22.10.1973
Sameinað þing: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár, er viðtal, sem birtist í Morgunblaðinu í gær um ástand á fiskimiðunum úti fyrir Vestfjörðum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, sem þar virðist eftir viðtalinu hafa ríkt að undanförnu. Í viðtali þessu, sem er við skipstjórnarmann á einum hinna nýju vestfirsku skuttogara, er látin í ljós megn óánægja með það aðgerðaleysi, sem hann segir íslensku landhelgisgæsluna hafa sýnt að undanförnu á Vestfjarðamiðum. Þar kemur fram, að um 50 breskir veiðiþjófar auk vestur-þýskra hafa stundað þar rányrkju, ekki aðeins innan 50 mílna landhelginnar almennt, heldur og á friðlýstu svæði, sem þar er merkt. Einnig kemur fram í þessu viðtali, sem ég hef ekki ástæðu til að ætla, að sé annað en rétt, að þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir skipstjórnarmanna á Vestfjörðum um, að landhelgisgæslan stuggaði við þessu illþýði af þeirra miðum, þá hafi ekkert verið aðhafst og allt látið aðgerðalaust. Þessi skipstjórnarmaður kveður svo fast að orði, að hann segir, að því miður hafi ástand þetta mjög versnað frá því, sem það var, á meðan herskipin voru innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.

Ég minnist þess, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að ég held, í fjölmiðlum, áður en hann hélt til viðræðna við Heath hinn breska um landhelgismálið, að íslenskum lögum yrði eftir sem áður framfylgt í þessum efnum og landhelgisgæslan mundi síður en svo neitt slaka á við gæslustörf. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmrh., hvort íslensku landhelgisgæslunni hafi verið gefin tilskipun um að hafast ekki að, meðan þessi svokallaði toppfundur stóð yfir og niðurstöður þess fundar væru kannaðar. Sé svo ekki, þá vildi ég mjög gjarnan spyrja hæstv. dómsmrh., hvort einhverjar skýringar séu fyrir hendi á því aðgerðaleysi, sem þarna er fullyrt, að hafi átt sér stað af hendi landhelgisgæslunnar á umræddu tímabili. Ég hef ekki ástæðu til annars, eins og ég segi, en að halda, að þarna sé rétt skýrt frá af hálfu þessa skipstjórnarmanns. Hafi sem sé ekki verið gefin út tilkynning eða fyrirskipun til íslensku landhelgisgæslunnar að fara sér hægt, þá vildi ég mjög gjarnan fá skýringu á því, hvers vegna eða hvaða orsakir geta legið til slíks aðgerðaleysis, eins og mér sýnist þarna hafa átt sér stað.