08.05.1974
Neðri deild: 125. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4349 í B-deild Alþingistíðinda. (3958)

291. mál, almannatryggingar

Forseti (Gils Guðmundsson):

Í tilefni af ummælum hv. 4. þm. Austf. vil ég aðeins segja það varðandi málsmeðferð, að vegna sérstakra tilmæla gaf ég fundarhlé fyrst og fremst til þess, að hv. heilbr: og trn. gæti komið á þeim fundi, sem ekki hafði tekist að koma á fyrr í dag, til þess að athuga þetta mál. Ég viðurkenni, að sá frestur var að vísu stuttur. Það hefur komið fyrir undir þeim kringumstæðum, þegar Alþ. er e.t.v. að ljúka, að þá hafa slíkir frestir stundum verið stuttir, einkum þegar um hefur verið að ræða mál, sem ekki hefur verið mikill og alvarlegur ágreiningur um.

Ég hef í sambandi við afgreiðslu nokkurra mála í dag reynt að haga henni þannig að taka fyrir mál, sem ég hélt, að væru annaðhvort algerlega ágreiningslaus eða ágreiningslítil. Ég mun að sjálfsögðu veita þeim hv. þm., sem hugsa sér að bera fram brtt. við 3. umr., tækifæri til þess að gera það og mun þess vegna ekki taka málið á dagskrá alveg strax, heldur eitthvað síðar, en ég vænti þess, að þeir þurfi ekki mjög langan frest til þess að móta þær brtt.