraukinn kostnaður fyrir ríkissjóð, þegar þessi lög koma til framkvæmda. Og það er eftirtektarvert, að það skuli ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um það, hvað sá heildarkostnaður muni verða umfram það, sem núv. skólalöggjöf kostar á ársgrundvelli. Mig minnir, að það standi einhvers staðar í grg. með frv., að heildarlaunakostnaðurinn á árinu 1973 hafi verið 1000 millj. kr. Það er ekki einu sinni haft svo mikið við, þótt Alþ. sé búið að afgr. fjárl. fyrir árið 1974 og fyrir liggi tölur í þessu sambandi fyrir yfirstandandi ár. Vitanlega er þar um verulega hærri upphæð að ræða en þá var, og enn hefur verðbólgan sett svip sinn á þennan lið í fjárlögunum og hann hlýtur að stórhækka, enda þótt skólalögunum verði ekki breytt, þannig að kostnaðurinn aukist verulega frá því, sem nú á sér stað. því var, að mig minnir, slegið fram, miðað við þetta dæmi, 1973, sem sett var fram, þá mundi hækkunin verða um 132 millj. kr., þegar búið væri að gera plús og mínus við einstaka liði í sambandi við útreikninginn. En það er vitanlegt, að það er alveg út í loftið sagt, þær tölur, og það nær ekki nokkurri átt að miða við kostnaðinn 1973. Það mun koma í ljós, strax og farið verður að vinna að uppbyggingu fjárlagafrv. fyrir næsta ár, árið 1975, ef til þess kemur, að þessi lagafrumvörp verði samþykkt, að þá muni vera þar um verulega aukinn kostnað að ræða fram yfir það, sem um getur í þessari athugun.

Nei, það er vissulega rétt, sem hæstv. forsrh. hefur haldið fram hér í sambandi við efnahagsmálin í þeirri ræðu, sem hann flutti, þegar hann lagði fram frv. ríkisstj. um viðnám gegn verðbólgu og aðrar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum, að það er vissulega um mikið hættuástand að ræða. Það er engin smáhrollvekja, sem þar er á leiðinni. Það er vissulega hægt að líkja því miklu frekar við alvarlegt hættuástand hjá íslensku þjóðinni í efnahagsmálum í dag. Og enda þótt segja megi, að ástandið sé nægjanlega dökkt, þó að stuðst sé við þá grg., sem fylgir efnahagsfrv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþingi, þá liggur það ljóst fyrir í dag, að í mörgum efnum er ástandið enn alvarlegra en þar kemur fram.

Ég tel alveg nauðsynlegt, að þegar verið er að ræða um einn þátt í þjóðarbúinu, mjög kostnaðarsaman þátt, eins og skólamálin að sjálfsögðu eru, þá sé um leið, sérstaklega eins og nú stendur á, reynt að gera sér nokkra grein fyrir afkomumöguleikum þjóðarbúsins til þess að taka á sig stóraukin útgjöld, sem hljóta að eiga sér stað samfara því, að þessi löggjöf kæmi til framkvæmda. Í aths. við frv., sem ég var að vitna til, frv. til l. um viðnám gegn verðbólgu og aðrar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum, segir, með leyfi forseta, í sambandi við afkomu atvinnuveganna, en vitanlega skiptir miklu máli, hvernig útlitið er um, að atvinnulíf geti haldið áfram, — að atvinnulífið hafi rekstrargrundvöll og geti veitt þá atvinnu, sem lífsafkoma þjóðarinnar hyggist á, — þar segir svo, með leyfi forseta:

„Að afstöðnum fiskverðs- og verðjöfnunarákvörðunum um s.l. áramót var áætlað, að hreinn hagnaður fiskfrystingar fyrir beina skatta næmi 250–300 millj. kr. á ársgrundvelli, eða rúmlega 2% af tekjunum. Í þessari áætlun var miðað við, að meðalhækkun launakostnaðar fiskiðnaðarins á fyrstu fimm mánuðum ársins yrði um 20% frá áramótum. Aðrar kostnaðarbreytingar voru áætlaðar í átt við þetta. Meðalverð mikilvægustu afurða í tekjuhliðinni, freðfiskafurða og heilfrysts fisks, var áætlað um 691/2 Bandaríkjacent hvert pund. Launakostnaðurinn í dag er a.m.k. 19% hærri,“ segir hérna, „en reiknað var með um áramót og eftir 1. júní 35% hærri. Hins vegar hefur meðalverð afurðanna, sem nefndar voru hér að framan, lækkað í 65 cent hvert pund eða um 6–7%, miðað við hugmyndir um verð í marslok. Enn ríkir þó veruleg óvissa um markaðshorfur. Hins vegar bendir fátt til annars en að þessi lækkun sé óumflýjanleg. Þessi lækkun ásamt líklegri hækkun farmgjalda veldur um 620 millj. kr. tekjumissi fyrir frystiiðnaðinn á heilu ári.“

Nú vita allir hv. þm., að nýlega er búið að ganga frá samningum í sambandi við kaupskipaflotann, og það segir sig sjálft, að þær hækkanir, sem þar var samið um, hljóta að hafa afleiðingar í þá átt, að farmgjöldin hljóta að stórhækka. Það bætist þá á kostnaðarliði framleiðslunnar, og rekstrarútgjöldin hljóta því að aukast að sama skapi. Allt eykur þetta að sjálfsögðu á þann halla, sem fyrirsjáanlegur er í sambandi við þennan atvinnuveg. En samkvæmt gildandi reglum má þó segja, að það komi sér vel fyrir núv. ríkisstj. á meðan hún situr að völdum, þangað til hún hrökklast frá, þá komi að góðum notum fyrir núv. ríkisstj. löggjöfin, sem sett var af viðreisnarstjórninni í sambandi við verðjöfnunarsjóðinn, sem komið var á varðandi sjávarútveginn. Þessi verðjöfnunarsjóður, sem nú mun nema nokkuð á annan milljarð kr., verður notaður til þess að draga nokkuð úr þeim halla, sem þarna á sér stað. Gert er ráð fyrir, að þessi sjóður muni greiða um helming þeirrar lækkunar, sem á sér stað frá því verði, sem miðað var við, þegar samningar tókust um s.l. áramót varðandi fiskverð. „En það, sem eftir stendur þá, er meira en nóg til að eyða öllum hagnaði frá fyrri áætlun,“ segir í þessu áliti, „þótt ekki kæmi fleira til. Á móti þessu má segja, að séu nokkur jákvæð atriði, t.d. heldur hærra verð á frystri loðnu en reiknað var með, en miklu meira máli skiptir, að ef fiskmjölsverð hefur lækkað frá áramótum úr 10 Bandaríkjadölum hver eggjahvítueining í nálægt 8 Bandaríkjadali (og þarf raunar mikla bjartsýni til slíks mats) þarf að reikna með lækkun tekna frystingar af seldum úrgangi til mjölvinnslu um nálægt 300 millj. kr. á heilu ári. Launahækkun — eingöngu til dagsins í dag — nemur beinlínis um 550 millj. kr. á ári fyrir frystinguna, og aðrar kostnaðarhækkanir eru varla undir 300 millj. kr. Þannig blasir við stórfelldur hallarekstur frystiiðnaðarins. Við rekstrarskilyrðin í apríl–maí 1974 gæti tapið numið 1100–1200 millj. kr. á ársgrundvelli eða 10–11% af heildartekjum. Sé reiknað með kaupgreiðsluvísitöluhækkun fram til 1. sept. (sbr. töflu hér að framan) og kostnaðaráhrifum hennar til viðbótar, stefnir tapið að óbreyttu gengi í tvöfalt hærri tölur, eða 20–22% af heildartekjum. Sé verðjöfnunarbótunum bætt við, fara þessar taphlutfallstölur að nálgast 25%, en í því sambandi má nefna, að afskriftir nema 3% af tekjum á þessari áætlun.“

Þó að það séu aðeins örfáir dagar síðan þetta frv. var lagt fyrir Alþ., er augljóst mál í dag, að þar er um algjörlega úreltar tölur að ræða, hvað varðar þetta verðlag, sem hér er vitnað til. Í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á því, að hæstv. ríkisstj. miðar hér við 10 Bandaríkjadali fyrir hverja próteineiningu í sambandi við mjölframleiðsluna. En síðan þetta átti sér stað, er ríkisstj. sjálf búin að beita sér fyrir samningum við eina viðskiptaþjóð, sem hefur keypt nær helminginn af allri mjölframleiðslunni á yfirstandandi ári, — ekki fyrir 10 Bandaríkjadollara hverja próteineiningu, heldur 61/2 dollar. Það er um þriðjungur, sem þær tölur hafa lækkað, sem byggt er á í sambandi við þetta frv. um efnahagsmál, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram. En þar með er ekki öll sagan sögð, því að til viðbótar því skeður það einni viku síðar á mjölmarkaðinum í London, að það er gerður stór samningur um sölu á þessum afurðum fyrir 5.30 Bandaríkjadali, og þá erum við farin að nálgast það, að söluverðið á próteineiningu á mjölinu, sem er stór þáttur í útflutningsverslun okkar, hafi lækkað um 50%, og sjá allir, hvert stefnir um fjárhagslega afkomu verksmiðjanna, þegar svo er komið, að verðfallið nemur um 50% frá þeim tölum, sem byggt var á, þegar verð var ákveðið um s.l. áramót.

Það má segja, til þess að allt komi fram í þessu máli, bæði björtu og svörtu hliðarnar, ekki veitir af, að björtu hliðarnar séu dregnar fram í dagsljósið líka til þess heldur að draga úr því dökka ástandi, þeim dökku hliðum, sem eru á þessum efnahagsmálum, — að staða saltfisks- og skreiðarframleiðslu virðist mun betri um þessar mundir, sagði hæstv. forsrh. í gær. En hverjum dettur í hug að fara að hengja upp skreið, þegar komin er júnímánuður? Ég veit það ekki. Flugan ,sest á fiskinn og eyðileggur hann. Ég veit ekki, hvar þessi hæstv. ráðh. hefur stundað útgerð eða fiskverkun, ef honum finnst, að það sé tímabært að tala um, að það sé góð afkoma nú í dag að fara að hengja upp skreið, þegar kominn er sumartími og hitinn hvað mestur. Það væri bara til að eyðileggja þessa framleiðslu. Nei, svona virðist vera byggt á mikilli vanþekkingu hjá mörgum af þeim mætu mönnum, sem eru að ræða þessi mál. að það er jafnvel svo, að þeim dytti kannske í hug, þegar komið er fram í júlí og ágúst, og segði þá með sömu rökum, að nú væru hrogn í góðu verði, en þá eru bara engin hrogn til í fiskinum. Það væri í beinu sambandi við það, sem kom fram í sjónvarpinu í gær, þegar hæstv. forsrh. fór að tala um, að nú væri hægt að hengja upp skreið, það væri góð afkoma hjá framleiðendum, sem væru með saltfisk og skreið, og þess vegna væri hægt að snúa sér að því og hætta þá sjálfsagt að frysta, það mundi bjarga atvinnuveginum.

Það er rétt út af fyrir sig, að staða saltfisks- og skreiðarframleiðslu virðist vera betri um þessar mundir en afkoma frystingarinnar. Saltfisksverð hefur haldið áfram að hækka, en er nú staðnað, eftir því sem ég hef fengið upplýst. Þetta veldur því samt sem áður, að rekstrarskilyrðin í apríl og maí eru betri fyrir saltfisks- og skreiðarfyrirtækin en frystiiðnaðinn. En ég held, að það hafi verið ákaflega lítið hengt upp af skreið á s.l. vertíð, og það er í beinu sambandi við það, að þorskaflinn hefur stórum minnkað, og yfirleitt eru það lökustu tegundirnar, sem hafa verið verkaðar í skreið. En hækkanir, sem fram undan eru þar til í sept. eða í haust, ég tel mjög hæpið að gera ráð fyrir þeim.

Sama máli má segja að gegni um bátaflotann. Afkoma þorskveiðibátaflotans var talin standa í járnum, eins og vetrarvertíðarskilyrðin voru áætluð um áramót. En þá var reiknað með, að olíuverðið til útgerðarinnar hefði haldist óbreytt frá haustinu 1973. En nú væri ekki úr vegi að spyrja hæstv. sjútvrh., hvað hann hygðist fyrir. Nú nálgast óðum þau tímamörk, að hlutverk sjóðsins, sem myndaður var í sambandi við 5% útflutningsgjaldið á loðnuafurðum, ljúki, og reyndar standa málin svo í dag, að sjóðurinn hefur ekki fjármagn til að greiða þær kvaðir, sem hljóta að koma á hann bara á þessu tímabili fram til maíloka. Hér stendur útgerðin að sjálfsögðu frammi fyrir miklum vanda. Reyndar hafði hæstv. ríkisstj. gefið yfirlýsingar um það, að hún mundi vilja vinna að því, að olíuverðinu fyrir bátaflotann yrði haldið niðri fram til áramóta. En hvar hæstv. ríkisstj. ætlar að fá peninga til þess að greiða það, það liggur ekki fyrir í dag, og það liggur líka ljóst fyrir, að hæstv. ríkisstj. er að fara frá völdum, því að það hlýtur að vera samþ. á hana vantraust í dag eða á morgun, og þá hlýtur hún að leggja niður störf.

Þá kemur það að sjálfsögðu í hlut þeirra, sem við taka, að finna leiðir til að fjármagna sjóðinn, til þess að hann verði fær um að draga úr þessum kostnaðarauka fyrir útgerðina. En það tel ég fullvíst, að ef ekki verður fundin leið til þess að halda olíuverðinu niðri, eins og gert hefur verið á yfirstandandi vertíð, þá muni fyrr en varir koma til rekstrarstöðvunar hjá bátaflotanum.

Á síðari hluta þessa árs blasa við, eins og allir vita, kostnaðarhækkanir. T.d. nú bara að fáum vikum liðnum eða 1. júní skellur á sú mikla hækkun, 1. júní–hækkun, sem var talið fyrir örfáum dögum að mundi nema um 13–15% í kaupgreiðsluvísitölunni. Nú er það hins vegar fullyrt, að þessi reikningur standist ekki og að hækkunin muni verða enn meiri, 15–17 % a.m.k. 1. sept. kemur enn hækkun samkvæmt gildandi lögum og kerfi, og sjá allir, að hallatölum þessarar útgerðar er þá stefnt í, eftir því sem athuganir hagrannsóknadeildarinnar hafa gefið upplýsingar um, a.m.k. um 700 millj. kr. á ársgrundvelli. En til viðbótar þessu gæti komið gífurleg olíuverðhækkun eftir áramótin, ef ekki verða gerðar nýjar ráðstafanir til þess að halda olíuverðinu niðri. Hins vegar verður ekkert sagt um það, hvort þetta olíuverð, sem nú er, standi stöðugt eða hvort það hækki eða lækki. En flest bendir til þess, að það sé ekki hægt að gera sér vonir um, að olíuverðið fari lækkandi a.m.k. á næstu mánuðum. Allt er þetta mjög ískyggilegt.

Til viðbótar kemur svo rekstur togarana. Hann stóð mjög höllum fæti þegar við síðustu áramót og sýnilegt, að rekstrarstaða þeirra muni versna mjög eftir því sem á árið líður. Gæti rekstrarhalli togaraflotans numið allt að 1 milljarði kr. á ársgrundvelli miðað við rekstrarskilyrði í sept. n.k. Eins og kunnugt er, skipaði hæstv. sjútvrh. sérstaka n. til að kanna stöðu skuttogaranna, og hún hefur fyrir stuttu skilað áliti, og ég fékk eitt eintak af þessu áliti togaranefndarinnar. Og það verð ég að segja, að það horfir mjög ískyggilega fyrir þeim atvinnurekstri. Mætti segja mér það, að sá milljarður, sem hér er talað um í því sambandi, muni reynast allt of lág tala, tapið muni verða meira, þó að ekki komi til sú gífurlega hækkun í sambandi við rekstrarkostnað togaranna, sem fyrirsjáanleg er, ef ekki verða gerðar einhverjar ráðstafanir til að hamla þar á móti. Sjávarútvegurinn allur stendur þannig frammi fyrir stórkostlegum rekstrarerfiðleikum, sem hljóta að leiða til stöðvunar, ef ekki verða gerð stórfelld átök í efnahagsmálum til þess að tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll.

Svo mætti minnast á iðnaðinn, verslunar- og þjónustustarfsemi. Allt bendir til þess, að launahækkunum þeirra yrði að mestu velt út í verðlag á heimamarkaði. Samkeppnisaðstaða þeirra greina, sem eiga í samkeppni utan að, setur þó mörk fyrir möguleika til verðhækkunar, og þar með kemur að því, að þær greinar, sem ekki njóta fjarlægðarverndar eða annarrar verndar, lenda í rekstrarerfiðleikum. Verulegar verðhækkanir erlendis að undanförnu hafa dregið úr þessu aðhaldi. En það er alls ekki rétt að vitna til þess í sambandi við iðnaðinn. Og ef til koma þær launahækkanir, sem gert er ráð fyrir, hlýtur það að hafa þau áhrif á næstu vikum, að innlendi iðnaðurinn stöðvast. En hann hefur nú því hlutverki að gegna, að metta innlenda neyslumarkaðinn og jafnframt að framleiða til útflutnings. Það segir sig sjálft, að sá atvinnuvegur, sem verður að byggja afkomu sína á heimsmarkaðsverði á sölu afurða sinna, getur ekki tekið við stórauknum álögum, útgjöldum í sambandi við reksturinn, án þess að til komi tekjur á móti, og þegar ekki er hægt að ná hækkuðu verðlagi erlendis, verður að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, heima fyrir, því að ef slíkar ráðstafanir verða ekki gerðar, hlýtur að fara eins um þessa atvinnugrein og sjávarútveginn, að hann mun stöðvast.

Þessari ungu atvinnugrein, iðnaðinum, hafa verið mjög þungar í skauti á s.l. ári og hafa leikið þennan atvinnuveg mjög hart, þær ráðstafanir, sem gerðar voru af núv. ríkisstj., þegar hækkun á gengi krónunnar átti sér stað. Það segir sig sjálft, þar sem þessi atvinnuvegur barðist í bökkum áður, að hann hlaut að enda í enn meiri erfiðleikum, eftir að þær ráðstafanir voru gerðar. Og það má segja í sambandi við gengismálin, sem vitanlega hafa mjög mikil áhrif, — gengisskráning krónunnar hefur mjög mikil áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar, — að það verður að styðjast við margt í sambandi við framleiðslu þjóðarinnar, þegar verið er að taka ákvarðanir um að breyta gengi krónunnar á hverjum tíma. Það er ábyggilega mjög varhugavert að leggja til grundvallar jafnlítinn hluta af útflutningsframleiðslunni og þegar mænt var á eina tegund framleiðslunnar, t.d. fiskblokkina. Að vísu var hún orðin stór liður í útflutningnum, en að byggja gjaldeyrisskráninguna á því, hvað blokkin seldist í dag eða á morgun, það er alveg út í hött, og ekkert þjóðfélag á að geta leyft sér að afgr. þessi mál á jafnábyrgðarlausan hátt og ég tel að hafi verið gert í sambandi við hækkun krónunnar á sínum tíma, þegar það var gert og rökstutt með því, að hækkun á þessari afurð hafði þá átt sér stað.

Nei, það eru hvorki skólamál né annað, sem við þurfum á að halda í uppbyggingu okkar þjóðarbúskapar, sem verður skipað á neinn veg án þess að líta til þess, hvernig þjóðin er fær um í sínu efnahagslífi að veita fjármagn til þess eða byggja upp fjárhagsgrundvöll til þess að standa undir þeirri þróun, sem á sér stað í þessum efnum. Skólamálin eru eins og öll önnur mál háð efnahagsafkomu þjóðarinnar, hvað við getum leyft okkur að verja miklum fjármunum til þess að standa undir því, sem við viljum byggja upp varðandi menntun og skólahald í okkar landi.

Í aths. við þetta frv., sem ég hef vitnað til, segir ýmislegt um þjóðhagshorfur og greiðslujöfnuðinn. Ég vil segja það í sambandi við greiðslujöfnuðinn, að það er út af fyrir sig einn af alvarlegustu þáttunum í sambandi við okkar efnahagslíf, hvernig þar horfir, því að í þessu áliti, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að svo geti farið, verði engar sérstakar ráðstafanir gerðar, að það verði um 8 þús. milljónir kr. viðskiptahalli á þjóðarbúinu. En þegar gengið er út frá því og það er sett fram, gerir ríkisstj. ráð fyrir því, að við getum selt alla mjölframleiðsluna frá s.l. vertíð, sem var metvertíð hvað loðnuafla snertir, — þá gerir hún ráð fyrir því, að við getum selt loðnumjölið á 10 dollara hverja próteineiningu. Síðan liggur það fyrir í dag, að ríkisstj. hefur beitt sér fyrir sölusamningum á loðnumjöli, á verulegu magni, allt að því helmingi heildarframleiðslunnar, til Póllands fyrir um 61/2 dollar. Og eins og ég sagði áðan, hafa átt sér stað sölur eftir það fyrir 5,30 dollara próteineiningin. Þá sjáum við, ef við leggjum þetta til grundvallar og aðrar lækkanir, sem eiga sér stað í þessum efnum, að þá verða það engar 8 þús. millj. kr., sem viðskiptahalli þjóðarinnar verður. Nei, það mun að vísu ekki óhætt að tvöfalda þá tölu, en hún hlýtur að fara nokkuð yfir 10 milljarða kr., viðskiptahallinn á þjóðarbúinu, ef engar ráðstafanir verða gerðar, eftir að búið er að eiga sér stað það verðhrun á okkar framleiðsluvörum eins og orðið hefur varðandi t.d. fiskimjölið, loðnumjölið. Þess vegna má segja, að þegar slíkur greiðsluhalli á sér stað á þjóðarbúinu, þá leiði annað þar af. Gjaldeyrisvarasjóður okkar hlýtur að lækka að sama skapi og í sömu hlutföllum, nema því aðeins að áfram verði haldið á þeirri braut að taka ný og ný erlend lán til þess að hyggja upp gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar. En allir sjá, að á þeirri braut verður ekki lengi haldið áfram. Gjaldeyrisvarasjóðurinn var um síðustu áramót talinn 6 þús. millj. kr. Í þessu plaggi, sem ég hef vitnað til, er gert ráð fyrir því, að hann muni hafa lækkað um næstu áramót a.m.k. um helming. En þar er ábyggilega allt of varlega til orða tekið, t.d. með tilliti til þess, sem ég vitnaði í áðan, að svo geigvænlegt verðfali hefur átt sér stað á mjölframleiðslunni. Nú vita allir að hraðfrysti fiskurinn hefur fallið og hann er fallandi, og þess vegna má gera ráð fyrir því, að um leið og viðskiptahallinn eykst enn verulega, þá muni gjaldeyrisvarasjóðurinn ekki aðeins ganga til þurrðar, heldur muni blasa við þjóðinni ekkert annað en gjaldeyrishrun, það er ekkert annað fram undan, eins og átti sér stað, þegar fyrri vinstri stjórnin hrökklaðist frá völdum á árinu 1958. Þá var búið að bjarga þjóðarbúinu áfram með lánum, erlendum lánum, og var komið svo, að það var búið að tæma þá möguleika, þannig að það fengust hvergi lán. Þess vegna blasti ekkert við annað en það hengiflug, eins og þáv. forsrh., Hermann Jónasson, sagði, að það væri ekkert fram undan í okkar efnahagsmálum annað en hengiflug, sem við mundum steypast fram af, ef áfram héldi sem þá horfði. Þá var engin samstaða innan ríkisstj. til að gera neinar úrbætur eða gera neinar ráðstafanir, sem að gagni mættu koma. Nákvæmlega það sama á sér stað í dag. Núv. hæstv. forsrh. skilar þessu frv. inn í þingið, en hann segir um leið: Um einstakar gr. þessa frv. er engin samstaða innan ríkisstj. — Og það hefur komið á daginn, og við sáum það seinast í sjónvarpinu í gær, þegar form. stjórnmálaflokkanna voru þar að leiða saman hesta sína og gera grein fyrir afstöðu sinni til þessara mála, að það var eitt og annað í þessu frv., sem meira að segja stjórnarflokkarnir voru ekki sammála um og vildu afneita á einn og annan hátt. Þess vegna má segja, að við stöndum nú frammi fyrir því sama og þegar fyrri vinstri stjórnin hrökklaðist frá völdum. Það er engin samstaða innan ríkisstj. um neina till. eða úrbætur, sem að gagni mega koma. því held ég, að það hefði verið miklu mannlegra fyrir núv. hæstv. forsrh. hreinlega að segja af sér, eins og Hermann Jónasson gerði á sínum tíma. Það var mannlegt út af fyrir sig að viðurkenna, að hann réð ekki við erfiðleikana. Hann gaf öðrum möguleika til þess að komast að og taka við og gera átak í þessum málum, sem gert var strax á árunum 1959 og 1960.

Því hefur oft verið haldið fram af núv. stjórnarflokkum, að það hafi verið fyrsta ár viðreisnarstjórnarinnar, eftir að hún tók við völdum, að það varð að lækka gengið um 50% eða tvöfalda krónuna. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á, að það, sem er til umr, í d., er frv. um skólakerfi, og vil ég biðja hv. þm. að halda sig við þau málefni, sem til umr. eru, en önnur ekki.) Það er mikið rétt, hæstv. forseti, að það eru skólamálin, sem eru til umr. hér á hv. Alþingi í dag. En oftar en einu sinni hef ég vikið að því í ræðu minni, að það gegnir sama máli um skólamálin og aðra þætti í okkar þjóðarbúskap, að við verðum að byggja á efnahagsmálum þjóðarinnar, og ef hæstv. forseti skilur það ekki, að ég hlýt að tala nokkuð um efnahagsmál, þegar ég tala um skólamálin, vegna þess að sú n., sem fékk þessi mál til meðferðar eða til þess að semja þetta frv., hefur ekki látið svo lítið að gera grein fyrir því, svo að hægt sé að byggja á, hvaða afleiðingar það hefur fyrir fjárhagsstöðu þjóðarinnar eða útgjöld í t.d. næstu fjárlögum, ef þetta frv. verður að lögum. Ef það lægi nú fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefði undirbúið þannig málið fyrir Alþingi, að við gætum gert okkur grein fyrir, hversu mikinn kostnað leiddi af þessu, þá horfði málið allt öðruvísi við. En á meðan það er uppi í skýjunum og við getum ekki gert okkur grein fyrir, hvaða fjárhagslegar skuldbindingar þjóðin er að binda sér með því að samþ. þessi frv., sem hér liggja fyrir til afgreiðslu, þá er ekki óeðlilegt, að það sé talað um efnahagsmál þjóðarinnar, sérstaklega þegar við blasir það hættuástand, sem nú er fram undan að álíti hæstv. forsrh., eins og hann hefur haldið fram og kemur skýrt fram í frv., sem ég hef hér nokkuð vitnað til. Ég hef ekki farið það langt frá málinu, að mér finnist ástæða til að áminna mig um það. Ég man nú ekki, hvaða frv. við vorum að ræða, en hv. vinur minn, Páll Þorsteinsson, var að flytja hér einu sinni ræðu á Alþ. á sínum tíma um nokkuð, það voru ekki tollamál, sem við vorum þá að ræða um, - en ég minnist þess, að hann tók með sér tollskrána hér upp í púltið og hann las grein fyrir grein. Hann talaði um, að það þyrfti að lækka tollinn á exporti og kaffi og öðru þess háttar, sem kom á engan hátt málinu við. En ég vil aftur halda því fram, að efnislega haldi ég mig við málið. Það er svo margt, sem er tengt skólamálunum, og fjármálin eru náttúrlega stór liður í sambandi við skólamálin og reyndar heildaruppbyggingu okkar þjóðfélags. Þess vegna verður ekki fram hjá því komist, sérstaklega með tilliti til þess, hvernig þessi mál standa núna fyrir hugskotssjónum alþm., þar sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt á borðið hjá okkur frv., sem skýrir frá því, að það sé alvarlegt hættuástand fram undan hjá þjóðarbúinu í efnahagsmálum. Hví skyldum við ekki tala um efnahagsmálin, eins og ég hef gert hér, þegar við erum að samþ. stóran lagabálk í sambandi við menntamálin og skólamálin, sem eru stór útgjaldaliður á fjárlögum. Ég held, að það sé vissulega ástæða til þess, að taka það með í reikninginn, um leið og við ræðum skólamálin, að til þess að við getum haldið uppi miklum og myndarlegum menntastofnunum og skólum, þá þurfum við fjármagn, og við verðum að undirbyggja það á skynsamlegan hátt.

Það er ýmislegt fleira, sem kemur fram í þessu plaggi, sem ég hef svo oft vitnað hér til. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Atburðarás síðustu vikna og mánaða á sviði efnahagsmála hefur verið svo ör og breytingar verðlags og launa svo tíðar og miklar, að torvelt er að setja fram nákvæmt mat á þjóðarhagshorfum ársins. Sama gildir að miklu leyti um það mat á afkomuhorfum atvinnuvega, sem fram kom hér að framan“ — og ég hef vikið allítarlega að hér áður. „Þetta er nauðsynlegt,“ segir hæstv. forsrh., „að hafa í huga, þegar tölurnar eru skoðaðar. Hitt er svo jafnvíst, hvað sem nákvæmni talnanna liður, að efnahagsveðramótin fram undan eru svo skörp og vandamálin, sem þeim fylgja, svo alvarleg, að varla er of fast að orði kveðið, þótt ástandið fram undan sé nefnt hættuástand.“

Ég held, að það sé gott fyrir okkur hv. alþm. að gera okkur grein fyrir því og taka nokkuð mark af því, sem hæstv. forsrh. segir, og tekur fram í þessari grg. Þess vegna er okkur nauðsynlegt að fá það upplýst betur en nú er ljóst, hvað leiðir af þessari löggjöf, hvað leiðir af samþykkt þessara frv. beggja um skólamálin, sem eru til afgreiðslu í hv. d. og hafa verið hér aðeins í fáa daga, miðað við allan þann meðgöngutíma, sem þetta frv. hefur haft á hinu háa Alþ. Frv. er búið að vera á Alþ. í fjöldamörg ár, og ég skil það út af fyrir sig, að þeir, sem standa að þessum króga, vilji koma honum eitthvað áfram. Þeir vilja ekki horfa upp á það, að þetta verði einhver eilífðarstúdent í þessari stofnun. En það virðist nú margt benda til þess, að það gangi mjög illa að fá fullnaðarprófið í þessu sambandi.

Það var sagt, svo að ég haldi áfram með efnahagsmálin, því að ég tel þau nátengd því, sem hér er um að ræða. „Við upphaf ársins var reiknað með því, að aukning þjóðarframleiðslu á árinu gæti orðið 4–5%.“ Menn skulu taka eftir því. „Vegna versnandi viðskiptakjara,“ — sem vissulega verða miklu verri en hér er reiknað með, eftir því sem fram hefur komið síðan þetta frv. var samið, — „var reiknað með minni aukningu þjóðartekna og þjóðarframleiðslu, eða 3–4% aukningu. Þessi hugmynd um aukningu þjóðarframleiðslu virðist geta staðist,“ segir hæstv. forsrh., „takist að tryggja ótruflaðan rekstur atvinnuveganna.“ En hver segir í dag, að það sé hægt að tryggja ótruflaðan rekstur atvinnuveganna? „Hins vegar er fremur við því að búast, að rýrnun viðskiptakjaranna verði meiri“ — og það er rétt hjá hæstv. forsrh. — „en fyrr var spáð.“ Rýrnun viðskiptakjaranna verður vissulega miklu meiri en komið hefur fram.

„Þannig er nú búist við, að aukning þjóðartekna verði ekki nema tæplega 2% milli áranna, 1973 og 1974. Þjóðarútgjöldunum er hins vegar að öllu óbreyttu stefnt langt yfir þetta mark, Aukning einkaneyslu stefnir í 10% á árinu,“ — og hún stefnir vissulega í miklu meira en 10%. Fjárfestingaráform bæði hins opinbera og einkaaðila eru mjög hátt stillt: En náttúrlega verða fjárfestingaráform hins opinbera skorin niður. Það er búið að gera því skóna, að það eigi að skera niður um 11/2 milljarð kr., og það verður látið lenda að verulegu leyti á fjárfestingarliðunum. Það verður sjálfsagt fyrst og fremst gengið á þá, vegna þess að í sambandi við reksturinn er þetta meira og minna bundið. Miðað við það að breyta ekki lögum, sem hafa veruleg áhrif í sambandi við útgjöld ríkissjóðs, verða enn verulega stórir þættir heildarútgjaldanna óbreyttir. Við vitum, að þriðja hver króna af fjárl. fer til tryggingamálanna, og því verður ekki breytt með niðurskurði. Það verður að breyta lögum, ef einhverju á að breyta þar. Svo má segja, að sé um fjölmarga liði í sambandi við útgjöldin, að þeim verður ekki breytt nema með sérstakri löggjöf. Og eins og nú horfir, þegar komin er fram vantrauststill. á ríkisstj., þá segir sig sjálft, að hún kemur ekki til með að bera fram mörg lagafrv. á þessu þingi. Hún mun annaðhvort hrökklast frá völdum nú næstu daga ellegar þá að hún mun segja af sér og ný stjórn taka við völdum í þessu landi. Og það hefða verið eðlileg viðbrögð núv, hæstv. forsrh. að segja af sér, eftir að honum er orðið ljóst, að hann er komin í minni hl. á þingi.

Hann hefur marglýst því yfir, hæstv. forsrh., að ef það komi fram vantraust á sig, þá muni hann víkja, en án þess að vantraust komi, muni hann ekki víkja. Nú er vantraustið komið fram, og nú á hæstv. forsrh. að standa við stóru orðin og láta fara fram atkvgr. um þá till., sem var lögð á borð okkar alþm. í gær um vantraust á hæstv. ríkisstj., og síðan á hann að taka afleiðingum af þeirri atkvgr., þegar hún hefur farið fram. Enginn vafi er á, að vantraustið verður samþ. Hitt er svo verið að ræða um núna, og heyrist mjög um það rætt, að hæstv. forsrh, ætli ekki að sýna þennan manndóm, heldur ætli hann nú að rjúfa þing, hlaupa frá öllu ógerðu í sambandi við efnahagsmálin og annað, sem talið er að sé í bráðri hættu, og stjórna síðan með bráðabirgðalögum fram yfir næstu kosningar. Þetta er vitanlega, — þó að stjórnskipulega geti það staðist, — ekki í neinu samræmi við þingræði og lýðræði, sem Íslendingar ættu að hafa í hávegum.

Það mætti að sjálfsögðu segja margt fleira í sambandi við efnahagsmálin, margt fleira en það, sem ég hef þegar sagt. Ég hef talið sjálfsagt í sambandi við það mál, sem hér er til umr., og bæði þessi frv., sem um er að ræða varðandi skólamálin, að gera nokkra grein fyrir stöðu þjóðarinnar í efnahagsmálunum, og því hef ég farið allítarlega út í þau í sambandi við þessa umr. Ég tel, að það væri lágmarksskylda þeirrar n. og þeirra manna, sem standa að frv., sem hér eru til umr., að þeir gerðu Alþ. grein fyrir, hvað mikinn kostnað leiddi af því, ef frv. verða samþ.