08.11.1973
Sameinað þing: 16. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil strax taka það fram, svo að ekki fari á milli mála, að ég er andvígur þessu samkomulagi og mun greiða atkv. gegn því, þegar þar að kemur.

Nú er það svo, að ég tel, að sáttfýsi og skilningur eigi að ríkja á milli einstaklinga og umburðarlyndi og ekki síður þjóða á milli. Þess vegna hefur alltaf verið hin eina rétta stefna að leita að samkomulagi við Breta. Hins vegar, þegar reyndin er sú, að samkomulagið sjálft, efni samkomulagsins, er á þá lund, að ekki er hægt að sætta sig við niðurstöðuna, þá er ekki um nema eitt að ræða: að bregðast gegn þessu.

Ég skildi málið þannig, að þetta mikla lífshagsmunamál þjóðarinnar ætti ekki að koma hér til umr. í dag, enda var haft eftir hæstv. forsrh., að málið kæmi til umr. líklega á mánudaginn, þannig að ég var alls óundirbúinn að kafa mjög djúpt í umr. að þessu sinni. Engu að síður vil ég minnast á örfá atriði, til þess að ekki fari á milli mála, hvað veldur því, að ég get ekki fallist á þetta samkomulag.

Það skal strax tekið fram,að öðru sjónarmiðinu, þ. e. a. s. verndunarsjónarmiðinu, tilraun til þess að vernda fiskimiðin hér við land, því sjónarmiði er sinnt sæmilega í samningunum. Það er vissulega kostur að fá þarna takmarkanir á aflamagni Breta, friða ákveðin fiskisvæði. Engu að síður nær þessi friðun ekki langt, því að aðeins eitt hólf er lokað hverju sinni. Íslendingar kröfðust upphaflega, að 3 hólf af 6 væru lokuð, en niðurstaðan hefur orðið sú, að aðeins eitt er lokað hverju sinni, og það er mjög ófullnægjandi niðurstaða.

En það, sem veldur því, að ég get ekki fellt mig við þetta, er fyrst og fremst framkvæmdin og eftirlitið. Ég vil benda á, að í till. til þál. segir svo:

„Sé skip staðið að veiðum í bága við samkomulagið, getur íslenskt varðskip stöðvað það, en skal kveðja til það aðstoðarskip breskt, sem næst er, til að sannreyna málsatvik“

Í fyrsta lagi er ákaflega óviðfelldið að leggja þá kvöð á íslenska varðskipið að kalla til breskt eftirlitsskip, — Íslendingar séu skyldugir að kalla á breskt eftirlitsskip. Ég fæ ekki annað séð en Bretinn sé þar með orðinn að háyfirdómara. Miklu viðfelldnara hefði verið, að þessi kvöð hefði verið lögð á sjálfan landhelgisbrjótinn, eða a. m. k., að honum hefði verið gefin heimild til að kalla á breska eftirlitsskipið. En að skylda Íslendinga til að kalla á Breta til þess að ganga úr skugga um það, að niðurstaða og vinnubrögð íslenskra varðskipa séu lögum samkvæm og rétt, það er náttúrlega ekki sæmandi í svona samkomulagi.

Hæstv. forsrh. telur, að eftirlitið, eins og gengið er frá því í þessum lið, nr. 6, feli í sér, að íslendingar hafi alger yfirráð út að 50 mílum. Mér er þetta með öllu óskiljanlegt. Það er boðuð lögfesting á frv., sem eigi að tryggja, að svo sé. Í fyrsta lagi vil ég benda á, að það skiptir engu máli, hvað hv. Alþ. lögfestir í þessu efni, því að þetta er samkomulag á milli tveggja þjóða, og það er ekkert gagn að því, nema Bretar viðurkenni þennan skilning. Við höfum þá reynslu af viðskiptum við Breta, að það þarf allt að vera svart á hvítu, til þess að unnt sé að treysta þeim í einu eða neinu í þessum málum.

Það er ekki aðeins þetta, sem veldur því, að ég er andvígur þessu samkomulagi, heldur líka það ranglæti, sem beitt verður þá gegn togurum annarra þjóða. Hvers eiga togarar annarra þjóða að gjalda, þeir sem hafa virt okkar lögsögu, farið út fyrir 50 mílur. Togarar þeirra verða teknir, færðir til hafnar og sektaðir, en það má ekki snerta við breskum togurum. M. ö. o.: sú þjóð, sem beitir okkur vopnavaldi, sem kúgar okkur til þessara samninga, hún hefur rétt, hún kemst hjá því, að togarar hennar séu teknir og refsað eins og öðrum landhelgisbrjótum. Og hvaða áhrif hefur þetta á aðrar þjóðir? Nú standa yfir samningar við Vestur-Þjóðverja. Hvaða áhrif hefur þetta á þá og þeirra samningagerð? Þeir hljóta að gera svipaðar kröfur. Og koma ekki Pólverjar t. d. og vilja fá svipuð hlunnindi? Ég get ekki séð, að það sé neinn eðlilegur grundvöllur til þess að neita þessum þjóðum um sams konar fríðindi innan fiskveiðilögsögunnar. Hitt er svo annað mál, að ég er sannfærður um, að það hvarflar ekki að Pólverjum, Vestur-Þjóðverjum og Austur-Þjóðverjum að beita okkur vopnavaldi til þess að kúga okkur til samninga af þessu tagi.

Ég vil líka benda á það, að Bretar fórna mjög litlu fyrir þetta samkomulag. Þeir telja sig geta veitt allt að 130 þús. tonn hér við land, en mundu veiða að líkindum 155 þús. tonn, ef gert væri ráð fyrir svipuðum afla. M. ö. o.: Breta skiptir sáralitlu máli, hvort 2–3 svæði séu friðuð í einn eða tvo mánuði. Það, sem Bretar vilja, er að tryggja sér ákveðið aflamagn upp úr sjó, og það, sem Bretar fórna í þessu samkomulagi, er fyrst og fremst það, að þeir veiða um 18–19% minna en þeir hefðu gert að ógerðum samningum. Þetta er það, sem þeir færa. Það er ekki einu sinni í þessum samningi gert ráð fyrir því, að samningurinn frá 1961 falli niður. Það er beinlínis gert ráð fyrir því, að Bretar geti haldið áfram málsókn í Haag eftir 2 ár. Það er algerlega ósæmilegt fullveðja þjóð í baráttu af þessu tagi að krefjast þess ekki, að samningurinn frá 1961 falli niður. Hér inni eru forustumenn, sem fluttu vantraust á ríkisstj. 1961 fyrir undanlátssemi við erlent vald. Nú eru þessir sömu forustumenn í ráðherrastólum og eru að gera nákvæmlega það sama og þeir deildu á 1961.

Framkvæmdin er með svo aumingjalegum hætti, að það þarf að leita víða til slíks samkomulags milli tveggja þjóða. Brasilía og Bandaríkin gerðu samkomulag með sér, þegar Brasilía færði út í 200 sjómílur. Samkomulagið er á þá lund, að Brasilíu er heimilt að taka bandarísku skipin og færa til hafnar. Við höfum státað okkur af því að vera forustuþjóð í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Við höfum vissulega verið það og vakið athygli á erlendum vettvangi. En við erum nú að hlaupast frá þeirri stefnu. Við erum að bregðast þeim þjóðum, sem standa í þessari baráttu. Við erum að skapa slæm fordæmi.

Hvað tekur við eftir tvö ár? Hefði ekki verið eðlilegt að fá inn í þennan samning, að tekið yrði tillit til þeirrar niðurstöðu, sem Hafréttarráðstefnan kæmist að? Hin íslenska þjóð, þessi litla þjóð, er svo múlbundin. Þetta er eins og gamall klár, sem bundinn er á hlaðinu. Hún gerir samning, og það er hvergi ljós í myrkrinu. Hvar í ósköpunum stöndum við á Hafréttarráðstefnunni? Það eru komnar 30–40 þjóðir með 200 mílur, og svo á að vera hafréttarráðstefna. Svo kemur Sjálfstfl. og flytur till. um 200 mílur fyrir árslok 1974. Og svo er verið að semja hér upp á það að láta Breta veiða upp að 12 mílum hér um bil kringum allt landið næstu 2 ár. Hvernig hefði verið að taka inn í þessi drög, að niðurstaða Hafréttarráðstefnunnar eða skoðun yfirgnæfandi meiri hluta þjóða á hafréttarráðstefnunni ylli því, að þetta yrði tekið til endurskoðunar? Við erum með þessum samningi að neita að taka tillit til þeirra atvika, sem eru að gerast í þessu máli.

Hvað átti að gera í landhelgismálinu? Þetta átti bara að bíða. Sigurinn var okkar, hann var framundan. Og það var ein mitt á þeirri forsendu, að ég hygg, sem Sjálfstfl. flutti till. um 200 mílur á næsta ári. Það var af því, að Sjálfstfl. taldi sig sjá þetta fyrir. Það voru yfirgnæfandi líkur á því, að 200 mílur væru orðnar viðurkenndar að verulegu leyti næsta ár, og ég hygg, að þetta sé ekki rangt. Það, sem átti að gera, var auðvitað að bíða, bara bíða. Og hver hefði staðan orðið næsta sumar, þegar kannske 90 þjóðir af 140 hefðu samþykkt 200 mílur, um mitt sumarið? Ætli það hefði ekki verið önnur staða í landhelgismálinu en nú, virðist ætla að verða? En Bretar urðu að semja, vegna þess að þeir voru að tapa málinu. Bæði er þrýstingur frá bandalagsþjóðunum í NATO og líka þrýstingur frá hinum mörgu nýfrjálsu ríkjum í Afríku með sínar 200 mílur. Sigurinn var okkar. Það var algerlega óviðunandi að fara að hlaupa nú til samninga á þessum grundvelli.

Ég skal segja það alveg eins og er, að þessi samningur er litlu betri en samningurinn frá 1961, hann er litlu betri. Og af hverju er þá rokið í að semja? Ástæðan er hreinlega sú, að það eru sterk öfl í aðalflokkunum á Íslandi, sem hugsa meira um það, sem þeir kalla vestræna samvinnu, heldur en að standa á kröfu um fiskveiðilögsögu handa Íslendingum. Hermann Jónasson flutti ræðu hér, þegar borið var fram vantraust á vinnubrögð Guðmundar I. Guðmundssonar og Bjarna heitins Benediktssonar, og það voru meginrök hjá Hermanni Jónassyni, að þessir menn hugsuðu miklu meira um NATO heldur en að tryggja fiskveiðilögsögu handa Íslendingum. Og það er sama sagan núna. Nú er bara skipt um, nú eru þessir menn í ráðherrastólum. Og það er mjög fróðlegt að lesa Alþingistíðindin frá 1961. Nú eru rökin bara komin yfir í ráðherrastólana. Þau fluttust með Guðmundi I. Guðmundssyni yfir í ráðherrastólana, og ég hugsa, að margir séu ekki mjög kátir yfir því.

Ég ætla ekki að skemmta hæstv. ráðh. og forustumönnum í Framsfl. með því að lesa ummæli ýmissa framsóknarmanna frá þessum tíma. En það er mjög lærdómsríkt að lesa það, sem Hermann Jónasson sagði í sambandi við samningana 1961. Og það er mjög lærdómsríkt að finna það, að þau rök, sem beitt er núna, t. d. þessi gífurlega áhætta, sem allt í einu kemur upp, líf íslenskra sjómanna er í hættu, forðumst árekstra, við erum að semja frið, frið, — þetta er nákvæmlega það, sem Guðmundur I. Guðmundsson sagði og var sótbölvað fyrir, jafnvel af núv. forseta sameinaðs þings. Það er nefnilega ágætt að semja frið, en friðurinn verður að vera slíkur, að hann sé sæmandi fyrir íslenska þjóð.

Ég endurtek: sá hraði á samningum, sem átti sér stað, var vegna þess, að þeir menn, sem leggja aðaláherslu á vestræna samvinnu, setja traust sitt á NATO, voru orðnir varir við það, að NATO-tengslin þoldu ekki þessi átök, íslenska þjóðin var að missa trúna á NATO, og það varð að bjarga málinu. Þetta er grundvallarástæðan fyrir því, að allt í einu er hlaupið til samninga, og ég endurtek: Hér skiptir ekki máli, hvort menn séu með eða móti NATO, heldur hitt, að íslenskir stjórnmálamenn skuli vera svo miklir labbakútar að meta meira að hafa í NATO heldur en að fylgja eftir kröfum íslensku þjóðarinnar um 50 mílna óskoruð yfirráð. Það er sá dæmalausasti labbakútsháttur, sem ég veit um.

Ég veit ekki betur en hæstv. ráðh. og fleiri menn hafi talað um það, að samningurinn frá 1961 hafi verið nauðungarsamningur. Hann var nauðungarsamningur. En þessi samningur núna, er hann ekki nauðungarsamningur? Ég veit ekki betur en að Bretar hafi rofið viðræður í sumar. Það stóðu samningar yfir til 4. maí, en 19. maí eru þeir allt í einu komnir inn í landhelgina með herskip, og síðan þróuðust málin eins og allir vita, árekstrar og upplausn í NATO-liðinu, og Bretar, loks þegar þeir fóru út fyrir, þá segja þeir sem svo: Ef íslensku varðskipin stugga við landhelgisbrjótunum, þá komum við aftur með herskipin. Við bíðum bara hérna fyrir utan 50 mílurnar, og ef þið eruð nokkuð að stugga við okkar togurum, þá komum við. — Er þetta ekki nauðungarsamningur, að hafa hér vopnað stórveldi fyrir utan 50 mílurnar með byssukjaftana á þessari smáþjóð?

En núna minnist þið ekki á, að þetta sé nauðungarsamningur, þó að þið hafið malað 1961. Það er af því, að nú eruð þið að gera samningana.

Og annað: Það er ekki aðeins vopnakúgun, sem þessi þjóð beitir okkur, heldur líka viðskiptakúgun, eins og sýnir með fisktollinn hjá Efnahagsbandalaginu. Nú segja þeir: Elskurnar mínar, þið getið fengið tollinn strax á morgun, ef þið semjið, meira að segja 1. jan., allur tollur niðurfelldur. — Þetta er okkar ástkæra vinaþjóð í NATO, Bretar. En ég segi það, ef menn halda því fram, að samningurinn frá 1961 sé nauðungarsamningur, og ég er á því, þá er þessi það ekki síður.

Hér er um að ræða, að smáþjóð, vopnlaus, er að semja við stórþjóð, vopnaða. Íslendingar höfðu ekki þrek til þess að endast nema rúmt árið í baráttu við Breta. Þegar komið var að sigrinum, þá var hlaupið frá þessu, af því að vestræna samvinnan í NATO var meginatriðið. Þess vegna tel ég, að menn hafi hagað sér með heldur miklum ólíkindum, að bregðast þjóðinni á þennan hátt, ég tala nú ekki um þá blástursseli, sem óku hér um annes og firði og töluðum full yfirráð yfir 50 mílum, aldrei að hvika. Svo koma þessir sömu menn og fara að semja.

Ég lít svo á, að þessi samningur sé undansláttur í landhelgismálinu. Þetta er uppgjöf, þetta er frestun, enda geta breskir togarar veitt hér við nær allt landið upp að 12 mílum næstu tvö ár. Og svo eftir tvö ár koma Bretar aftur með sín herskip, og þeir fara kannske fyrir dómstólinn í Haag, og þá koma Haag-dúfurnar hér í þinginu og vilja líka setja málið fyrir Haag. Það er enginn endir á vitleysunni. En hitt er meginatriðið, að þm. skuli láta kúga sig á þessa lund. Þeir sjá ekki aðalatriðið í málinu, og þegar sigurinn er að koma í höndina, þá er hlaupið frá þessu og gerður þessi dúfusamningur.

Ég ætla aðeins að segja örfá orð í viðbót. Ég tel að enn ríki gamla undanhaldsleiðin, sem leiddi til nýlendustöðu okkar, þ. e. a. s. utanstefnu ráðamanna, dómsvaldið flutt úr landi, sbr. álsamninginn, og erlend lögsaga þegin innan landhelginnar. Þetta er minnimáttarkennd og skerðing á sjálfstæði þjóðarinnar. Og forustumennirnir átta sig ekki á því, að tíminn er breyttur, stórveldi geta ekki kúgað Íslendinga lengur, ef þeir standa saman. En það skilja ekki allir.

Ég vil segja það, að vinnubrögð ríkisstj. í þessu máli síðustu daga hafa verið með ólíkindum. Ég efast ekki um, að það hefur verið mikill vilji hjá stjórninni að leysa þetta mál eins og vera bar. En ég get ekki annað en sagt þau orð hér, af því að ekki hefur verið á það minnst, að ég skildi það svo, þegar hæstv. forsrh. fór til Lundúna, að ætlunin hefði verið að koma á samningaviðræðum að nýju, án samninga, taka upp samningaviðræður að nýju, án þess að semja. Síðan kemur hæstv. forsrh. með samkomulag, með samning, sem varð síðan ekki breytt. Síðan gerði Alþb. þá pólitísku skyssu að rjúka upp til handa og fóta, áður en menn voru búnir að sjá þetta og meira að segja lesa þetta sums staðar, og segja strax: Úrslitakostir. — Og þetta setti forsrh. upp við vegg, hann hafði ekki annars úrkosta en segja. Ég stend og fell með þessu. — Svona var hinn pólitíski leikur í kringum þetta. Svo láta menn sér detta í hug, eftir að hæstv. forsrh. er búinn að lýsa því yfir í fjölmiðlum, að hann standi og falli með þessu samkomulagi, að það sé leið til þess að fá Breta til að breyta samkomulaginu. Hví skyldu Bretar gera það? Það er ekki nokkur von til þess að breyta samkomulaginu, eftir að forsrh. er búinn að lýsa því yfir, að hann standi og falli með því.

Þannig verð ég að segja, að þessi keðjurás athurða, frá því að hæstv. forsrh. fór til Lundúna, hafi verið með miklum ólíkindum í íslenskri pólitík. Við höfum eiginlega misst þá samningsaðstöðu, sem við í raun og veru höfðum, á meðan allt var með felldu. En ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki að væna hæstv. forsrh. um nein óheilindi af nokkru tagi. Hins vegar er munurinn sá, að ég hef aðra skoðun á þessu en hann. Þó verð ég að minnast á eitt atriði. Hæstv. forsrh. tók berlega fram og skýrt, að það yrði ekki slakað á landhelgisgæslunni. Nú hafa staðið yfir í 3 vikur eða svo sífelldar kvartanir, t. d. úti fyrir Vestfjörðum. Það hefur ekki verið klippt á vír eins einasta togara, það hefur ekkert gerst. Það er eins og landhelgisgæslan sé að hvíla sig. En þetta er óskýranlegt. Ég væni ekki forsrh. um það, að hann hafi ekki viljað, en einhvers staðar í kerfinu hlýtur þetta að bila, og þetta hefur náttúrlega vakið upp alls konar grunsemdir og aðdróttanir í garð forsrh. Ég er alveg sannfærður um, að hann hefur staðið á sínu máli, að reyna að halda uppi reglum á miðunum. En það er þá bara einhvers staðar í kerfinu hjá honum, sem bilar. Og ég verð að segja það, að þróunin í landhelgismálinu frá Lundúnaförinni hefur verið fremur óskemmtileg.

Ég ætla nú að láta þetta nægja í bili. Ég tel að þessi þáltill. stangist á við orð stjórnmálamannanna. Hún stangast á við stefnu ríkisstj., hún er í andstöðu við þann kosningasigur, sem flokkarnir unnu. Mér skilst, að 50 mílna útfærslan hafi verið eitt helsta baráttumál þjóðarinnar, og ég tel, að þetta sé ekki af því taginu, að hægt sé að hlaupast frá því. Þess vegna hef ég komið hér með viðbótartill., sem hljóðar svo:

„Ályktun þessi öðlast aðeins gildi að undangenginni þjóðaratkvgr. um bráðabirgðasamkomulagið, enda hljóti það stuðning meiri hluta kjósenda.“

Ég hygg, að það væri ágætt fyrir ráðamenn þjóðarinnar að fá vitneskju um, hvað þjóðin vill í þessu efni, og hlíta dómi þjóðarinnar um þetta.

Að þessu sinni mun ég ljúka máli mínu.