09.05.1974
Neðri deild: 129. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4441 í B-deild Alþingistíðinda. (4004)

Starfslok neðri deildar

Forseti (Gils Guðmundsson):

Háttvirtir þingdeildarmenn. Þar sem þetta verður síðasti fundur Nd. Alþ. að þessu sinni og jafnframt síðasti fundur d., áður en umboð þm. fellur niður og þjóðin kveður upp sinn dóm yfir flokkum og mönnum, vil ég leyfa mér að ávarpa yður nokkrum orðum.

Þegar svo stendur á sem nú og vitanlegt er, að við eigum ekki öll eftir að taka til starfa að nýju í þessum sal, langar mig til að bera fram þakkir og flytja kveðjur. Vitað er, að nokkrir hv. þdm, munu nú leggja frá sér hin pólitísku vopn og ekki ganga oftar til bardaga. Hitt er og kunnara en frá þurfi að segja, að margt gerist í orrustum og eftir harða sennu liggja jafnan einhverjir óvígir í valnum.

Þau þrjú þing, sem ég hef stjórnað fundum þessarar hv. d., hef ég notið góðvildar, umburðarlyndis og samstarfsvilja þdm., og fyrir það þakka ég. Sú hefur verið ætlun mín að láta hvern þingflokk og hvern þdm. ná rétti sínum, og vona ég, að það hafi tekist nokkurn veginn. Ég lít svo á, að ein meginskylda þingforseta sé sú að sjá svo um, jafnframt því sem vilji meiri hl. kemur fram og ræður úrslitum mála, að fullur réttur minni hl. sé í hvívetna tryggður. Hæstv. ráðh. þakka ég gott samstarf svo og formönnum þingflokka, en samvinna þessara aðila við forseta þingsins er alger forsenda eðlilegs þinghalds. Hófleg tilætlunarsemi í garð þingforseta skaðar ekki, ef henni fylgír skilningur á því, að forseti á ekki alltaf auðvelt með að gera svo að öllum líki. Varaforsetum d. og skrifurum þakka ég aðstoð þeirra. Þá vll ég flytja skrifstofustjóra Alþ. og öllu starfsfólki þingsins alúðarþakkir. Að síðustu þakka ég öðrum þingforsetum, sem verið hafa tilhliðrunarsamir við mig og í hvívetna ágætir samstarfsmenn. Og ég vona, að það teljist ekki a.m.k. alvarlegt brot á þingvenjum, skrifuðum eða óskrifuðum, þó að ég við lok þessarar kveðjustundar láti undan þeirri löngun minni að beina til hæstv. forseta Sþ., Eysteins Jónssonar, fáeinum orðum.

Í 41 ár hefur Eysteinn Jónsson setið á Alþ. og á því lengri þingferil að baki en nokkur maður annar, frá því er Alþingi var endurreist, að Pétri Ottesen einum undanskildum. Eysteinn Jónsson hefur löngum verið umdeildur maður, svo sem verða vill um stjórnmálaforingja. Um hitt hafa aldrei orðið deilur, að í öll þessi rösk 40 ár hefur hann verið í hópi allra fremstu þingskörunga. Ég hef það fyrir satt, að hann sé nú staðráðinn í að gefa ekki kost á sér oftar til þingmennsku, og munu það flestir mæla, að þar með ljúki ekki aðeins löngum, heldur og fágætlega litríkum þingferli. Það ógleymanlega samstarf, sem ég hef átt við Eystein Jónsson síðustu 3 árin, þakka ég af heilum hug. Eysteinn Jónsson er þeirrar gerðar, að maður metur hann þeim mun meira sem maður kynnist honum betur. Og þegar hann hverfur nú af þingi eftir óvenjulangt og mikið starf í þessum sal, — hann hefur alla tíð átt sæti í þessari hv. d., — vil ég láta í ljós þá ósk, að Íslensk þjóð megi enn um drjúga hríð njóta vitsmuna hans og mannkosta til framgangs góðum málum.

Hv. þdm. Ég óska yður öllum góðrar heilbrigði og persónulegs velfarnaðar. Hafið heila þökk fyrir samstarfið.