09.05.1974
Neðri deild: 129. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4442 í B-deild Alþingistíðinda. (4005)

Starfslok neðri deildar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Á þessum síðasta fundi hv. Nd. á þessu sögulega þingi vil ég leyfa mér að færa hæstv. forseta d. þakkir okkar allra þdm, fyrir góða, röggsamlega og réttláta fundarstjórn. Okkur er öllum ljóst, að við höfum deilt oft og mikið á þessu þingi, við höfum deilt um mörg mál og mikilvæg mál, en það er áreiðanlega einróma skoðun okkar allra, að réttsýni forseta okkar hafi verið óumdeilanleg. Um þetta eru bæði stuðningsmenn ríkisstj. og andstæðingar hennar sammála. Og fyrir þetta viljum við — ekki síður við í stjórnarandstöðu — þakka hæstv. forseta. Til þess að þingstörf megi fara vel fram, ber til þess brýna nauðsyn, að forseti sé gæddur góðum hæfileikum, réttsýni og drengskap, og það verður með sanni sagt um hæstv. forseta Nd., að hann er þessum bestu kostum búinn. Ég þakka honum enn góða og réttláta fundarstjórn og óska honum og fjölskyldu hans alls góðs á komandi tímum.

Ég vil einnig leyfa mér að taka undir óskir hæstv. forseta til þeirra þdm., sem nú kunna að sitja fund í þessari þd. í síðasta skipti. Alveg sérstök ánægja er mér að taka undir heillaóskir og þakkir hans til hæstv. forseta sameinaðs Alþingis, 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, sem, eins og sagt var, hefur átt sæti á Alþ. í yfir 40 ár. Mér er það mikil ánægja að hafa átt sæti með honum á Alþ. í áratugi. Ég sat ungur með honum í ríkisstj., ég hef um langan aldur verið í andstöðu við hann í ríkisstj. og hann hefur verið í andstöðuflokki í ríkisstj., sem ég hef átt sæti i. Engu að síður get ég sagt með hinni bestu samvisku, að á milli okkar Eysteins Jónssonar hafa aldrei farið ill orð, ekki eitt orð, sem annar hvor okkar mun telja, að hafi verið mælt af óheilindum eða ósanngirni. Af Eysteini Jónssyni hef ég aldrei í áratugi í samstarfi eða baráttu reynt annað en drengskap og heiðarleik. Þar hefur farið vitur maður og góður drengur, sem á þakkir skildar okkar allra, sem setið hafa með honum á Alþ. og unnið með honum, Ég óska honum alls góðs og hinnar bestu farsældar á þeim mörgu árum, sem ég vona, að hann eigi eftir ólifuð við bestu heilsu og mikla starfskrafta.

Að lokum vil ég endurtaka þakkir mínar og árnaðaróskir til hæstv. forseta, þakkir fyrir góða og réttláta fundarstjórn og gott samstarf við okkur þdm. og biðja alla þdm. um að risa úr sætum til að taka undir þessar óskir mínar. [Þdm. risu úr sætum.]