08.05.1974
Efri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4329 í B-deild Alþingistíðinda. (3911)

9. mál, grunnskóli

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður mótmæla þeim ummælum, sem 1. þm. Vestf. viðhafði hér áðan. Maður hélt, að þær brtt., sem 6 nm. af 7 leggja til, ættu vísan framgang hér í d. Það kom þó á daginn, að svo ætlaði ekki að verða. Ég vil líka minna á, að samþ. var brtt, frá þessum hv. þm. og Ragnari Arnalds, sem við sjálfstæðismenn erum algjörlega mótfallnir. Um þessa brtt. urðu harðar deilur í Nd. Alþ. Að vísu var hún að því leyti öðruvísi, að fortakslaust var borgarstjórn Reykjavíkur sagt fyrir verkum að skipa skólanefndir við alla skóla í bænum. Ég skal taka það fram, að í viðtali við hæstv. menntmrh, tjáði hann mér, að hann hefði ekki gert sér grein fyrir hinum djúpstæða ágreiningi, sem hefði orðið um þessa till., og ekki fylgst það með umr., að hann hafi um það vitað. Ég vil láta það koma fram, að þetta hefur hann sagt í viðtali við mig, og ég efa ekki, að þar er rétt frá greint.

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson lét þau orð falla í sambandi við þessa brtt., sem hann flutti og fékk samþ., að það væri líklega vegna þess, að sjálfstæðismenn væru hræddir við að missa borgarstjórnarmeirihlutann hér í Reykjavík og þeir, sem á eftir kæmu, mundu nota þessa heimild. Ég ætla að segja honum það, að ef þeir, sem við tækju eftir sjálfstæðismenn í borgarstj., sem engum dettur í hug að verði við þessar kosningar, kynnu skil á skólamálum síns borgarfélags, mundu þeir aldrei nota heimildina.

Ég ætla þá að koma að ummælum hæstv. menntmrh. í nótt við 2. umr. um grunnskólafrv. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki samboðið virðingu þingsins að láta þetta þing líða til viðbótar hinum, sem undanfarið hafa verið, svo að þetta frv. fengi ekki afgreiðslu. En ég verð að segja það, að mér þykir það ekki samboðið virðingu þingsins, hvernig hefur verið farið með okkur þm. í þessari hv. þd. Ég hafði þegar í gær uppi gagnrýni á málsmeðferð, þegar málið var tekið fyrir á kvöldfundi, seint að kvöldi, og ekki hafði gefist nokkurt tóm til að búa sig undir að ræða málið, síðan það var afgr. úr þn. í gærmorgun. Þetta var allt að einu gert, að taka málið fyrir, og það var komið langt fram yfir miðnætti, þegar mér var gefið orðið í umr., og umr. héldu síðan áfram til kl. 3.30. Þm, voru komnir heim til sín undir kl. 4. Ég hafði boðað, að ég mundi flytja brtt. við frv. við 3. umr. Þegar ég kom heim til mín kl. að verða 4 í nótt, mátti ég setjast við að semja brtt. með hliðsjón af því, sem n. hafði flutt, og því, sem samþ. var við atkvgr. hér í gærkvöld — eða í morgun er víst réttara að segja. Síðan eiga menn að vera mættir hér á þingdeildarfundi kl. 10 í morgun. Sjá allir, að það hefur ekki verið um mikinn svefn að ræða hjá þdm., a.m.k. ekki hjá mér.

Ég mun hér á eftir gera grein fyrir brtt. mínum, en ég vil taka það fram, að ég ætla ekki að halda uppi neinu málþófi hér í sambandi við þetta mál. En mér fannst það satt að segja grátbroslegt, þegar hæstv. ráðh. var að þakka menntmn. fyrir rækilega meðferð á þessu máli. Ég vil þá rifja það upp, sem ég tæpti á í gær og hef kannað síðan, hvort ekki væri rétt, að málinu hafi verið vísað til n. 19. apríl. 19. apríl er málinu vísað til n. Er það fyrst tekið fyrir viku síðar í n. Það liðu sem sé þessir dagar frá 19, apríl til 1. maí, áður en málið var tekið fyrir. Þá vorum við, — ég held, að ég muni það örugglega rétt, — kölluð til fundar síðdegis og sátum þar yfir frv. Síðan höfum við komið á kvöldfundi í menntmn., og frv. hefur verið rætt þessa viku á fáeinum fundum. Sér hver maður, þegar n. í Nd. þurfti 20 fundi og ég veit ekki hvað marga mánuði, til þess að hún teldi nógu rækilega yfir frv. farið, hvernig þessi vinnubrögð hafa verið hjá okkur. En ég vil taka það fram, að ég hef sýnt og við fulltrúar Sjálfstfl., — og ég má sjálfsagt segja það um nm. alla, — við höfum sýnt fyllsta vilja til að koma þessu frv. í gegnum þingið. Við höfum mætt á fundum, sætt okkur við svo ófullkomna yfirferð frv. í þingn. og að lokum mælt með samþykkt þess. Þau meðmæli byggðust auðvitað, a.m.k. hvað mig snertir, að verulegu leyti á því, að samstaða náðist í n., bæði allri n. um brtt. og svo samstaða 6 nm. um ákveðna brtt., sem ég a.m.k. lagði ákaflega mikið upp úr. Ég held þess vegna, að það sé ekki nokkur leið að segja, að við höfum viljað vera dragbítar á þetta mál og að við höfum ekki viljað greiða fyrir því, að það fengi afgreiðslu út úr þessari hv. þd.

Ég skal þá snúa mér að þeim brtt., sem ég hafði áður boðað, að ég mundi flytja við 3. umr. málsins. Þær eru skriflegar. Ég satt að segja setti þær ekki í fjölritun, vegna þess að í morgun var ekki sýnt, hvernig fara mundi um fundarstörfin, og ég vildi hafa þær við höndina. Enn fremur hafði ég þær ekki fullkomlega í því formi, sem ég flyt þær, öðruvísi en handskrifaðar. Það er að vísu bagalegt fyrir hv. þdm., að þær skuli vera skriflegar, þegar þeir eiga að taka afstöðu til allmargra brtt. Það má sjálfsagt bæta úr því með því, að þegar til atkvgr. kemur, geri forseti stuttlega grein fyrir þeim, úr því að menn hafa þær ekki fyrir framan sig. En ég skal þá víkja að brtt.

Það er þá í fyrsta lagi brtt. við 1. gr. frv. Það er varatill. Ég vil taka það fram, að hún kemur ekki til atkv., ef samþ. verða 1. og 2. brtt. okkar sexmenninganna, sem áður vorum, — við erum víst eftir þrjú sem flm. brtt. á þskj. 863. Þessi brtt., sem við vorum upphaflega 6 flm. að, er um það, að skólaskyldan verði til 15 ára aldurs, en að sjálfsögðu að fræðsluskylda standi óbreytt. Nú lítur út fyrir, að þessi brtt., sem við stóðum 6 að í upphafi, verði felld, og þess vegna flyt ég varatill., ef svo skyldi fara, að 1. og 2. brtt. yrðu felldar, — varatill., sem er svo hljóðandi:

„Varatill. við 1. gr. Við greinina bætist ný málsgr., svo hljóðandi:

Heimilt er sveitarstjórn, að fenginni umsögn fræðsluráðs, að ákveða, að skyldunám skuli ná til 7–15 ára barna og unglinga, enda samþykki menntmrn. þá ákvörðun.“

Þetta var fyrsta brtt. mín.

Þá er 2. brtt. við 3. gr. frv. — Mér þætti vænt um, ef hv. form. n. gæfi sér tíma til að hlusta á brtt., sem fluttar eru við frv. — 2. brtt. er við 3. gr. Eins og gr. er nú orðuð, er hægt að skipta skóla í einingar, eftir því sem menntmrn. ákveður, að fengnum till. hlutaðeigandi fræðsluráðs. Ég geri þá brtt., að 2. málsgr. orðist svo:

„Hann getur verið ein stofnun eða verið skipt í einingar, tvær eða fleiri, eftir því sem hlutaðeigandi fræðsluráð ákveður.“

Ég tel rétt, að það sé á valdi fræðsluráðs að ákveða skiptingu í einingar, því að því eru kunnugastar allar forsendur, sem þurfa að vera fyrir slíkri skiptingu.

Þá er 3. brtt. mín, sem er við 4. gr. frv. Þar er talað um útibú frá aðalskólum. Þar segir, að heimilt sé rn. að fenginni till. hlutaðeigandi fræðsluráðs að koma á fót útibúum. Þetta vil ég orða þannig: Í stað orðanna „rn. að fenginni till. hlutaðeigandi fræðsluráðs“ komi: fræðsluráði með samþykki menntmrn.“ Ég álít að þetta sé mál, sem eigi að vera á valdi fræðsluráðsins, sem þekkir allar aðstæður best og hefur besta aðstöðu til að gera sér grein fyrir nauðsyn slíkrar ráðstöfunar.

Þá er það 4. brtt. mín, sem er við 11. gr. frv. 11. gr. frv. fjallar um, hvernig fræðsluráð skuli skipað og hvernig það skuli kosið. Í frv. segir upphaflega, að fræðsluráð skuli skipað 5 eða 7 mönnum, eins og hv. þdm. geta reyndar lesið í frv., sem þeir hafa fyrir framan sig. En þessu var breytt í hv. Nd. á þann veg, að landshlutasamtökin skyldu kjósa aðeins 5, en kennarasamtök og skólastjórar skyldu tilnefna sinn manninn hvor aðili. Þetta þýðir í fyrsta lagi það, að sá fjöldi, sem sveitarstjórnunum er heimilt að kjósa, er þarna minnkaður niður í 5. Það ráðrúm, sem var gefið í frv., var einmitt með hliðsjón af því, að það kynnu að vera fleiri skólar en 5 og fleiri sveitarfélög en 5, sem stæðu að skólum innan umdæmisins, og þess vegna væri eðlilegt, að það væri hægt að koma því við, að landshlutasamtökin gætu komið fulltrúum sem flestra skólahverfa þarna inn. Með breyt. í Nd. er þetta þrengt, og þarna eiga kennarasamtök og skólastjórar að kjósa sinn manninn hvor aðili.

Lítum nú nánar á kennarasamtök. Það er ekkert skilgreint, hvað sé átt við. Það eru margs konar kennarasamtök til, t.d. hérna í Reykjavík, fyrir svo utan landssamtök og kennarasamtök, sem bundin eru við landshluta. Ég veit ekki, hvort þan eru til utan Reykjavíkur miðað við þá landshlutaskiptingu, sem við almennt hugsum okkur að hljóti að verði. Þess vegna er brtt. mín við 11. gr., að 1. málsgr. orðist eins og upphaflega stóð í frv.: Fræðsluráð skal skipað 5 eða 7 mönnum, sem kjörnir eru af hlutaðeigandi landshlutasamtökum, sem ákveða fjölda þeirra samkv. framansögðu“ o.s.frv. Ég skal ekki lengja mál mitt með því að fara að lesa það upp, enda hafa menn það fyrir framan sig bæði prentað og fjölritað.

Þá er það næst brtt. við 12. gr. frv., 4. tölul. Þar stendur, þegar talað er um verkefni fræðsluráðs: „Það gerir till. til menntmrn. um ráðningu fræðslustjóra umdæmisins.“ Er það í samhengi við næstu brtt. mína, að ég legg til, að þetta orðist þannig, að í stað þess að gera till. til menntmrn. komi: hlutaðeigandi landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Þá kem ég að brtt. við 13. gr., sem er um fræðslustjórana. í frv., eins og það liggur fyrir og reyndar frá upphafi stendur í 13. gr.: „Menntmrn. setur eða skipar fræðslustjóra að fengnum till. hlutaðeigandi fræðsluráðs.“ Í næstu málsgr. stendur svo eðlilega í framhaldi af þessu, að menntmrn. auglýsi stöðu fræðslustjóra og setji hann til eins árs o.s.frv. Á þessu vil ég gera þá breytingu, að ég vil láta orða 1. mgr. þannig: „Landshlutasamtök sveitarfélaga setja eða skipa fræðslustjóra.“ Eins og fyrri brtt. miðar þessi brtt. að því að færa aukið vald út í byggðirnar, leggja fræðsluráðunum aukið vald í hendur, en ekki miðstýrt frá menntmrn., eins og nú er. Í samræmi við þetta er brtt. við 2. mgr., að í stað þess að menntmrn. auglýsi, þá komi, að landshlutasamtök sveitarfélaga auglýsi þessar fræðslustjórastöður.

Nú kann svo að vera, að einhver segi: Fræðslustjórarnir eru ríkisstarfsmenn, þeir eru launaðir af ríkinu, og þess vegna er óeðlilegt, að þeir séu ekki skipaðir af menntmrh. Til þess að mæta slíkri gagnrýni þeirra, sem ekki kynnu að vilja samþ. það orðalag, sem ég hef nú lýst, flyt ég varatill. um það, að 1. mgr. orðist þá svo: „Menntmrn. setur eða skipar fræðslustjóra samkv. till. hlutaðeigandi landshlutasamtaka sveitarfélaga.“ Það er þá í höndum landshlutasamtakanna, hver umsækjandi fái meðmæli í stöðuna, og menntmrn, skuli fara eftir þeirri till., sem landshlutasamtökin gera þar um.

7. brtt. mín er við 14. gr. frv. Það má kannske segja, að hún sé nokkuð tengd síðustu brtt. við 13. gr., sem ég flutti. Hún er við 1. mgr. 14. gr., sem er þannig orðuð í frv.: „Fræðslustjóri er fulltrúi menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarfélaga um fræðslumál,“ o.s.frv. Ég legg til. að þessi 1. mgr. verði þannig orðuð: „Fræðslustjóri er framkvæmdastjóri fræðsluráðs og fulltrúi menntmrn. Hann veitir forstöðu fræðsluskrifstofu umdæmisins.“

Næsta brtt. mín er við 15. gr. frv. Hún er á þá leið, að í stað 1. og 2. mgr. komi ný mgr., sem sé svo hljóðandi: „Landshlutasamtök sveitarfélaga ákveða fræðsluskrifstofu stað, en fræðsluráð ræður starfsfólk hennar að fengnum till. fræðslustjóra.“ Sú breyt., sem í þessu felst, er, að landshlutasamtökin skuli ákveða fræðsluskrifstofunni stað og það þurfi ekki að vera háð samþykki menntmrn., hvar hún skuli vera.

Í þessari sömu gr. segir svo í niðurlagi gr.: „Á hliðstæðan hátt er fræðsluráði heimilt að semja svo við landshlutasamtök, að skrifstofa þeirra eða einstakra starfsdeilda innan þeirra annist störf fyrir fræðsluskrifstofu, enda komi samþykki menntmrn. til.“ Till. mín er sú, að þessi orð: „enda komi samþykki menntmrn. til“ — falli niður. Ég sé ekki, að það sé nokkur þörf fyrir þau í þessu tilfelli.

Þá kem ég að 9. brtt., sem er að vísu alllöng. Hún er við 16. gr. frv. 4. mgr., eins og hún er nú í frv., hafa hv. þdm. hana fyrir framan sig. Till. mín er sú, að 4. mgr. orðist svo:

„Landshlutasamtök sveitarfélaga gera í samráði við menntmrn. áætlun um skiptingu hvers umdæmis í skólahverfi og leggja till. sínar þar um fyrir fræðsluráð sem umræðugrundvöll, en fræðsluráð kynnir þær sveitarstjórnum, skólanefndum og skólastjórum, sem hlut eiga að máli. Lögð skal áhersla á, að samkomulag verði með aðilum, en takist það ekki innan hóflegs tíma, kveður rn, til eins fundar eða fleiri með þessum aðilum um til. Náist ekki samkomulag, sker menntmrn. úr.“

Breyt. er sem sé sú, að í stað menntmrn. séu það landshlutasamtökin, sem geri áætlun um skiptingu umdæmanna í skólahverfi, hvert í sínum landshluta, og síðan, ef einhver ágreiningur verður um það, sem vel er hugsanlegt að geti orðið innan landshlutaumdæmanna, þá komi menntmrn. til og höggvi á hnútinn ef með þarf.

10. brtt. mín er við 24. gr. frv., síðustu mgr., á bls. 12. Í þessari grein segir, að óski sveitarfélög, að gert sé ráð fyrir aðstöðu til félagsstarfsemi eða slíks í sjúkrahúsi eða í tengslum við það, þá sé það heimilt. Nú stendur í frv.: „enda samþ. menntmrn. og skólanefnd uppdrætti.“ Ég legg til, að í stað þessara orða: „enda samþykki menntmrn. og skólanefnd uppdrætti“ komi orðin: „enda hamli notkun slíks húsnæðis ekki skólastarfi að dómi skólanefndar og menntmrn.“ Ef menntmrn. og skólanefnd telja ekki, að þetta standi skólastarfinu fyrir þrifum á neinn hátt, getur sveitarfélagið ákveðið, að húsið skuli byggt á þennan veg, enda segir í niðurlagi mgr., að sveitarfélagið greiði þá stofnkostnað af þeim hluta húsnæðisins, sem ekki sé beinlínis tilheyrandi sjálfu skólastarfinu.

Þá get ég nú farið nokkuð fljótt yfir sögu, því að næsta brtt. mín er við 65. gr. frv. Það hefur reyndar þegar verið gerð á þeirri grein bragarbót með till. menntmn., en brtt. mín er um það, að orðið „opinberum“ þ.e.a.s. opinberum kennslustofnunum, sem er í næstefstu línu, falli burt. Í gr. segir, að menntmrn. geti veitt einstökum fræðsluumdæmum, skólahverfum og opinberum kennslustofnunum heimild til að starfrækja tilraunaskóla eða til að gera tilraun um ákveðna þætti skólastarfs. En mér finnst, að það eigi ekki að útiloka neina stofnun, þó að hún sé ekki opinber kennslustofnun, því að það er hvort sem er alltaf háð mati rn., hvort eigi að veita leyfið. En að girða alveg fyrir, að það geti verið veitt stofnun, sem ekki er talin opinber stofnun, það held ég, að sé ekki rétt.

Þá er loks síðasta brtt., sú 12. Hún er við 71. gr. frv., 2. mgr., sem er örstutt og er svo hljóðandi í frv.: „Rn. setur starfsmönnum erindisbréf að fengnum till. fræðsluráðs.“ Ég legg til, að þetta orðist svo: „Rn. setur starfsmönnum erindisbréf í samráði við fræðsluráð.“ Það kveður nokkuð fastar á um, að tekið skuli tillit til skoðana fræðsluráðs í þeim efnum.

Ég hef þá rakið þær brtt., sem ég flyt. Ég endurtek, að það er sjálfsagt ekkert þægilegt fyrir hv. þdm, að átta sig á þeim við að heyra þær lesnar, en ég endurtek líka, að ég vænti þess, að forseti láti þess getið við atkvgr. í örfáum orðum, um hvað hver fjallar, því að það segir sjálfsagt ekki hv. þdm. mikið, þó að sagt sé: Þá er borin upp 1., 2., 3, eða 4. brtt.

Þessar brtt., sem eru skriflegar, leyfi ég mér að nefna hæstv. forseta með ósk um, að hann leiti afbrigða, svo að þær megi koma hér til umr. og afgreiðslu.

Brtt. á þskj. 863 voru fluttar, eins og fram kemur, af okkur 6 nm, í menntmn. Nú hafa 3 hv. meðnm. mínir lýst því yfir, að þeir séu ekki lengur flm. að þessari till., og allt útlit er fyrir, að þeir muni greiða atkvæði gegn brtt. Ég vil lýsa því yfir, að ég held fast við þessa brtt. og meðnm. minn, Hildur Einarsdóttir, og ég ætla, að sama gildi um Jón Árm. Héðinsson.

Ég skal þá ekki orðlengja þetta frekar. Ég gat varla gert í skemmra máli grein fyrir brtt. og drepið á einstök atriði, sem ég taldi, að ég gæti tæpast látið fram hjá mér fara án þess að minnast þeirra.