08.05.1974
Neðri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4343 í B-deild Alþingistíðinda. (3932)

Umræður utan dagskrár

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það þarf engan að undra, þótt umr, hefjist um þingrofsréttinn um þessar mundir, né heldur um það, hver beiti honum og hvernig honum sé beitt og á hvaða réttargrundvelli honum sé beitt. Ég tók það fram í örstuttu máli á dögunum, að ég væri þeirrar skoðunar, að það væri fásinna, það væri fjarstæða, það væri mótsögn í sjálfu sér, að minnihlutastjórn, sem viðurkennir sjálf að vera komin í minni hl. á Alþingi Íslendinga, rjúfi þing, reki meiri hl. heim, allra helst ef stæði til að svipta hann umboði, sem aðrir hafa veitt, sem kjósendur hafa veitt til næstu kosninga.

Hæstv. forsrh. þykist sjálfsagt tveim fótum í jötu standa sem fræðimaður í þessum efnum. En svo mikið er víst, að í hans fræðum finnst það líka, að hann segir þar berum orðum, að ef ríkisstj. veit, að hún er í minni hl. á Alþ., þá á hún að segja af sér. (Forsrh.: Nema hún rjúfi þing.) Nei, þetta eru því miður ósannindi hjá hæstv. forsrh., framhaldið er ekki þetta, heldur: „eða lúta vantrausti.“ „Ber að segja af sér“, stendur þarna í samhengi, — „ef hún veit, að hún er í minni hl. á Alþ., eða lúta vantrausti,“ en ekki það, sem hann segir nú. Það er einhvers staðar annars staðar í fræðum hans, en þá er ekki samhengi í fræðunum heldur.

Einn fræðimann áttum við á þessu sviði auk þeirra tveggja, sem nefndir hafa verið, Bjarna heitins Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar. Það var Einar heitinn Arnórsson. Hann hefur skrifað mikið rit um Alþingi Íslendinga. Á bls. 575 í þeirri stóru og þykku bók stendur, með leyfi hæstv. forseta, um þingbundna stjórn samkv. 1. gr. stjórnarskrárinnar, — það er það, sem hann vitnar til og segir síðan: „Í þessu hugtaki felst það m.a., að þingið eigi að ráða þeirri höfuðstefnu eða þeim höfuðstefnum, sem ríkja eiga um stjórn landsins og löggjöf, og til þess er nauðsynlegt, að það eigi þess kost að tilnefna ráðh., og það var þá föst venja í löndum með þingbundinni stjórn, þegar stjórnarskráin 1920 var sett.“

Nú er engin breyt. orðin á frá stjórnarskránni 1920 önnur en sú, að vald forseta er komið í stað valds konungs. En hann segir, að þarna verði þingið fyrst og fremst að eiga völ því að ákveða stjórn lands og löggjöf.

Hæstv. forsrh. veit ósköp vel, hvernig Alþingi Íslendinga, ef það verður ekki svipt starfi og starfsaðstöðu, starfsrétti, mundi á næstu dögum ákveða stjórn í landinu. Það mundi svipta núv. minnihlutastjórn völdum, og síðan mundi forseti stjórna verki um það — (Gripið fram í.) Nei, fræðimenn geta nefnilega farið með villukenningar ekkert síður en aðrir. Það, sem mundi gerast, ef Alþ. tæki ákvörðun um að fella núv. minnihlutastjórn, sem það vafalaust mundi gera, er það, að forseti Íslands mundi kanna, hvaða möguleikar væru til myndunar þingræðislegrar stjórnar, og hann mundi fela núv, forsrh, og ríkisstj. hans að gegna störfum til bráðabirgða, þangað til gengið hefði verið úr skugga um það, hvort hægt væri að mynda þingræðislega stjórn. Það yrði eingöngu bráðabirgðaseta.

Það var alleftirtektarvert að heyra hæstv. forsrh. segja það áðan, að hann ætlaði „að losa sig við þingið“, losa sig við Alþingi íslendinga, sem á að ráða umboði ráðh. og ríkisstj.

Í örstuttu máli skal ég gera grein fyrir skoðunum mínum á þingrofsréttinum, og ég geri það í eins stuttu máli og unnt er á þessa leið: 1. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:

„Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“ Þetta er sjálf þingræðisreglan. Og hún er á þessa leið, að Alþ. skuli alltaf ráða stjórn landsins. Alþ. fer sjálft með löggjafarvaldið. Meiri hl. þess ræður því hvaða lög um sett. En auk þess ræður meirihl., Alþ. því alltaf, hverjir fara með framkvæmdavaldið, þ.e.a.s. hverjir eru ráðh. Enginn getur verið ráðh., síst forsrh., sem meiri hl. Alþ. vill ekki styðja til þess eða a.m.k. þola í því embætti. Þess vegna á forsrh. eða annar ráðh. þegar að biðjast lausnar, er hann veit, að hann nýtur ekki lengur trausts meiri hl. Alþingis. Alþ. þarf alltaf að vera til. Takið nú eftir: Alþ. þarf alltaf að vera til, og það þarf að geta beitt meirihlutavaldi sínu um það, hverjir eru ráðh. Þess vegna er það ófrávíkjanleg regla, a.m.k. eftir árið 1931, hér á landi, að Alþ. sé aldrei rofið nema frá þeim degi, sem nýtt þing er kosið. Alþ. hefur aldrei á síðustu áratugum verið rofið á annan hátt en þann, að það sé rofið frá þeim degi, sem nýtt þing er kosið, landið aldrei án Alþ., — ekki bara án alþm., án Alþingis.

Þingræðisreglan segir, að meiri hl. Alþ. skuli alltaf ráða því, hverjir eru ráðh. Af því leiðir auðsæilega, að ríkisstj., sem styðst við minni hl. Alþ. aðeins, getur ekki rofið þing í því skyni að reka meiri hl. heim frá störfum og hindra hann í því að skipta um ríkisstj. eða ráðh., því að það er réttur þingsins. Það væri því brot á þingræðisreglunni í 1. gr. stjórnarskrárinnar og þar með einnig stjórnarskrárbrot. Þegar ríkisstj. hefur fengið vitneskju um, — og sú vitneskja liggur nú hér fyrir, að hún getur ekki komið fram löggjöf, sem hún telur þjóðarnauðsyn, vegna þess að hún styðst ekki við meiri hl. í annarri hvorri d. Alþ., sem fellir slíka löggjöf, ber henni að segja af sér. Þá hefur hún fengið vitneskju um, að hún hefur ekki nauðsynlegan meiri hl. og traust á Alþ. En ríkisstj., sem hefur fengið örugga vitneskju um, að hún hefur ekki lengur traust meiri hl. Alþ., ber tafarlaust að segja af sér.

Ekki fer það á milli mála, hvaðan umboð alþm. er sprottið. Það er komið beint frá kjósendum, ekki gegnum ríkisstj. Umboð sitt hafa alþm. frá kjósendum beint, og það umboð er til næsta kjördags. Ríkisstj. hefur engan rétt til þess að svipta þm. því umboði, sem þeir hafa fengið frá kjósendum og skal gilda undir öllum kringumstæðum til næsta kjördags, ekki endilega út kjörtímabilið, en til næsta kjördags. Þess vegna hefur sú regla verið höfð í heiðri, að þing sé aldrei rofið frá þeim degi, sem þingrofið er hirt, heldur frá þeim degi, sem kosningar eiga að fara fram, — aldrei þinglaust í landi með þingbundinni stjórn.

Ef það er ætlun hæstv. forsrh. að rjúfa þing og senda þm. heim, svipta þá umboði nú frá þessum degi, þá fyrst og fremst mótmæli ég því og í öðru lagi lýsi ég því yfir, að það sé lögbrot, það sé brot á þingræðisreglunni og það sé brot á 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.