08.05.1974
Neðri deild: 128. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4353 í B-deild Alþingistíðinda. (3992)

9. mál, grunnskóli

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., hefur að vísu lengi legið fyrir Alþ., ein þrjú ár, skilst mér, og enn lengur verið þæft í rn., og þess vegna þykir mér nú tími til kominn fyrir mig að taka það til rækilegrar meðferðar.

Ég minntist á það áður í dag í sambandi við furðulega afgreiðslu á allt öðru máli, að þau vinnubrögð, sem hér á að viðhafa, eru með öllu óþolandi. Hér hefur hv. Ed. haft þetta mál til meðferðar og m.a. á næturfundum gert á því margvíslegar breyt. og nú skilst mér, að meiningin sé að taka það til lokaafgreiðslu á síðustu mínútunum, sem þm. halda þingmannsrétti sínum. Ég get vel skilið það, að hæstv. samgrh. hinn nýi hafi áhuga á því að fá aðra skrautfjöður í sinn hatt. Hann hefur þegar höndlað eitt hnoss, og það er að hafa lýst því yfir í sjónvarpi fyrir framan alþjóð, að hann mundi virða að vettugi ályktun Sþ.

Ég tel þess vegna nauðsynlegt nú, þegar á að taka þessa geysilega viðamiklu og mikilvægu löggjöf til lokaafgreiðslu, að við rifjum upp ýmsar forsögur málsins, og hefði gjarnan mátt gera það miklu fyrr. Ég tel undirstöðu þess, að við áttum okkur nógu greinilega á því, hvað til grundvallar hefur legið í fræðslumálum okkar, að við rifjum upp þær umr., sem fram fóru á Alþ. um þá fræðslulöggjöf, sem nú gildir. Þær umr. eru afar fróðlegar. Þær eru að vísu mjög langar, en ég, eins og ég segi, hef ekki misnotað þolinmæði hæstv. forseta í þessu máli, þannig að ég veit, að hann hefur fullkomna þolinmæði með mér. En eftir að hafa litið á þessar umr. í Alþt., þá rennur það upp fyrir mér, að mér er alveg ljóst, að þetta mun e.t.v. gerbylta viðhorfum manna til málsins. Að því búnu tel ég rétt að upplýsa og lesa yfir þau lög, sem þá voru sett, svo að menn sjái, í hvaða stað þessar umr. áttu að koma niður. — Þá er enn fremur alveg nauðsynlegt að lesa yfir frv., eins og það var lagt fyrir í haust, síðan að taka þær brtt. og bera þær saman, sem fram voru lagðar við 2. umr, málsins, bæði af hv. menntmn. og eins af einstökum þm. Þá er enn fremur alveg nauðsynlegt, áður en þetta mikla mál verður að lögum, að bera saman þær breyt., sem nú síðast hafa átt sér stað í hv. Ed. (Forseti: Ég vil aðeins tilkynna hv. þm., áður en lengra er haldið, að við erum þó alltént hér tveir deildarforsetar sæmilega heilsugóðir og erum tilbúnir til þess að skiptast á og gefa honum fullt frelsi til þess að ræða málið til nokkurrar hlítar, ef því er að skipta, þannig að þess getur verið kostur að halda þessari ræðu áfram, eftir því sem hann telur við þurfa.) Það var eins og hæstv. forseta er von og vísa, að hann mundi taka fullt og heiðarlegt tillit til þess, að mér liggur mikið á hjarta, og ég Þakka honum alveg sérstaklega fyrir þetta tillit. Hann hefur sem sé lýst því yfir, að ég fái alveg óskoraðan tíma til þess að reifa þetta mál. og verður hann þá notaður.

Á 11. fundi í Nd. 19. okt. árið 1945 var útbýtt frv. til l. um skólakerfi og fræðsluskyldu, og á 15. fundi í Nd. 23. okt. var frv. tekið til 1. umr. Frsm. var ekki ómerkari maður en Sigfús Sigurhjartarson. Hann rifjaði það fyrst upp, að hinn 16. júní árið 1941 hafi Alþ. samþ. svolátandi þáltill.:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj, að skipa mþn. skólafróðra manna til þess að rannsaka kennslu- og uppeldismál þjóðarinnar og gera till. um skipun þeirra, þar sem stefnt sé að því að gera skólana sem hagfelldasta, samræma skólakerfið, ákveða betur en nú er starfssvið hinna ýmsu skóla og sambandið þeirra á milli.“

Hér sjá menn eiginlega upphaf þess á árinu 1941, að þessi mál eru tekin til endurskoðunar. Ég vil benda á, að þessi þál. er gerð árið 1941, en það er fyrst á árinu 1946, sem lög eru sett um þessi efni, þau fræðslulög, sem við búum við enn í dag og margur hefur haldið fram, að hefðu reynst hin ágætustu, sér í lagi ef þau hefðu öll verið framkvæmd. En á hefur þótt skorta, að þau hafi veríð framkvæmd í ýmsum mjög veigamiklum atriðum. Þess vegna er það, að þótt það tæki ein 5 ár þá á vegum hins háa Alþ. að setja slíka löggjöf, þá má okkur ekki í hinu nýja tækniþjóðfélagi og iðnþróaða láta okkur ofbjóða, þótt það taki álíka tíma nú. 5 ár liðu frá því, að samþ. er þáltill, og skipuð mþn. skólafróðra manna, eins og þar segir, til þess að endurskoða og gera till. um skipun þessara mála, og það er fyrst á árinu 1946, sem þessi löggjöf sér dagsins ljós. Ég bendi á þetta vegna þess, að margur hefur látið svo sem honum hafi ofboðið, hversu langan tíma þetta mál hefur verið hér til meðferðar á Alþ.

Sigfús Sigurhjartarson segir í framhaldi af þessu:

„Í erindisbréfi n. segir, að hún eigi „að rannsaka kennslu- og uppeldismál þjóðarinnar og gera till. um skipun þeirra, þar sem stefnt sé að því að gera skólana sem hagfelldasta, samræma skólakerfið; ákveða betur en nú er starfssvið hinna ýmsu skóla og sambandið þeirra á milli.“ Í n. voru skipaðir: Jakob Kristinsson fræðslumálastjóri, sem var form. n., Aðalbjörg Sigurðardóttir frú, Ármann Halldórsson skólastjóri, Ásmundur Guðmundsson prófessor, Ingimar Jónsson skólastjóri, Kristinn Ármannsson yfirkennari og Sigfús Sigurhjartarson. Skömmu síðar varð Jakob Kristinsson að láta af störfum í n., og varð þá Ásmundur Guðmundsson form. hennar, en Helgi Elíasson tók sæti í n. í stað Jakobs Kristinssonar.“

Af þessu geta menn markað, að hér voru engir veifiskatar á ferðinni. Hér voru engin smámenni, sem voru til kölluð að setja niður skipan þessara mála og með hvaða hætti það yrði gert sem hagfelldast. Og þegar menn hafa kynnt sér nefndarskipunina, þá hljóta menn að eflast í þeirri trú, að þessi n. hafi átt erindi sem erfiði, enda er það mál manna, að sú fræðslulöggjöf, sem við höfum búið við, hafi reynst mjög vel og mundi hafa reynst í hvívetna afbragðsvel, ef framkvæmd hefði verið. Það enn fremur eflir mann í þeirri trú, að okkur liggi ekki svo mjög á með að setja ný lög, þar sem við búum við sæmileg og jafnvel góð lög í þessu efni.

Að vísu má geta þeirra furðulegu vinnubragða, að ráðuneytismenn, faktorar þar og þeirra assistentar, hafa verið að fást við það svona í hjá að framkvæma sumt af þessum ósettu lögum. Ég var hér með eina bók í höndunum í vetur, sem hét „Marklýsingar móðurmálsins“, eftir einhvern assistentinn þar efra. Ekki nenni ég nú að fara að rifja það sérstaklega upp, enda er ég hér að fara yfir miklu merkilegri ræðu um þetta mál og merkilegri atriði en þessi bók, þessi eyrnamörkun á móðurmálinu, hefur inni að halda.

Svo heldur frsm, áfram og upplýsir, að n. hafi samið 7 frv., hvorki meira né minna, og eru 4 þeirra á dagskrá þennan dag á Alþ. Að þessum frv. mun ég öllum víkja. Það er um skólakerfi og fræðsluskyldu í fyrsta lagi, það er um fræðslu barna í öðru lagi og það er um gagnfræðanám í þriðja lagi og svo minnir mig, að það sé eitthvað líka um húsmæðrafræðslu, — húsmæðrafræðsla er þar síðast á dagskrá. Fjögur þeirra voru á dagskrá á Alþ. til umr. þennan dag, 23. okt. árið 1945.

„Menntmrh, skrifaði menntmn. 9. okt. 1945 og sendi henni 4 frv. mþn, í skólamálum, Enn fremur biður rn. menntmn. að flytja þessi frv. á Alþ. Meiri hl. n. taldi rétt að flytja þessi frv. nú, en einstakir flm, hafa þó óbundnar hendur. Var þetta talið réttara vegna þingstarfa, svo að einstakir menn hefðu aðstæður til að taka endanlega afstöðu til þessa máls. Meiri hl. n. vildi þannig greiða fyrir þingstörfum, og er til þess ætlast, að samstarf menntmn. beggja d. verði um frv. þessi.“

Það hefði nú kannske verið athugandi að hafa þennan hátt á nú, t.d. í sambandi við lokaafgreiðslu þessa máls, að menntmn, hefðu starfað saman, og sýnir þetta náttúrlega klaufaleg vinnubrögð, því að það hefði eflaust sparað tíma, þannig að ég þyrfti ekki nú að taka þetta til eins nákvæmrar yfirvegunar og meðferðar eins og ég tel mig knúinn til.

Þá segir hann frá því, að til viðbótar þessum fjórum frv. sé að vænta í fyrsta lagi frv. um kennaramenntun og síðan um húsmæðrafræðsluna, sem ég nefndi og í þriðja lagi um tilrauna- og æfingaskóla, Ég þykist vita, að þegar í upphafi þessa lesturs á framsöguræðu Sigfúsar Sigurhjartarsonar ljúkist augu manna upp fyrir nauðsyn þess, að það sé gluggað vandlega í hana. Hann segir enn fremur:

„Frv., sem hér eru á dagskrá nú, eru öll mjög skyld. — Mér þykir hlýða,“ segir hann, „að gera grein fyrir því, hvernig skólakerfið er hugsað, sem mþn. í skólamálum leggur til, að verði í framtíðinni, Hún leggur til, að skólum landsins verði skipt í 4 stig. Sérhvert próf í skólum þessum gefi rétt til framhaldsnáms eða einhvers starfa annaðhvort í iðn eða bóklegum efnum. Jafnframt sé greið gata frá einum skóla til annars og frá einu stigi til annars.“

Þarna komum við að þessu merkilega atriði um hina greiðu götu frá einum skóla til annars og einu stigi til annars. Þetta atriði hefur mikið verið rætt hér, og einn þátturinn í hinum nýju l., sem nú er verið að gera tilraun til að setja, er sá að gera þessa götu sem greiðasta. En þá þegar var mikil áhersla á þetta lögð, og mér er nær að halda, að við lagasetningu þá hafi náðst sæmilegur árangur í þessu efni. Það er sem sé samræming, sem um er að ræða. Þeir hafa fyrir sér nákvæmlega sömu markmiðin að keppa að eins og nú hefur verið stefnt að, og við skulum vænta þess, að við séum nú að ná lengra á samræmingarbrautinni.

„Samkv. frv. er ráðgert, að skólaskylda barna hefjist, þegar þau eru 7 ára, eins og nú er. N.

er þó ljóst, að yngri börn en 7 ára þurfa á fræðslu að halda.

Það er eins og maður kannist við eitthvað af þessum orðum nú, án þess að ég sé neitt að væna hæstv. menntmrh. um eða aðra, sem fyrir þessu hafa mælt, að hafa lesið bókstaflega upp úr þessu. En ótrúlega vel kannast ég við allt orðfæri hér samt.

„N taldi þó ekki tímabært að lögleiða skólaskyldu yngri barna á þessu stigi málsins. En ef bæjar- og sveitarfélög æskja þess, að skólaskyldu verði komið á meðal yngri barna, er lagt til, að þeim verði veittur styrkur til að standast þann kostnað. Hér er um að ræða styrk, en ekki skyldu. N. er einnig ljóst, að í framtíðinni mun skólaskylda barna hefjast fyrr en nú er, enda er það svo í flestum öðrum menningarlöndum.“

Og af því ég sé, að hv. 3, þm. Austf. hlýðir á mál mitt, hef ég þegar rekist hér á, að hann átti mikla aðild að setningu þessara l. á sínum tíma, hélt um málið skynsamlegar ræður, og nú er t.d. hin mesta nauðsyn á, sýnist mér, eftir afgreiðslu hv. Ed. á málinu að bera nú saman, hvernig hann hefur þroskast með árunum, því að mér sýndist hann hafa á þessu mjög heilbrigðar skoðanir á sinni tíð, en nú er að sjá, hvernig til hefur tekist. — Það er mjög svo fróðlegt á marga vísu að fá nú til þess tækifæri að bera hér saman afstöðu manna til frv. Ég hef t.d. séð, að hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, leggur enn fremur orð í belg,, og það verður ekki lítið fróðlegt að kynnast því, hver viðhorf hans sem ungs manns voru þá til þess arna svo heldur hv. frsm. áfram ræðu sinni og segir:

„Skólaskylda barna hefst, er þau eru 7 ára, en lýkur, er þau verða 13 ára, eða einu ári fyrr en nú er.“ — Þá þótti bera nauðsyn til þess að breyta þessu á þennan veginn. — „Er þetta því ekki stórfelld breyting. Gert er ráð fyrir, að 10 ára börn taki sérstakt próf, er verði samæmt um allt land. Verði þá rannsökuð ítarlega kunnátta barna í lestri, skrift og reikningi, svo að þau, sem næga kunnáttu hafa, geti fylgst að í öðrum bekkjum. Þetta er að vísu nýjung, þó að líkt fyrirkomulag hafi tíðkast undanfarið. Einnig má geta þess í sambandi við þetta mál, að forskólafyrirkomulagið mun hverfa með öllu, og er það mark, sem að er stefnt og allir eru sammála um.

Allir skólar, sem starfa á barnafræðslustigi, eru raunverulega einn skóli. Í þessu felst, að nám í barnaskólum á að vera samræmt. Nám í einum barnaskóla á að jafngilda námi í öllum öðrum barnaskólum. Þegar barnafræðslustiginu lýkur, hefst gagnfræðaskólastigið. Er það 4 ára stig og er einkum ætlað unglingum 13–17 ára. Það er hverju íslensku barni skylt að hefja nám í gagnfræðaskóla og stunda þar nám í 2 ár.“ — Þetta er sú regla, sem við búum við í dag. — „Er þá skólaskylda barna frá 7–15 ára í stað 7–14 ára. Ekki þótti fært að lögbjóða lengri skólaskyldu, þótt um það heyrist háar raddir:

Þessari n., sem ég vitnaði til, sem skipuð var þessum þekktustu mönnum, má trúlega fullyrða, sem á þessu sviði hafa starfað á Íslandi á þessari öld, þótti alls ekki fært að lögbjóða lengri skólaskyldu, enda þótt það heyrðust um það háar raddir. Það voru alls kyns menn í þjóðfélaginu þá eins og nú, sem höfðu hátt um þessa hluti, en þeim, sem gerst þekktu, þessum mönnum, sem þá höfðu um áratugi verið í fyrirsvari í okkar menntamálum, þótti þetta alls ekki fær leið og höfnuðu henni. Það er þess vegna ekkert nýtt, eins og ég segi, að menn rjúki upp til handa og fóta og þykist hafa nægjanlegt vit á hlutunum. Ég vil nefna í þessu sambandi þá furðulegu atburði, sem skeðu í hv. Ed., — þótt mér að vísu gæfist ekki kostur á að fylgjast með því, sem þar fór fram, og það var mikill skaði, því að það hefði kannske getað flýtt fyrir meðferð málsins hér, — en ég sá á þskj., sem útbýtt var, að þar hefðu 6 nm. menntmn. Ed. orðið sammála um grundvallarbreytingu á grunnskólafrv. eða poppskólafrv., sem sumir vilja nú nefna þetta, og hún var sú, að fræðsluskyldan yrði til 16 ára aldurs, en skólaskyldan aðeins til 15 ára aldurs. Á þessu er vitanlega grundvallarmunur. Um þetta hefur veríð þrætt uppstyttulítið. Þetta hefur verið eitt megin atriði málefnaágreiningsins. Þessi till. er lögð fram af 6 hv. nm, í menntmn. Ed, Það hefði breytt verulega viðhorfi manns til frv., ef sú breyting hefði náð fram að ganga. En samt sem áður, þótt fyrir ætti þá að liggja alger meiri hl. fyrir þessari brtt. um styttingu skólaskyldunnar frá því, sem er lagt til í þessu frv., þá skeði það samt, að þessi sálarlegu þrekmenni stjórnarflokkanna hv. eru af þrekmenninu hæstv, menntmrh. svínbeygð og látin sporðrenna þessum till. sínum með húð og hári. — Það setur auðvitað að manni hroll að verða vitni að slíkum vinnubrögðum á síðustu stundum um eitt allra mikilvægasta atriðið varðandi þetta frv., það atriði, sem einna mestum styr hefur valdið í allri meðferð málsins.

Nei, í staðinn fyrir það, að ekki þótti rétt að lögbjóða lengri skólaskyldu, þá þótti hitt „réttara, að heimila einstökum sveitarfélögum að lengja skólaskyldu til 16 ára, og hefur hún þá lengst um 2 ár frá því, sem nú er,“ segir þar. „Hér er á sama hátt um rétt sveitarfélaga að ræða, en ekki skyldur.“ Á þetta ber að leggja höfuðáherslu.

„Þá kem ég að gagnfræðaskólastiginu,“ segir frsm. „Er það líkt og um barnaskólana, að gagnfræðaskólarnir eru hugsaðir sem einn skóli, eins og barnaskólarnir eru ein heild. Gagnfræðaskólarnir geta verið mislangir, en hverju barni er þó skylt að vera þar við nám í 2 ár. Heitir hann þá unglingaskóli og er miðað við að fullnægja þeirri skólaskyldu, sem til er lögð í frv. Hver sá nemandi, er lokið hefur unglingaprófi í gagnfræðaskóla, öðlast rétt til að ganga inn í 3. bekk í hvaða skóla sem er“ — Hér var mjög vel að því gáð, að yrði um samfellt nám að ræða frá einu stigi til annars. „Næstu 3 ár gagnfræðaskólanna nefnast miðskólar, Hver sem lokið hefur miðskólaprófi hefur rétt til að halda áfram námi í hverjum 4 og 5 ára gagnfræðaskóla.“

Frsm, þykir, þegar hér er komið, „rétt að gera nánari grein fyrir gagnfræðaskólunum. Svo er til ætlast,“ segir hann, „að skólum gagnfræðaskólastigsins sé frá upphafi skipt í 2 deildir, bóknámsdeild og verknámsdeild.“ — Þetta veit ég, að ýmsir munu kannast við, að þannig háttar þessa í gagnfræðaskólum okkar. En það er alveg áreiðanlega fyllilega ástæða til þess að rifja þetta upp sérstaklega nú. — „Bóknámsdeildin veitir svipaða fræðslu og nú er í gagnfræðaskólum, veitir undirbúning undir kennara- og æðri menntun. Verður hún því hliðstæð menntaskólunum, sem nú eru. Verknámsdeildin leggur hins vegar áherslu á hagnýtt nám. Námstímanum er skipt til helminga milli bóklegra og verklegra greina. Höfuðgreinarnar verði íslenska og íslensk fræði.“

Það er rétt að staldra aðeins við þessa umsögn: „Höfuðgreinarnar verði íslenska og íslensk fræði, en þar næst hagnýt fræði eins og náttúruvísindi, eðlisfræði og stærðfræði.“ Á það er lögð hér öll áhersla, að höfuðgreinarnar verði íslenska og íslensk fræði. Samt er svo komið um framfylgd þessarar ákvörðunar, að mönnum þykir nú sem kennsla í íslenskum fræðum setji mjög ofan, og til þess að bjarga því nú við hefur hæstv. vegamálaráðh. beitt sér fyrir því að strika út litlu zetuna í stafrófinu og þótt hið háa Alþ. sé á annarri skoðun, þá auðvitað munar hann ekkert um að virða þann vilja að vettugi. Hann nefndi það í sjónvarpinu, að tveir hv. þm. hefðu setið hjá við atkvgr., og taldi sér þau auðu atkv. til góða. Það væri samræmisins vegna mjög eðlilegt, að hann yrði þá einhvern tíma kosinn á Alþ. á auðum seðlum. En vegna þess, sem að var stefnt samkv. þeim 1., sem hér er verið að setja árið 1945, sem urðu að l. 1946, þá hefði mátt ætla, að vel hefði verið fyrir kennslu í íslensku og íslenskum fræðum séð. En mjög þykir bresta á um, að svo hafi orðið. Þess vegna hlýtur meinsins í þeim efnum að vera að leita hjá framkvæmdavaldinu sjálfu, hjá þeim kennurum, sem með þetta áttu að fara, sem áttu að sjá um, að þessu yrði nægilega sinnt. Það virðist hafa farið úrskeiðis mjög svo eftir þeim vitnisburði, sem hæstv. menntmrh. sjálfur hefur gefið um það hér á hinu háa Alþ., þar sem hann í allri umr. um að fella niður einn bókstafinn hélt því statt og stöðugt fram, að mjög skorti á um, að nægjanlega væri séð fyrir íslenskukennslu í skólum okkar.

„Að öðru leyti,“ segir Sigfús Sigurhjartarson, „verður í skólunum fjölbreytt námsefni sem mest hagnýtt og reynt að taka tillit til hæfileika einstaklinganna. Þessar deildir eru nýmæli, ,en við héraðsskólana, sem nú eru, má segja, að gerðar hafi verið tilraunir í þessa átt. Verknámsdeildin hefur aðallega verið sniðin eftir sænskri fyrirmynd.“

Það er ekki í fyrsta skiptið, sem við verðum af Svíum apar. Það er alveg merkileg árátta hjá Íslendingum, að því er mér virðist. T.d. í leikhúsmálum, þá er helst borið niður hjá Svíum, sem eru með, af því sem ég hef litið til t.d., heldur leiðinlegt leikhús. Og mér hefur verið sagt af skilgóðum mönnum og engum spaugurum, að þetta grurnnskólafrv. sé samið að miklu leyti eftir úreltum sænskum fræðslulögum. Mér hefur ekki gefist kostur á að bera þetta saman eða afla mér nægjanlegra gagna til þess að færa fram neinar sönnur á þessu, en það má mikið vera, ef satt reynist ekki, að þetta sé þá einhver öpun eftir Svíum, sem þeir séu búnir að hafa hjá sér sem lög um fjölda ára og kváðu vera að gefast upp á. Ef þetta er rétt, þá er nú vist mál til komið, að menn gái enn betur að sér.

Ég sé ástæðu til að gera örstutt hlé á fróðlegri framsöguræðu Sigfúsar Sigurhjartarsonar, á 15. fundi í Nd., 23. okt. 1945. Það er hér fróðleikur, sem ég hef beðið eftir, sem varpar skemmtilegu ljósi og mjög fróðlegu á þessi mál á Alþ. árið 1847. Það er 16. júlí 1847, á 13. fundi. Þar segir svo upp úr gjörðabókinni:

„Allir á fundi. Þingbók frá síðasta fundi lesin og samþykkt. Forseti lagði fram sem 78. mál bænarskrá frá Reykjavíkurbæ um frv. til reglugerðar fyrir barnaskólann samastaðar (þ.e. í Reykjavík), og mælti því næst:

Það er að vísu svo, að bænarskráin í fyrsta áliti einungis virðist að viðkoma Reykjavík“ Það bar dálítið fljótt á því, að augu manna mændu hér á Reykjavík. Nú hefur þeirri þróun verið snúið mjög við. Enda þótt Reykjavík verði áfram höfuðborg okkar og meginafl, þá hafa menn nú beint sjónum sínum miklu meira að jafnvægi í allri byggð landsins, og þó sérstaklega hefur Sjálfstfl. stutt við þá stefnu — „Það er að vísu svo, að bænarskráin í fyrsta áliti einungis virðist að viðkoma Reykjavík, þar eð hún biður um frv. til reglugerðar fyrir barnaskólann þar, en samt sem áður er það meining mín, að Alþ. eigi að gefa henni allan gaum,“ — ég þarf kannske ekki að geta þess, að hv. alþm. gera sér grein fyrir því, hver forsetinn er, sem hér talar, — „að gefa henni allan gaum, og ekki held ég hún sé svo sérstaks eðlis, að henni fyrir þá sök eigi frá að vísa, því bæði er það, að hún viðvíkur mjög svo áríðanda málefni fyrir allan Reykjavíkurbæ, og líka er Reykjavík eitt kjörstjórnarumdæmi sér, hvaðan einn fulltrúi er sendur til þingsins. Óska ég því, að þm. láti í ljós meiningu sína um, hvað við skuli gjöra bænarskrá þessa.“

Þá tekur til máls næst Ásgeir Einarsson, ég hygg Ásgeir á Þingeyrum, og mælir svo:

„Þó bænarskrá þessi sé þess efnis, sem einungis getur áhrært Reykjavík, er þó innihald hennar íhugunarvert, og legg ég það til, að 3 menn, sem kunnugir eru í Reykjavík, séu í n. kvaddir til að íhuga þetta mál.“

Lengri varð ræða hans ekki, Ásgeirs Einarssonar, þess mæta manns, og sýnir, að menn áttu til þá að tala ögn styttra en nú.

Þá tekur til máls stúdent Guttormur Vigfússon og segir:

„Ég verð að leyfa mér að óska, að bænarskráin sé lesin upp.“

Lauk þar með hans ræðu. Þá var bænarskráin lesin upp og að því búnu tók til orða stiftsprófastur, Árni Helgason í Görðum. Og það er ekki lítið fróðlegt að íhuga hans ræðu. Hann segir:

„Mér hefur verið falið á hendur að koma á framfæri þeirri bænarskrá, sem nú er lögð fyrir þingið, og vil ég því biðja, að henni verði tilhlýðilegur gaumur gefinn og n. valin til að íhuga málíð gjör. Að fara þessu á flot er því meiri nauðsyn sem meiri er þörfin fyrir Reykjavík að fá reglulegan barnaskóla, þar eð hér er mjög fjölmennur söfnuður. Það mætti og mæla fram með bæninni, að hvergi hér í landi er hægara að koma barnaskóla á fót, því þéttbýlið er svo mikið, að enginn erfiðleiki er fyrir börnin að sækja skólann daglega. Það lítur að sönnu svo út og ég játa, að svo sé, að barnaskólastiftun í Reykjavík,“ — barnaskólastofnun þýðir þetta nú, „er fyrst og fremst þessu plázi“ — plázi með zetu, hæstv. menntmrh., þetta sé ég strax, að er miklu virðulegra orð, plázi skrifað með zetu heldur en plássi með tveimur essum, ég hef ekki séð þetta fyrr, — „er fyrst og fremst þessu plázi til hagræðis og gagns, en fleiri héruð geta með tímanum haft þar af gagn,“ — menn veiti því athygli strax, hvað menn eru viðsýnir í þessum sökum, — „því,“ segir prófastur Árni Helgason, „því allir vita, að unglingar eru ekki fastbundnir við þá staði, hvar þeir uppalast, heldur dreifast víðs vegar út um landið, og hafi þeir í skólanum fengið betri menntun en aðrir og lært betri siði, svo bera þeir það með sér, sem þeir á yngri árum hafa aflað sér, og verða þeim mun uppbyggilegri í sinni stöðu, hvar af margur getur þá gott hlotið. Því bið ég þingið taka málið undir nál. og ætla ég að nægja megi, að í þá n. séu valdir 3 menn.“

Þarna er um merkilegt mál að ræða og miklu merkara heldur en t.a.m. hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, álítur efnahagsmálafrv. hæstv. ríkisstj. vera, því að hérna mælir Árni í Görðum með því að taka málið undir nál., en dr. Gylfi ætlaði að fella það strax og undir eins frá n. og við 1. umr.

Þá tekur til máls kandídat Jón Sigurðsson og segir:

„Mér er ekki enn þá ljóst, að það sé til nokkurs gagns, að þingið kjósi n. í þetta mál, þó ég viðurkenni fúslega að öðru leyti, að það sé yfrið merkilegt í sjálfu sér og gagnlegt fyrir Reykjavík og sveitina hér. Eftir því sem þetta mál er vaxið, virðist mér best eiga við, að n. sú, sem sett er til að stjórna barnaskólanum, gerði uppástungu um a1lt fyrirkomulag hans, og það gengi síðan til hlutaðeigandi embættismanna til ítarlegri rannsóknar. Þar sem talað er um bágan fjárhag skólans, þá er þó kunnugt, að gjafasjóður Thorkillii er hér til og er ætlaður handa barnaskóla í Gullbringusýslu, en mér er reyndar ekki kunnugt, hvort þessi skóli nýtur nokkurs af þeim sjóði eða ekki.“

Stórfróðlegt er að rifja slíkt upp fyrir sér sem þetta. Þó eru þetta, sem enn er komið, smámunir einir borið saman við það, sem hér fer á eftir. Ásgeir á Þingeyrum tekur aftur til máls og segir:

„Hvað því viðvíkur, sem flm. bænaskrárinnar gat um, að það, sem bænarskráin fer fram á, gæti verið umvarðandi landsmenn yfir höfuð, þá þykist ég ekki þurfa að svara því að þessu sinni, þar eð það getur komið til umr. seinna, ef n. verður kosin“

Enn er Ásgeir stuttorður.

Sveinn Sveinsson tekur næstur til máls og segir: „Ég er samþykkur hinum virðulega þm. frá Ísafjarðarsýslu, (þ.e. Jóni Sigurðssyni), og held ekki hlýða að setja n. í þessi málefni, þar eð svo margt er komið til þingsins aðgerða, og hefur það verið álitið nægilegt verkefni.“

Þarna bendir hann á, þessi ræðumaður, að þingið hafi ærnu að sinna og þetta mál, bænarskrá um barnaskóla, verði að taka til frekari íhugunar, vegna þess að þar eru verkefni ærin fyrir hendi. Þá þótti þetta mál hið mikilverðasta, en nú, þegar á að afgreiða nýja fræðslulöggjöf fyrir okkar stóra og nýja þjóðfélag, þá á að gera það með þeim hætti að rubba því af á örfáum mínútum, áður en hæstv, forsrh. ætlar að svipta þingheim þingmennsku.

Ásgeir Einarsson á Þingeyrum talar enn og segir:

„Þegar ég mælti fram með n. í málinu, gerði ég það af því að ég ímyndaði mér, að sú n. mundi geta undirbúið málið til hlítar, svo það gæti gengið til stjórnarinnar, og þess vegna virðist mér það enn ísjárvert að gefa bænarskránni engan gaum. Þar sem þess hefur verið getið, að málefni þetta sé einkum gagnlegt fyrir Reykjavík, þá held ég, að Alþ. ætti að gefa því gaum fyrir það eins og bæjarstjórnarmálinu í Reykjavík á hinu fyrra þingi. Ég man það að sönnu, að í hitteðfyrra var bænarskrá frá iðnaðarmönnum í Reykjavík vísað frá, en þó mér finnist sem meiri ástæða væri kannske fyrir því, held ég samt, að það kunni að verða óvinsælt, ef slík aðferð er viðhöfð: (Forseti: Ég vil einungis leyfa mér að henda hv. ræðumanni á 39, gr. þingskapa, þar sem segir: „Eigi má nema með leyfi forseta lesa upp prentað mál.“ —- Og ég vænti þess, að hv. ræðumaður fari eftir ákvæðum þessarar gr. Ég hef aldrei neitað því, að ræðumenn læsu upp úr prentuðu máli, ef það kemur við og snertir það mál, sem til umr. er hverju sinni, en það tel ég, að hljóti að vera forsenda þess, að eðlilegt sé að heimila upplestur úr prentuðu máli.) Já, ég skal vissulega taka þessa ábendingu til greina, en allt, sem ég hef sagt og lesið upp hér, kemur beinlínis málinu við, menn athugi það. Og ég bendi á, að þegar ég þarf að vitna til manna, er þetta aðeins ívitnum af og til. því að ég legg út af þessu, á ýmsa vegu, svo að mér hefur ekki þótt taka því að biðja um leyfi forseta í hvert sinn, þar eð hæstv. forseti gaf mér eitt allsherjarleyfi til þess að tala hér eins og mér sýndist og huggaði mig með því, að ég mundi ekki ofbjóða hans þolinmæði með því, þar eð hann hefði nóg af varaforsetum til þess að leysa sig af, svo að mér kemur þetta alveg í opna skjöldu, ef það verður dregið nokkuð í efa, að ég geti máli mínu til stuðnings vitnað til heimilda, sem beinlínis koma málinu við. Ég er hér að ræða og upplýsa menn um bænarskrá frá Reykjavík um stofnun barnaskóla árið 1847. Það mál er undirstaðan, ég vil benda á það. Það er alveg undirstaðan, hvernig því máli reiðir af á hinu háa Alþ., alger forsenda alls þess, sem á eftir fer. Þetta veit ég, að svo vel lesinn maður sem hæstv, forseti vor sér undireins og hann hugsar til þess. Það er kannske einhver óróleiki á stjákli í kringum hann, sem gerir það að verkum, að hann sér ástæðu til þess að minna mig á þingsköpin. En ég mun, eftir því sem mér er fært, taka fyllsta tillit til þingskapa.

En ég má nú til með t.d. að vitna hér í konungsfulltrúann sjálfan. Það er ekki oft, sem menn nú á tímum fá að kynna sér viðhorf hans, eins og það var. Og það var þá erkibiskupsboðskapur mikill, alveg eins og hæstv. forsrh, ætlar nú að beita algeru offorsi í sambandi við að rjúfa þing og reka þm, heim og gera landið þingmannslaust í tvo mánuði eða svo, hvað sem upp á kann að koma, svo að með tilliti til þess, að svipuð um aðferðum á að fara að beita eins og Trampe heitinn gerði forðum og álíka sem Jón Sigurðsson og þm. mótmæltu allir, þá er nú fyllsta ástæða til þess aðeins að glöggva sig á, hvað konungsfulltrúi hafði að segja.

„Ég er,“ segir hann, „í aðalefninu samdóma því, er alþm. Ísfirðinga sagði fyrir skemmstu. Bænarskrá sú, sem upp var lesin, er þess innihalds, að Alþingi skuli biðja konung um, að barnaskólanum í Reykjavík verði breytt á þá leið, sem skólar eru í Danmörku, en þó með þeim tilbreytingum, sem hér eru nauðsynlegar.“

Ég vil aðeins skjóta því inn í með tilliti til þingskapanna, að þar segir, að það megi ekki lesa upp úr prentuðu nema með leyfi forseta. Ég hef nóg af fjölrituðu, og það segir ekkert um það í þingsköpum. Í það má ég vitna og lesa upp úr því eins og mér sýnist. En ég hélt bara, að þetta væri bæði fróðlegri og skemmtilegri lestur heldur en ég læsi upp úr frv. og grg. þess, sem menn eru nú búnir að fá að sjá lengi, og eins þeim brtt. og frv. eins og það er orðið eftir 3. umr, í Ed.

Konungsfulltrúi segir áfram:

„Alþingi er e.t.v. ekki ókunnugt, að skólamálefni eru í Danmörku byggð á öðrum grundvallarreglum en þeim, sem menn allt til þessa hafa álitið eiga vel við að fylgja í Reykjavík. Í Danmörku er hverjum húsbónda lögð sú skylda á herðar að láta börn sín í skóla, nema hann sanni, að þau hafi með öðru móti næga tilsögn. Gæti hann ekki þessarar skyldu, varðar það sekt.“ — Þetta er athyglisvert, enda sanna dæmin að lengi býr að fyrstu gerð og Danir eru taldir allvel að sér í mörgum greinum og sæmilega menntaðir. — „En þessari skyldu er einnig samferða önnur skylda, sem allir verða að gangast undir, og það er að leggja sinn skerf fram í þarfir skólanna, t.a.m. laun kennara o.s.frv. Í flestum kaupstöðum í Danmörku eru þar að auki á stofn settir alþýðuskólar eður frískólar, og eru þangað send þan börn, hverra foreldrar ekki borga skólagjald, og borgaraskólar (eður eins konar realskólar). Eiga börnin í þessum síðarnefndu skólum von á meiri menntun, en fyrir þau verður þá einnig að borga sér í lagi.“

Það er meira en lítið fróðlegt fyrir okkur að kynnast þessum viðhorfum nú, þegar við erum að ræða þessi einna allra mikilverðustu málin, sem við höfum til meðferðar hér á hinu háa Alþ. Hér er komið að því, hvernig háttað var til um kostnað á sinni tíð. Það hefur ekki lítið verið rætt um það í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, hvern kostnað það mundi hafa í för með sér. Það hefur verið þráspurt um og beðið með góðu og illu um að fá kostnaðaráætlun með þessu frv., svo að menn gætu gert sér glögga grein fyrir því, til hvers er stofnað. Og hér á hinu háa Alþ. hefur nýlega verið samþ. þáltill. frá heilum stjórnmálaflokki, hv. 3. landsk., þar sem ríkisstj. er lögð sú skylda á herðar, að með stjfrv. fylgi ítarleg kostnaðaráætlun. Ég veit að vísu, að hæstv. menntmrh. þykist þess umkominn að taka ekki tillit til viljayfirlýsinga Alþ., en ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. ætlar að feta í þau fótspor.

Það hefur verið stofnað, eins og þetta mál er — búið núna í hendur okkar í hv. Nd., til gífurlegra útgjalda, sem enginn sér fyrir. Ég hygg, að nú, þegar hæstv. ríkisstj, hefur lagt fyrir Alþ. frv. til l. um stórfelldan niðurskurð á fjárl., um 1500 millj. kr., þá væri ráð að stofna nú ekki með samþykkt þessa frv. til hundruð millj. eða milljarða viðbótarkostnaðar við það, sem er. Frestun þessa frv. nú mundi sýna, að hún væri sjálfri sér samkvæm, þessi hæstv, ríkisstj. Það mundi vera hægt að túlka það sem fyrsta skrefið í sparnaðarátt að forða því, að henni verði sett fyrir að hefja í stórum stíl framkvæmd á þessu gífurlega viðamikla máli. Ég hef að vísu ekki kynnt mér, hvort inni í frv. er enn sú breyt., sem hv. stjórnarlið samþykkti hér í hv. Nd., um stofnun mötuneyta við alla skóla landsins. Mér hefur ekki gefist tími til þess, en mér mun gefast tími til þess á eftir að aðgæta það, hvort það ákvæði er enn að finna í frv., eins og það kemur frá hv. Ed. En ef svo er, þá hef ég heyrt skilgóða menn halda því fram, að þar væri um fyrirætlanir upp á milljarða að tefla. Það er þess vegna að mínum dómi í samræmi við það, sem hæstv, ríkisstj. hefur boðað um sparnað í ríkiskerfinu og stórfelldan niðurskurð á ríkisútgjöldunum, ef þessu frv. verður nú frestað. Það er í raun og veru algerlega gagnstætt þeirri stefnu, sem nú er haldið fram af þessum herrum, að samþykkja nú lög, sem örugglega stofna til svo gífurlegs kostnaðarauka sem hinir fróðustu menn ætla, að þau muni gera.

Fyrir því er það, og sjá menn þá, að það er ekki til einskis að líta hér í það, sem þeir gömlu sögðu um þessi mál, að þeir skuli bókstaflega vekja menn til enn gleggri umhugsunar um þessa undirstöðuþætti málsins, sem auðvitað fjármálin eru. En því miður er það svo, og það er engin tilviljun, að þessi ályktun um, að stjfrv. skuli fylgja kostnaðaráætlun, hefur verið gerð, vegna þess að hæstv. núv. ríkisstj. hefur aldrei skoðað hug sinn um það að fleygja hér fram frv., sem bera í skauti sínu milljónatuga aukinn kostnað, hundruð millj. og milljarða, án þess að gera sér hina minnstu grein fyrir því, hvað hlutirnir kosta, og auðvitað án þess að gera sér minnstu grein fyrir því, með hvaða hætti á að afla fjár til framkvæmdanna, nema þá með þessari gömlu leið, aukinni skattpíningu, enda hefur hæstv. núv. ríkisstj, ekki dregið af sér í þeim sökum, eins og alþjóð er kunnugt. Og það er ekki einasta, hvað snertir þetta mál, sem þannig er ástatt um, að fullkomin óreiða ríkir á öllu fjármálasviðinu. Ég hygg, að engin ríkisstj., sem hefur setið að völdum á Íslandi, hafi farið með svipuðum hætti að ráði sinn gagnvart öllum ríkisstofnunum að kalla má eins og hæstv. núv. ríkisstj.

Af þeim, sem gerst þekkja, hefur mér verið sagt, að þannig sé ástatt hjá hinum mikilsverðustu ríkisstofnunum, að þar standi ekki steinn yfir steini, t.a.m. í fjármálum þeirra, þannig sé t.d. komið hjá Pósti og síma, sem áður fyrr þótti standa sig með ólíkindum vel að sjá fyrir eigin fjárhag. Í heilbrigðismálum voru sett lög, lög um heilbrigðisþjónustu sem menn voru að velta á milli sín, hvort ekki mundu kosta 2–3 milljarða kr., þ.e.a.s. í fyrra um þetta leyti, sem þýðir þá 4–6 milljarða nú, í framkvæmdum. Það var gersamlega vonlaust verk, þótt um það væri beðið ítrekað, að fá hina minnstu hugmynd fram setta af hálfu réttra stjórnvalda um það, hvað framkvæmd þessara laga mundi kosta. Ég hafði þá afstöðu til þess máls að fylgja því fram og greiða því atkv. vegna hinnar knýjandi nauðsynjar, sem á því var, að stórfelldar úrbætur ættu sér stað í þessum undirstöðumálum okkar, ekki síst vegna landsbyggðarinnar og allra helst að sjálfsögðu. Ég gerði þetta með vondri samvisku að því leyti, að ég tel það algera óhæfu að setja slík lög, án þess að fyrir liggi nákvæm áætlun eða sem nákvæmust áætlun um þann kostnað, sem slík framkvæmd her í skauti sínu.

En enda þótt ég teldi það vera forsvaranlegt að setja þá löggjöf með milljarðauknum útgjöldum, án þess að áætlun lægi fyrir um þau, án þess að fyrir lægi nokkuð um það, hvernig afla skyldi fjár til þess arna, þá er það svo, að mjög viða í allri framkvæmd heilbrigðisþjónustunnar og fræðslulöggjafarinnar er pottur brotinn. Ég hygg, að við þurfum að taka til höndunum í þessum efnum. Menn verða að minnast þess, að peningar eru afl þeirra hluta, sem gera skal, og við getum ekki hagað okkur með þeim hætti, sem við sannarlega höfum gert. Og þó hefur alveg tekið steininn úr í tíð þessarar hæstv. ríkisstj., enda sanna dæmin það, og við þurfum ekki að setja á langar tölur, stjórnarandstæðingar, um ástandið. Það hafa hæstv. ráðh. sjálfir gert og tekið af öll tvímæli um með tillöguflutningi sínum, nú t.d. síðast í sjónvarpi í gærkvöld, þegar hæstv. forsrh. lýsti í stærstu dráttum þeim ógnum, sem á næsta leiti bíða í efnahagsmálum okkar.

Ég er sannfærður um það, að í þessum gífurlega stóru málaflokkum, fræðslumálunum og heilbrigðismálunum, má mjög margt gera, sem mundi leiða til þess, að við spöruðum okkur stórfé. Það er sannfæring mín. Og það snertir einn þátt heilbrigðismálanna t.a.m., að hér hugðist hæstv, heilbrmrh. hrinda fram á síðustu mínútunum frv. til l. um lyfjaframleiðslu. Allt frá 1936, að því er mig minnir, hefur verið starfrækt á vegum ríkisins lyfjaframleiðsla ríkisins, sem hefur séð — og það er hennar hlutverk, — séð sjúkrahúsum og læknum í þjónusta ríkisins fyrir lyfjum og tækjum. Nú hugðist hæstv. heilbrmrh. og hæstv. ríkisstj. knýja fram frv. til l., þar sem leggja átti niður Lyfjaverslun ríkisins og þá lyfjaframleiðslu, sem hún hefur haft með höndum. Það átti að sameinast apótekurum og sveinum þeirra í einni allsherjar ríkiseinokunarstofnun um alla lyfjaframleiðslu. Nú er það út af fyrir sig ágætt, ef tryggt væri, að ríkið réði ferðinni í þessum efnum. En alveg var augljóst, hvernig mál mundu skipast. Alveg var augljóst, að mál mundu skipast á þann veg, að lyfjafræðingar af húsi apótekara mundu ráða ferðinni, mundu fá á silfurbakka 57% af allri lyfjaframleiðslu í landinu, sem Lyfjaverslun ríkisins hefur framleitt, og ráða þar með öllum markaðnum, ráða, hvaða lyf yrðu framleidd. Og meðan þeir væru að leggja að velli hina smærri lyfjaframleiðendur, þá mundu þeir bregða á það gamla ráð, sem allir þekkja, að selja á niðursettu verði, jafnvel undir framleiðslukostnaði, en þegar þeir væru orðnir algerlega einráðir, þá auðvitað brygðu þeir á hitt ráðið, að leggja á vöruna eins og þeim sýnist, og þar með væri einokunin fullkomnuð. Allir sjá auðvitað, hverslags óráð þetta er.

Auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt, að ríkið hafi í sínum höndum framleiðslu fyrir þjónustugreinar í sinni umsjá eins og sjúkrahúsin. En þarna er eitt dæmið um þá skelfilegu óráðsíu, um það hugsunarleysi og það glapræði, sem menn ana út í og þessi hæstv. ríkisstj. hefur anað út í á fjölmörgum sviðum, án þess að skoða málin, að því er virðist, því að ég á erfitt með að trúa því, að hæstv. heilbrmrh. hafi út af fyrir sig áhuga á að fá þessi mál öll í hendur apótekurum og þeirra sveinum. En faktorarnir uppi í rn. og þeirra assistentar höfðu alveg sérstakan áhuga á þessu, því að þeir voru í hland af húsi apótekara auðvitað. Að þessu má leiða fullkomin rök. Það er svipað og með tannlækningar, sem við stóðum frammi fyrir í hv. heilbr: og trn. Þar átti að setja fram allviðamikinn og áhrifamikinn lagabálk um tannlækningar. Það virtist þá, — það verður þá hrakið, ef ég fer með eitthvað rangt í því, — það virtist þá koma á daginn, að formennsku í þeirri stjórnskipuðu n., sem samdi það lagafrv., hefði gegnt að vísu opinber starfsmaður, en maður, sem er praktíserandi lögfræðingur Tannlæknafélags Íslands. Þannig var nú að þessum þætti mála staðið, svo að maður nefni eitthvert dæmi.

Nei, það átti að smíða sér kosningavopn þessi fjögur ár þessarar frægu vinstri stjórnar. Það átti að böðla málum fram og flagga með athafnasemina, en svo hefur sennilega verið ætlað, að það yrðu aðrir, sem þyrftu að sjá um framkvæmdina. Það er flaggað ýmsu, sem þessi hæstv. ríkisstj. þykist hafa hrundið í framkvæmd, og menn draga ekkert af sér þar, Þeir eru ekkert smátækir í því. Ég sagði frá því hér á dögunum í útvarpsumr., að hæstv, sjútvrh., sem gefur sér ekki tíma til að hlusta á þessar mikilvægu umr., léti svo sem hann hefði fundið upp skuttogið. — Ég vil aðeins minna á í því sambandi, að allt kemur þetta auðvitað fræðslumálum við. Ég veit ekki betur en útgerðin í landinu, skuttogarar og önnur útgerð,séu undirstaða fjárhags okkar, og ekki gætum við mikið haldið uppi skólum og fræðslu í landinu, ef ekki aflaðist. Ég vil endilega minna á það, af því að það styttist nú í umboði mínu sem alþm. — með þá öxi gengur hann undir hendinni, hæstv. forsrh., að höggva þau réttindi af, — þá vil ég bara minna á það, að fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin, hafði ráðið kaup og fest kaup á 17 skuttogurum. (Gripið fram í.) 17, ég get talið þetta upp fyrir þig. Ég skal færa hv. Vestfirðingi, hv. 7. landsk. þm., skriflegar sannanir fyrir þessu. Hæstv. fyrrv. ríkisstj. stofnaði árið 1967 skuttogaranefnd, sem starfaði dyggilega, en kom sér að vísu ekki að málefnunum alveg strax, Það þurfti undirbúning og rannsókn, eins og um þessi mál. sem við erum að ræða hér, þannig að einstaklingar urðu að vísu fyrri til að taka forustuna, eins og alltaf er. Einkaframtakið nær alltaf vopnum sínum fyrst og það skilar þeim síðast, því að það er auðvitað það, sem við hljótum að byggja á fyrst og fremst. En fljótlega var gengið í þau fótspor með þessum glæsilega árangri, sem sýnir sig. Það er auðvitað ekki þessi hæstv. ríkisstj., sem hefur neina forustu haft um þetta. Það hafa verið kreistar undan nöglum hennar smáfjárveitingar til þess að lána fátækum byggðarlögum, svo að þau gætu náð í þessi mikilvægu atvinnutæki. Það hefur kostað blóð, svita og tár. Mér er kunnugt um þær sendinefndir, sem hafa setið slímusetur hér suður í Reykjavík til þess að lemja þetta með góðu eða illu út úr hæstv. ríkisstj., — þessa hungurlús, sem þeim hefur verið veitt að láni til þess að festa kaup á þessum tækjum. Mér er í illkunnugt um það. Ég þekki margar þeirra og hef slegist í för með þeim, þar sem þær hafa verið sendar frá einum embættisfaktornum til annars í þennan fræga þríhyrning, — sem hv. 5. þm. Austf. hefur lýst hér úr ræðustóli og ég þarf ekki að vera að rifja upp, — sem þeir hafa komið sér upp, embættismennirnir, þar sem hver vísar frá sér. Það var að jafnaði þríhyrningur, en þeir geta lagt stærra undir sig, allt upp í átthyrning og hrútshyrning, ef svo ber undir.

Já, ég hygg, að það væri ekki eins komið málum og er í dag, ef menn hefðu hugsað fram á veg í sambandi við fjármálin, ekki einvörðungu varðandi hina stærstu þætti þjóðmálanna, þótt allt virðist hafa verið gert öfugt við það, sem þurfti í þeim efnum. Ég veit ekki, hvort mér gefst tími til þess fyrir miðnætti að ræða þá þætti eins og vera hæri, og ég fresta því til þess að sjá, hvaða tíma ég hef, af því líka að hæstv. forsrh. og ráðh, allir í kór hafa upplýst um, í hvílíkt ógnarlegt ófremdarástand öll okkar mál hafa hrapað, — ekki sigið, eins og nú er nýmæli hjá hæstv, forsrh., það er gengissig. Það er hætt við, að verði nú virðingarsig á honum, þegar hann fer að taka til vopna sinna hér einhvern tíma um helgina, þegar ég hef lokið máli mínu.

Hér er sagt, „að í flestum kaupstöðum í Danmörku,“ — ég var að vísu búinn að nefna það aðeins, svo að ég þarf ekki að fara meira inn á alþýðuskólana, — hann segir hér, konungsfulltrúi:

„Hvort og að hve miklu leyti Reykjavíkurkaupstað má nú álita svo langt á leið kominn í framför sinni, að hér yrði komið við líkri grundvallarreglu, hvort öll börn í kaupstaðnum gætu tekist í sama skólann, eða hvort ekki mundi þörf gerast að setja á stofn 2 skóla fyrir þá sök, að kennslan þarf að vera sitt með hvoru móti handa börnum þeirra tveggja flokka, sem í kaupstaðnum búa“ — Ég bið hv. alþm. að leggja nú við hlustir. Það eru þeir fyrst og fremst, sem þurfa að læra, sem eru hér við, námfúsir menn, sem ég ber virðingu fyrir, — Konungsfulltrúi talar, Og hann er að tala um börn „þeirra tveggja flokka, sem í kaupstaðnum búa, borgara og tómthúsmanna.“ Vilja menn leggja eyru að þessu? „Í stuttu máli, hvernig öllu skólamálefninu best og hentugast verður komið fyrir. Það verður eftir minni hyggju ekki vel rannsakað af þeim mönnum, sem ekki þekkja mjög nákvæmlega, hvernig öllu hagar til hér í kaupstaðnum. Ég ætla þess vegna, að það sé forstöðunefnd skólans og hún einungis, sem helst hlýtur að geta metið það, hvenær tími er til að byrja á umbreytingu á skólanum, sem til er bent, og hvernig hún á þá að vera löguð. En þegar þessi forstöðunefnd er komin á þá sannfæringu, að tíminn sé kominn, þá byrja skal, þá stendur það henni næst að skýra frá áliti sínu á því, hvernig ráða á öllu því máli til lykta. Og þegar allir þeir, sem hlut eiga að máli, hafa tilhlýðilega rannsakað það, yrði skólanefndin fyrir milligöngu stiftsyfirvaldanna að bera málið upp fyrir hlutaðeiganda stjórnarráði, til þess málið því næst geti tekist til venjulegrar meðferðar. Þegar svo málinu skyldi ráða til lykta með lagaboði, yrði að leggja lagafrv. þar að lútandi fyrir Alþing. En eins og málið nú er vaxið, sé ég ekki, að Alþ. geti frekar tekið það til greina.“

Eins og menn heyra, má strax heyra íhaldshljóminn í þessum orðum konungsfulltrúans og þó öllu fortakanlegra, þegar hann vill skipta börnum borgarbúanna í tvær fylkingar. Sú tíð er sem betur fer löngu liðin, að svo sé gert. — Ég veit ekki, nema ég geymi mér þetta rit að sinni til þess að hafa meiri fjölbreytni í tilvitnunum mínum, — tilvitnunum, sem beinlinís snerta ýmsa meginþætti frv., sem hér liggur fyrir til umr.

Eins og ég segi, þá þykir mér hér rétt, eftir að hafa aðeins til rökstuðnings máli mínu rifjað upp það, sem skeði á Alþ. 1847 og ég veit, að menn geta af dregið marga lærdóma, að víkja þá kannske aðeins fram í tímann, eins og til 1905. Eitt það allra stórfróðlegasta, sem ég hef um mál þeirra lesið, er þar að finna í nál. um frv. til l. um fræðslu barna. Ég vænti, þegar hv. þm, heyra röksemdir, sem þar eru fluttar fram, að þeir verði mér sammála, en mér er alveg nauðsynlegt, þegar ég tek fyrir einstakar gr. í frv., að vitna til einstakra málsgr. í þessu nál., og tel ég því alveg nauðsynlegt, áður en ég sný mér að einstökum gr. og vitna síðan í þetta, að þetta sé fyrst kynnt, þannig að menn fái nokkurt samhengi í málið, hv. þm.

Fyrst rekur n. helstu nýmæli í frv. því, sem þeir höfðu þá íhugað á 18 nefndarfundum. Þetta er athyglisvert. Ég vildi mjög gjarnan fá upplýst, hversu margir nefndarfundir hafa verið haldnir nú um þetta viðamikla og flókna mál, sem hér er til umr., miklu stærra og flóknara mál heldur en þá var til umr. og afgreiðslu. Þá var einvörðungu verið með frv. til l. um fræðslu barna. Hér erum við með allan grunnskólann aftur úr og fram úr. Ég hygg og er raunar sannfærður um, að sá n., sem hafði þetta til meðferðar, grunnskólafrv., hefur enga 18 fundi haldið um það, því fer víðs fjarri. Og eitt með öðru styður það þá skoðun mína, að við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir að gefa okkur nægan tíma. Hv. þm. vita, hvernig mjög margt gengur eftir fordæmum, án þess að það sé að finna sérstakan lagabókstaf þar um. Við sjáum t.d., að hæstv. forsrh. virðist ætla að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga á 43 ára fordæmi, þingrofi Tryggva Þórhallssonar árið 1931, sem hann gerði með leyfi Kristjáns konungs X. Hæstv. forsrh, þarf væntanlega líka leyfi hæstv, herra forsetans, Kristjáns Eldjárns, svo að allt er nú þetta í stílnum. Og fordæmið er það, sem hæstv, forsrh, fer eftir í þessa efni. Þó að þetta gamla dæmi um þingrof sé að mínum dómi ódæmi og ég telji, að enn í dag hafi ekki fennt í þau spor, sem þá voru stigin, þá hyggst hæstv. forsrh. eftir sem áður, eftir því sem fregnir herma, feta í þau fótspor.

Hér sjáum við strax, — og ég veit, að hæstv. forseti er mér sammála í því, — hér sjáum við strax mjög mikilsverða röksemd fyrir því að fresta þessu máli, að á þeirri tíð, árið 1905, þurfti að vanda svo til þessara mála, að haldnir voru 18 nefndarfundir um þetta mál á hinu háa Alþ. Ég er sannfærður um, þótt ég hafi ekki hér í höndunum upplýsingar um það, að hv. menntmn, hefur ekki haldið 9 fundi um það. Þetta sannar að vísu ekki alveg, að þörf sé á frekari skoðun málsins. En ég vil aðeins benda á það, að þeir 18 fundir, sem haldnir voru árið 1905 um þetta mál, hafa ugglaust verið miklu ítarlegri og vandaðri heldur en gefst kostur á að halda nú. Þá voru málefnin hér í þingi miklu, miklu færri. Þá höfðu þm. miklu, miklu minna umleikis en nú er. Það var ekki einu sinni kominn sími til þeirra, hvað þá heldur annað, svo að hérna finn ég fordæmi, sem ég álít mjög sterkt og tel. að fyllsta ástæða sé til þess að taka til fyrirmyndar um, hvernig vinna skuli að málum eins og þessum fræðslumálum.

Helstu nýmælin, sem ég nefni í þessu frv. árið 1905, er í fyrsta lagi „að heimta, að börn 10 ára að aldri séu læs og skrifandi, og um leið að hækka nokkuð kröfur þær, er gerðar eru til fræðslu barna á fermingaraldri í núgildandi lögum.“

Í öðru lagi „að veita fræðslunni aðhald og eftirlit með því að lögbjóða árleg próf fyrir börn á 10–14 ára aldri.“ — Ég vek athygli á þessari gr. Nú á að fara með það eins og mannsmorð, hvað börn fá út úr prófum sínum. Nú þykir það sálarháski hinn mesti, að einkunnir séu lesnar upp við lokapróf. Nú á þetta allt að vera eiðsvarið. Þetta verður að fara með eins og mannsmorð. En þetta er hinn nýi stíll, sem við þekkjum í svo mörgum greinum, að því er þetta mál varðar.

Í þriðja lagi segja þeir: „að setja skilyrði fyrir styrkveitingu úr landssjóði til barnafræðslu, þar sem m.a. er ákveðið lágmark launa barnakennaranna.

Í fjórða lagi fela sérstökum skólanefndum að sjá um og hafa eftirlit með barnafræðslu í hverjum hreppi og kaupstað um allt land“

Eins og menn sjá af því, sem ég þegar hef lesið upp, er hér um hið merkasta nál. að ræða. Og mér er til efs, að það hafi verið athugað, þetta merka nál., nándar nærri nógu vel. áður en þessi mikli lagabálkur var saman settur, sem ég hef hér fyrir framan mig. En af þessu nál. má beinlínis ráða, að hér er í ýmsum greinum farið að á mjög svo vafasaman máta, að ekki sé meira sagt.

Í fimmta lagi er það nýmæli „að leggja yfirumsjónina með barnafræðslunni í hendur stjórnarráðsins, er hafi sér til aðstoðar umsjónarmann skipaðan af ráðh. með 2500 kr. launum auk ferðakostnaðar.“ — Þá stóð nú krónan öðruvísi en hjá hæstv, forsrh. eða hæstv, fjmrh. Þá átti þessi yfirumsjónarmaður með barnafræðslunni að hafa 2 500 kr. í laun. Ég skal ekkert ráða í, hvaða fúlgu hæstv. fjmrh, þyrfti að reiða af höndum nú til þess að gera slíkum yfirumsjónarmanni jafnvel til góða eins og með þessum hætti var gert. Ég hef ekki hugmyndaflug til þess og þarf reyndar rafreikni á allar slíkar nýjar tölum.

Sjötta nýmælið, og ég vek alveg sérstaka athygli á því, er að koma á almennri skólaskyldu um allt land, bæði til sveita og í kauptúnum, fyrir börn á 10–14 ára aldri, þannig að aðstandendur barna á þeim aldri séu skyldir að senda þau í fastan skóla, ef til hans nær, en annars í farskóla, nema þeir fái undanþágu hjá skólanefnd. Af þessu leiðir, að frv. hlýtur að lögbjóða stofnun farskóla í hverjum hrepp um allt land, þar sem föstum skólum verður ekki við komið.“

Ég vil rifja það upp, sem margur maðurinn hefur haldið fram, að hvergi hafi þeir notið í raun og veru betri kennslu heldur en í gömlu farskólunum og þeir hafi búið að því og náð vopnum sínum í unglingafræðslunni með skjótari og betri hætti en jafnvel með öðru móti. Þá sóttu farkennararnir börnin heim á heimilum þeirra, þá voru þau ekki flutt, börnin, á ungum aldri, í frumbernsku sinni, brott frá foreldrum sínum til þess að sitja skólabekk í fjarlægum stöðum hjá mönnum misfærum til þess að annast barnauppeldi.

Þetta er mjög mikilvægt atriði varðandi framkvæmd skólalaganna allra, að líta til hins mikilvæga uppeldisþáttar þeirra og þá sérstaklega þess, að börn séu ekki of ung slitin frá uppalendum sínum eða foreldrum, þurfi ekki að ferðast um langan veg í alókunnugt umhverfi til fólks, sem ekkert þekkir til skaphafnar þeirra eða sálarlífs. Að öllu þarf að gá í þessu efni, því að lengi býr að fyrstu gerð, og vafalaust er það mikilvægast, hvernig til tekst um frumfræðsluna, fræðsluna fram undir fermingaraldurinn. Undir því er mest komið, hvernig viðkomandi verður til gagns lagaður í námi sínu og starfi í framtíðinni. Að því hafa verið leidd rök af hinum merkustu uppeldisfræðingum og skólamönnum, innlendum sem erlendum.

N. segir svo í framhaldi af þessu, eftir að hún hefur rakið nýmælin:

N. getur í aðalefninu fallist á nýmæli þau, sem greind eru í 1.–5. tölul. Þó teljum vér nauðsynlegt,“ segir n., „að eitthvert eftirlit sé haft með hinum fyrirskipuðu prófum af hálfu hins opinbera, og leggjum því til, að:sett sé ákvæði um prófdómendur inn í frv., og fái þeir utan kaupstaða laun úr landssjóði. Oss telst svo til. að eftirlit prófdómanda muni kosta um 1500 kr. á ári, ef þeir hafa 4 kr. á dag í fæðispeninga.“ — Hvernig ætli hæstv. ráðh, gengi ná að lifa á 4 kr. á dag? Að vísu segja þeir, að ástandið í þjóðfélaginu sé með þeim hætti, að menn verði kannske bráðum að láta sér það nægja. En þá er hest, að þeir byrji og gangi á undan með góðu eftirdæmi.

„Aftur á móti getur n. ekki fallist á nýmælið í 6. tölul. Því aðeins getur að vorri hyggju komið til nokkurra mála að lögbjóða almenna skólaskyldu, að unnt sé um leið alls staðar að vísa á góða skóla, sæmilega úr garði gerða að kennslukröftum, húsrými og öllum útbúnaði, er geti tekið á móti öllum börnum á skólaaldri og veitt þeim fræðslu nógu langan tíma á ári hverju. En þetta á langt í land hjá oss enn sem komið er, Fastir skólar eru ekki til utan kaupstaðanna nema í þéttbýlum sjóþorpum og kauptúnum og þeir harla ófullkomnir.“

Hérna leggur n. mjög mikla áherslu á alla aðstöðu, að það sé til lítils að setja á skólaskyldu, ef öll aðstaða er ekki fyrir hendi. Það er mál manna, að þannig hátti nú til hjá okkur, að ástæður séu ekki fyrir hendi né heldur vegna aðstöðu skólaaðstöðunnar sjálfrar eða kennaravals og mannafla til þess að framfylgja hinni lengdu skólaskyldu. Þar við bætist auðvitað, að mjög margir hafa bent á þá miklu hættu, sem við bjóðum heim með því að skylda ungmenni til að sitja í 9 ár á skólabekk, sem í fyrsta lagi eru e.t.v. ekki til þess hæf, í öðru lagi hafa ekki til þess löngun, í þriðja lagi þrá mest að fá að heita höndum sínum í einhverri almennri vinnu, að undirbyggja framtíð sína. Ég hygg, að skólamenn hafi þreifað á því með sönnum dæmum, að mörgu ungmenninu — að vísu mjög miklum minni hl. — hafi stór óleikur verið gerður með því að parraka það á skólabekk miklu lengur en það gat hugsað sér að sætta sig við. Og þótt þetta sé geysilega mikill minnihl. skólanemenda, sem betur fer, sem ekki geta eða hafa hæfileika til að stunda lengra nám, þá þarf ekki marga gikki í hverja veiðistöð. 2–3 unglingar, sem lenda í slíkri sálarkreppu sem þetta hlýtur að hafa í för með sér, geta eyðilagt möguleikana fyrir heilan bekk, heilan hóp jafnaldra sinna að njóta námsins, og þeir geta haft áhrif á félaga sína, spillt allri þeirra löngun til þess að stunda námið. Þeir geta eyðilagt með öllu möguleika kennarans að ná til nemendahópsins. Ég hygg, að um þetta séu margvísleg dæmi. Og þegar þeir sleppa undan þessu oki, þá hefur sálarkreppan svo að þeim kreppt, að þeir kunna að verða og hafa reynst — fyrir því eru mörg dæmi — misindismenn í þjóðfélaginu, ógæfumenn, en e.t.v. hefði aldrei til þess dregið, ef þetta helsi hefði ekki verið á þá lagt.

Við megum til að hafa þetta mjög ofarlega í huga. Ég veit, að það ríður ekki allan baggamun, hvort það er 8 ára eða 9 ára skólaskylda. Þó skiptir mjög um hjá unglingum nútímans við þetta aldursskeið, svo að ég tel í hæsta máta varhugavert að lengja hana í 9 ár, til 16 ára aldurs. En ekki ríður þetta allan baggamun, eins og ég segi. Þess vegna þurfum við að hafa það mjög í huga, — og til þess er ekki nægjanlegt tillit tekið í þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., — við þurfum að hafa það í huga, að þeim unglingum, sem þannig háttar til um, geta ekki lært eða með engu móti verður að lærdómi haldið, — þeim verður að skapa önnur skilyrði til verklegs náms eða til líkamlegs erfiðis og vinnu, sem er hverjum manni holl. Ég held, að það hefði þurft, um leið og þessi mikli lagabálkur er gerður að lögum, að hafa þessi atriði ákaflega ofarlega í huga og reyna að ráða bót á því ófremdarástandi, sem ýmis heimili komast í vegna þess, að börnin eru ofurseld þessu skipulagi, en gætu orðið miklu nýtari þjóðfélagsþegnar með því að fá að athafna sig og beina áhuga sínum og atorku að öðrum hlutum en þau eru með þessum hætti skylduð til.

Þegar ég vitna í hina fróðlegu skýrslu „um fræðslu barna og unglinga, sem meistari Guðmundur Finnbogason hefur safnað,“ ekki ómerkari maður en hann, „sést, að einungis 12 af 47 skólahúsum fullnægja hinum lægstu kröfum heilbrigðisfræðinnar, að því er snertir rúmmál á hvern nemenda, með þeirri aðsókn, sem nú er: — Hér er á þetta bent árið 1905 af hinum stórmerka manni Guðmundi Finnbogasyni, að það séu aðeins 12 af 47 skólahúsum, sem fullnægja hinum lægstu kröfum heilbrigðisfræðinnar, að því er snertir rúmmál á hvern nemanda. Hafa hv. alþm. ekki veitt athygli upplýsingum, sem hafa á borðum þeirra legið um það, hvernig háttar til húsrými á nemanda í sjálfum Menntaskólanum í Reykjavík? Ég hef séð myndir af því meira að segja. Mig minnir, að eitt af þessum skólahúsum sé nefnt Fjósið, og það er aldeilis nafn með rentu, Ég sat aldrei þann skóla, en ég ber mjög mikla virðingu fyrir honum og hans húsnæði alveg sér í lagi, þar sem hið háa Alþingi var háð á sinni tíð. — Ég má til með að skjóta því inn í, að þetta eru mjög ánægjuleg vaktaskipti, sér í lagi, ef þeim, sem við tekur, verður haldið uppi með einhverju fróðlegu og skemmtilegu tali á meðan og vinskaparlegu. — En ég, eins og ég segi, ber mjög mikla virðingu fyrir þessu skólahúsi, þessu menntasetri, en árið 1905 þykir ekki fært að leiða í lög skólaskyldu 10–14 ára aldurs, vegna þess að skólahúsnæði í landinu fullnægði ekki lágmarks kröfum. Enn í dag hefur okkur tekist svo snilldarlega til, að ástandið í einni höfuðmenntastofnun þjóðarinnar, Menntaskólanum í Reykjavík, er með þeim hætti, að ég efast um, að árið 1905 hafi nokkurt skólahúsnæði verið svo illa úr garði gert eða samrýmst svo illa þeim heilbrigðiskröfum, sem hljóta að verða gerðar til skólahúsnæðis. Nemendur hafa rekið upp kveinstafi í skóla þessum og fleiri skólum að vísu, en ég hygg þó, að þarna keyri ástandið allt um þverbak. Hefði nú ekki verið nær, áður en stofnað er til hundruða millj. útgjalda eða milljarða kostnaðarauka, að reyna fyrst að skapa þessari virðulegu stofnun aðstöðu, sem samrýmist lágmarksheilbrigðiskröfum? Hefði nú ekki verið ólíkt mennilegra hjá okkur á þessu fræga 1100 ára afmæli, — sem hæstv. forsrh, vildi hafa frið til að sitja út allt árið í hásæti sínu, — hefði nú ekki verið mennilegra af okkur og væri það ekki, því að enn eru þetta ekki orðin lög, mennilegra af okkur að taka til hendinni og reyna að verja einhverju fé til þess að bæta úr því ófremdarástandi, sem við höfum verið upplýstir um og vitum, að ríkir í skólahúsnæði Menntaskólans í Reykjavík. En það þarf að eignast einhver flögg að flagga með, og þess vegna skal þessu nú rutt fram, þótt okkar bíði mörg önnur stórmál, sem er miklu brýnna að fái úrlausn heldur en þetta. Þetta er ein röksemdin meðal fjölmargra annarra, sem ég hef nefnt fyrir því, að okkur ber nú að fresta þessu og gefa okkur betri tíma.

Eitt með öðru, sem menn sjá í hendi sinni við einn yfirlestur á þessu frv., er, hversu lopinn er teygður með ólíkindum. Menn eru hættir að vera gagnorðir eins og í þeim þingræðum, sem voru bara nokkrar setningar og ég vitnaði til hér áðan og á eftir að vitna miklu betur í. Þarna er lopinn teygður með ólíkindum, enda hefur embættismannakerfið fengið til þess tækifæri ár eftir ár, nýjar og nýjar nefndir, að skalta og valta með þetta að sínum geðþótta. Upp á vinnubrögð hefði það verið miklu snjallara, f.d. á s.l. ári eða ég tala nú ekki um í hittiðfyrra. að kjósa mþn, í málið, er starfaði sumarlangt á milli þinga, heldur en fá þetta alltaf nýjum og nýjum embættismannanefndum til meðferðar.

En það er ekki að spyrja að því, sjálfvirka embættismannakerfið breiðir sig út yfir alla hluti. Embættismennirnir eru búnir að sölsa undir sig í stórum stíl það vald, sem Alþ. á með að fara. Þetta á sér kannske þær skýringar, að við á örfáum árum stukkum úr tiltölulega frumstæðu þjóðfélagi bænda og sjómanna yfir í tiltölulega nýtískulegt og tækniþróað þjóðfélag. Skýringin kann að vera sú, að hinir öldruðu og virðulegu landsfeður, sem sátu í þessu húsi, hafi afhent embættismönnunum völdin, vegna þess að þeir fylgdust ekki nægjanlega vel með tímanum, voru ekki í stakk búnir til þess að takast á við hin nýju og gerbreyttu viðhorf, enda tóku þeir fegnir við, embættismennirnir, og nú er svo komið, að annað tveggja virðist blasa við, að þessi stofnun eigi lítið sem ekkert erindi eða embættismennirnir skili aftur í hendur hennar illa fengnu valdi.

Hið mikla ofurvald embættismanna birtist í ólíkustu myndum. Þeir hafa nú farið fram á verkfallsrétt, opinberir starfsmenn t.d. Þeim hefur verið boðið upp á verkfallsrétt, ef það væri þá leyfilegt að segja þeim upp störfum. Þeir vilja ekki sjá það. Þeir vilja auðvitað ekki taka slíku boði. Þeir vilja hafa æviráðningu og ekkert, sem við þeim geti hróflað í starfi þeirra. Það eina, sem gæti skeð, væri það, að þeir færu þeim mun fyrr á eftirlaun sem þeir gerðu stærri og meiri vitleysur. Þetta auðvitað kemur gagngert þessu máli við, sem ég er hér að reifa.

Við 2. umr, þessa máls í Nd. flutti ég ásamt hv. 5. þm, Norðurl. v., hv. 3, þm. Norðurl. v. og hv. 3. landsk, þm. till. til rökstuddrar dagskrár í málinu. Ég vík síðar að einstökum röksemdum þeirrar dagskrártill., en ég rifja hér upp að gefnu tilefni það, sem segir í niðurlagi þessarar till., að við viljum vísa því frá í trausti þess, að skipuð verði 7 manna þm.-nefnd til að endurskoða frv. og það verði lagt fram endurskoðað fyrir Alþ. næsta haust. Þetta voru forsendurnar, aðalforsendurnar fyrir okkar rökstuddu dagskrá. Ég hef nú vikið að ýmsum atriðum, sem efla mjög þau rök, að við ættum að fresta þessu og okkur beri skylda til að fresta þessu nú. Hér höfum við, sem þessa till. fluttum, beinlínis lagt til, að kosin verði 7 manna n. til þessara starfa, þannig að öruggt má telja, að þetta mál muni fá fullnaðarafgreiðslu á næsta þingi. Okkur gekk þess vegna ekkert illt til með tillögugerð okkar, öðru nær. Við vorum aðeins að reyna að koma í veg fyrir, að hér yrði höfð fljótaskrift á málinu, hér yrðu glapræði gerð, sem mundi síðar koma á daginn, að yrðu mjög fjötur um fót allri framkvæmd þessara mikilsverðu laga. Við fluttum þessa dagskrártill. af einskæru tilliti til málsins og vegna þess að við erum auðvitað málinu út af fyrir sig ákaflega hlynntir., fræðslulögunum í heild sinni, en við sjáum gífurlega annmarka á þeirri framkvæmd, sem hér er verið að leggja til.

Skilagóður maður hefur sagt mér, sem hefur lesið þetta frv. og kynnt sér innihald þess vandlega, skólamaður, sem veit, hvað hann syngur, að það mætti án þess að breyta neinu um stefnumark eða mið þessa frv. skera það niður, 1/10 af þessu mundi nægja til þess að ná fram öllum markmiðunum, sem þessu frv. er ætlað, aðeins 1/10. En eins og ég sagði, það er ekki að sökum að spyrja, þegar fuggan kemst í það. Nú er, eins og ég sagði, nefnd eftir nefnd embættismanna búin að fá að þjóna lund sinni í þessu. Hún hefur vaðið fram og aftur um landið, dregið sérvisku upp úr hverri hreppsnefnd á hverjum útkjálka og næstum að segja hverjum manni og þótt hæfa að festa það hér í frumvarpsform. Ég kem að því öllu seinna, þegar ég les yfir grg. með þessu frv. Ég veit, að hæstv, forseti telur það þó ekki til hliðar við erindi mitt, að ég lesi sjálfa grg. með frv., þó að hún sé prentuð. Ég vil bara ganga úr skugga um það, hvort það liggur ekki ljóst fyrir. (Forseti: Það liggur ljóst fyrir.) Já, takk. Ég er bara að ganga úr skugga um, að það verði ekki skyndilega neitt trufluð umr., ef maður skyldi fá öndinni frá sér hrundið um þetta mikilvæga mál.

Ég hins vegar veit, að hæstv. forseti gerir sér grein fyrir því, að þetta er ekki allt skemmtilegur lestur og ég er ekki að gera þetta að gamni mínu, t.d. þessar tölur, sem menn sjá hér, En ég sé engin önnur ráð, — ég hef velt því mjög vandlega fyrir mér, — ég sé engin önnur ráð, ef takast má núna á síðustu stundu að opna augu manna.

Þeirri spurningu er hér varpað fram í framhaldi af því, sem n. hefur talað um skólahúsnæðið og rúmmálið á hvern nemanda, sem heilbrigðisfræðin þá krefst, þeir spyrja: „Hvað mundi verða, ef almennu skólaskylda yrði lögleidd? N. er því á þeirri skoðun, að eftir landsháttum vorum sé enn ekki kominn tími til að lögbjóða almenna skólaskyldu, allra síst til sveita, þar sem heimafræðslan enn þá er og verður óefað um langan tíma helsti grundvöllur alþýðumenntunarinnar: Og þarna er vissulega komist vel að orði. Eins og ég sagði áðan: Lengi býr að fyrstu gerð. Enginn vafi er á því, að undirstöðuatriðið er t.d., hvernig uppalandanum, móðurinni sér í lagi, til tekst um fræðslu barnsins þegar í bernsku, og er afar mikilvægt að heimilinu megi auðnast að sjá barninu farborða einnig á þessu sviði sem lengst.

„Heimafræðslan er arfur frá forfeðrum vorum, frá einni kynslóð til annarrar.“ — Þetta virðist mér nú vera samið af presti, enda voru prestar þá mjög fjölmennir á hinu háa Alþ. En þetta er ekki verra fyrir það. — „Það er hún, „heimafræðslan,“ sem fremur öllu öðru hefir skapað hinar fornu bókmenntir vorar.“ Nú er helst á hæstv. menntmrh, að skilja, að það skipti svo sem engu máli, ekki neinu sérstöku máli a.m.k., með þessar fornu bókmenntir okkar. Hann vill meina, að hið skrifaða orð skipti engu máli, það sé bara hið talaða. Og einhvers staðar var ég á tali við kennara í Kennaraháskólanum, þar sem hann hélt því alveg blákalt fram, — það var að vísu í sjónvarpinu, — að hið skrifaða orð kæmi talmálinu ekkert við. Þá fer að fara minna fyrir hinum dýru membrana Íslandslífi, sem Jón Hreggviðsson talaði um í Kaupinhafn forðum tíð. Nei, það var Jón Grindvíkingur, sem sagði þessi orð, en ekki Jón Hreggviðsson, enda var hann að mestu ólæs og kunni ekki letur annað en stafkarlaletur. En þó var það á Rein, sem björguðust ein tólf blöð úr Skáldu, og sýndi sig, hvað þjóðin var samhaldssöm um allt, jafnvel þótt hún gæti ekki notað það í skóbætur. En hún fer nú að slitna virðingin, sem Íslendingar bera fyrir þessum bókmenntum, nú þegar svo er komið, að það er aðeins hið talaða orð, sem skiptir máli. Menn hafa e.t.v. gleymt því, að svo var komið hér á 18. öld t.d., að næstum því allur embættismannaflokkurinn var mæltur á danska tungu, öll erindisbréf af hálfu hins opinbera voru skrifuð á dönsku, og eftir þessu vandist bæjarlýðurinn, sem þar var um kring. Og menn geta rétt ímyndað sér það, hvort íslenskan hefði risið upp úr þeirri öskustó svo hrein og fögur eins og hún sannarlega er í dag, ef þjóðin hefði ekki haft hið skrifaða orð til að styðjast við eða ekki hefðu verið enn á ný hinar fornu bókmenntir, sem drógu okkur að landi í þeim ógnarlegu hafvillum, sem við höfðum þá um langa hríð verið í. Og staðreynd er það, að við mundum ekki í hinum einstöku landshlutum í dag skilja hverjir aðra, jafnvel ekki milli sveita, ef hver hefði mátt haga réttritun sinni að eigin geðþótta. Þá hefðum við, eins og Guðbrandur prófessor Vigfússon segir, lent í endalausum stafsetningarhafvillum.

„Heimafræðslan er arfur frá forfeðrum vorum, frá einni kynslóð til annarrar. Það er hún, sem fremur öllu öðru hefur skapað hinar fornu bókmenntir vorar. Henni er það að þakka, að þær urðu svo einkennilega þjóðlegar. Það er hún, sem fremur öðru hefur haldið hinni íslensku þjóð vakandi gegnum aldirnar og varðveitt mál vort og þjóðerni allt til þessa dags.“

Það var heimafræðslan, það voru bókmenntirnar, sem unnu þetta þrekvirki, en nú skal hið ritaða orð víkja og vera einskis virði. Enda þótt nýjabrumsmenn og gapuxar ýmsir í embættismannastétt hafi nú örskamma hríð fengið að ráða ferðinni að þessu leyti, þá er þess örskammt að bíða, að þeim verði velt úr sessi. Og þegar embættismenn eru búnir að setja okkur einhver lög, þá lýsa þeir því yfir, að þeir muni taka það mjög óstinnt upp, ef Alþ. fer að skipta sér af hlutunum. Við verðum varir við það í þessari stofnun hér, á hinu háa Alþ., þegar embættismannalýðurinn gengur hér um ganga til þess annað hvort að þrýsta fram hugarfóstrum sínum og gera þau að lögum eða þá að koma í veg fyrir, að sjálfsögð réttlætismál, sem einstakir þm. eru með, nái fram að ganga. Ég get nefnt mörg blómberandi dæmi um þessi efni.

Hér segir n. áfram:

„Vér játum það, að heimafræðslan stendur að ýmsu á baki skólafræðslunni. Sannmenntaður skólakennari getur veitt lærisveinum sínum víðtækari, fjölbreyttari og dýpri þekking en hver óbreyttur alþýðumaður getur veitt barni sínu.

En hins vegar hefur heimafræðslan líka talsverða yfirburði yfir skólafræðsluna. Skólakennararnir verða að skipta sér á milli margra og geta síður gefið sig við eða lagað sig eftir hverjum einstökum nemanda, og því hættir þeim til að reyna að steypa alla lærisveina sína í eitt mót, ef svo má að orði kveða.“

Það hefði ég haldið, og um það getur hv. 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, dæmt, því að hann var skólastjóri um langa hríð með ágætum vitnisburði. En hérna er það sem sagt að steypa nemendurna í eitt mót. Og hvað skyldi nú verða, þegar á það ráð á að bregða, að öll vinnan skuli unnin í skólunum sjálfum undir umsjá kennara? Kennarinn mun sem sagt móta hvern nemanda í eitt og sama mótið. Þetta, að nemendurnir skuli geta kallað til kennara til aðstoðar sér undir allri þeirri vinnu, sem ætti að vera heimavinna, mun greinilega ala stórkostlegt ósjálfstæði upp í viðkomandi, stórkostlegt ósjálfstæði. Þetta sjá allir menn í hendi sinni, sem um það vilja hugsa. Og mótið verður eitt og aðeins eitt, eins og kennarinn sjálfur smíðar og steypir síðan í það.

Þetta er mjög mikilvægt atriði í þessu sambandi. Börnin eiga að koma í skólann, þau eiga að matast þar, þau eiga að dvelja þar daglangt og vinna sína vinnu þar undir umsjón kennara. Það þarf ekki orðum að því að eyða, að hér er mjög aðgæsluvert atriði á ferðinni, að ekki sé meira sagt.

„Aftur á móti kemst heimafræðslan,“ segja þeir, „í miklu nánara og innilegra samband við einstaklinginn, hefur meira vald yfir tilfinningalífi hvers einstaks barns og getur, ef fræðslan er í nokkru lagi, lagað sig betur eftir andlegum og siðferðislegum þörfum barnsins og sérkennileik þess. Auk þess er miklu hættara við útbreiðslu næmra meina, bæði siðferðislegra og líkamlegra, í skólum en á fámennum heimilum. Enn fremur hefur heimafræðslan mjög lítinn tilfinnanlegan kostnað í för með sér, og hana má veita í daglegri umgengni allt árið um kring, án þess að barninu sé íþyngt. Heimafræðsla varðveitir betur það, sem einkennilegt er í fari þjóðarinnar, en er hins vegar þröngsýnni en skólafræðslan. Loks er það ekki lítilsvert, að heimafræðslan hefur jafnframt stórmikil menntandi og síðbætandi áhrif á hina eldri menn, sem fræðsluna veita. Með skyldunni til að fræða og uppala sjálfur barn sitt hlýtur að skapast sterk innri hvöt til þess að afla sjálfum sér þeirrar menntunar, sem er nauðsynleg til þess, að fræðslan verði að verulegum notum, og um leið til að uppala sjálfan sig, laga það í fari sínu, sem getur hneykslað eða saurgað hina ungu sál barnsins.“

Það er kannske á elleftu stundu, að þessi fræði eru hér lesin. Þó mun þess nú freistað að koma þessum skoðunum hér á framfæri, að þær mættu verða til þess að opna augu manna fyrir þessum efnum miklu rækilegar heldur en hingað til hefur verið. Það hefði verið mikilsvert að sjálfsögðu, að þetta nál. t.d. það eitt út af fyrir sig hefði getað legið fyrir í þeirri hv. n., sem aðalverkið vann í sambandi við meðferð þessa máls. Þá er ég hræddur um, að það hefði getað haft gagnger áhrif á það, sem hér segir í sambandi við heimafræðsluna, t.d. um mikilvægi þess, að börnin dvelji heima í foreldrahúsum sem lengst, um hinn menntandi þátt þess að eiga beinan þátt í menntun barna sinna. Hvernig sem á málið er litið, þá virðist það vera samdóma álit manna, að það hafi gagnger áhrif á sálarheill barna, að þau fái notið umsjár, einnig í kennslu, foreldra sinna eða uppalenda sem allra lengst. — Svo segir n. hér:

„Það er sannfæring vor, að farskólar þeir, sem settir hafa verið á stofn nú á síðari árum víðs vegar í sveitum, séu næsta ófullkomnir og að vafasamt geti verið, hvort þeir hafa með því fyrirkomulagi, sem á þeim er, gert meira gagn en ógagn. Af fræðsluskýrslunum sést, að 32.2% eða réttara að kalla þriðjungur allra nemenda utan kaupstaða hafi ekki notið fræðslunnar lengur en einn mánuð eða skemur á ári hverju og að talsvert meira en helmingur þeirra (58.6%) hafi stundað námið 2 mánuði eða skemur. En athugavert er, að hér eru taldir með allir þeir nemendur utan kaupstaða, sem ganga í fasta skóla. Ef þeir væru taldir frá og aðeins tekið tillit til þeirra barna, sem hafa notað farskóla, mundu þau börn, sem hafa notið fræðslu 1–2 mánuði eða skemur, verða tiltölulega talsvert fleiri. Í skýrslunum segir, að flest þau börn, sem stundað hafi nám 6–7 eða 7–8 mánuði, hafi verið í föstum skólum. Þau má óhætt draga frá samtölu barnanna, því að þó svo kunni að vera, að fáein þeirra hafi sótt farskóla, þá er hins vegar víst, að allmörg af þeim börnum, sem hafa notið kennslu skemur en 6 mánuði, hafa sótt fasta skóla, svo að það jafnast upp. Börn þau, sem hafa stundað nám í 6–7 eða 7–8 mánuði, eru 906 að tölu.“ Fróðlegt er nú þetta á marga vísu. „Séu þau talin frá, verður tala þeirra barna, sem gengið hafa í farskóla, hér um bil 4371, en af þeim 3095 eða sem næst 71% notið fræðslu 2 mánuði eða skemur og 1700 eða nálægt 38.9% í 1 mánuð eða skemur.

Það liggur í augum uppi, að svo stutt árleg fræðsla er að engu nýt, nema börnin njóti jafnframt stöðugrar heimafræðslu þann tíma, sem þau eru ekki í farskóla. Er það svo eða ekki? Undir svari þessarar spurningar er það komið, hvort vér verðum að álíta, að farskólarnir með því fyrirkomulagi, sem tíðkast, geri nokkurt gagn eða séu jafnvel beinlínis til ógagns með því að veikja heimafræðsluna og draga úr henni.“

Síðan víkur n. að skýrslum Guðmundar Finnbogasonar landsbókavarðar, þess mæta manns, og segir:

„Skýrslur meistara Guðmundar Finnbogasonar“ — þeir ávarpa hann ekki undir lægra standi en meistara — „gefa hvergi neitt fullnægjandi svar upp á þessa spurningu og yfir höfuð að tala hefur hann, eins og eðlilegt er, á þeim stutta tíma, sem hann hefur starfað, ekki enn getað rannsakað ásigkomulag farskólanna og heimafræðslunnar öðru vísi en mjög lauslega. Samt kemst hann svo að orði:

„Víða mun það því miður vera svo, að mönnum hætti við að treysta of mikið þess um fáu vikum, sem börn njóta kennslu hjá farkennurum, og leggi því ekki eins mikla rækt við börnin heima.“

Hér er sú mikla hætta, sem stafar af farskólafyrirkomulaginu, eins og það nú er, og það er lítil huggun, þó að höfundur bæti við: „En ekki er það alls staðar svo.“

Þeir segja hér enn fremur: „Það er ofureðlilegt, að allmargir lítt menntaðir alþýðumenn, sem hafa háar hugmyndir um skólafræðslu, en bera ekkert skynbragð á, hve langan tíma þarf til að koma barninu í skilning um það, sem það á að læra, þykist hafa fullnægt skyldu sinni við barnið, ef þeir hafa sent það í farskóla einn eða tvo mánuði á ári.“

Þeir eru að velta fyrir sér þessari örskömmu skólagöngu, meðan við erum að deila um það, hvort eigi að skylda börnin að vera 8 eða 9 ár í skóla.

„Í frv. er gert ráð fyrir því, að undanþágur megi veita frá skólaskyldu, og er það falið fræðslunefnd.“ — Hér erum við að tala um skólaskyldu frá 10–14 ára að aldri. — „Vér erum sannfærðir um,“ segir n., „að mjög margir menn, sem bera vantraust til skólanna og þykjast geta veitt börnum sínum aðra betri fræðslu heima fyrir, muni verða mjög óánægðir með skólaskylduna og róa að því öllum árum að nota sér þennan undanþágurétt og að fræðslunefnd muni oftast nær verða vel við því. Með þessu móti er hætt við, að undanþágurnar verði að reglu og l. verði þannig þýðingarlaus í framkvæmdinni.“

Þeir þykjast sjá fram á, þegar þeir eru að ákveða skólaskyldu um fjögur ár, frá 10–14 ára aldri, þá muni mjög margir verða óánægðir með skólaskylduna og sækja mjög fast á fræðslunefndirnar, sem geta veitt undanþágur og gera svo, þannig að þetta verði pappírsgagn eitt. Að vísu hefur fjölmargt breyst frá því um aldamót eða árið 1905. Það skal játað, að hér hefur orðið bylting á flestum, ef ekki öllum sviðum þjóðlífsins, en mikið má á milli vera frá því, sem þeir ræða um, hvort rétt sé að setja á skyldu í 4 ár eða hvort við þurfum að eyða svo miklum kröftum í að deila um það, hvort hér eigi að verða 8 eða 9 ára skólaskylda.

Ég rifjaði það upp hér áðan, að svo virtist sem þetta mikla efnisatriði málsins ætlaði að ná einhverri lausn s.l. nótt í hv. Ed. eða gærkvöld, þegar 6 af 7 nm. menntmn. höfðu flutt till. um það, að fræðsluskyldan skyldi vera í 9 ár, en skólaskyldan í aðeins 8, og það er alltannar hlutur. Sjálfsagt er, að hinu opinbera beri skylda til að halda fræðslunni í 9 ár, en hins vegar verði börnin ekki skyld að sitja á skólabekk eða skólaskyldan sjálf nái ekki nema í lengsta lagi 8 árum.

Enn er þess að geta í sambandi við þetta frv., sem ég hefði talið, að hefði þurft að kveða miklu skýrar á um, það er um heimildir til þess að skipta skólatímanum með öðrum hætti eða þó öllu fremur að halda skólann á öðrum tíma en tíðkaður hefur verið og þetta frv. gerir ráð fyrir. Á ég þá við sérstakt tillit, sem þarf að taka til sveitanna og til sjávarplássanna. Ég teldi, að það kæmi til athugunar, að skóli unglinga í sjávarplássum hæfist t.d. 1. ágúst og honum yrði lokið, þegar hávertíð tekur við, eins og t.d. hérna sunnanlands. Þannig var talið í fyrra haust, að um 1 000 vinnandi manns mundi vanta í fiskvinnsluna hér á Faxaflóasvæðinu. Fyrir nú utan það, að þetta mundi bjarga miklum verðmætum, þá er auðvitað ekkert hollara ungum börnum en fá til þess tækifæri að vinna að framleiðslunni og leggja sitt af mörkum til starfa við aðalatvinnugreinar okkar, þannig að við ættum að taka þetta mjög til athugunar. En öðruvísi háttar til sveitanna, þar sem að mínum dómi kemur ekki til greina, að börn og unglingar fái ekki að njóta þeirrar miklu menntunar, sem í því er fólgin, og lífsnautnar að fara í göngur og réttir á haustin og aðstoða í sláturtíðinni. Þau mundu samt sem áður vera til þess albúin að leggja lið við sauðburð, þótt honum sé nú stöðugt flýtt, og hefði þótt í minni tíð mönnum segjast fyrir, ef það hefði verið farið með fyrir gamlársdag, en nú er það tíðkað að fara að leiða út hrúta um mánaðamót eða í byrjun des. En þannig breytast tímarnir og mennirnir með. En því nefni ég þetta, að allt er það hin sannasta menntun, ef unglingum gefst færi á að taka þátt í störfum þjóðlífsins. Það er fátt meira menntandi. Það er kannske hægt að gera þau lærðari með hinu mótinu en það er vissulega sönn menntun, sem í þessu er fólgin, að unglingunum gefist kostur á því að ganga í þann lífsins skóla, sem mun reynast þeim haldbetri en nokkur annar.

Ég veit ekki nema ég ætti að víkja að sjálfu frv., eins og það lítur nú út eftir 3. umr. í Ed. Þá á ég að vísu eftir það leiðindaverk að rekja það allt, einsog það var í upphafinu. En til þess að hafa meiri tilbreytni í því og að ég missi ekkert niður af því, sem ég nauðsynlega þyrfti að koma á framfæri, þá væri þetta athugandi. Ég vil þó fyrst víkja að því sem ég hvarf frá áðan um dagskrártill., sem ég var meðflm. að við 2. umr. málsins hér í hv. Nd.

Ég nefndi það áðan, að við hefðum ekki flutt þessa till. til þess að bregða fæti fyrir þetta frv. til frambúðar, aðeins að við gætum náð saman endum, við gætum orðið sammála um, hvernig að afgreiðslu þess yrði staðið, að við gætum orðið sammála um það, að í þessum geysilega viðamiklu lögum og mikilvægu bæri að grandskoða, að í þeim væri ekkert að finna, sem miklu miður færi, þegar til framkvæmdarinnar kæmi.

Mér var tjáð og ég vék að því í upphafi ræðu minnar, að þetta mundi hafa verið meira og minna til skoðunar og athugunar hjá menntmrn. allar götur frá því um 1960 eða jafnvel fyrir þann tíma. Hér erum við búnir að hafa þetta í 3 ár, 3 þing, en að vísu verður ekki talið, að neitt hafi verið starfað að þessu máli fyrr á þessu þingi, og á þessu þingi hefur ekki verið nálægt því starfað jafnmikið að því máli eins og við sjáum, að hin fyrstu drög að l. um barnafræðslu fengu.

Nei, okkur gekk vissulega aðeins gott til með dagskrártill. okkar, en hún hlaut ekki náð fyrir augum þeirra, sem ráða vilja. Og nú er það ákvörðun hæstv, ríkisstj., sem er orðin í minni hl. hér á hinu háa Alþ., að reyna samt að kúga þessi lög fram örskömmu áður en hæstv. forsrh. ætlar að svipta menn þingréttindum, svipta landið Alþ., hvað sem upp á kann að koma. Nú ætlast þessir háu herrar til þess, að hv. alþm. taki þátt í afgreiðslu þessa stórmáls, þótt fyrir liggi, að þeim sé sýnd svívirðing og þingræðinu í landinu með þeim hætti, sem raun ber vitni um. Þeir ætla að láta hafa sig til þess af mönnum, sem hafa hér engan meiri hl. á bak við sig lengur í þingi, að vinna að lagasetningu um hin allra mikilvægustu mál, eftir að það liggur ljóst fyrir, að þeir, sem þeirri ferð stjórna, hafa á því — engan rétt að ráða einu eða neinu. Þm. ætla að vinna að þessu, eftir að hæstv, forsrh. ætlar að feta í þau fótspor, sem frægust hafa orðið í sambandi við meðferð þingræðis á Íslandi, sem Tryggvi Þórhallsson markaði af hálfu þessara herra, sem þannig ætla að fara að ráði sínu, tala samt hv. þm. að láta verða sitt síðasta verk að efna til þess óvinafagnaðar, sem okkur sýnist, að þetta kunni að bera í skauti sínu?

Eftir að fyrir liggur, að stórkostleg vandamál bíða úrlausnar, sem þola næstum því enga bið, og skipið hefur strandað, skipið með allt góssið innanborðs strandað, þá tekur skipstjórinn til þess ráðs ásamt matrósum sínum að slá skjaldborg um þetta strand og banna mönnum að komast að til að bjarga einu eða neinu. Með þingrofsvaldinu bannar hann mönnum að komast á strandstaðinn að bjarga því, sem bjargað verður, nema með því að stjórnarandstaðan, núv. meiri hl. í Alþ., bindist einhverjum böndum við hið úr sér gegna, víxlgenga merhryssi, Framsfl. Það er lítið geð þeirra guma, sem skipa þingbekki, ef þeir ætla nú, þrátt fyrir það að þannig er á málum haldið, að láta hafa sig til þess, að þetta mál nái fram, eins og til alls þessa er stofnað. Fyrrv. flokksbræður hæstv. menntmrh. kunna að hafa fyrir kunningsskap einvörðungu e.t.v. viljað ljá þessu máli fylgi. En það er nú áreiðanlega komið að því, að hann á ekkert inni hjá þeim af greiðasemi. Og hafi þeim verið það umhendis að ganga til þessa leiks um samþykkt þessa frv., þá held ég, að þeir ættu nú að athuga það, að þeir munu vera honum alveg óskuldugir nú orðið. — En ég er að beina orðum mínum til þess meiri hl., 31. þm., sem hefur ritað hæstv, forseta Sþ, bréf og óskað eftir að fá að ræða vantraustið, sem hæstv, forsrh. virðist ekki þora: Ef þessi vinnubrögð eiga öll að ganga fram með þessum hætti, er þá ekki maklegast og er mönnum ekki skapi næst að svara slíku háttalagi með því að neita því að taka þátt í afgreiðslu þessa geysilega viðamikla máls. Ef til stendur að neita meiri hl. þings, 31 hv. þm., um að ræða vantraustið, sem fram er komið, ætla þá þessir hinir sömu 31 þm, að þakka fyrir sig með því að standa að því í einhverri misskilinni greiðasemi við einhverja hæstv. ráðh. að afgreiða þetta stórmál. sem ég hef hér aðeins vakið máls á, en ekkert í þeim mæli, sem ég á eftir.

Ég kynni að stytta mál mitt, ef ég hefði einhverja von um það að skapsmunir meiri hl. þm. stæðu til þess, sem mínir skapsmunir standa til. Ég held, að menn hljóti, þótt það séu óskyld mál í sjálfu sér, þessi poppskólalög, og vantraustið, sem við höfum óskað eftir að fá að ræða, þá held ég þó, að þetta tengist saman við öll vinnubrögð þessarar hæstv, ríkisstj.

Það er ljóst, að hæstv. samgrh. leggur á það höfuðáherslu að knýja fram þetta frv. Ég vil nú beina því til hans, hvort hann vilji ekki reyna samkomulag að því leyti, að hann hafi áhrif á, að vinnubrögðunum verði breytt og við fáum að ræða frv., eins og þingræðið hlýtur að krefjast, gegn því, að maður þá stytti ögn mál sitt í þessu og það þá e.t.v. næði fram að ganga með öllum nauðsynlegustu breyt., sem á því þarf að gera. Ég varpa því til hæstv. menntmrh., hvort hann sem einn af ráðh, vill ekki athuga það boð, að við breytum til með þeim hætti, að við reynum að ná höndum saman um afgreiðslu þessa máls gegn því, að okkur verði sýnt það sjálfsagða þingræði og það sjálfsagða þingræði viðhaft að taka til umr, þáltill. um vantraust á ríkisstj., sem hér hefur verið borin fram. Vill hæstv, menntmrh. athuga þetta? Hann hlýtur að hafa á því öll tök, En vilji hann þetta ekki, þá er alveg óhjákvæmilegt, að þm. hljóta að þakka fyrir sig, ef það er ákvörðun hæstv. minnihluta ríkisstj. að koma í veg fyrir með forsetavaldi sínu, að við svo sjálfsagðri beiðni verði orðið að ræða vantraustið. Ef þeir koma í veg fyrir það, þá er alveg útilokað fyrir þennan 31 hv. þm. að leggjast svo lágt að ætla að fara að þjónusta þessa hæstv. ríkisstj. í einu eða neinu, ekkert frekar hæstv, menntmrh., þótt hann sé kannske ekki öflugastur af þeim, frekar en hina.

Það er hægt að halda því fram, að þetta sé til hliðar við efnisatriði þessa máls. Og hæstv. menntmrh, leggur nú mest upp úr málefnunum. En óhjákvæmilegt er, að hliðsjón sé höfð af framferði þessarar hæstv. ríkisstj. gagnvart meiri hl. í þingi, og hann hlýtur að neita alfarið að koma nærri því að vinna hér að löggjöf, sem stjórna á landinu eftir, eftir að svo fáheyrð vinnubrögð hafa verið höfð í frammi. Ég verð nú að bæta því við, að ég sé ekki, að þessu liggi lífið á, með alveg sérstöku tilliti til þess, að faktorarnir í rn. eru byrjaðir fyrir löngu að framkvæma þessi lög. Það er nú einn kapítulinn út af fyrir sig, að Alþ. skuli láta bjóða sér það, að embættismennirnir skuli byrjaðir meira og minna að framkvæma ósett lög. En úr því að svo er, og við því hefur ekki verið spornað hvort sem er, þá er það þó huggun harmi gegn þeim mönnum, sem telja knýjandi nauðsyn á að koma þessu fram, að þeir eru byrjaðir meira og minna að skalta og valta með þetta og framkvæma.

Nei, ég ætlaði að rifja hér upp innihald þeirrar dagskrártill., sem við fluttum í góðri meiningu, ég og hv. 5. þm. Norðurl. v., hv. 3, þm. Norðurl. v. og hv. 3. landsk, þm., hæstv. forseta vorum núv., meðan hinn er í hvíldinni, hæstv. forseta vorum, sem var einu sinni samflokksmaður þess hæstv. menntmrh., sem nú tekur þátt í þeim gráa leik, sem hér er leikinn á hinu háa. Alþ., þar sem minni hl. ætlar að reka meiri hl. heim, þrátt fyrir að lífsspursmál sé, að þeir, sem fram úr málunum geta ráðið, komist að, nái vopnum sínum í þeim. En með þessu valdi, lögformlega valdi, sem ekkert siðferði er þó á bak við, sem hæstv. forsrh. þykist hafa um þingrof, er meiri hl. Alþ. bannað að ná vopnum sínum í þessu máli, honum er bannað að taka til höndunum til þess að bjarga þjóðinni frá langstærstu áföllum, sem hún hefur legið undir, svo að menn viti til, að sögn þessarar hæstv. ríkisstj. sjálfrar.

Það er deginum ljósara, eftir að meiri hl. þm. hefur undirritað áskorun um að taka vantraustið til sérstakrar umr., að þar er meiri hl. þm, að óska eftir því að reifa málin, ekki einvörðungu að rifja upp hörmungarsögu þessarar hæstv. ríkisstj., heldur að leggja um leið á ráðin um það, til hvaða ráða megi gripa til að forða frá algerum ókjörum, gjaldþroti atvinnuveganna, gjaldþroti okkar út á við, óðaverðbólgu meiri en dæmi eru til um. En lagaleið er til að banna meiri hl. Alþ. að ná vopnum sínum í þessu lífshagsmunamáli allrar íslensku þjóðarinnar. Lagakrókaleið er til og hana á að nota, nema ef menn skyldu vilja sitja og standa eins og hæstv, forsrh. og hans kumpánar vilja. En þess er enginn kostur, að sjálfsögðu ekki.

Því hefur verið margsinnis haldið fram, að það væri algert skilyrði, það væri lífsspursmál. að takast mætti að framkvæma ákveðnar aðgerðir í efnahagsmálum fyrir 1. júní nk., ef við ættum ekki að liggja undir þeim áföllum, að við mundum e.t.v. ekki bíða þess bætur áratugum saman. Þessu hefur verið haldið að okkur, að hér væri um að ræða algert lífsspursmál. Stjórn, sem er komin í minni hl., hefur að sjálfsögðu engin ráð til. Hún hafði þau ekki einu sinni á meðan hún var og hét og hv. afgangurinn af Samtökunum var þarna inni. En núna þarf ekki að fara í grafgötur með þetta. Nú er þetta deginum ljósara. En lagakrókaleið á að fara til þess að hindra meiri hl. Alþ. í að grípa til þeirra ráða, sem nauðsynleg eru. Það er að vísu rétt, 31 þm. er einfaldur meiri hl. Við höfum haldið því fram, að það væri ekki nægjanlegur þingstyrkur, og það er ekki nægjanlegur þingstyrkur, vegna þess að þá skortir á eitt atkv. í annarri d. En mér er sem ég sjái, að hæstv. menntmrh, t.d., sem lætur alltaf málefnin ráða, hefði í Ed. bannað framgang mála, sem hefðu getað forðað okkur frá stóráföllum í efnahagsmálum nú hinn 1. júní, Þess vegna er það með sérstöku tilliti til hans málefnalegu afstöðu, sem hann sagði í gær að hefði ráðið áframhaldandi ráðherrasetu sinni, með sérstöku tilliti til málefnaafstöðunnar, hinnar einu og sönnu, og þess, að hann gerir sér grein fyrir því, að það megi ekki sleppa árinni, þegar komið er í brimróðurinn, að þá má alveg ganga út frá því vísu, að hann hefði ekki hlaupið fyrir borð þá, fyrst hann ætlar að sitja sem fastast í þessari hripleku skektu, sem hann nú brýst um í brimgörðunum á. Nei, það má leiða að því alveg örugg rök, að við hefðum a.m.k. notið atkv. 32 manna til þess að gera þær ráðstafanir, sem alveg er óhjákvæmilegt að gera, það er alveg ljóst mál. Þar hefðu málefnin fengið að ráða. Þess vegna er hægt með fullum rétti að halda því fram, að á Alþ. séu 32 menn albúnir til þess að takast á við vandann. En það er maðurinn með öxina, sem bannar að koma að strandinu, bannar mönnum að koma til þess að bjarga málunum. Það er þessi réttur, hinn lögformlegi réttur um að rjúfa þing, svipta þm, þingmennskunni, gera landið alþingislaust. Það á hann e.t.v. eftir á þessu þjóðhátíðarári, sem hann kallar, þar sem við ætluðum að hafa frið um málin.

Hæstv. forsrh. er kallaður til ábyrgðar. Ábyrgðinni getur hann ekki skotið sér undan. Ef hann rekur meiri hl. Alþ. heim, án þess að það fái til þess tækifæri að snúast gegn hinum bráða háska, sem í boði er, þá er hann kallaður til ábyrgðar á því. Hann ber á því einkaábyrgð að sjálfsögðu, — í samráði við hæstv. ráðh. sína, það kann vel að vera, en hjá honum er valdið, — ef hér verður stjórnlaus þjóð á tímabili, sem þeir sjálfir segja, að geti ráðið úrslitum um hina næstu framtíð okkar í sjálfum fjárhagsmálum okkar, efnahagsmálunum öllum. Þá á að stofna til kosningahríðar og ekki einvörðungu það, heldur á að ræna landið þingkjörinni stjórn. Það er alveg ljóst, að þetta er algert siðferðisbrot, hvort sem það kann að standa — og hart er undir því að búa, að það skuli kannske standa lagalega. En það verður að vera þeirra mál, sem vilja haga sér með þessum hætti, hvort þeir kjósa þá leið eða ekki. En þetta er mjög ólíkt þeim hugmyndum, sem ég hafði gert mér um hæstv. forsrh. En lengi má manninn reyna. Ég hélt, að hann væri vandaður og samviskusamur. Ég hafði staðið í þeirri meiningu. Og ég lýsti því yfir við útvarpsumr., að því er mig minnir, að mér væri ekkert umhendis að játa það, að ég teldi, að hann væri vandaður og samvískusamur maður. Við fáum að sjá til, hvort þessi trú mín verður mér til skammar eða ekki.

Það er e.t.v. of stórt mál að bera sér í munn eða orðfæra með einhverjum hætti, hvort í stjórnskipunarlögum okkar standi ekkert um það, að þjóðhöfðinginn sjálfur geti gripið til einhverra ráða. Það kann vel að vera, að það sé líka rétt lögformlega, að hann verði í einu og öllu að hlýða hæstv. forsrh. En það munu þó vera ákvæði um það, að ekki verði rofið þing nema með samþykki forseta vors eftir till. forsrh. og spursmál, sem mjög hlýtur að knýja á hugann, er þetta: Ef herra forsetanum sýnist, að hér á hinu háa Alþ. kunni að vera starfhæfur meiri hl. til að takast á við vandann, hefur hann þá engin tök á því að forða frá þeim ókjörum, að fyrir slíka ráðabreytni hæstv. núv. forsrh. sé byggt? Ég varpa þessu fram, því að allavega hlýtur að vera hart undir að búa svo gegndarlausu ábyrgðarleysi að reka þing nú heim, eftir að hafa sjálfur lýst því yfir, að engan tíma megi missa, ef ekki eigi að leiða í bráðan háska og algerar ógöngur.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að þessi hæstv. ríkisstj., minnihlutastjórn, sem hún er, heldur ekki áfram að gefa út brbl. Það er alveg misskilningur, ef menn halda það. Þess vegna er það, að þegar við setjum fótinn fyrir, að þetta grunnskólafrv. fari hér í gegn, þá skal hæstv. menntmrh. ekki láta sér detta í hug, að hann geti sett brbl. um það. Það er mesti misskilningur, vegna þess að hún hefur ekkert þing til þess að styðjast við, og brbl. verður að samþykkja á þingi. Upp á þá von og óvon getur hún engin brbl. sett, það liggur alveg ljóst fyrir. Það er því hún og hún ein, sem kölluð er til ábyrgðar um það, að þeir, sem hafa lýst því yfir, að þeir eru tilbúnir til þess að axla ábyrgðina og þær byrðar, sem þessu kunna að fylgja, að taka við stjórnartaumunum, þeir ná ekki vopnum sínum, þeir komast ekki að verkinu fyrir því, að það eru til lög, sem heimila manninum, sem strandinu stjórnaði, að banna, að svo skuli vera.

Ég veit, að félagar mínir ýmsir eru mjög málþola að fá hér orðið, og þó að það kunni að vera, að ég skreppi frá í kaffi, þá er þó að því að bæta, að ég á rétt á að taka hér þrisvar til máls við umr. En eins og ég segi, þar sem mér er kunnugt um, að félagar mínir hafa mjög margt um þetta að segja, kynni að vera, að ég einhvern tíma um 10–11 leytið kysi að hvíla mig augnablik til þess að glöggva mig nánar á ýmsum mjög mikilvægum þáttum, sem þetta mál snerta og er að finna í ýmsum fræðibókum, sem ég mundi koma með. Enn á ég þó allvænt nesti óétið.

Svo að ég víki aftur að dagskrártill. þeirri, sem við fluttum hér, hv. 5. þm. Norðurl. v., hv. 3. þm. Norðurl. v. Björn Pálsson, og hv. 3. landsk., þá er þar að finna ýmis sanngjörn rök fyrir því, að á þetta ráð skuli brugðið. Segir í a-lið:

„Með tilliti til þess, að hagkvæm vinnubrögð séu að láta endanlega afgreiðslu grunnskólafrv. bíða, þar til fyrir liggur, á hvaða grundvelli verði byggt eftir fyrirhugaðar lagabreyt. varðandi verkefna- og tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.“

Að þessu veigamikla atriði hef ég enn ekki haft tíma til að víkja, en hér er enginn smáþáttur málsins á ferðinni. Það er ekki vitað, á hvaða grundvelli verður byggt eftir fyrirhugaðar lagabreyt. varðandi verkefna- og tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta undirstöðuatriði þetta mál beint snertandi er á reiki. Að sjálfsögðu er alveg lífsspursmál, að úr því sé skorið, áður en þessum aðilum er fenginn svo viðamikill lagabálkur til framkvæmda.

Þá segir í b-lið:

„Algerlega ófullnægjandi grg. fylgir frv. um kostnað við framkvæmd málsins og engar upplýsingar hafa verið gefnar um það efni við umr.

Að þessu vék ég, að vísu mjög stuttlega, fyrr í ræðu minni, að það hefur verið alger árátta á þessari hæstv. ríkisstj. að fleygja hér fram stórmálum, sem hafa í för með sér ekki tugi millj., heldur hundruð millj. eða milljarða í kostnaðarauka, án þess að hafa fyrir því að gera neina heildargrein fyrir kostnaðaraukanum. Það hefur þó verið fengist við það, sem ég mun víkja síðar að, í grg. með frv., að hefur verið fiktað við ýmsar kostnaðaráætlanir, en þær eru ákaflega ófullkomnar og þess utan hafa breyt. orðið svo örar, síðan þær lauslegu áætlanir voru gerðar, að ekki stendur að sjálfsögðu steinn yfir steini. í okkar fjármálum, eins og allir vita, hefur allt verið á hverfanda hveli, þannig að þó að þessar léttvægu speglasjónir, sem þetta í raun og veru eru hjá undirbúningsnefndinni um fjármálin, þó að þær verði yfirfarnar hér á eftir af mér, þá tek ég mönnum vara fyrir því, að það sé til þess að byggja á. Það er aðeins kannske til þess að gefa örlitla innsýn í þennan mikilvæga þátt málsins og í raun og veru þann mikilvægasta, vegna þess að ef fjárhagsgrundvöllinn brestur alveg, þá er alveg augljóst mál, að það er til lítils að setja lög. Það hefur verið margsinnis um það beðið og eftir því óskað, að þessar upplýsingar yrðu gefnar, en því hefur ekki verið sinnt.

Sannleikurinn er sá, að það hefur mjög lítill samvinnuvilji verið sýndur varðandi framgang þessa máls. Þegar menn, svo að ég enn víki að því, þóttust hafa höndlað það hnoss hér í hv. Ed. í gær, að samkomulag væri orðið um skólaskylduna, þá brugðust menn þeir, sem að því stóðu, með þeim hætti við, að ekki stóð steinn yfir steini. Þeir létu reka þetta samkomulag öfugt ofan í sig, sem hleypti ákaflega illu blóði í allt málið. Þannig mætti fleiri dæmi nefna um það, að mjög lítill samvinnuvilji virðist hafa verið fyrir hendi. Það hefur ekkert verið reynt til þess að menn næðu með góðu saman höndum um þetta, heldur núna á örskömmum tíma allir refar til þess skornir, að það mætti þjarma þessu í gegn með hörku. Og ég verð að segja það, að eftir það, sem nú virðist vera í boði um alla starfshætti þessarar hæstv. ríkisstj. og siðlausa framkomu hennar við hv. þm., þá tekur alveg steininn úr, ef þeir hafa nokkurt geð í sér til þess að ansa því, að þetta frv. verði að lögum. Það má fyrr vera geðleysið. Ég hef borið það undir hæstv. menntmrh., og hann er að sjálfsögðu að hugsa það mál, því að hann flanar ekki að neinu og lætur málefnin ráða, — hvort við eigum að ræða það, að hann beiti sér fyrir því, að vantrauststill. verði rædd hér á hinu háa Alþ., eins og meiri hl. þm. hefur krafist, og við reyndum þá í staðinn að finna leið til lausnar þessu máli. Upp á þetta hef ég boðið, og væntanlega er þetta í athugun, því að eins og ég hef sagt, þó að þetta séu óskyld mál í sjálfu sér, þá hlýtur maður eftir þessa framkomu og vinnubrögð að hafa fullt siðferðisleyfi til að líta til þess, hvaða vinnubrögð á að hafa hér í frammi, og reyna að spyrna við fæti, þótt veikur sé, á síðustu stundu, að gjalda líku líkt, þótt það sé, eins og ég segi, í örlitlu miðað við það offors, sem manni virðist, að hér eigi að beita hv. þm., meiri hl. hins háa Alþ.

Þriðji þáttur rökstuðnings okkar um að fresta afgreiðslunni var um þetta atriði, sem e.t.v. hefur borið hæst í þrætunni um málið, um lengingu skólaskyldunnar. Ég þarf ekki á þessu stigi málsins að fara nánar út í það mál. Ég kem að því síðar, þegar ég fletti upp í merkilegum ritum, sem snerta þetta mál beint, hef gert það fyrr hér með merkilegum tilvitnunum, en ég hygg þó, að í öðrum ritum, sem ég hef hér meðferðis, sé e.t.v. að finna enn verðmætari upplýsingar, sem lúta að þessu grundvallaratriði um skólaskylduna sjálfa.

Við bentum á það í þessum rökstuðningi, að í fljótheitum og með algerri fljótaskrift hefði verið tekið inn í frv. ákvæði, sem gerir ráð fyrir því að koma upp mötuneyti við alla skóla landsins. Þess varð vart, að hæstv. fjmrh. virtist verða bumbult við þessa samþykkt. A.m.k. minnist ég þess, að mikill ókyrrleiki færðist yfir hann. Ég gat um það áðan, að ég væri ekki alveg viss um, nema þetta ákvæði væri enn að finna eftir afgreiðslu frv. í Ed., því að það er nú eitt með öðru, að Ed. mun hafa afgreitt þetta mál endanlega frá sér aðeins korteri eða 20 mín. áður en það var tekið til umr. hér. Sjá þá menn allir í hendi sinni vinnubrögðin, hvernig þau eru tíðkuð hér, þó að þetta eigi sér fordæmi. Auðvitað á þetta sér fordæmi, alveg eins og það á sér fordæmi að beita því offorsi, sem nú er í boði, að gert verði við hv. þm. Við 2. umr. frv. munaði hv. Nd. ekki um þá hniskju að samþykkja ákvæði, sem skilgóðir menn álitu, að mundi hafa í för með sér milljarða aukaútgjöld. Og að sjálfsögðu eins og fyrri daginn var auðvitað engin grein gerð fyrir þessu, hvað kosta mundi, og allra síst, sem aldrei hefði verið viðhaft hér af hæstv. ríkisstj., gerð hin minnsta grein fyrir, hvernig afla eigi fjár til að standa undir útgjöldunum.

Þá var það eitt atriðið, sem er auðvitað stórhlægilegt í sjálfu sér eða gráthlægilegt, að samtökum, sem eru ekki til lögformlega, er veitt stórfellt umboð samkv. frumvarpsbálki þessum. Það eru landshlutasamtökin. Það hefur ekkert samkomulag orðið um að löggilda þau að einu eða neinu leyti. Við vitum vel, að hæstv. forsrh. hefur manna skeleggast heitt sér gegn því. Hæstv. fyrrv. samgrh., hv. 3. þm. Vestf., gerði það mjög skelegglega í fyrra líka. Nú þykist hann vera einn af frumkvöðlum þessa frv. Í því eru landshlutasamtökum sveitarfélaga falin sérstök verkefni og völd, án þess að þessi samtök hafi nokkra stöðu til þess lögum samkv. Auðvitað ætti reglan að vera sú að athuga sérstaklega, hvort það megi ekki fá þessum landshlutasamtökum, sem eru mikilsverð á marga vísu, lögformlega stöðu í stjórnkerfinu. Þá, en ekki fyrr, getum við veitt þeim svo mikilvæg verkefni og völd sem þessi lagabálkur gerir ráð fyrir. Og einmitt ætti að nota frestinn, sem við höfum lagt til, að yrði gefinn með því að fresta þessu á milli þinga, til þess að athuga þennan þátt alveg sérstaklega. Ég vil að vísu framgang landshlutasamtakanna. Þó held ég, að þurfi sérstaklega að athuga um verkefnaval og valdsvið þeirra, því að ástæðulaust er og gjalda ber varhug við því að stofna til einhverrar nýrrar yfirstjórnar, því að vissulega hefur reynst okkur vel það fyrirkomulag á stjórn bæjar- og sveitarfélaga, sem við höfum haft hér um langa hríð. En í ýmsum sameiginlegum hagsmunamálum, eins og t.d. yfirstjórn í þessum efnum og á ýmsum öðrum sviðum, við skulum segja vegamálum og öðrum, sem nefna mætti, þá álít ég, að landshlutasamtökin eigi verðugt verkefni fram undan. Ég álít ekki, að þau eigi að fá það verkefni eða valdsvið að geta sagt bæjar- eða sveitarfélögum fyrir verkum. Þetta á fyrst og fremst að vera þjónustustofnun þessara aðila, sameiningarstofnun, þar sem unnið er að framgangi sameiginlegra hagsmunamála, og getur orðið mikilvægur þáttur í því að sameina kraftana, en því miður hefur oft viljað brenna við, að í byggðarlögum nákomnum að öllu leyti væru þeir sundraðir, en ekki sameinaðir eins og þörf er á, og ég veit, að á marga vísu hefur stofnun þessara samtaka gefið hina bestu raun. En við megum ekki, þó að við fáum þeim stöðu eða valdsvið, kalla neitt nýtt yfirvald yfir okkur, enga nýja yfirbyggingu. Nóg er nú samt um það. Aldrei hefur sú stefna farið aðra eins gandreið yfir þjóðina og í tíð þessarar hæstv. ríkisstj., þar sem miðskipan allra mála hefur stóraukist, allt dregið hér með töngum til Reykjavíkur. Þrátt fyrir loforð ríkisstj. í stjórnarsáttmálanum um dreifingu valdsins hefur hún stórrýrt valdsvið bæjar- og sveitarfélaganna um landið, rænt þau tekjustofnum og haldið þannig á öllum málum, að með ókjörum er, — svona svipað og ríkisstofnananna, sem núna eru skildar eftir allar í rúst, hver og ein einasta. Nei, miðskipan skal það vera. Miðskipan mála, þar sem allt er dregið hingað suður undir einn hatt. Það hafa verið ær og kýr þessarar hæstv. ríkisstj. og hefur keyrt raunar alveg um þverbak. Því er það eitt stærsta verkefni þeirrar ríkisstj., sem fær meiri hl. í Alþ., að breyta til, gerbreyta til í þeim efnum. En þessi hæstv. ríkisstj. getur auðvitað ekki gert neitt meira af sér, vegna þess að til þess hefur hún ekkert vald. Hún er í minni hl. á Alþ. Hún getur ekkert gert nema að vera fyrir, þvælast fyrir þeim, sem ella mundu vilja og geta tekið að sér að leysa bráðháskalegan vanda. Það er eini mátturinn hennar og dýrðin, að vera þröskuldur í vegi þeirra manna, sem vilja og geta tekist á við vandann.

Það er annað en í tíð þeirra Snorra á Húsafelli og Magnúsar konferensráðs, þegar þeir þrættu í Húsafelli. Þá varð þrætan með þeim ósköpum, að tvær griðkonur höfðu ekki undan að bera að þeim og frá vökvunina. En Jakob sér, að hér bý ég vel enn, og hann hugsar vel til mín og ætlar að sjá svo um, að ég verði ekki klumsa hér.

Já, það hefur ekki dulist neinum, sem fylgst hefur með þessu máli, að öll meðferð þess hefur verið reikul og stefnulaus með ólíkindum. Hér voru á ferðinni eitthvað upp undir 100 brtt. Menn æddu á veggina og vissu ekki, hvar þeir voru staddir í þessu. Jafnvel nm. báru till. fram þvert ofan í fyrri till. eða snerust gegn till., sem þeir höfðu boríð fram í n. Allt var þetta með þeim ókjörum, að ekki er segjandi frá því, því að það er Alþ. til skammar. Þarna þrælaðist hæstv. forsetinn, sem enn er að hvíla sig, við það að fara í gegnum þessar brtt., og menn vissu orðið ekki sitt rjúkandi ráð, þegar yfir lauk, enda lét hann þess getið, að nú mundi hæstv. forseti Ed. fá þetta til hæfilegrar matreiðslu. Ég á alveg eftir að athuga alla meðferð málsins bar og bera hana saman við afgreiðslu frv., eins og hún var hér í hv. Nd. Að vísa væri eðlilegast, sem ég mun athuga, að bera þá fyrst saman afgreiðsluna hér, brtt. hér saman við frv. upphaflega, síðan eins og það var afgreitt hér við 2. umr. og þar næst einsog það kemur nú fram, vegna þess að það upplýsti auðvitað allan gang málsins, sem mönnum er alveg lífsnauðsynlegt að kynnast af eigin raun, og því er nú svo komið sem komið er. Bæði hefur verið stirfni í allri samvinnu um málið, einstök leiðinleg stirfni og óskiljanleg, og síðan hefur ráðh., sem í fyrirsvari átti að vera, verið ákaflega reikull og stefnulaus, eins og sést á því, að eftir að margar nefndir embættismanna eru búnar að hnoðast með þetta árum saman, þá er hrúgað inn brtt. Þegar upp er staðið og þær hafa ýmist verið felldar eða samþykktar, þá veit enginn, hvað upp eða niður snýr á þessu frv. Ef þrekmenn hefðu verið í fyrirsvari fyrir þessu máli, þá hefði ekkert af þessu skeð, sem við horfum framan í nú. Þá væru menn ekki að þræta fram á höggstokkinn um þetta mál. En það er einstök og ámælisverð stirfni, sem þeim, sem vilja þessu máli vel og framgang þess, hefur verið sýnd allan tímann. Sú atkvgr., sem hér fór fram, sýndi og sannaði fyrir mönnum, hversu þetta hefði allt saman verið reikult og stefnulaust. (Gripið fram í: Það má bera saman, hvað þetta frv. er vitlausara en gamla frv., gömlu lögin.) Nei, ég á alveg eftir að bera þau saman, en ég hef til þess nógan tíma.

Það er alveg rétt, að það er hörmulegt til þess að vita, en því er haldið fram af þeim, sem gerst til þekkja, að þetta frv. muni jafnvel hafa versnað í meðförum þingsins, og sjá þá menn, hvernig að málinu er staðið. Ástæðan er vitanlega sú, að mönnum gefst ekki kostur á að vinna þetta sem skyldi. Þetta er tekið hér til 2. umr. í Ed. í gær og unnið mestalla nóttina og byrjað aftur eldsnemma í morgun. Það er ekki nokkrum manni ætlandi að fást við svona viðamikið frv. með þeim hætti eins og þessi dæmi sanna. Og það er ekkert eðlilegra en frv. komi öfugt og snúið úr höndum slíkra manna. Þess vegna er alveg nauðsynlegt, ef þetta ætti í alvöru að taka til afgreiðslu hér í þessari hv. d., að henni gæfist kostur á því að bera þetta vandlega saman, sjálfri n., því að ég verð mjög lengi að því, og í raun og veru er það ekki hæfilegt, að maður skuli neyðast til þess, til þess að reyna að forða ógöngum, að þurfa að bera þetta saman hér, allt þetta mikla mál, í sjálfum ræðustólnum. Það eru ekki vinnubrögð, sem ætti að tíðka, heldur að sitja saman eins og góðir samvinnumenn í n. og skoða þetta ítarlega, til þess að ekki verði tómir fingurbrjótar. Enn fremur eru áhugaverðar ýmsar till. einstakra þm., en að því mun ég víkja síðar.

Ég vil þá leyfa mér að byrja á, af því að það er nýjast, að bera saman eins og þetta hljóðar nú, frv. á þskj. 879, eftir 2. umr. í Ed., því að ég get ekki í svipinn fundið plaggið eftir 3. umr. í Ed. Kann að vera, að það hafi litlar eða engar breyt. orðið við 3. umr. þar, en þó minnir mig fastlega, að svo hafi verið, og kem ég þá að því síðar. Það er breyt., sem er fyrst við 2. umr. í Ed., sem gerð er við 8. gr. frv. Hún hljóðaði svo eftir afgreiðslu Nd. á þessu máli:

„Nú sækir forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn hluta úr skólaári og færir fram knýjandi ástæður. Skal þá leitað umsagnar skólastjóra og skólanefndar, og mæli þeir aðilar samhljóða með umsókninni, getur fræðslustjóri veitt undanþágu, en skólanefnd og skólastjóri skulu fylgjast með því, að barnið stundi nám.“

Hér er talað um, að séu knýjandi ástæður til, þá á að veita barni undanþágu frá skólaskyldu tímabundið. Allt er þetta harkalega niður njörfað. Það á svo sem ekki að vera mikið frjálsræði í þessu. Það verður að vera knýjandi nauðsyn, og svo skal sótt um þetta sérstaklega og leitað umsagnar skólastjóra og svo skólanefndar, og þá getur fræðslustjórinn veitt undanþágur. Allt er þetta einn pýramídi, eins og allt þetta mál er. Við skulum aðgæta, hvort einhver bati hefur orðið á þessu við meðferðina í Ed. Þar segir:

„Nú sækir forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn og færir fram knýjandi ástæður,“ — þetta virðist mér vera eins, — „skal þá leitað umsagnar skólastjóra og skólanefndar, og mæli þeir aðilar samhljóða með umsókninni, getur fræðslustjóri veitt undanþágu, en skólanefnd og skólastjóri skulu fylgjast með því, að barnið stundi nám.“

Í fljótu bragði virðist mér ekki vera hér um breyt. að tefla nema þá í kommusetningu.

Þá er hér 10. gr., þar sem rætt er um skiptingu á landinu í fræðsluumdæmi. Samkv. afgreiðslu Nd. á þessu máli var þar:

„1. Reykjavíkurumdæmi, sem tekur yfir Reykjavíkurborg.

2. Reykjanesumdæmi, sem tekur yfir Gullbringu- og Kjósarsýslu, Hafnarfjarðarkaupstað, Keflavíkurkaupstað og Kópavogskaupstað — Nú hefur þessu verið breytt, þannig, að í þessu umdæmi, Reykjanesumdæmi, eru enn fremur Grindavíkurkaupstaður og Seltjarnarneskaupstaður. Nú er slæmt að hafa ekki rökstuðning með þessu, því að hér virðist vera um verulega breyt. að ræða, og ég vek alveg sérstaka athygli á því og óska eftir að fá skýringu á því, af hverju Reykjanesumdæmi er umbylt með þeim hætti, sem hér er tekið fram. E.t.v. er þarna um að ræða, að þarna hafi að einhverju leyti gömul þorp fengið ný bæjarréttindi, en það þarf þá skýringar við, og ég veit, að hæstv. menntmrh. sér ekki eftir sér að gefa þær.

„3. Vesturlandsumdæmi, sem tekur yfir Borgarfjarðarsýslu, Akraneskaupstað, Mýrasýslu, Snæfells- og Hnappadalssýslu og Dalasýslu.“ — Þetta virðist mér vera óbreytt.

„4. Vestfjarðaumdæmi, sem tekur yfir Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslur, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Ísafjarðarkaupstað, Bolungarvíkurkaupstað, Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu.“ — Hér er komin breyt. um það, að þarna bætist við Bolungarvíkurkaupstaður, sem líklega er vegna þess, að nýlega voru samþ. lög um, að Bolungarvík verði sérstakur kaupstaður með bæjarréttindum. En ef ég fer með rangt í því, þá bið ég hæstv. menntmrh. að leiðrétta það hér á eftir.

„5. Norðurlandsumdæmi vestra, sem tekur yfir Vestur-Húnavatnssýslu, Austur-Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu,Sauðárkrókskaupstað og Siglufjarðarkaupstað.“ — Við fljótan yfirlestur sýnist þarna engu hafa verið breytt.

„6. Norðurlandsumdæmi eystra, sem tekur yfir Eyjafjarðarsýslu, Akureyrarkaupstað, Ólafsfjarðarkaupstað, Dalvíkurkaupstað, Suður-Þingeyjarsýslu, Húsavíkurkaupstað og Norður-Þingeyjarsýslu.“ — Hér er að gá að því, að þarna er Dalvíkurkaupstað bætt inn í, og enn geri ég ráð fyrir af sömu ástæðum og ég nefndi áðan, þótt þar sé um algera ágiskun að tefla, að það sé vegna þess, að Dalvíkurkauptúni hafa nýlega verið veitt kaupstaðarréttindi.

7. Þá kemur að „Austurlandsumdæmi“, sem ég hlýt auðvitað að beina athygli minni mjög að, „sem tekur yfir Norður-Múlasýslu, Seyðisfjarðarkaupstað, Suður-MÚlasýslu, Neskaupstað og Austur-Skaftafellssýslu.“ — Mega menn sjá í hendi sinni ástæður fyrir því, að ég skuli bera þessar breyt frá hv. Ed. svo nákvæmlega saman, því að á hinu háa Alþ. mun ella enginn kostur gefast á að glöggva sig á þeim breyt., sem hv. Ed. hefur gert á frv., og þá væri, eins og því miður er siður um mörg önnur málefni, fljótaskrift á allri afgreiðslunni, sem Alþ. getur ekki verið þekkt fyrir.

Hér í Austurlandsumdæmi er í meðförum hv. Ed, bætt inn í, þegar talin eru upp fræðsluumdæmi landshlutans, Eskifjarðarkaupstað, og eftir því sem ég les lengra, virðist allt bera að þeim brunni, að þessi breyting sé gerð vegna þeirra kaupstaðarréttinda, sem nokkur kauptún eða sveitarfélög hafa fengið nú eigi alls fyrir löngu á hinu háa Alþ.

Hér er næst: „8. Suðurlandsumdæmi, sem tekur yfir Vestur-Skaftafellssýslu, Vestmannaeyjakaupstað, Rangárvallasýslu og Árnessýslu.

Í hverju fræðsluumdæmi skal vera fræðsluráð og fræðsluskrifstofa.“ — Þetta er óbreytt.

Þá kem ég að 11. gr., sem er mjög mikilvæg gr., sem ég vil vekja athygli manna sérstaklega á. Við afgreiðslu hv. Nd. á frv. hljóðaði gr. svo:

„Fræðsluráð skal skipað 5 eða 7 mönnum, sem kjörnir eru af viðkomandi landshlutasamtökum, er ákveða fjölda þeirra samkv. framansögðu. Jafnmargir skulu kjörnir til vara. Um kosningu og starfshætti fer samkv. lögum og reglugerð um starfshætti landshlutasamtaka sveitarfélaga, en að öðru leyti eftir meginreglum sveitarstjórnarlaga, nr. 58 frá 1961.

Í Reykjavík kýs borgarstjórn Reykjavíkur fræðsluráð, og fer hún með hlutverk landshlutasamtakanna samkv. l. þessum, eftir því sem við á.

Í reglugerð skal kveðið á um fundarsetu skólastjóra, fulltrúa kennara og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka, svo og annarra aðila, t.d. fulltrúa sveitarfélags, er sérstaklega á hlut að tilteknu máli. Kennarafulltrúar skulu boðaðir til funda á sama hátt og fræðsluráðsmenn og hafa sama rétt og þeir til að æskja funda í fræðsluráði.

Þessir aðilar skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á fræðsluráðsfundum.

Fræðsluráð utan Reykjavíkur skulu a.m.k. einu sinni á ári halda fund með öllum skólastjórum og skólanefndarformönnum fræðsluumdæmisins.

Formaður fræðsluráðs kveður til fundar, svo oft sem þurfa þykir. Skylt er honum að kveðja ráðið saman, ef a.m.k. tveir fræðsluráðsmenn eða fræðslustjóri æskja þess. Fundur telst löglega boðaður, ef allir fræðsluráðsmenn, eða í forföllum aðalmanna varamenn, hafa verið boðaðir til hans a.m.k. tveim sólarhringum fyrir tilgreindan fundartíma. Fræðsluráð getur enga ályktun gert, nema meiri hl. þess sé á fundi. Allar ályktanir skulu ritaðar í gerðabók. Enginn fræðsluráðsmaður hefur atkvæðisrétt um þau mál, sem varða hann sjálfan,“ — þetta er athyglisvert, „og skal hann í slíkum tilvikum víkja sæti fyrir varamanni. Verði atkv. jöfn, ræður atkv. formanns.“

Nú er að gá að því, hvernig hv. Ed. fór með þessa mjög mikilvægu gr. Þeir byrja með allt öðrum hætti, svo mikið sé ég:

„Fræðsluráð skal skipað 7 mönnum,“ — áður stóð: skipað 5 eða 7 mönnum, — „og skulu 5 kjörnir af viðkomandi landshlutasamtökum, einn af skólastjórum og einn af kennarasamtökum landshlutans.“ — Hér er greinilega um mjög mikla breyt. að ræða, og óska ég sérstakrar skýringar á því, hvað til grundvallar liggur. „Jafnmargir skulu kjörnir til vara. Um kosningu fer samkv. l. og reglugerð um starfshætti landshlutasamtaka sveitarfélaga, svo og eftir reglugerð. Fræðsluráð kýs sér formann og varaformann.

Í Reykjavík fer borgarstjórn með hlutverk landshlutasamtaka samkv. l. þessum, eftir því sem við á.“

— Eftir því sem ég fæ séð, þá er hér um breyt. að tefla, sem alveg er nauðsynlegt að fá skýringar á. Að öðru leyti fæ ég ekki séð, að um verulega breyt. sé að tefla, og efast um, að hún sé til nokkurra bóta, sú sem gerð hefur verið hér. En það er sami lopinn teygður áfram í allri gr. Það hefur ekki fengist neinu breytt um, til þess að fastara væri að orði kveðið, heldur er þetta ein endalaus moðsuða og jafnvel svo mikil moðsuða, að ég treysti mér ekki til að lesa hana alla upp, eins og hún kemur í endanlegum búningi frá hv. Ed.

En hér kem ég að enn mjög mikilvægri gr., sem er 17. gr. Þar hefur hv. Ed. haft eitthvað um að fjalla og breyta. Í afgreiðslu hv. Nd. sagði svo:

„Í sérhverju skólahverfi skal vera skólanefnd, sem fer með málefni grunnskóla, eftir því sem lög þessi og reglugerðir nánar ákveða. Skólanefnd skal kosin til fjögurra ára í senn af hlutaðeigandi sveitarstjórn (sveitarstjórnum), sbr. 18. gr.“ — Ég sé ekki betur en upphafið sé nokkuð það sama. Síðan segir áfram:

„Í sveitarfélagi, þar sem grunnskólar eru tveir eða fleiri, fer ein skólanefnd með málefni þeirra. Hún sér um skiptingu nemenda milli þeirra og samræmir rekstur þeirra, eftir því sem hún telur haganlegt“ — Allt er þetta óbreytt og hefur hlotið náð fyrir augum hv. Ed.

„Heimilt er skólanefnd eða fleiri skólanefndum sameiginlega að ráða sér starfsmann, skólafulltrúa. Skólanefnd (skólanefndir) setur skólafulltrúa erindisbréf.“ — Hér hefur komið inn í mjög sérkennileg viðbót hjá hv. Ed. Þar segir: „Heimilt er skólanefnd eða fleiri skólanefndum sameiginlega með samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar að ráða sér starfsmann.“ — En áður var þetta: „Heimilt er skólanefnd eða fleiri skólanefndum sameiginlega að ráða sér starfsmann.“ —Nú á að flækja málið enn einu sinni. Nú á að þurfa sérstakt leyfi viðkomandi sveitarstjórnar til þess arna, og er þetta í stíl við annað. Þegar hv. Nd. hafði afgreitt það með þessum hætti, sem er aðeins til einfaldari vegar, þá skal verða bætt um betur og þessu ákvæði flækt inn í af hv. Ed. Ég óska sérstaklega eftir skýringu á þessari breyt., sem kemur okkur a.m.k. í hv. Nd. mjög á óvart. Við fljótan yfirlestur, — og ég bið þá menn, sem fylgjast með á blöðum sínum, að leiðrétta mig, — kann ég að fella niður eða mér yfirsjást einhver mikilvæg atriði, en þarna er hætt við enn einum póstinum að snúa sér til, sem hv. Ed. hefur séð nauðsyn á að bæta inn í, auðvitað samræmisins vegna við allt frv., því að allt er það með þessum hætti, allt er þetta eitt hrófatildur. Og það er ekki ein, tvær eða þrjár hæðir, þetta eru tíu, tólf hæðir, þessi ósköp.

Þá er hér 18. gr. Ég sé ekki betur en um verulegar breyt. sé þar að tefla. A.m.k. er hún öll vélrituð upp aftur. Þar segir svo eftir afgreiðslu hv. Nd.:

„Skólanefndir skulu skipaðar sem hér segir:

a) Í kaupstöðum og kauptúnahreppum með 900 íbúa eða fleiri 5 mönnum, enda standi þau ein að skólarekstrinum.“ — Þetta hefur fundið náð fyrir augum hv. Ed.-manna og stendur óbreytt.

„Eigi fleiri sveitarfélög aðild að skólahverfinu, kýs hvert þeirra einn mann til viðbótar. Verði atkv. við það jöfn, skal sveitarfélagið, þar sem skólinn er staðsettur, kjósa oddamann, ef nemendur þess eru samanlagt fleiri en allra hinna. Sé svo eigi, kýs það sveitarfélag skólahverfisins, sem næstflest börn átti þar skólaárið áður en kosið er, tvo menn í skólanefnd.

b) Í öðrum sveitarfélögum, þar sem eitt sveitarfélag er skólahverfi, þremur mönnum.“ Þetta er enn fremur óbreytt.

„c) Þar sem tvö sveitarfélög eða fleiri standa saman að skólahverfi með jafnri aðild árganga, kýs hvert sveitarfélag einn mann. Verði tala nm. við það jöfn, kýs það sveitarfélag tvo, er flesta nemendur átti á grunnskólastigi næstliðið skólaár, áður en kosið er.“ — Ég fæ ekki betur séð en þessar greinar séu allar óbreyttar.

„d) Þar sem tvö sveitarfélög eða fleiri, önnur en þau, sem um getur í a-lið, standa saman að skólahverfi með ójafnri aðild árganga, skulu þau þeirra, er hlut að eiga að öllum stigum þess, kjósa tvo menn hver í skólanefnd, en önnur einn mann.“

Það kann að vera, að mönnum veitist erfitt að fylgjast með í hverju smáatriði, hvað hér er verið að fara, en ég gat þess áðan, að ég teldi bera til þess brýna nauðsyn, áður en málið verður endanlega afgr., eins og manni skilst, að eigi að gera með þvingunum og offorsi, því að nú tíðkast hin breiðu spjótin hér, — að eftir afgreiðslu Ed., þar sem margvíslegar brtt. voru fluttar við þetta frv., þá beri nauðsyn til þess, áður en hin endanlega afgreiðsla fer fram, sem einhvern tíma verður í vikunni væntanlega þá, að bera þetta rækilega saman við frv., eins og hv. Nd. afgreiddi það, og sjá þær breyt., sem þar urðu. En hitt sé ég ástæðu til þess að endurtaka, að enda þótt minn gamli skólastjóri, hv. 3. þm. Vestf., hafi verið frsm. menntmn. með þessu máli og telji nú nóg troðið, þannig að það sé kominn tími til þess að gera þetta að lögum, þá undrar mig, ef hann hefur það geðleysi til að bera að standa að afgreiðslu stórmála hér í þinginu, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur hagað sér með þeim hætti, sem dæmi sanna nú, — eftir að hæstv. forsrh. hefur hótað því að senda hann heim, — eftir að hæstv. forsrh. hefur hótað því að taka af honum þingmannsumboðið, — eftir að hv. þm. Hannibal Valdimarsson hefur farið stórum orðum um það hér, hver lífsnauðsyn hæri til. að þeir menn kæmust að, næðu vopnum sínum, sem til þess hafa þor og afl að berjast og mátt til þess að berjast við vandamálin, eftir að hann hefur lýst þessu stórum orðum og eftir að framkoma hæstv. minnihlutaríkisstj. ætlar að verða með þeim hætti við hann, sem dæmin sanna, þá trúi ég ekki, að hann hafi geð í sér til þess að standa að afgreiðslu þessa máls. (Gripið fram í.) Eru einhverjar smásyndir hér á ferðum, hv. 3. þm. Vestf.? Þá eru það bara smásyndir, þegar þú situr í sæti þínu. Hér uppi óskapastu eins og þetta séu dauðasyndir. (Gripið fram í.) Þetta er annað mál, en ég spurði: Hvernig er geðslag hv. þm. orðið? Hvernig er það orðið? Þó að það sé annað mál, finnur hann ekki til þess, hvernig framkoman er við hann og hegðunin öll, sem við höfum hér fyrir augum okkar? Hér er lögð á það öll áhersla af hálfu þessara ábyrgðarlausu manna, sem sitja í stjórn landsins án heimildar og í óþökk allrar þjóðarinnar, að knýja fram hér stórmál, og þrátt fyrir það, að við höfum fyrir augum þau vinnubrögð, sem dæmin sanna hér, virðist hv. þm. ekki finna til þess. Ég hélt og var alveg viss um það, að enda þótt hv. 3. þm. Vestf. hefði verið frsm. í þessu máli og hefði tekið ákvörðun um að fylgja því fram, mundi hann til þess að sýna þótta sinn og sjálfstæði og andúð á þeim vinnubrögðum, sem á að hafa við hann núna, ekki láta sér til hugar koma að taka þátt í neinni afgreiðslu mála hér meir.

Ég varpaði því fram við hæstv. menntmrh., sem hér kúrði á bak við mig um langa hríð áðan, meðan hann hafði gamla félaga sína að skemmta sér við, en hann hefur ekki fundið samhljóðun andans, eftir að hæstv. núv. forseti kom í stólinn, — ég varpaði því fram, hvort hann vildi ekki athuga, þessi hæstv. ráðh., sem hefur bætt rósum í hnappagat sitt og orðið vegamálaráðh. o.s.frv., — hvort hann vildi ekki athuga að beita sér fyrir því, að þau vinnubrögð yrðu viðhöfð, að meiri hl. þings fái leyfi til þess að ræða það vantraust, sem lagt hefur verið fram á hæstv. ríkisstj. Ég beindi því til hans og sagði um leið, að þá skyldi ég athuga um það, eftir þó einhverjar breyt., sem þyrftu að verða á þessu frv. um poppskólann, þá skyldi ég athuga það að hægja frekar á mér eða stytta ögn mál mitt. Ég hef ekkert svar fengið enn þá, en hann gæti skilað mér því hingað upp skriflega. Það mundi breytast dálítið viðhorf mitt, vegna þess að ég hlýt að taka tillit til þeirrar framkomu, sem menn kasta í milli sín, að eigi að heita hér ofan í það kaup að beita þingrofsvopni, þótt það kunni að eiga sér stoð í lögum. Ofan í það siðferðisafbrot, sem það er, þá á að hanna meiri hl. alþm., — það á að banna þeim að ræða till., sem hefur verið lögð hér fram. Skriflegri kröfu þeirra um að ræða málið á ekki að ansa, eftir því sem menn hafa sagt sín á milli. Það er enginn vandi að koma þeim boðum til mín hér, ef það er meiningin að leyfa þessar umr., og það yrði þá heldur engin véfrétt úr Delfí. En kannske er nú hæstv. menntmrh. að athuga um þetta, hvort við ættum að reyna að athuga þennan möguleika að við slíðrum eitthvað ögn vopnin. í staðinn fengjum við að ræða, — fengjum hér naumasta þingrétt, þann allra naumasta þingrétt að ræða málin. Þá skal ég gjarnan athuga það, að þetta mál verði tekið til meðferðar með hliðsjón af því, að það yrði afgr., en þó að sjálfsögðu ekki nema með því að gera á því breytingar, — breyt., sem búið var að fallast á af hv. stjórnarsinnum í Ed., í mjög þýðingarmiklu efnisatriði.

Ég hygg, að það að lesa þessi skjöl, undirbúning frv., eins og hann er, eftir hverja umr., sé nokkuð þurr lestur, og ætla þess vegna um hríð að hvíla mig á því og hverfa að einhverju því, sem skemmtilegra mundi þykja, en snertir þetta mál alveg beinlinís, t.d. upplýsingar þangað sem ég hygg, að ég geti sótt nægjanleg rök til þess að sýna mönnum fram á, svo að ekki verði um villst, hvað hér er á ferðinni.

Þar sem ég gaf mönnum aðeins innsýn í skólakerfi og fræðsluskyldu frá fyrri árum og umr. um það, þá væri kannske ástæða til þess aftur að víkja áfram að fræðslu barnanna. Þar byrjaði ég á að vísa á bænarskrá frá Reykjavíkurborg árið 1847. Ég vitnaði til umr. um þetta mál á hinu háa Alþ. árið 1905, og ég varð þess var, að augu ýmissa, sem hér sátu og hlustuðu vandlega, virtust opnast fyrir ýmsum nýjungum, sem þar var að finna. En þess vegna, vegna þess að ég hef sérstaklega vitnað og rifjað upp máli mínu til stuðnings um fræðslu barna á þessum árum, 1847 og 1905, þá finnst mér rétt að víkja að því, eins og það mál var í meðförum hins háa Alþ. árið 1945. Auðvitað er stiklað mjög á stóru, og það eru löng árabil, sem líða í milli þess, að ég vitna sérstaklega til málsins, en það verður við það að sitja. Það mun gefast kostur á því að víkja nánar að því, þótt síðar verði. (Gripið fram í.) Það vantar nokkur ár, en nú kem ég að því að fræða hv. 5. þm. Austf. um það, sem hv. núv. 3. þm. Austf. sagði árið 1945, og við skulum athuga, hvernig hann stendur að málum þá, því að það er gott og líka uppeldísatriði fyrir þennan hv. þm. (VH: Hvað hét þessi hv. þm.?) Páll Þorsteinsson, og er 3. þm. Austf., sem ég nauðaþekki og ég hélt, að hv. þm. kannaðist við. En hann er kannske alveg hættur að kannast við þá, sem eru að hugsa um að hætta á þingi, hann ætlar að stjórna með öðrum. Ég skila því þá.

Á fundi í Nd. 22. okt. var útbýtt frv. til l. um fræðslu barna. Á 15. fundi í Nd., 23. okt., var frv. tekið til 1. umr. Það var of skammt liðið frá útbýtingu frv., þá voru, eins og hér var áðan, afbrigði leyfð og samþ. með 22 shlj. atkv., það voru 21 hér áðan. En þá brá öðruvísi við, því að þá tók enginn til máls. Við 2. umr. hefur framsögu Páls Þorsteinssonar, hv. núv. 3. þm. Austf. Hann sagði m.a.:

„Frv. þetta er samið af mþn. í skólamálum og er annað í röðinni af frv. þeim, er fjalla um fræðslumál. Menntmn. hv. Nd. hefur athugað frv. mjög rækilega,“ segir Páli. „Fyrst var frv. lesið og rætt í sameiningu af menntmn. beggja d.“

Hér rekum við okkur á allt önnur vinnubrögð en viðhöfð voru hér. Hér var þetta unnið aðeins af n. annarrar d. Ég hygg, að ég hafi vitnað til þess áðan og sýnt fram á, að áður hafi verið unnið að þessu, til þess að vanda sig sem best, af menntmn. beggja d., og hér er að finna staðfestingu á því, að svo hefur einnig verið gert á þessu ári. En nú eru hinir nýju siðir um vinnubrögð, og sanna það, sem ég áður hef vikið að, að hér hafa verið höfð í frammi mjög reikul vinnubrögð, stefnulítil og reikul vinnubrögð.

Margt má af þessu læra oft það má ekki seinna vera, að mönnum sé gerð grein fyrir því, hvernig áður var unnið að þessum málum, til þess að menn átti sig á því, að nú þarf að fresta þessu máli, svo að fara megi eftir þeim vinnubrögðum, sem áður hafa sýnst vera heppilegust.

„Síðan tók menntmn. Nd. að sér að semja brtt. Þá hefur menntmn. d. rætt mál þetta við fræðslumálastjóra, og eru honum till. þessar kunnar, enda hefur hann gefið margar góðar leiðbeiningar.“

Þá var öllum góðum leiðbeiningum tekið vel, en núna hefur öllu verið tekið með stirfni. Og á eftir, þegar ég vík að till. einstakra þm., þá má sýna ljóslega fram á það, með hve miklum ólíkindum og hversu mikilli stirfni hefur verið tekið á móti slíkum till. En þegar þetta mál er þarna til umr. og afgreiðslu, þá tóku nm. opnum örmum öllum till. þeirra manna, sem gerst þekktu til. Nú er búið að hnoða þessu saman í þennan heljarlagabálk, sem við höfum fyrir augum, — tífalt lengri en menn hyggja, að þyrfti að vera — af embættismannanefndum, nefnd á nefnd ofan, og þegar svo er komið, að embættismennirnir þykjast hafa um þetta vélt, sem öllu vilja fá að ráða, þá er öllum brtt. tekið með þunga og stirfni og engin sú samvinna höfð um framgang þessa máls, sem ella hefði þurft, ef menn hefðu haft það fyrir augum, að nauðsyn bæri til, að það færi fram á annað borð. Það er enginn vafi á því, að þeir, sem helst bera þetta fyrir brjósti, bera á því einkaábyrgð, að þetta skuli þurfa að enda með svo háværum þrætum eins og mér sýnist, að ég sé tilneyddur að hafa í frammi nú á lokastigi þessa máls, og ber þó að vísu ýmislegt annað og fleira til í því sambandi.

Frsm., Páll Þorsteinsson, hv. 3. þm. Austf. segir í framhaldi af þessu í framsöguræðu sinni: „Í höfuðatriðum er frv. þetta mjög líkt l. þeim, sem nú eru í gildi um þetta efni, en að sjálfsögðu hefur orðið að taka allt þetta til endurskoðunar vegna þeirra breyt., sem fyrirhugaðar eru á skólakerfinu. Gert er ráð fyrir, að barnafræðslu ljúki nú einu ári fyrr en í núgildandi l.“ Einu ári fyrr! „Leiðir þetta af því, að skiptingin er önnur, þar sem skólaskylda heldur áfram, þótt barnafræðslunni sé lokið. Enn er eitt mikilvægt atriði, sem kemur til greina. Ráðgert er að auka framlög til barnaskólabygginga mjög verulega frá því, sem verið hefur. Samkv. frv. þessu á ríkið að leggja fram 3/4 hluta af byggingarkostnaði heimavistarskóla, en helming til heimangönguskóla.“

Til samanburðar þessu er kannske rétt að leiða fram fleiri, enda þótt ég sjái ekki ástæðu til að víkja að fleiru í ræðu þessa hv. frsm., vegna þess að hér á öðrum stöðum ýmsum eru mikilvæg atriði, bæði til upplýsingar fyrir það mál, sem ég hér flyt, og eins til rökstuðnings fyrir því. Jón Sigurðsson frá Reynistað segir svo m.a.:

„Ég verð að segja það,“ segir Jón, „að hvað snertir störf hv. menntmn., sem hefur haft þetta mál með höndum, virðist mér þau vera til bóta.“

Þarna víkur Jón strax að því, að n. í báðum deildum störfuðu saman að málinu. Og eins og ég sagði áðan, eru fleiri dæmi til um þetta, þegar um viðamikla lagabálka er að ræða. En hér hefur sem sé ekki sá háttur verið á hafður. Hér þóttust menn ekki þurfa að viðhafa í þessu tilefni hin hæfilegustu vinnubrögð, sem þegar hafði verið margreynt, að gáfu hina bestu raun. Ef menn vildu hafa samvinnu um málin, ef menn vildu hafa samvinnu um framgang málanna, en ekki reyna að þrýsta þeim fram með stirfni og þeim hætti, sem við höfum nú sem skýrust dæmin um, þá er slíkt mjög til bóta. Hér segir hann og er fróðlegt á marga vísu:

„Þær brtt., sem n. hefur gert,“ — og þetta á beint erindi við margt af því, sem ég kem hér að seinna, — „þær brtt., sem n. hefur gert, ganga í þá átt, sem ég hefði kosið, en á frv. virðast mér vera ýmsir gallar. Fyrst og fremst finnst mér frv. of mikið mótað af því sjónarmiði, að of mikið eru dregnir fram hagsmunir kennarastéttarinnar og þeirra, sem í höfuðstaðnum búa, en ekki nægilega mikið tillit tekið til þeirra manna, sem búa í sveitum.“

Það má maður manni segja. Þetta eru gallar, og það var sjálfstæðismaðurinn Jón Sigurðsson frá Reynistað, sem benti hér á þetta, enda voru sjálfstæðismenn fyrstir til þess. Það er rétt að því komið, að maður í einstaka máli hefur getað þokað framsóknarmönnum í þessa átt, en auðvitað er forustan öll þarna og þetta var sjálfstæðismaður, sem tók þetta fram. Þetta var mikill galli, og hann var fyrstur til að benda á það auðvitað. Frsm., hv. 3. þm. Austf., Páll Þorsteinsson, henti ekkert á þessa galla, þannig að menn sjá strax mismuninn.

Já, honum finnst það of mikið mótað af hagsmunum kennarastéttarinnar. Það væri fróðlegt á marga vísu að aðgæta, hvernig þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., er mótað af kennarastéttinni, hvort heldur það er mótað meira af kennarastéttinni eða hvort embættismennirnir hafa ráðið þar ferðinni. Mér býður í grun, að tvímælalaust eigi embættismennirnir langmestan þáttinn í þessu, jafnvel þeir embættismennirnir, sem minnsta eða enga reynslu hafa í þessum efnum. — Ég vildi gjarnan fá það upplýst, hvaða þátt kennarar eigi í þessu. Ég vildi mjög gjarnan skora á hæstv. menntmrh. að upplýsa hér á eftir, því að nægur er tíminn, hversu mikinn þátt kennarastéttin sem slík á í mótun og samsetningu þessa lagabálks, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. Ég vildi mjög gjarnan fá úttekt á því, hvor eigi stærri hlut að máli, embættismannastéttin, sem öllu vill ráða, eða kennararnir, sem reynsluna hafa. Það hefur jafnan verið siðurinn hér, a.m.k. hjá þessari hæstv. ríkisstj., að láta embættismennina ráða ferðinni heldur en drjúga reynslu, enda hefur það komið þeim í koll að mörgu leyti. Hv. 5. þm. Austf. nefndi mörg blómberanleg dæmi um hneisuna í embættismannakerfinu hér á hinu háa Alþ. í fyrra. Vill einhver hv. þm. útvega mér þau þingtíðindi, svo að ég geti farið með það fyrir hann? — Ég hygg, að fáir hafi sýnt fram á þetta með ljósari dæmum og skemmtilegri, eins og þessum hv. þm. er lagið, en hann gerði, þegar hann nefndi alla póstana, sem mönnum er snúið í kringum eins og snældum hér í borginni, svo að menn vita ekki sitt rjúkandi ráð og utanbæjarmenn eru jafnvel Klepptækir eftir allt þetta. Frá öllu þessu skýrði hv. þm., og ég hygg, að það verði tækifæri til þess í síðari ræðum mínum, sem ég flyt um þetta mál, — þá verði ég búinn að heyja mér þeirra þingtíðinda, sem þetta er að finna í og er mjög upplýsandi.

Hann segir, Jón Sigurðsson, — menn ættu að veita þessu mikla athygli, hvað sjálfstæðismaðurinn Jón Sigurðsson segir um þetta:

„Það er áberandi,“ segir hann, „hvað hér er alls staðar leitast við að koma þeim mönnum út úr afskiptum af þessum málum, sem í sveitunum hafa hingað til starfað að þeim.“

Það var von, að þessi maður, sem hafði opnust augu fyrir jafnvægi í byggð landsins, fyrir nauðsyn þess, að hinar dreifðu byggðir næðu vopnum sínum í sem flestum málum og ekki síst fræðslumálunum, — það var von, að hann fyndi til þess, þegar var verið að afgreiða mál, þar sem allt annað sjónarmið var sett á oddinn en æskilegt hefði verið.

„Skólanefndir og fræðslunefndir í sveitum eru þurrkaðar út,“ segir hann, „sem nokkurt áhrifavald samkv. frv., og er ætlast til, að í stað þeirra verði skipaðar nokkurs konar fræðslunefndir fyrir heilar sýslur.“

Eitt höfuðmál þessa frv. er vitanlega það að gera þetta nógu flókið og þokukennt, hafa nógu marga aðilana, sem að þessu eiga að eiga aðild, til þess að þeir, sem eru höfuðsmiðir þessa frv., ráðuneytismennirnir, geti sölsað sem mest undir sig, til þess að allt lendi í reyk og þoku hjá þessum fjölmörgu aðilum í öllum pýramídanum, og þá geta þeir farið sínu fram. Þá endar ekki nema í einum stað, þar verða völdin öll, og að því er stefnt, að engu öðru er unnið af þessum æviráðnu mönnum en því, með hvaða hætti þeir geti sópað undir sig sem mestum völdum. Og hið háa Alþ. ætti að rannsaka, hvaða virðingu þeir bera sumir embættismennirnir í stjórnkerfinu hérna fyrir hinu háa Alþ., sem hafa staðreynt það annað tveggja, að geta stöðvað réttlætismál hér á þingi fyrir sín áhrif eða troðið hér fram áhugamálum sínum, eftir því sem þeim hefur þóknast í það og það skiptið. Ég get nefnt dæmi um það. Ég get nefnt alveg spánýtt dæmi um það, eins og t.d. varðandi lífeyrissjóðsréttindi örfámenns hóps, starfsmanna stjórnmálaflokkanna, sem var komið hér til afgreiðslu, búið að ganga í gegnum allar umr. í þessari hv. d., komið til lokaafgreiðslu á síðasta degi þingsins í fyrra, en var stöðvað af embættismönnum að sjálfsögðu, sem þótti, að þetta mætti ekki fram fara, af hví að þeir hefðu ekki átt að því upptök, hefðu ekki ráðið ferðinni, og fengu þetta stöðvað eftir óþingræðislegum venjum og með óþingræðislegum hætti í hvívetna. Og það er ekki nóg með, að fulltrúar allra þingflokka hafi sameinast um að flytja þetta mál í upphafi þessa þings. Fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna og heill flokkur ofan í kaupið, flytja þetta frv. Samt sem áður tekst embættismönnunum svo mjög að rugla um fyrir mönnum, að þetta sjálfsagða réttlætismál hefur ekki fengist afgr. Innihald þess er ekkert annað en það, að þessir menn, sem við svo ótrygga atvinnu búa eins og þessir starfsmenn stjórnmálaflokka, fái réttindi, sem nálgist það, sem hv. þm. hafa útvegað sjálfum sér til handa. Þetta geta faktorarnir í rn. með áhrifum sínum gegnum hæstv. ráðh.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að sinni að sækja meiri fróðleik í þennan kafla, en langfróðlegasti kaflinn í umr. á þingi á sinni tíð og sá, sem eiginlega snertir þetta mál langmest, er um gagnfræðanámið sjálft. Það urðu langar umr. um það, en þær urðu ákaflega fróðlegar og þess virði að verja tíma til þess að fara í gegnum þær og glöggva sig á þeim, því að í mjög veigamiklum atriðum er þangað að sækja fróðleik, sem getur skapað allt annað viðhorf við því frv., sem hér liggur fyrir til umr., nýtt og allt annað frv., — og það var meining mín, ef tækist á elleftu stundu að opna augu manna.

Þetta er á 14. fundi í Nd., 22. okt., það var daginn áður en málið, sem ég byrjaði á áðan. Og enn er það Sigfús Sigurhjartarson, sem er frsm., og mér er fullkunnugt um það, að sú var tíðin a.m.k., að hæstv. menntmrh. vildi á hann hlýða, og því ástæða til þess að rifja nú upp það, sem hann sagði um þetta þá.

Ég vek athygli hæstv. forseta sérstaklega á því, að hér er í veigamiklum atriðum og kannske veigamestum að finna ýmislegt það, sem beinlínis snertir veigamestu ákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr. Það er þess vegna einvörðungu, sem ég er að vitna í þessar umr., af því að það er sannfæring mín, að menn fái allt aðra yfirsýn yfir málið, það skapist allt annað viðhorf til þess. Og það er synd, að hæstv. menntmrh. skuli ekki hlýða á þetta, því að ég er viss um, að hann mundi meðtaka þetta heilaga orð. Ef mér sýndist svo og ef mér leiddist án hans, þá mundi ég biðja hæstv. forseta um að sækja hann, en ég sé ekki ástæðu til þess að sinni. Hann er kannske að verða við þeirri ósk minni að athuga um það, að við fáum neytt þess réttar okkar að fá að ræða mál hérna, eins og um þingrofið, hann er kannske að snúast í því, eins og ég skoraði á hann, svo að ég vil ekki láta trufla hann við það.

Sigfús segir hér frá því, að menntmn. hafi athugað þetta frv. ítarlega og rætt það á mörgum fundum. Það var nefnt áðan, að það hefði verið rætt á 18 fundum á þeirri tíð, þar sem menn höfðu þó miklu minna umleikis en nú er, það var 1905, miklu færri málaflokka og miklu meiri tíma, jafnvel enginn sími kominn, eins og bent var á. Þá voru það 18 fundir. Hvað ætli hv. menntmn. hafi nú haldið marga fundi? Áreiðanlega helmingi færri og ekkert samstarf haft á milli n., sem hefði þó getað bjargað þessu máli í höfn, ekkert samstarf og stirfnin einríkjandi. Hér hefur þetta verið ítarlega rætt á mörgum fundum. Þetta kom hvergi fram í þeirri framsögu, sem hv. 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, flutti fyrir málinu, hvað það hefðu verið margir fundir. (HV: Þeir voru 20.) Voru það 20 fundir? Nú, það hefðu þurft að vera 36 fundir. Þeir voru 18 árið 1905 í þeirri fábreytni þjóðfélagsins, og það var bara um barnafræðsluna, sem þá var aðeins í 3 ár eða svo. Nú eru þetta 9 ár, þrisvar sinnum fleiri hefðu þeir þurft að vera. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á þessu, að frsm. og form. n. játar, að þeir hafi verið skammarlega fáir, fundirnir, og sannar þetta eitt með öðru mitt mál, að hér er flanað að hlutunum.

En eftir að hafa rætt hetta ítarlega, skýrði Sigfús svo frá, að n. hafi orðið sammála um að mæla með því, að þetta frv. yrði samþ. að meginefni til, en bera samt fram nokkrar brtt. — Ég er hér að svipast um eftir þeim kafla í ræðu þessa frsm., sem mér virtist, þegar ég var að reyna að sökkva mér ofan í þetta mál og kynna mér það lítillega, að ætti einna helst erindi til hins háa Alþ., nú þegar við erum að ræða þetta mjög svo mikilsverða mál. Hann bendir hér á, að samkv. því, sem menntmn, leggur til, verði landinu skipt í fræðsluhéruð, þar sem megingrundvöllurinn er sýslufélögin og bæjarfélögin. Nú er meiningin að veita samtökum, sem eiga sér enga stoð í lögum, eiga sér engan lögformlegan rétt, hið þýðingarmesta valdsvið og verkefni á þessu sviði, landshlutasamtökunum. En hérna er lögð áhersla á hitt, sem verið hefur, sýslufélög og bæjarfélög. Þó er leyfilegt að sameina sýslufélag eða hluta úr sýslufélagi öðru sýslufélagi í þessu efni. Þetta er það, sem ég var hér að ræða áðan varðandi 18. gr., að því er mig minnir, þegar ég var að byrja á því að bera saman frv., en á eftir að gera því miklu ítarlegri skil.

„Í hverju fræðsluhéraði skal vera starfandi fræðsluráð, og hverju fræðsluhéraði verði skipt í skólahverfi, og er miðað við, að í hverju skólahverfi sé starfandi einn barnaskóli.“ — Menn gái að því, þegar þeir líta ofan í þessar umr., sem er mest upplýsandi fyrir lögin sjálf, en ég mun hér á eftir leyfa mér að lesa þau upp, þannig að menn fari ekki í grafgötur um, hver fræðslulögin eru, sem við búum við. Það er alveg nauðsynlegt, að menn séu alveg á hreinu með það. Þá þurfa menn að kynna sér þetta sér í lagi varðandi umr. sjálfar í þingi. Þá kemur í ljós, að allt var þetta miklu einfaldara í sniðum, og ég hygg, að menn hafi núna með þessari löngu og miklu vinnu og langa amstri truflað um fyrir mönnum, þannig að þeir hafi ekki haft fyrir því að kynna sér þau lög, sem við búum við, en það kynni vel að koma á daginn, að þan væru kannske miklu betri og haganlegri í öllum efnum.

Ég hef áður aðeins minnst á það örfáum orðum, að það hafa skilgóðir menn haldið því fram við mig, að fræðslulögin, sem við búum við í dag, hafi alls ekki verið framkvæmd í mörgum veigamiklum atriðum. Þá er spurningin, hvort það væri nú ekki ráð fyrir framtakssama menn í ráðherraembætti, þó að þeir hafi ekki mikinn þingstyrk, að athuga um að framkvæma það, sem óframkvæmt er af þessum l., sem við búum við í dag, svo að menn gætu þann veginn bætt fyrir sér, meðan þeir fá ekki sett þau lög, sem við nú höfum hér í frumvarpsformi á borðum okkar.

„Fræðsluráð fá samkv. þessum till.,“ sem þeir eru þarna með, „það hlutverk að hafa á hendi forustu menningarmála í sínu héraði, og tekur valdsvið þeirra og skylda bæði til barnafræðslu, gagnfræðanáms og húsmæðrafræðslu. Menntmn. varð sammála um, að rétt væri að samræma þessi ákvæði þessara tveggja frv. um þetta efni og taka ákvæði um skiptingu landsins í fræðsluhéruð og skólahverfi og fræðsluráð inn í frv. um fræðslu barna og vitna svo til þeirra ákvæða í frv. um gagnfræðanám og enn fremur í frv. um húsmæðrafræðslu.“ — Það er mjög áhugavert efni, sem ég e.t.v. vík að hér síðar og er til meðferðar í þingi á sama tíma og þessi frv., sem ég hafði minnst á. En svo vill til. að ef hæstv. forseta dettur í hug, að það sé eitthvað til hliðar við það málefni, sem ég er að fjalla stuttlega um, þá get ég sýnt honum fram á, að svo er ekki, að þetta á beint erindi til rökstuðnings því máli, sem ég er hér að flytja, og nauðsynlegt, til þess að menn hafi heildaryfirsýn yfir málið, að þeir hafi aðeins til hliðsjónar lögin um húsmæðrafræðsluna.

Hann víkur síðan, þessi hv. frsm. þáv., að einstökum brtt., og þykir mér ekki ástæða til að fjölyrða um þær, en vek athygli í sambandi við það, sem ég áður hef sagt, á því, sem síðar kemur fram í ræðunni. Hann segir, Sigfús Sigurhjartarson:

„Fyrst og fremst sú till. hv. þm. að láta veitingarvaldið um skólastjóra og kennara við þessa skóla vera í höndum skólanefndar, þó, að samþykki fræðslumálastjórnar þurfi að vísu um ráðningu þeirra. Röksemdir hv. þm. í þessu sambandi eru þær, að þessir menn séu starfsmenn fólksins og því eðlilegt, að fólkið ráði um það, hverjir þar verði til embættanna kjörnir. Það má segja þetta sama um alla embættismenn. Þetta sama gildir um lækna, sýslumenn og yfirleitt hvaða embættismenn sem er, að þeir eru fyrir fólkið. En þó er það meginregla, að veitingarvaldið um embætti þeirra er í höndum ríkisstj. Enda er það sannast mála, að bæði ráðh. og fræðslumálastjóri eru starfsmenn fólksins, ekki síður en þessir embættismenn, sem hv. þm. Austur-Skaftafellssýslu, Páll Þorsteinsson, ræðir um.“

Þarna er Páll að flytja till. um það, að valdið færist heldur út á landið, út í byggðirnar, en gegn því snýst auðvitað hv. þm. — hvað hét flokkurinn þá? — Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins, hann snýst auðvitað gegn því og leggur til, að valdið sé dregið til miðstjórnarinnar hérna í Reykjavík. Miðskipan mála heitir þetta á fínu máli nú hjá þessari hæstv. ríkisstj. Þeir mæla með, að það sé miðskipan mála í einu og öllu, valdið dregið frá fólkinu til örfárra embættismanna hérna í Reykjavík. Það eru þeirra ær og kýr, þrátt fyrir ákvæði stjórnarsáttmálans, því að þannig hafa öll mál skipast í tíð þessarar hæstv. ríkisstj.

Það er kannske ekki rétt að segja: þrátt fyrir ákvæði stjórnarsamningsins. Það er nú orðið þannig, að hann er einn öfugmælapési, þannig að það virðist, að hann sé saminn til þess að fara ekki eftir honum í einu einasta atriði. Þau atriði, sem þar eru fram tekin, séu þau, sem þeir hefðu helst viljað forðast, svo gersamlega hefur hvert einasta atriði, smátt og stórt, verið þverbrotið. Má minna á það ákvæði, þar sem segir, að samráð varðandi efnahagsmálin skuli haft við verkalýðssamtökin. Má minna á það, hvernig komið er. Hvernig var við það staðið af hæstv. forsrh.? Var það ekki síðasta afrekið, að svíkja það gersamlega, eins sjálfsagt og skynsamlegt og maður hefði talið, að það væri, svo sjálfsagt og skynsamlegt, að það hefði ekki þurft að taka það fram? En þetta hefur sjálfsagt verið sett þarna til að minna á að hafa eitthvað til að svíkja og gera öfugt við það, sem skynsamlegt er.

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá er það augljóst mál, að efnahagsmálum þessarar þjóðar verður ekki stjórnað, svo að vel fari, nema í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins, ekki síst og alveg sérstaklega alþýðusamtökin. Og það er engin niðrun fyrir Alþ., þótt þannig hátti til, vegna þess að Alþ. sjálft hefur gefið þessum mönnum þann heilaga rétt, sem þeir eiga til afskipta af sínum málum. Og það er til lengdar skynsamlegast. Að sjálfsögðu er yfirstjórnin hjá þingi og ríkisstj., en þetta er undirstaðan, að menn hafi augun opin fyrir þessu. Samt tókst að hafa þetta að engu. Samt var það gert að svíkja þetta stefnumið gersamlega, og það er auðvitað það, sem úrslitum ræður. Það liggur alveg ljóst fyrir, að fyrrv. og núv. forsetar ASÍ gátu auðvitað ekki horft á það þegjandi, að slík undirstöðuatriði í sjálfum stjórnarsáttmálanum væru þverbrotin með þeim hætti, sem raun ber vitni um. Og það er lítt skiljanlegt og á eftir að rannsaka það, hverjar ástæður lágu til þess, að til svo einkennilegra vinnubragða var gripið, sem e.t.v. er einn veigamesti þátturinn í því, að nú mun ekki takast að forða frá stórslysum hinn 1. júní n.k. Mér þykir líklegt, ef verkalýðshreyfingunni hefði verið sýnt fram á það í viðræðum og samráði, að hér væri stórkostleg hætta fram undan, að hún mundi hafa áttað sig á því og viljað ýmislegt á sig leggja til þess að forða frá því, að áföllin skyllu á. Það er sannfæring mín. Og ef hún hefði, svo sem hún hlaut að gera, eftir að henni hefðu verið sýnd vandamálin, viljað taka þátt í lausn þeirra, þá hefði auðvitað hæstv. ríkisstj. verið margfalt öflugri til þess að ná sínum ráðagerðum fram eða öllu heldur fengið stuðning eða hlutleysi alþýðusamtakanna við þær efnahagsráðstafanir, sem gera þurfti. Það voru forsendur þess, að nokkuð væri hægt að gera. Svo stendur enn í dag. Samt ætlar þessi ríkisstj. að sitja, þótt hún viti, að hún á ekkert og getur ekkert erindi haft við verkalýðssamtökin eða aðila vinnumarkaðarins um nein úrræði til eða frá, því að hún hefur slegið á þá hönd að fyrrabragði. Samt ætlar hún að sitja, samt beitir hún þessum lagakrókum til þess að koma í veg fyrir, að meiri hl. hér í þingi, sem fyrir hendi er, geti náð vopnum sínum til þess að þjarka við.

(Forseti: Áður en næstu vaktaskipti verða hjá okkur deildarforsetum, vil ég aðeins í tilefni af nokkrum ummælum, sem hv. þm. hefur viðhaft í ræðu sinni hér, um það, að það sé verið að beita einhverju sérstöku harðræði, að því er snertir meðferð þessa máls, og hv. þm. hafi ekki fengið tíma til þess að fjalla um það í þessari hv. d., þá vil ég aðeins henda honum á það, ef hann er farinn að gleyma því, að þetta mál mun hafa verið lagt hér fram fyrst í hittiðfyrra og var þá rætt. Þá átti hv. þm. kost á því að ræða það a.m.k. í tveimur ræðum, ef ekki þremur. Það var síðan lagt fram aftur í fyrra. Þá átti hv. ræðumaður kost á því að ræða þetta mál á sama hátt a.m.k. í tveimur ræðum. Síðan var það lagt fram hér í upphafi þings, og hv. þm. hefur átt kost á að ræða það við þrjár umr., í 6–9 ræðum eftir frjálslyndi forseta þar um. Og nú er það komið enn á ný til d. á þriðja ári og í þinglok, að því er menn telja, og það hefur ekki verið beitt neinum takmörkunum við hv. þm., þannig að ég tel algerlega ástæðulaust að kvarta yfir því, að það sé verið að beita einhverjum sérstökum þvingunum í þessu máli og þm. hafi ekki fengið og fái ekki tíma til að ræða það. Slíkt hefur alls ekki átt sér stað.)

Ég bið hæstv. forseta velvirðingar, en gæti ekki skeð, að hann hafi misskilið mig að einhverju leyti? Ég taldi það harkalegar aðfarir að ætla að fara að húrra þessu hér af á þessum síðustu klukkutímum, sem menn halda þingréttindum sínum. Ég taldi það harkalega að farið um afgreiðslu svona mikils stórmáls, að það er afgr. frá hv. Ed. einhvern tíma núna um fimmleytið eða svo, og ætla þá þegar, án þess að gefist kostur á að athuga þær fjölmörgu mikilsverðu breyt., sem hv. Ed. gerði á því, að húrra því hér í gegn, sem ég kalla. Það er þetta, sem ég átti við, þegar ég var að tala um hörkuna. En hæstv. forseti vor hefur sýnt hina mestu ljúfmennsku og þolinmæði í þessu. Að vísu hef ég ekki mikið reynt á hana. Eins og hann tók sjálfur fram, þá hafði ég ekkert misnotað aðstöðu mína. Ég hafði ekki reynt á þolinmæði hans að einu eða neinu leyti. Ég meira að segja sleppti því að halda ræður í fjölmörg skipti, sem ég átti þess kost. En þess vegna og ekki síst verð ég þá að bæta um, þótt seint sé. Ég veit, að hæstv. forseti skilur þetta, en ég met mikils hans aðvaranir og tek þær allar til greina, og að svo miklu leyti sem upp á mig skyldi standa, þá bið ég á því velvirðingar.

Ég var þar kominn, þegar ég fékk tilsögnina, að minnast á þetta, sem þá strax greinir á um þm. á sinni tíð, um skipan yfirstjórnarmálanna, þar sem fulltrúinn úr Sameiningarflokki alþýðu, Sósfl., berst fyrir því og fékk því reyndar ráðið þá, vegna þess að þá var menntmrh. úr röðum þess flokks, — berst fyrir því að draga valdið sem mest til Reykjavíkur. Páll Þorsteinsson gerði sér snemma á árum ljósa grein fyrir þessu, og hann vildi, að valdið væri miklu meira heima í héruðunum. Hann hefur aldrei verið glámskyggn á þetta, og hann kann þetta og lærði þessi sannindi löngu á undan hv. 5. þm. Austf., þó að hann sé að smákoma til í fræðunum, þessi, sem hér var að taka fram í áðan um þessi mál. — Hann segir áfram um þetta, sem snertir eitt mikilvægt atriði, sem ég mun víkja síðar að, mig minnir, að það sé í 30. gr. sjálfs frv. eða svo. Þetta sama, segir hann, þegar hann talar um embættismennina. gildir um lækna, sýslumenn og fleiri embættismenn og hvaða embættismenn sem er, að þeir eru fyrir fólkið, og bendir svo á þetta, að þeir trufli að verða skipaðir af hinni æðstu stjórn, allir embættismenn, einnig kennarar við skóla landsins.

Frsm. bendir á, að Páll Þorsteinsson hafi nefnt í þessu sambandi prestana, að þeir væru kjörnir með kosningu, þar sem fólkið heima í héraði gæti alveg ráðið, hver kjörinn yrði. Þetta er fróðlegt á marga vísu og skemmtilegt núna að rekast á þetta. Þarna er á það hent, að fólkið sjálft fær að velja sér sína presta. En hvað stendur nú til í þeim sökum? Hvað stendur nú til í þeim sökum, og hverjir hafa forustuna þar um? Hver er sá, sem vill fá að skipa prestana héðan í frá að geðþótta sínum og ræna fólkið þessum rétti? Ætli það séu ekki embættismennirnir í Reykjavík eða embættismaður? Maður hefur orðið þess var, maður hefur fylgst með þessu. Það á að ræna fólkið úti um byggðir landsins og hvarvetna þessum rétti sínum að fá að velja sér sálusorgara, eingöngu vegna þess, að það er embættismaður, sem þráir það allra mest að fá að skipa þetta allt saman að eigin vild. En maður hefur líka heyrt þá röksemd, að þeir séu eitthvað of góðir til þess, klerkar, að láta kjósa um sig. Við erum ekkert of góðir til þess að fara í tíma og ótíma, ótíma eins og nú, út á land og afla okkur atkv. til þess að verða rétt kjörnir á þing. En prestarnir eru víst of fínir til þess, að fólkið fái að ráða þessu sjálft. En sannleikurinn er sá, að ef nokkuð skortir á í því og ef nokkuð er að í sambandi við prestskosningar, þá er það allt saman prestunum sjálfum að kenna, sem nota miklu óheiðarlegri brögð í öllum áróðri og kosningabaráttu heldur en stjórnmálamenn. Því hefur maður margoft kynnst. Og þeir vita líka um þetta, að tilgangurinn helgar meðalið, þeir hafa lesið um það. En ég segi ekki fleira. Það á nú líka að skella yfir, að það á að fara að draga það vald úr höndum blessaðs fólksins að fá að velja sinn eigin sálusorgara. Þá þykir mér nú stungin tólg í meira lagi.

Hann játar, að þetta sé rétt, að prestar séu kosnir af fólkinu sjálfu. „En hitt er líka rétt,“ segir hann, „að það er ákaflega mikil óánægja meðal margra með það fyrirkomulag, ekki síst þeirra, sem eiga að njóta þessara embættismanna.“ — Þarna er verið að tala um þessa prestskosningu, sem ég vék að, og er fróðlegt á marga vísu. Það koma sífellt fram umkvartanir frá fólkinu um þetta fyrirkomulag, segir hann. Þetta er að vísu alveg rangt, fólkið vill viðhalda þessu. En prestarnir vilja helst fá að hafa þetta þannig, að það sé bara eitthvert eitt miðstjórnarvald hér í Reykjavík, sem hefur með þetta að gera, svo að þeir þurfi ekki að hafa fyrir því að ganga fyrir fólkið, enda er þetta skiljanlegt að vísu, hvað suma þeirra áhrærir.

Hann segist halda, að það sé gild regla gagnvart þeim mönnum, sem eru starfsmenn ríkisins og taka laun að öllu leyti úr ríkissjóði, að þegar þeim er veitt starf, þá sé veitingarvaldið í höndum ríkisstj. sjálfrar. Þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem bönd berast að því segli að draga allt vald undir einn hatt. Það er víst og rétt. En þessi stefna er ekki til orðin árið 1945, í umr. þá um gagnfræðanámið. Það hefur smám saman verið að siga á ógæfuhlið í þessum efnum. Vilji er þó fyrir hendi hjá hv. alþm. að snúa þessari þróun við, og ég er sannfærður um það, að árangur mun nást. En hann næst ekki nema með því, að menn taki höndum saman. Það er enginn einn flokkur, sem getur ráðið svo gagngerri stefnubreytingu sem slíkt er, heldur þarf til þess öflug samtök þeirra, sem skilja, í hverju vandinn er fólginn.

Hér væri og fróðlegt að vitna til ýmissa atriða, sem fram komu hjá Jónasi Jónssyni frá Hriflu í þessu sambandi, og það er ekki vegna þess, að ég hafi ekki nógan tíma, sem ég mun ekki víkja ítarlega að þeim atriðum. En ef við tökum þetta frv. sérstaklega sem dæmi um það, sem mér er sagt, að það hafi verið að væflast fyrir menntmrn. — mönnum eða jafnvel hæstv. fyrrv. menntmrh. að bera slíkt frv. fram alla hans menntmrh.-tíð, þá voru það ekki nema 15 ár, og það sé búið að vera hér í ein þrjú ár í þingi, þá vil ég segja, að ólíkt er þessum mönnum farið um allar framkvæmdir eða Jónasi Jónssyni frá Hriflu, þótt hann væri um margt gagnrýndur og mönnum sýndist sitthvað um hans ágæti. Honum tókst að framkvæma á miklu færri árum, kannske 4–5 árum margfalt verk á borð við það sem virðist liggja eftir forustumenn í menntmrn. nú undanfarna nærfellt tvo áratugi, þannig að honum tókst á örskömmum tíma að reisa sér óbrotgjarnan minnisvarða í þeim efnum. En hér hefur þessi mikli bálkur verið að væflast fyrir mönnum árum saman sumir segja í einn og hálfan áratug, án þess að menn yrðu á eitt sáttir, og allt er þetta hví að kenna, að ekki hefur verið af hálfu hins háa Alþ. tekið á þessum málum eins og þurfti. Þeir eru alveg nægjanlega kunnugir í þessum málum til þess að geta skapað sér heildarmynd af því, hvernig þan eiga að vera úr garði gerð, sér í lagi vegna þess, að við höfum auðvitað margar mjög mikilsverðar stoðir þegar í lögum í þessum efnum, sem hægt væri að byggja á. Það, sem hefur tafið málið, er í fyrsta lagi það, að embættismennirnir skuli hafa haft með þetta að gera svo til alfarið alla tíð, að Alþingi skyldi ekki hafa brugðið á það ráð að skipa mþn. í þessu, sem skoðaði það. Ef svo hefði verið gert, þá er ég sannfærður um, að þetta mál væri löngu orðið að lögum, að vísu allmikið breytt frá því, sem hér er, því að þetta er ein mesta og óhæfasta langloka. Það hefur sýnt sig, og menn hafa ekki treyst sér til þess að mæla í mót undir meðferð þess. Þetta er aðalástæðan fyrir því, hversu treglega hefur gengið fram í þessu máli, að embættismennirnir hafa haft mest um þetta að segja, sjálfsagt þæft þetta sín í milli og ekki orðið sammála fyrr en seint og um síðir, þótt þeir séu sammála um eitt aðalmarkið, og það er að ná völdunum í sínar hendur. Síðan er það, að eftir að þing fær þetta til meðferðar, þótt liðið sé á þriðja ár síðan, þá er haldið á málinu með lítilli sinnu, vil ég segja, lengst af og þaðan í frá af stirfni, stirfni og litlum samvinnuvilja. Á ég þar sér í lagi við hæstv. menntmrh., sem eins og ég sagði áðan, berst nú um á hæl og hnakka að láta eitthvað eftir sig liggja, meðan þetta þing stendur, sem eru einhverjir dagar enn, vegna þess að þetta mál er rétt að koma til umr. hér á nýjan leik. Hann hefur þegar reist sér töluverðan minnisvarða, — ég veit ekki, hversu óbrotgjarn hann er. Hann er fyrsti ráðh. á Íslandi, sem sest fyrir framan þjóð sína og lýsir því yfir, að hann muni forakta, virða að vettugi meirihlutasamþykkt Sþ. Þarna hefur hann unnið afreksverk. Vill hann ekki aðgæta, hvort honum er þetta ekki nægjanlegt í bili? En hann virðist vilja fá aðra rós í hnappagatið, að þetta margþæfða mál. grunnskólafrv., verði að lögum. Og mig undrar enn, — ég verð að segja það rétt eins og er, — það geðleysi hv. 3. þm. Vestf., Hannibals Valdimarssonar, mig undrar það geðleysi, að eftir það, sem á undan er gengið, ætli hann nú að fara að hjálpa honum til að setja upp þessa frollu. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, og þess vegna kynni að vera, að ég geti farið að stytta mál mitt, því að þetta hlýtur að vera svona, — og eins hv. 7. landsk.

Af því, herra forseti, að ég rakst á hér í frv., ákveðna gr., sem höfðar til þess, sem mjög er nauðsynlegt að rifja upp í því máli, sem ég vitnaði til hér fyrir alllöngu, frá 1847, þ.e. í máli þess manns, sem kallaður er hér kammerráð Melsteð, skal ég nú leiða rök að, hvers vegna ég tel, að hún eigi sérstakt og brýnt erindi hingað, þegar þetta mál er til umr. Ég minni á, að það, sem ég hef áður vitnað til og lagði út af á marga vegu, var um bænarskrá frá Reykjavíkurbæ um frv. til reglugerðar fyrir barnaskólann sama staðar. Það er kammerráð Melsteð, sem talar:

„Ég er að sönnu sömu meiningar sem hinn hv. forseti, að mál þetta sé þess eðlis, að það geti komið fyrir Alþ., þó það einungis áhræri bæinn Reykjavík. Því þó eitt málefni einungis komi við einu einstöku héraði eða sýslu í landinu, ef það er annars svo á sig komið, að um það verður að semja lagaboð, þá heyrir það undir þingsins aðgjörðir og ráðaneyti.“ — Ráðaneyti segja þeir hér, og það hafa nútímamenn sumir tekið upp, svo að þetta er ekki alveg nýyrði hjá hæstv, fjmrh., heldur er þetta áður notað, ráðaneyti. — „En samt sem áður verð ég að vera á sama máli sem hinn hæstv. konungsfulltrúi,“ það var nú ekki að spyrja að því „den tid“ hjá Melsteð, hann læknaðist þó síðar af því, — „og þeir þm., er áður hafa talað, að þingið, að svo komnu, eigi ekki að taka til aðgerða þá bænarskrá, sem nú er fyrir það fram komin. Alþm. þekkja svo lítið til allflestir, hvernig bæta skuli annmarka þá, er vera kunna nú sem stendur við barnaskólann í Reykjavík, að þeir munu fá gagnleg ráð geta þar til lagt, og það mundi þess vegna vera til lítils, að þingið tæki málefni þetta til íhugunar. Til þess að koma barnaskólanum í betra horf en nú er, þarf nákvæma þekkingu, bæði á skólans högum og ástandinu í Reykjavík.“ — Þetta náttúrlega skilur hver maður. — „Þessa þekkingu má nú þykja líklegt, að skólanefnd sú, sem undirskrifað hefir bænarskrána, hafi fremur öðrum, og hún sýnist því öðrum fremur vera kjörin til að semja hentugt frv. til reglugjörðar um endurbót skólans. Þessa reglugjörð ættu síðan að skoða nákvæmar hlutaðeigandi yfirvöld og stjórnarráð, og þá fyrst, þegar svo langt væri komið, mundi það hlýða að leggja hana fyrir þingið. Sú bænarskrá, sem hér er fram komin, inniheldur þar á móti engar bendingar til,“ — ég bið menn að veita þessu sérstaka athygli, — „engar bendingar til, hvernig endurbót skólans skyldi ske, og gefur þm. þess vegna enga nýtanlega leiðbeiningu.“ — Ég vil meina, að það frv., sem hér liggur fyrir til l. um grunnskóla, sé svo þokukennt og lopinn teygður með þeim hætti, að það gefi þm. þess vegna enga nýtanlega leiðbeiningu, eins og kammerráð Melsteð sagði árið 1847. — „Hér að auki ættu þm. að aðgæta, að á þingtímann er mjög svo liðið, að vart lítur svo út, að þau málefni, sem nú eru þegar fyrir þingið lögð og tekin af því til skoðunar, verði til lykta leidd, og eru mörg þeirra þó mikils um varðandi.“ — Hér segir hann: „Hér að auki ættu þm. að aðgæta, að á þingtímann er mjög svo liðið, að vart lítur svo út, að þau málefni, sem nú þegar eru fyrir þingið lögð og tekin af því til skoðunar, verði til lykta leidd.“

Mér virðist, að þann veg sé komið málum hér á hinu háa Alþ., að mjög svo sé liðið á þingtímann, eftir þeim fréttum að dæma, sem við höfum haft, og þeirri ráðagerð, sem uppi er hjá þeim, sem nú halda ríkisforustunni án þess að hafa til þess þinglegt vald. Og sýnist ekki mönnum að þannig líti út, að þau málefni, sem þegar hafa verið lögð fyrir, fái hvort sem er ekki nægjanlega skoðun, þótt þessu yrði sleppt. Það hefur verið farið fram á það af meiri hl. Alþ., að tekið verði á dagskrá og rætt það vantraust á hæstv. ríkisstj., sem fram hefur verið borið.

Ég geri ráð fyrir, að öllum þeim, sem unna lýðræði og þingræði, þyki nauðsyn bera til þess, að orðið sé við þessari meirihlutaáskorun hv. þm. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þegar halla tekur svo mjög á þingtíma sem nú ber raun vitni um, er það þýðingarmeira verkefni og umræðuefni heldur en það, sem ég hér er að ræða. Á því er enginn vafi. Og þá er að bregða á það ráð og fá úr því skorið, hvort eigi að verða við þessari áskorun meiri hl. þings. Það er auðvitað beint og skýlaust brot á þingræðinu, að hafna kröfu þeirri, sem sett hefur verið fram af hálfu meiri hl. hv. þm, um að fá að ræða þá þáltill. um vantraust á ríkisstj., sem hér hefur verið lögð fram. Það er auðvitað algert brot á öllum þingræðisvenjum. Það er skákað í skjóli lagakróka, ef á að fara þann veg fram nákvæmlega með sama hætti skákað í skjóli lagakróka, eins og gera á með því að rjúfa nú þing. Þótt fordæmi finnist, er það siðferðilega rangt. Lagakrókalega kann það að standast, en öðruvísi ekki, og með því háttalagi á að banna þeim, sem hafa á því tök að nálgast vandamálin, banna þeim veginn að málefninu, að fá fang á þessum vandamálum, sem leysa þarf. Refjar og lagakrókar eru til þess notaðir og þeirra ábyrgð er mikil, sem þann veg haga sér. Með undirskriftinni um kröfu um að ræða vantraustið liggur fyrir, að þar er meiri hl. þm. á ferðinni, og það hefur ekki verið reynt að neinu leyti á það, hvort þessi meiri hl. þings mundi ekki vilja taka til höndum að stjórna eða a.m.k. forða stóróhamingju, sem sjálfir stjórnarherrarnir hafa lýst yfir, að sé í nánd. Það hefur ekki verið reynt neitt á þetta, vegna þess, að mönnum hefur verið bannaður vegurinn, dyrunum hefur verið læst, það hefur ekki verið um neitt slíkt að velja. Valdið hefur verið á þessum stað, og það á að beita því eða banna mönnum veginn til úrlausnar, sem alveg örugglega gæti a.m.k. orðið til þess, að ekki mundu yfir dynja óborganleg slys, eins og þeir sjálfir segja, að ella séu í boði.

Ég vík aftur að því, en af sérstöku tilefni þótti mér brýna nauðsyn bera til þess að vitna í þetta, enda kemur það heim við allt, sem ég vildi um þetta segja, — en ég vil enn fremur víkja að því og brýna menn á því og spyrja menn, hvort útilokað sé, að þeir vilji rökum taka, — brýna menn á því, hvort ekki eru á því tök að fallast á þær röksemdir, sem fyrir rökstuddu dagskránni voru fram sett. Þar er ekki verið að gera málinu neinn miska. Við höfum búið við núv. fræðslulöggjöf síðan 1946. Við höfum orðið þess vör, að það eru ýmsir hnökrar á henni, og viljum úr því bæta, þótt mér sýnist, að úr þessum lopa verði ekki spunnið garn í þann vef, sem til þess þarf.

Í framhaldi af þessu og af því að það snertir sérstaklega röksemdir, sem ég var hér að nefna fyrir frestuninni, og af því að mér heyrðist vera kvartað undan því af hv. 5. þm. Austf., að ég sleppi úr of mörgum árum, þá vil ég leyfa mér að vitna hér til ársins 1913, Alþt. þá, og það er nú enginn minni maður en Björn M. Olsen, sem ég ætla að leyfa mér að vitna til. Það er um fræðslu barna.

Hann byrjar á því að biðjast afsökunar á því, hversu langan tíma hafi tekið að afgreiða þetta mál, og hann gefur skýringu á því, hvers vegna það hafi tekið svona langan tíma. Það er vegna þess, eins og hann segir, að hér er um vandamál að ræða, sem þarf að athuga rækilega, áður en því er ráðið til lykta. Það er hægt að leiða fram á sjónarsviðið hvern kappann á fætur öðrum, hvert stórmennið á fætur öðru í okkar fræðslu- og skólamálum, og allt ber að sama brunni, að svona breytingum, nýjungum eða stórstigum breytingum, má ekki flana. Það verður að gefa sér nægan tíma. Við höfum fært að því óyggjandi rök, að um margt er þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., ábótavant, margt er þar óljóst og það virðist færa í það horf, að illframkvæmanleg verði lög, auka vald embættismanna hér í þéttbýlinu o.s.frv., o.s.frv., fyrirkomulag, sem við stefnum ekki að, fyrirkomulag, sem við erum öndverðir. Hann segir, Björn M. Ólsen:

„Ég veit, að til eru ýmsir stórstígir framfaramenn, sem segja, að hægt sé að koma á fót föstum skólum um allt land, og á ég þar við skóla, sem eru meira en aðeins til málamynda eða nafníð eitt. En kostnaðurinn við slíka skóla mundi vera svo gífurlegur, að landið gæti með engu móti risið undir því.“

Þá tíðkaðist að hafa mjög í sjónmáli allan kostnað við framkvæmd mála. Nú er sá siður gersamlega aflagður. Nú er hægt að leggja fram frv. eftir frv., eins og þessi hæstv. ríkisstj. hefur gert, án þess að gera nokkra grein fyrir því, til hvers kostnaðurinn muni leiða. Engar áætlanir, allra síst að nokkur ráðagerð sé uppi um það, með hvaða hætti skuli afla þess gífurlega fjár, sem framkvæmd t.d. þessara laga kemur til með að kosta. En þá var það undirstaðan. Landið var að vísu fátækara, en þó er svo, að þrátt fyrir það að við höfum efnast gífurlega, tekjur manna og þjóðfélagsins margfaldast og eru gífurlega háar, þá er samt svo komið núna eftir fjármálaóstjórnina í þrjú ár, að okkur heldur við gjaldþroti, bæði á innlendum vettvangi og gagnvart útlöndum. Ef ekki er gripið til róttækra ráðstafana, erum við gjaldþrota gagnvart umheiminum þrátt fyrir einstakasta góðæri, sem nokkur dæmi eru til um fyrr og síðar.

Nei, það er eins og ég hef áður sagt, það þarf að sníða sér efni í fallegu flöggin, sem má veifa framan í kjósendur, en það verða áreiðanlega einhverjir aðrir, sem verða til þess kvaddir að framkvæma þessa hluti, alveg áreiðanlega einhverjir aðrir, rétt eins og það verða einhverjir aðrir en þeir, sem nú hafa verið að reyna að stjórna að undanförnu, sem koma til með að takast á við vandann og leysa hann, þegar þar að kemur. Verst af öllu er, að tíminn skuli vera tafinn með því, að þeir menn, sem engin ráð hafa til þess að leysa vandann, skuli þvælast fyrir öðrum, sem hafa á því fullkomin tök.

Nei, það þarf að flagga með því, að hér hafi verið mikil framfarastjórn, sem hafi komið fram ýmsum stórmálum. En það á að reyna að láta gleyma því í hita kosningabaráttunnar, að fyrir engu var séð, engin grein gerð fyrir því, hvað hlutirnir kostuðu, og allra síst, að fyrir því væri séð, með hvaða hætti ætti að afla fjár til framkvæmdanna. Á þessu þarf að verða grundvallarbreyting frá því, sem nú er. Það er algert lífsspursmál, að við skoðum hug okkar miklu vandlegar um hina stærri þætti fjármálanna, áður en flanað er til þess eða á það ráð brugðið að fara eftir því, sem við kunnum að óska hverju sinni. Okkur hefur að vísu mikið legið á, því að við höfum á örfáum árum brotist úr örbyrgð til bjargálna. Við höfum líka gert stórvirki, framkvæmt ótrúlegustu stórvirki. En héðan af, eftir að við höfum búið um okkur svo vel sem raun ber vitni um, þá þurfum við að fara okkur aðeins hægar, skoða hug okkar vandlegar um, hvernig að málum verði staðið, um framkvæmd þeirra og um fjármálin sjálf, og minni ég enn á það, að peningar eru afl þeirra hluta, sem gera skal.

Í þessu efni verður að gerast gerbreyting. Ég segi: Við höfum búið það vel um okkur, að við ættum að öðru jöfnu að geta gefið okkur til þess tíma að huga vandlegar að um allar framkvæmdir í stærstu málum. Við stöndum ákaflega vel að vígi, enda þótt við þurfum af og til að mæta slíkri óhamingju eins og hæstv. ríkisstj. sjálf hefur best lýst fyrir okkur. Það hendir nú í annað skiptið á hálfum öðrum áratug rúmum, að óspilunarmenn og ráðleysingjar ná um stjórnvölinn og tekst á örskömmum tíma að halda svo vitlaust á málunum í mestu góðærunum, að við stórslysum er búið að þeirra eigin sögn. Stjórnarandstæðingar hafa ekki næga kunnugleika á ástæðunum í ríkisbúskapnum til þess að geta fullkomlega dæmt um þetta, þótt við sjáum alveg nóg til þess að vita, hver ófæra er í boði. En við trúum því, sem hæstv. ríkisstj. segir. Hún segir fullum fetum, að allt sé komið fram af brúninni. Hún tekur svo stórt upp í sig, að maður skyldi halda, að það væru hinir harðsvíruðustu stjórnarandstæðingar, sem væru að lýsa ástandinu, eins og t.a.m. hæstv. forsrh. gerði í sjónvarpinu í gær.

Ég tel mig sér í lagi eiga heimtingu á því að fá nákvæma kostnaðaráætlun með þessu frv. með tilliti til þess, að Sþ. hefur gert ályktun um það, að öllum stjfrv. skuli fylgja kostnaðaráætlun. Ég tel mig eiga heimtingu á þessu. En ég tek hins vegar tillit til þess, að Sþ. hefur ályktað í þessa veru, en hæstv. menntmrh. af þreki sínu og áræði fer þann veg fram að láta sem ekkert sé, með hvaða hætti og í hvaða veru sem hv. Sþ. ályktar. En ég hef ekki þá afstöðu til mála. Þess vegna er það, að með hliðsjón af þeirri ályktun og ákvörðun, sem hlýtur að verðá túlkuð með þeim hætti, þá tel ég mig eiga kröfu á því að fá nákvæma áætlun um þann kostnað, sem það frv. mun leiða af sér, sem við nú höfum hér til umr. Þetta ætti ekki að vera kerfinu ofvaxið, miðað við hina nýju verktækni á öllum sviðum. Þetta ætti ekki að vera nema nokkurra vikna vinna.

Þess vegna er það, að ég held enn fast við þá till., sem við gerðum um, að þessu máli verði vísað frá, kosin verði 7 manna þm: nefnd til þess að gera á því síðasta yfirlit og reyna til þrautar að ná samstöðu um málið. Það hefur ekkert verið reynt. Það hefur hins vegar, eins og ég hef margtekið fram, miklu frekar verið sýnd stirfni og eintrjáningsháttur í þessu. Hvað á slík framkoma að þýða, eins og við höfum orðið vitni að, að átti sér stað í hv. Ed. í gær, þar sem 6 af 7 nm. höfðu orðið sammála um það meginatriði, sem stytting skólaskyldunnar var, og það var komið fram í tillöguformi? Þegar menn hafa orðið á þetta sáttir, þá er tekið þann veg til höndum, að þessi tillögugerð er rekin öfug ofan í hv. stjórnarsinna, sem sæti áttu í þessari n. Hvers vegna eru þessi vinnubrögð höfð í frammi? Hvaðan kemur hæstv. menntmrh. eða hæstv. ríkisstj., sem sjálfsagt er öll í högglngi með þetta, sú sannfæring, að það megi öllu til kosta til þess að ná fram 9 ára skólaskyldu? Hvaðan hefur hann þann stóra sannleik, að hann þurfi jafnvel eftir allar þessar umr. að gera menn að minni mönnum með því að neyða þá til þess að éta ofan í sig meiningar sínar á síðasta stigi málsins? Það sýnir, að það er ekki mikill vilji til samkomulags. Það sýnir eindæma frekju og yfirgang. Mig út af fyrir sig skiptir litlu máli, þótt þeir láti með sig fara með þessum hætti, hv. stjórnarsinnar, eins og dæmin sanna. Ég er aðeins að nefna þetta dæmi til þess að sýna fram á, hvernig vinnubrögðin eru. Þau eru ekki við hæfi manna, sem eiga, eins og hv. þm., að leggja sig fram um það að ná samstöðu um málin og vinna saman að þeim, sýna tillit til skoðana annarra, en ekki einhvern sjálfsþótta, þar sem þeir þykjast einir sitja uppi með allt vitið. Það er það ekki að vísu í þessu tilfelli, hæstv. menntmrh. heldur það ekki. En hann heldur, að embættismennirnir sínir sitji uppi með það allt, og það eru þeir, sem segja honum fyrir um þetta allt saman. Hann er brúða í þeirra bandi í öllu þessu máli. Það er deginum ljósara.

Þar sem ýmislegt í máli Björns M. Ólsen á sinni tíð mætti verða hv. þm. mjög til upplýsingar um ýmsa mikilvæga þætti, sem snerta þetta mál, þá væri kannske ástæða til þess að rekja hans ítarlegu ræðu um þessi mál betur. En til þess mun e.t.v. gefast kostur síðar á fundinum, þegar ég kem að þeim greinum sérstaklega, þar sem beinlínis er hægt að sjá samtenginguna í milli þeirra raka, sem hann fer með á sinni tíð, og þeirra raka, sem ég vil nú halla mér að.

Ég beini því enn til hv. þm., hvort þeir hafi nægjanlega rannsakað þann rökstuðning, sem fyrir rökstuddu dagskránni var fluttur hér við 2, umr. í hv. Nd. Alþ. Hún var, — og ég endurtek það og fullyrði, — ekki flutt fram til þess að drepa þetta mál endanlega. Okkur er alveg ljóst, að ný fræðslulög verða sett, það er okkur alveg ljóst. En við viljum leggja okkur alla fram um það, að þau megi verða sem best úr garði gerð. Til þess eru refarnir skornir og eingöngu til þess. En við höfum enga áheyrn fengið. Við höfum talað fyrir daufum eyrum þeirra, sem hafa ráðið og þykjast vilja ráða enn, þótt þeir hafi til þess ekkert atfylgi hér á hinu háa Alþ. Ótal atriði hefur verið bent á, atriði, sem við eigum kröfu á svörum við, eins og t.d. um kostnaðinn. Og þessi tillögugerð felur í sér bendingar um það, hvernig að því megi standa að leysa þetta mál með samningum og með samvinnu. Það er höfuðatriði málsins, að kjörin yrði 7 manna þm.- nefnd, sem tæki þetta mál, sem er orðinn þessi endalausi lopi, úr höndum embættismannanna og settist niður, og ég er sannfærður um, að það mundi ekki taka hana mjög svo langan tíma að ná til botns í því.

Þegar menn nú hafa sannfærst um, eins og ég er viss um, að allir hv. þm. hafa sannfærst um, að lög verða sett um þetta efni mjög svo í þá veru, sem við höfum hér á þessum plöggum, er þá ekki nægjanleg að sinni sú vissa? Mun einhver skaði ske yfir eitt sumar og jafnvel þótt það verði tvö? Mun einhver skaði ske? Það mun þeim mun minni skaði ske sem faktorarnir í menntmrn. eru þegar byrjaðir í allviðamiklum efnum að framkvæma þessi ósettu lög. Þeim mun minni skaði mun sjálfsagt ske að dómi þeirra, sem telja nauðsyn bera til að þessi lög séu sett, — þeim mun minni sem það liggur fyrir, að þeir hafi verið að bögglast við það í meiri og minni mæli að framkvæma þessi ósettu lög, Menn ráða því auðvitað, hvort þeir eru nokkuð til viðtals um eitt eða annað í þessu sambandi. Mér sýnist á öllu, að svo sé ekki, og þá taka þeir auðvitað afleiðingunum af því. Ég hef margboðið að leita samkomulags í þessu máli, en það hefur ekkert verið um það hirt. Sá siður er að vísu ekki nýr, að meiri hl. ríkjandi á Alþ. forakti minni hl. og húrri sínum málum í gegn án mikils tillits til hans. Sá siður er ekki nýr. En hann er alls ekki til fyrirmyndar. Og í svona viðamiklu máli, sem snertir hvert einasta mannsbarn þjóðarinnar, er gífurlega þýðingarmikið, að sem víðtækust samstaða náist vegna þess, að ef valdamiklir menn í þjóðfélaginu eru öndverðir framkvæmdinni, þá kann hún að verða örðug eða illframkvæmanleg.

Það er nú á síðustu stundu reynt að þröngva þessu máli fram. Hæstv. ráðh. virðast gera sér það í hugarlund, að eftir þá framkomu, sem hæstv. ríkisstj. vill sýna þingi og þjóð og þingræðisreglunum og siðferðisreglunum, sem eiga að gilda, þá geti hún reiknað með því, að við verðum tilbúnir til að vinna með henni að því að setja þessi lög. Enn hlýt ég að snúa mér persónulega að hv. 3. þm. Vestf., og mér er illskiljanlegt, að skap hans sé svo gamlað, að það megi ekki brýna það enn til þess að láta ekki bjóða sér þessi vinnubrögð eða a.m.k, að sýna, þótt í litlu sé, að hann taki eftir því, að það sé verið að sparka í hann á öðrum vettvangi, og hann vilji spyrna við veikum fæti, til þess að þeir geti ekki með frekju og yfirgangi náð þessu fram eftir það, sem þeir hafa sýnt í öðru tilliti. Ég vona, að það ásannist núna um helgina, þegar við förum að greiða atkv. um þetta, að þessar mínar brýningar hafi einhver áhrif.

Mér sýnist út undan mér sem félagi minn og flokksbróðir og fóstri, hv. 5. þm. Norðurl. v., búi svo mikið í hug, að hann verði að fá öndinni frá sér hrundið með sínar margþættu og góðu meiningar í þessu máli. Og af því ég þykist vita, að hann sé á mælendaskrá, þá mun ég nú stytta mál mitt að sinni. En ég minni á það, að hæstv. forseti minnti mig á, hvaða rétt ég hefði til þess að tala hér þannig að ég mun að sjálfsögðu notfæra mér það, þar sem ég hef aðeins að litlu leyti getað sýnt fram á ýmis af þeim mikilvægu atriðum, sem ég ella tel lífsspursmál, að komi nú fram, svo að augu manna opnist fyrir því, að hér þurfi verulega bragarbót á að gera. Og ég ætla að biðja hæstv. forseta strax að nótera nafn mitt niður, þannig að ég komist að, áður en langt um líður.