08.05.1974
Efri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4337 í B-deild Alþingistíðinda. (3916)

9. mál, grunnskóli

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Vegna þeirra orða, sem hv. 2. þm. Reykv. beindi til mín í ræðu sinni áðan, vil ég aðeins taka það fram, að við mig er að sjálfsögðu að sakast og enga aðra, ef hv. þm. eða þingmönnum þykir óhönduglega hafa til tekist um meðferð þessa máls í hv. deild. Ég fyrir mitt leyti tek þá ábyrgð fúslega á mig, vegna þess hversu ég tel málið, sem um er fjallað, þýðingarmikið og brýnt, að það hljóti afgreiðslu eftir langa meðferð hér á Alþ. Ég vil enn fremur skýra frá því vegna ummæla sama hv. þm., að því fór fjarri, að ég gerði mér það ljóst á fundinum í nótt, að hv. þm. og flokkssystkini hans teldu það beinlínis ögrun við sig og sína afstöðu í þessu máli, að ég skyldi greiða atkv. með brtt. á þskj. 864. Hefði mér verið þetta ljóst, hefði ég reynt að hafa áhrif á það, að sú till. ýrði tekin aftur. En þar sem það gerðist ekki, hef ég fyrir mitt leyti fallist á að flytja brtt. um að þetta atriði verði fært í fyrra horf. Ég flyt því brtt. við 18. gr. frv. um grunnskóla, að 6. málsgr. orðist svo:

„Í Reykjavík fer fræðsluráð með hlutverk skólanefndar. Þar skulu kennarafulltrúar vera þrír. A.m.k. þrisvar á skólaári heldur fræðsluráð fundi með skólastjórum á grunnskólastigi í Reykjavík.“

Ég vil leyfa mér að óska eftir, að hæstv. forseti leiti afbrigða, til að þessi till. megi koma til atkv.

Hv. 6. þm. Reykv. flutti hér margar brtt. við ýmis ákvæði frv., og ætla ég lítillega að gera nokkrar þeirra að umtalsefni. Sérstaklega vil ég lýsa afstöðu minni til brtt. við ákvæði 11. gr. um kjör fulltrúa í fræðsluráðið. Þar breytti Nd. vali fulltrúa frá því, sem lagt hafði verið til í frv. í öndverðu, og í umr. í Nd. lagðist ég gegn þessari brtt. Afstaða mín í þessu efni er óbreytt. Ég tel það tvímælalaust affarasælla, að allir fræðsluráðsmenn séu kjörnir á sama hátt og að það sé aðili, sem hefur bakhjarl í almenna kjósendahópnum, sem velur þá, en ekki starfshópar eða stéttarfélög. Og ég er þess fullviss af reynslu af fræðsluráðum, þar sem þau hafa starfað, að þetta tryggir engu síður og jafnvel að sínu leyti betur, að mínum dómi, að skólamenn hljóti sæti í fræðsluráðunum. Ég vil því eindregið lýsa stuðningi mínum við þessa brtt. hv. 6. þm. Reykv., hina fjórðu í röðinni.

Önnur veigamikil brtt. og reyndar margar brtt. hv. þm. fjalla um það, að ráðning fræðslustjóra skuli alfarið flutt í hendur landshlutasamtakanna. Þar er ég ekki samþykkur hv. þm. Ég ræddi þetta mál á sínum tíma í hv. Nd. Ég er enn sama sinnis og ég sannfærist um það, eftir því sem ég ræði þetta mál betur og hugsa það hefur, að vegna þess, hvernig starfi fræðslustjóra er háttað og hversu þýðingarmikill hlekkur hann er í því kerfi, sem grunnskólafrv. gerir ráð fyrir, þá sé afar nauðsynlegt, að hann njóti fulls trausts og trúnaðar menntmrn. Hann er sá maður, sem á að fara með það vald, sem með frv. er gert ráð fyrir, að dreifist út í landshlutana frá menntmrn. Því tel ég afar nauðsynlegt, að hann sé skipaður eða settur af rn. En lifandi tengsl hans við fræðsluráðið og landshlutasamtökin spretta að sjálfsögðu af því, að starfslið hans er ráðið af þeim, og fræðsluráðin leggja honum í hendur að miklu leyti verkfærin til að vinna sitt verk. Ég held, að sú leið, sem valin er í frv., eins og það er nú, sé óhjákvæmileg, eins og málum er háttað.

Ég mun ekki ræða frekar brtt. hv. 6. þm. Reykv., aðrar en þá, sem hv. þm. flutti í öndverðu með 5 þm. öðrum, en flytur nú við þriðja mann, um breytingar á skólaskyldunni. Þar vil ég aðeins í fáum orðum ítreka það, sem ég hef áður sagt við síðustu umr., að ég tel, að ekki sé stefnandi í þá tvísýnu, sem málinu er teflt í með því að breyta nú þessu ákvæði, heldur geri mér vonir um, að það ákvæði til bráðabirgða, sem 3 hv. þm. flytja till. um á þskj. 880, megi fullnægja báðum sjónarmiðum í þessu máli, að það sé fastmælum bundið í lögunum, að þetta atriði skuli skoðað á ný, þegar líður á undirbúningstímann, sem ráðgerður er í frv., að því að skólaskyldan lengist.