08.11.1973
Sameinað þing: 16. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég get um aðdraganda þessa samkomulags, sem hér liggur fyrir, vísað til framsöguræðu hæstv. utanrrh. Ég vil þó minna á og endurbaka, að með 60 uppréttum höndum á Alþ. 15. febrúar 1972 var samþykkt, að haldið skyldi áfram samningaumleitunum við tilteknar þjóðir, sem þá voru byrjaðar. Þessum samningaumleitunum hefur síðan verið haldið áfram með vitund Alþ. og vilja, án þess að ég hafi heyrt eina einustu rödd á Alþ., sem hafi mælt gegn því. Þessum samningaviðræðum hefur verið haldið áfram um nokkurt skeið, án þess að árangur næðist. Það má segja, að þær héldu áfram með eðlilegum hætti þangað til 4. maí þetta ár. Þá settu bæði Íslendingar og Bretar fram sín sjónarmið í þessu máli á glöggan hátt, mótuðu þær kröfur, sem ætla verður, að hafi verið taldar þá hinar ítrustu. Þetta liggur fyrir bókað, og hv. utanrmn., sem fær málið til meðferðar hér á eftir, getur kynnt sér það og borið saman, hvað á milli ber, hvað vantar á annars vegar að í þessu samkomulagi hafi því verið náð, sem íslendingar ýtrast settu fram, og svo hins vegar, hvað hefur fengist frá því, sem Bretar töldu mögulegt að ganga að. Og báðir skildu þá samningsaðilar með þeim ummælum, að þeir vildu taka till. hvors um sig til athugunar, og í því fólst vitaskuld það og allir gengu út frá því, að þarna væri í raun og veru ekki um endanleg orð að tefla, heldur gæti verið um að ræða, að slakað yrði á báða bóga.

Hvað er það þá, sem á milli ber í þeim samkomulagsdrögum, sem nú liggja fyrir, frá þeim ýtrustu kröfum, sem Íslendingar settu fram 4. maí 1973. Ég segi: það er eitt meginatriði. Það er, að það er eitt hólf aðeins, sem á að vera lokað eftir þessum samkomulagsdrögum, en eftir till. frá 4. maí áttu þau að vera tvö. Og annað líka, sem skiptir miklu minna máli að mínum dómi, er það, að samkv. till. Íslendinga átti að strika út 30 stærstu togarana, sem stundað höfðu hér veiðar 1971, en í staðinn er komið í þessi samkomulagsdrög, að 15 þeir stærstu skuli útstrikaðir og svo 15 af minni gerðinni. Þetta er í raun og veru það, sem á milli ber, vegna þess að um samningstímann er það að segja, að það hafði alltaf verið talað um, að hann gæti orðið allt að tveimur árum. Og í öllum samningaviðræðunum, það fullyrði ég, gengur það í gegn eins og rauður þráður, að engum datt í hug að miða þann gildistíma við upphaf deilunnar, heldur við undirritun samninga. Ég vil bæta því við, að í þessum sjónarmiðum sem sett voru fram af hálfu Íslendinga, var aðeins talað um tvö friðunarsvæði, þau, sem þá höfðu verið lögboðin. Í þessum samningsdrögum er bætt einu við til viðbótar, sem síðar hefur komið til. Það var aldrei minnst á það í þessu uppgjöri, sem þá fór fram og lagt var fram sem endanlegt af Íslendinga hálfu sem þeirra ýtrustu sjónarmið, að það ætti að taka til athugunar einhverjar meiri friðanir. Það má segja, og það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á, að það hefði átt að gera þetta. En það var ekki gert.

En hvað er það þá, sem ber á milli á hinn bóginn? Hvað er það, sem fengist hefur fram í þessum samningsdrögum, sem Bretar léðu ekki máls á að tala um 4. maí? Jú, það er hreint ekki svo lítið. Þeir léðu ekki máls á því að tala um smábátasvæði, en samkv. þessum samkomulagsdrögum er um þrjú smábátasvæði að ræða: fyrir Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi, og þau eru af fróðum mönnum talin jafngilda allt að 20 þús. tonna aflatakmörkun. Ég efast ekki um, að það hefði verið hægt að semja um það og væri hægt að semja um það við Breta að sleppa þessum smábátasvæðum og fá í þess stað tvö hólf lokuð. Er nokkur hv. alþm., sem mundi vilja gera slíka breytingu? Ég vil það ekki, hef aldrei viljað það. Þá voru Bretar aðeins tilleiðanlegir að tala um að fækka togurum um 20, ekki þeim stærstu, nei, bara togurum upp og ofan, og þó því aðeins, að þeir fengju til þess samþykki hjá útgerðarmönnum. Ekki voru þeir ákveðnari í því en það. Þá áttu, sem sagt eftir þeirra sjónarmiðum, að hafa rétt til að veiða 155 togarar. Eftir þeim samkomulagsdrögum, sem hér liggja fyrir, verða þeir þó ekki nema 139. Og þá voru þeir með það að hafa í samningi, að það yrði kveðið svo á, að þegar samningstíminn rynni út, skyldu teknar upp aftur viðræður um það, hvað við tæki. Frá þessu hafa þeir nú fallið.

Ég skal ekki fara nánar út í þennan samanburð, en bendi á það, að hv. utanrmn. getur gert það. Hún fær þessi gögn í hendur og getur metið þetta.

Hv. þm. Bjarni Guðnason var að tala um, að þetta samkomulag, sem hér væri fyrir hendi, væri andstætt orðum, sem stjórnmálamenn hefðu látið falla. Ég leyfi mér að draga það í efa. Ég minnist þess einmitt, að í umr. um landhelgismál hafa sí og æ verið látin falla þau orð hér á Alþ., að menn teldu það sanngjarnt að veita þeim útgerðarbæjum, sem hefðu stundað hér veiðar um langan tíma, umþóttunartíma, og það var í því skyni, sem viðræður um þetta fóru fram. Ég held, að þetta sé ekki í andstöðu við nein orð, sem stjóramálamenn hafa látið falla. En samningsviðræðunum var slitið í maí vegna þess, að Bretar sendu inn sín herskip, og þá var því lýst yfir að hálfu stjórnmálamanna, að það kæmi ekki til mála að semja við Breta, meðan bresk herskip væru í íslenskri landhelgi. Og hv. þm. veit, að það var gripið til vissra ráða, sem lýstu engu sérstöku trausti á NATO, til þess að fá Breta til að kalla herskipin út úr íslenskri landhelgi. Það tókst. Þá skapaðist nýtt viðhorf í þessu máli. Þá var kominn grundvöllur til að taka upp viðræður við Breta á nýjan leik og það var gert, og það var eðlilegt framhald af því, sem hafði gerst í þeim samningaviðræðum, sem áður höfðu átt sér stað.

Hitt er svo auðvitað mál, að um þetta samkomulag, hvort sem það er gott eða slæmt, geta verið skiptar skoðanir, og er afskaplega eðlilegt, að skiptar skoðanir séu um það. Og auðvitað dreg ég það ekki í efa, að allir hv. alþm. hefðu viljað fá fram betra samkomulag en þetta, þ. e. a. s. Íslendingum hagstæðara. En nú hefur það verið reynt nokkuð til þrautar, og mín skoðun er sú, að lengra en þetta verði ekki komist. Og það hefur enginn nauðungarsamningur verið gerður. Það hefur enginn samningur verið gerður enn þá. Það er höfð sú eðlilega málsmeðferð á þessu að leggja þessa niðurstöðu, þennan kost, sem ég tel skástan fáanlegan nú, fyrir Alþ. og þá er það Alþingis að segja til um, hvort það vill láta gera þetta bráðabirgðasamkomulag eða ekki. Hendur þess hafa ekki á neinn hátt verið bundnar. Ég tók það skýrt fram, og það var tekið fram í þeirri fréttatilkynningu, sem gefin var út eftir þann fund, sem ég átti með forsrh. Breta, að ég tæki aðeins þessa skýrslu og gæfi hana minni ríkisstj. Ég hef ekki með einum eða öðrum hætti bundið hvorki ríkisstj.Alþ. Og íslenskir alþm. eru algerlega frjálsir að því að hafna þessu, ef þeir að skoðaðri sinni samvisku telja þá leið skynsamlega. Þeir eru spurðir, áður en samningurinn er gerður.

Ég hefði vissulega kosið, að þetta samkomulag hefði verið Íslendingum hagstæðara og þá fyrst og fremst að því leyti til, að ég hefði auðvitað kosið, að tvö hólf hefðu verið lokuð. Það er meginmunurinn, meginatriðið, sem hér er um að ræða. En ég tel samt sem áður, þrátt fyrir þennan annmarka, mjög mikið fengið fram. Ég tel það langsamlega stærsta, sem fengið er með þessum samningi, það, að útilokaðir eru að fullu og öllu allir frystitogarar og verksmiðjutogarar. Það, sem um er að ræða, ef haldið hefði verið áfram óbreyttu ástandi og við óbreyttar aðstæður, er ekki það einungis að útiloka þá 25 frysti togarar, sem hér stunduðu veiðar 1971. Nei, Englendingar eiga ekki aðeins 25 frystitogara í dag, þeir eru 46, og þeir smíða þá sem óðast, og það, sem meira er, þeir eru, eins og kunnugt er af fréttum, að fara einmitt út í það í vaxandi mæli að smíða verksmiðjutogara.

Ég held, að ein aðalrökin fyrir því, að við, sem stóðum að því, að landhelgisútfærslan mætti alls ekki bíða, hafi verið þau, að það hafi verið hættan á því, að það yrði komið í vaxandi mæli með þessi verksmiðjuskip og farið yfir íslensk mið með þeim og þau notuð eins og ryksugur til þess að þurrka upp okkar fiskimið. Það var þessi aðsteðjandi hætta, sem var aðalógnvaldurinn. Og fyrir hana er girt með þessum samningum. Þess vegna er ég alveg á öndverðum meiði við hv. þm. Bjarna Guðnason, að hér sé gefið hættulegt fordæmi. Ég held einmitt, að hér sé gefið gott fordæmi að því leyti til, að í samningum við Vestur-Þjóðverja og hverja sem væri er auðvelt, eftir að þetta hefur verið bókfest, að standa á því og halda því fram, að verksmiðjutogara tökum við aldrei inn fyrir 60 mílna mörkin, vegna þess að við höfum staðið á því í samningum okkar við Breta og þar höfum við fengið þetta viðurkennt, og þeir yrðu að viðurkenna það líka, ef þeir vildu gera samninga við okkur. Ég held, að þetta sé kannske stærsta friðunarsjónarmiðið, sem liggur í þessum samkomulagsdrögum.

Auðvitað hefur landhelgismálið verið mikið tilfinningamál. Það er ekki nema eðlilegt. En þegar alþm. eiga að gera það upp við sig, hvort þeir eiga að gera svona samkomulag eða ekki, þá mega þeir ekki láta tilfinningarnar ráða, heldur verða þeir að líta á það með kaldri skynsemi og rökhyggju og meta það, hvort betri árangur fæst fyrir íslenska þjóð og fyrir íslensk fiskimið með því, að haldið sé áfram að óbreyttum aðstæðum að stunda veiðiskap með þeim hætti, sem gert hefur verið, eða fá samkomulag um þá takmörkun á aflamöguleikum, sem hér liggur fyrir.

Það hefur verið deilt um það, hvað Bretar hafi fiskað mikið undir herskipavernd og við þær aðstæður, sem hér ríktu. En margir hafa haldið því fram og það er kannske ekki svo gott að vefengja það, að þeir hafi náð um 160 þús. lestum. Hitt er víst, að illa hafa þeir veitt, en enn þá verr gætu þeir veitt, og ef þeir tækju þann háttinn upp og kæmu hér í vaxandi mæli með verksmiðjutogara og stærri togara og héldu þeim veiðum áfram undir herskipavernd, þá gætu þeir sennilega önglað saman talsvert meira en 160 þús. tonnum. Það verða menn svo að bera saman við þann hugsanlega möguleika, sem þeir hafa eftir þessu bráðabirgðasamkomulagi, 130 þús. tonn. Fróðustu menn íslenskir í þessum efnum hafa þó reiknað út, að öllu líklegra væri, að möguleikarnir gæfu þeim ekki nema 110 þús. tonn. Ég vil taka fram, að sá útreikningur er einmitt miðaður við þann lokunartíma á svæðunum, sem er í þessum samkomulagsdrögum. En það er líka rétt, að við höfðum kosið lokunartímann nokkurn annan, og Landssambandið gerði um það till. Þær till. sendum við út og reyndum að fá því framgengt, að lokunartímanum væri breytt í þá veru, en því fékkst því miður ekki framgengt. En það er sjálfsagt rétt, að ef tekist hefði að fá það fram, þá hefði það minnkað aflamöguleika Breta talsvert frá því, sem þeir eru þó nú.

Ég hef skilið það svo og hef haft fulla ástæðu til að skilja það svo, að allir hv. alþm. væru á því máli, að það ætti að freista þess að gera bráðabirgðasamkomulag, svo að að því geta menn, held ég, ekki fundið, að það hefur verið reynt. Hitt er svo auðvitað mál, að þegar samkomulagið liggur fyrir, geta menn endalaust deilt um, hvort það sé eins gott og það þyrfti að vera eða ekki. Og ég skil ákaflega vel, að það geti verið skiptar skoðanir um efni þessara samkomulagsdraga. En þá eru menn, eins og ég hef áður sagt, alveg frjálsir og geta hafnað því, ef þeir vilja taka á sig ábyrgðina af því. Ég hef sagt það eitt, að ég vildi ekki taka á mig ábyrgðina af því að hafna þessum samkomulagsdrögum. Það er hægt að tala kuldalega og kannske dálítið glannalega um þá hættu á mannslífum, sem geti komið til greina í sambandi við áframhald þessarar deilu. Ég geri það ekki. Ég held, að menn ættu að hugsa til þeirrar hættu, sem varðskipsmenn hafa lagt sig í og leggja sig í. Ég held, að menn ættu að hugsa til fjölskyldna þeirra, áður en þeir hefðu of stór orð um það, að litlu væri hættandi til þess að skapa frið. Ég held þvert á móti, að það sé talsvert vinnandi og gefandi fyrir friðinn. Það getur aldrei orðið hvort sem er keppikefli okkar Íslendinga að standa í ófriði við okkar nágrannaþjóðir og það þjóðir, sem við höfum átt samskipti við, stundum vinsamleg, stundum óvinsamleg, ég vil nú segja: oftar vinsamleg, eins og ég veit, að sögufróður maður eins og hv. þm. Bjarni Guðnason kannast við úr Íslandssögunni.

Og e. 2. v. hefðu íslendingar orðið hungurmorða einhvern tíma, ef Bretar hefðu þá ekki rétt hjálparhönd. Það veit ég, að hann kannast líka við. Og það má muna líka, þegar reikningarnir eru gerðir upp við Breta.

Það hefur verið talað um, að það atriði, sem er í 6. lið þáltill. um framkvæmd samkomulagsins, væri ekki ljóst og að Íslendingar væru þar eitthvað að láta af því valdi, sem þeir eðlilega hefðu. Ég er þessu ekki sammála. Ég viðurkenni að vísu, að þarna er eitt ákvæði, sem leggur band á Íslendinga, og það er þetta, að það á að kalla til aðstoðarskip breskt, ekki herskip, til þess að sannreyna málsatvik. En Íslendingar hafa tekið sér 50 sjómílna fiskveiðilögsögu. Hún er gildandi samkv. íslenskum lögum. Hún heldur áfram að gilda samkv. íslenskum lögum. Það verða engin frávik gerð frá því, nema ber ákvæði séu þar um sett og undantekningar gerðar í samningum, og þetta er eina undantekningin, sem er að finna þarna. Þess vegna hef ég lýst yfir þeirri skoðun minni, að það væru íslensk yfirvöld, sem auðvitað tækju ákvörðun um það, hvort þau strikuðu skip út af skrá eða ekki. En hitt er aðeins gert til þess að gefa hinum samningsaðilanum færi á því, eins og segir, að kanna málsatvik, og þá má segja; búa hann betur í stakk að því leyti til, ef hann vill eftir á koma fram andmælum gegn ákvörðun íslenskra yfirvalda. Þessum skilningi mínum, sem ég tel, að sé óumdeilanlegur, verður fylgt eftir með setningu laga. Ég mun leggja fram frv. um það efni, sem ríkisstj. hefur samþ. og ég vænti, að það verði komið á borð þm. á mánudaginn, þegar þetta mál verður hér endanlega afgreitt. Og það er frv. til l. um breyt. á l. nr. 62 1967, um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu. Efni þess verður það, að í lögin bætist svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði:

„Meðan í gildi er samkomulag um lausn á fiskveiðideilu milli Íslands og Bretlands frá (þarna vantar enn þá dagsetninguna inn í, því að samningurinn hefur ekki enn verið gerður), skulu brot gegn ákvæðum samkomulagsins af hálfu þeirra bresku veiðiskipa, sem tilgreind eru á skrá, sem er fskj. með samkomulaginu og heimilaðar eru botnvörpuveiðar á umsömdum svæðum í fiskveiðilandhelginni milli 50 og 12 mílna frá grunnlínu, varða þeim viðurlögum, að veiðiskip, sem brotlegt hefur orðið við ákvæði samkomulagsins, skal fellt niður af fyrrnefndri skrá og missir þar með rétt til að stunda veiðar samkv. ákvæðum samkomulagsins. Dómsmrn. tekur ákvörðun um þetta efni, er það hefur fengið gögn í hendur frá Landhelgisgæslunni. Aðila er heimilt að bera ákvörðunina undir dómstóla, en dómsmeðferð frestar þó ekki leyfissviptingu.“

Ég held, að að þessu samþykktu geti enginn vafi leikið á því, í höndum hvers aðila það sé að fella skip af skrá. Og ég vona, að með því séu fjarlægðar efasemdir, sem í hugum sumra manna hafa verið varðandi þetta atriði, af því að það er rétt, að orðalagið á sjálfu ákvæðinu í samkomulaginu er ekki eins og það gæti verið skírast, það skal viðurkennt, þó að ég telji, að ekki verði það skilið á annan veg en þann, sem ég hef gert grein fyrir.

Herra forseti. É'g skal svo ekki tefja þessar umr. meir, en vil að lokum leyfa mér að minna á það, að þjóðareining hefur verið meginstyrkur Íslendinga í landhelgismálinu út á við og inn á við. Alþ. er eðlilegur oddviti í þeirri þjóðarsamstöðu. Einróma samþykkt allra alþm. 15. febr. 1972 mun lengi í minnum höfð og verða óbrotgjarn minnisvarði í sögu Alþ. Ef gera á þetta bráðabirgðasamkomulag, sem hér liggur fyrir um lausn landhelgisdeilunnar við Breta um tiltekinn tíma, er að mínum dómi mjög æskilegt og nauðsynlegt, að um það sé sem viðtækust samstaða á Alþ. og hjá þjóðinni. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það verður okkur mikill styrkur í okkar landhelgisbaráttu. En það skyldi enginn vaða í þeirri villu, að á hana sé endir bundinn með því samkomulagi, sem hér liggur fyrir. Sú barátta mun halda áfram, og þá er ég ekki í nokkrum vafa um, að það, sem verður okkur langhesti stuðningurinn í okkar málflutningi, hvar sem er, er, að við getum bent á, að þrátt fyrir allan ágreining, þrátt fyrir alla stjórnmálaflokka, þá standa Íslendingar saman í þessu máli, þeir eiga eitt mál sem er hafið yfir flokkabaráttu og dægurríg. Ég held, að það sé óþarft verk og ekki gott að stuðla að því, að þessi þjóðareining sé rofin, að þessi einróma eining á Alþ. sé rofin. Og ég vona, að okkur auðnist að standa svo að þessu máli, að það sjáist út á við og inn á við líka gagnvart þjóðinni, að við erum menn til þess að taka ákvarðanir, sem kosta okkur líka kannske eitthvað í bili. Hitt þarf svo ekki að taka fram, að það verður ekkert samkomulag gert, nema fyrir liggi skýr og afdráttarlaus vilji meiri hl. Alþ., að það skuli gert.