12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Frsm. minni hl. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir hönd minni hl. utanrmn., fulltrúa Sjálfstæðisfl. í utanrmn., okkar Matthíasar Á Mathiesen. Eins og fram kom af máli frsm. meiri hl. utanrmn., leggjum við til og mælum með fyrir okkar leyti, að þáltill. sú, sem á dagskrá er, verði samþ. En þótt við séum að þessu leyti sammála orðum nm. í utanrmn., höfum við kosið að skila séráliti til þess að koma sérstaklega sjónarmiðum okkar í máli þessu á framfæri. Mér skilst, að nál. liggi ekki fyrir, og ég mun því víkja með nokkrum orðum að því, sem í því stendur.

Sjálfstæðismenn áttu frumkvæði að því með undirbúningi og setningu landsgrunnsl. 1948 að leggja grundvöllinn að baráttunni fyrir réttindum Íslendinga á landgrunninu öllu. Ávallt síðan hafa sjálfstæðismenn lagt áherslu á samstöðu þjóðarinnar í landhelgismálinu og miðað aðgerðir sínar við það.

Núv. stjórnarflokkar kusu að efna til deilna um landhelgismálið sérstaklega í síðustu kosningum. Þegar Alþ. kom saman haustið 1971, var í gildi þál. frá 10. apríl það ár, sem gerði ráð fyrir, að frv. til l. yrði lagt fyrir Alþ., er kvæði á um útfærslu fiskveiðilögsögunnar og hún yrði minnst 50 mílur, en á mikilvægum fiskimiðum mun viðáttumeiri. Núv. ríkisstj. flutti óbreytta þátill. stuðningsflokka sinna frá því fyrir kosningar, en ekki síst fyrir atbeina stjórnarandstöðunnar varð samkomulag í utanrmn. um að flytja enn nýja þáltill., sem allir þm. greiddu síðan atkv., eftir að brtt. sjálfstæðismanna og Alþfl.-manna um víðáttumeiri fiskveiðilögsögu var felld.

Í þessari þál. frá 15. febr. 1972 segir í 3. tölul.: „Að haldið verði áfram samkomulagstilraunum við ríkisstj. Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um þau vandamál, sem skapast vegna útfærslunnar.“ í kosningabaráttunni 1971 höfðu núv. stjórnarflokkar að vísu haldið því fram, að óþarfi væri að ræða við aðra vegna útfærslu. Sjálfstæðismenn voru það raunsæir að segja fyrir um, að rétt væri að hefja slíkar viðræður strax, svo að útfærslan yrði virk og næði tilgangi sínum, enda þótt við hefðum auðvitað fullkominn lagalegan rétt til einhliða útfærslu.

Þessar samningaviðræður hafa nú staðið yfir í einu eða öðru formi á þriðja ár, án þess að gengið hafi eða rekið fyrr en nú með þeim samningi við Breta, sem óskað er heimildar Alþingis að gera.

Það er skoðun okkar, að full ástæða sé til að ætla, að unnt hefði verið að ná jafngóðum samningi eða betri fyrir meira en heilu ári og a. m. k. s. l. vor í samningaviðræðunum í maí, en eftir þær gripu Bretar til fordæmanlegra ofbeldisaðgerða, sem sköpuðu hættuástand á miðunum. Mun ég rökstyðja þessa skoðun okkar nánar hér í máli mínu á eftir, og væntanlega mun meðnm. minn einnig víkja að því síðar í þessum umr.

Í þessu nál., sem útbýtt verður væntanlega bráðlega, bendum við á samanburð á tilboði Íslendinga í maí og samningnum, sem nú liggur fyrir, skoðun okkar til staðfestingar.

Ríkisstj. hefur að okkar áliti haldið illa á samningaviðræðum, verið reikul í ráði og sjálfri sér ósamkvæm, eins og atburðir síðustu vikna leiða glögglega í ljós. Hefur slík ósamkvæmni og stefnuleysi verið til þess fallið, að ekki náðist sá árangur, sem unnt hefði verið að ná, ef öðruvísi hefði verið að málinu staðið. Þá verður og sérstaklega að minnast á það, að einsdæmi er, að þingflokkur stjórnarliðs lýsi fyrst milliríkjasamningi gersamlega óaðgengilegan, en síðan að þm. hans muni greiða honum atkv. til þess að vera áfram í stjórn.

Ég vil þessu næst rekja nokkuð aðdraganda að þessum samningi, sem nú er til umr. Bráðabirgðasamkomulag það, sem hér ræðir um, er árangur af viðræðum forsrh. Íslands, Ólafs Jóhannessonar, og forsrh. Bretlands, Edwards Heaths. Það er því ástæða til þess að minna á, að þessar viðræður fóru fram eftir að breski forsrh. hafði sent bréf til starfsbróður síns hér og óskað eftir viðræðum til lausnar fiskveiðideilunni. Þetta bréf barst inn á fund utanrmn. 26. sept. s. l., þar sem fyrir n. lá að gefa álit sitt um, hvort slíta skyldi stjórnmálasambandi við Bretland þá strax. Allir nm. nema fulltrúar Sjálfstfl. voru þeirrar skoðunar, að slíta bæri stjórnmálasambandi við Breta þegar í stað og ekki kæmi til greina neinn frestur á því þrátt fyrir bréf breska forsrh. Fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn., Jóhann Hafstein og Matthías Á. Mathiesen, létu þá bóka eftirfarandi:

„Út af orðsendingu þeirri, sem borist hefur á fund utanrmn. frá breska forsrh. til forsrh. Íslands, dags. í dag, þar sem látinn er í ljós vilji breska forsrh. til þess að leysa nú deilumál þjóðanna, teljum við rétt, að kannað verði til hlítar, hvað fyrir breska forsrh. vaki nánar og forsrh. Íslands ákveði stuttan frest til þessarar athugunar.“

Þótt allir nm. í utanrmn. væru á móti því, að tekinn væri frekari frestur í málinu, fór forsrh. þó eftir ábendingu fulltrúa Sjálfstfl., og ríkisstj. ákvað á fundi sínum daginn eftir, að til stjórnmálasambandsslita kæmi ekki, ef Bretar færu burt með herskip sín innan tiltekins, aukins frests. Ég vek athygli á þessu hér og nú vegna þess, að hefði ekki verið farið eftir ábendingu fulltrúa Sjálfstfl. í utanrmn., þá væru stjórnmálasambandsslit við Breta staðreynd, engar viðræður hefðu þá farið fram og því væri sama óviðunandi hættuástandið á miðunum nú og hefur verið, einkum frá því í vor.

Það var ljóst, að fulltrúar Alþb. í ríkisstj. samþykktu nauðugir viljugir, að Ólafur Jóhannesson forsrh. færi til viðræðna við forsrh. Breta. Þannig lét Lúðvík Jósepsson sér um munn fara, að af þeirra hálfu væri það samþykkt, að forsrh. Íslands hitti forsrh. Breta til að ræða almennt um málið og með slíkum fundi verði kannað, hvort grundvöllur sé fyrir hendi til að taka upp formlegar samningaviðræður á ný um efnisatriði málsins 13. okt. sagði Þjóðviljinn í forustugrein orðrétt:

„En vert er að leggja á það áherslu, að samningar við Breta á þessu stigi málsins eru alls ekki á döfinni. Forsrh. fer ekki utan til efnislegra samningaviðræðna.“

Öllum má hins vegar vera ljóst eftir það, sem síðar hefur drifið á dagana, að Ólafur Jóhannesson fór einmitt til Bretlands til efnislegra samningaviðræðna og í raun og veru hafa engar samningaviðræður farið fram, eftir að hann kom frá London. Sá samningur, sem hér liggur til grundvallar, var í rauninni fyrir hendi í London eftir viðræður þeirra forsætisráðherranna í öllum atriðum, sem máli skipta.

Eftir að forsrh. kom aftur úr ferðalagi sínu, gaf hann ríkisstj. skýrslu um viðræðurnar fyrir hádegi miðvikudaginn 17. okt. og utanrmn. sama dag kl. 15. Forsrh. tók fram, að hann skýrði frá málinu í trúnaði, bæði í ríkisstj. og utanrmn., og hafði enginn við það að athuga.

Áður en til fundar utanrmn. kom, en án þess að láta þess getið á þeim fundi, hafði Alþb. gert ályktun í málinu, sem var allítarleg og fól í sér algera synjun á þeim samkomulagsgrundvelli sem forsrh. kom með frá London. Efni þessarar ályktunar er að vísu kunnugt, en þó verður ekki hjá því komist að geta nokkurra atriða. Þar segir í upphafi: „Þingflokkurinn hafnar till. Breta algerlega sem óaðgengilegum.“ Og eftir að hafa tekið fram nokkur atriði í 4 liðum, sem svo athugaverð séu, að leiði til þessarar niðurstöðu, er í fimmta lagi sagt: „Till. Breta eru settar fram sem úrslitakostir, þ. e. a. s. tilkynnt er, að samþykkja verði till. eins og þær eru eða hafna þeim. Mótmæla verður slíkum úrslitakostum Breta sem gersamlega óaðgengilegum, þar sem þeir hafa auk þess beitt okkur hernaðarlegu ofbeldi og hóta enn að grípa til þess, ef haldið verður uppi eðlilegri landhelgisgæslu.“ Og loks er sagt: „Þingflokkur Alþb. lýsir yfir því, að hann getur ekki staðið að neinu samkomulagi við Breta á grundvelli þeirra tillagna, sem þeir hafa nú sett fram.“

Ályktun Alþb. var afhent samstarfsflokkum í ríkisstj. í byrjun þingflokksfundar þeirra.

Ekki er ljóst, hvað olli flýti þeirra Alþb.-manna, en sennilegt er, að Alþb.-menn ætluðu sér að beita kommúnistískri ógnunaraðferð. Þeir töldu víst, að samstarfsflokkarnir yrðu smeykir og leiðitamir sem fyrr. En nú brást þeim bogalistin. Mælirinn var fullur. Framsóknarmenn, jafnvel þeir sem lengst höfðu fylgt kommúnistum og veitt eigin forsrh. veikan stuðning, tóku nú upp hanskann fyrir hann.

Þm. Alþb. létu ekki við það sitja að samþykkja þessa ályktun, heldur birtu þeir aðalefni hennar yfir þvera forsíðu Þjóðviljans næsta dag og brutu þannig algerlega þann trúnað, sem þeir höfðu sjálfir samþykkt að halda.

Forsrh. átti auðvitað að biðjast lausnar fyrir hönd ráðherra Alþb. þá þegar sama dag eftir slíka framkomu, þar sem vonlaust var, að þeir hefðu þá sómatilfinningu að gera það sjálfir. Forsrh. svaraði þó trúnaðarbroti kommúnista með því að halda blaðamannafund 19. okt., daginn eftir að Þjóðviljinn hafði hirt samþykkt þingflokks Alþb. Á þessum blaðamannafundi tilkynnti forsrh., að hann mundi standa og falla með þeim samkomulagsgrundvelli, sem varð árangurinn af viðræðunum í London. Hugleiða má, hver þróun mála hefði orðið, ef forsrh. hefði ekki gefið þá yfirlýsingu á þessum blaðamannafundi, sem var afleiðing af samþykkt þingflokks Alþb. Ef þingflokkur Alþb. hefði ekki verið svo bráður í ógnunaraðgerðum og flýtt sér svona mikið að gera formlega samþykkt, er ekki alveg útilokað að hugsa sér, að Alþb. hefði getað komið því til leiðar að hafa áhrif á nægilega marga þm. Framsfl. og Samtaka Frjálslyndra og vinstri manna, að ekki hefði verið gengið til þeirra samninga, sem hér um ræðir.

Ef þessar hugleiðingar hafa við rök að styðjast, má draga þá ályktun, að tilviljanir og innri valdabarátta fremur en ákveðin stefnumótun ráði ferðinni hjá ríkisstj., sem Íslendingar verða nú að þola. Það er gersamlega óþolandi í svo mikilvægu máli sem hér um ræðir. Alþb.-menn mega því e. t. v. kenna sjálfum sér og ógnunaraðferðum sínum um, ef þeir hafa yfir nokkru að kvarta, hvernig komið er.

Eftir að þm. Alþb. hafa verið svo beygðir sem raun ber vitni, fer ekki milli mála, að reiði þeirra og Þjóðviljans hefur beinst að hæstv. forsrh., og skal ég aðeins nefna tvö dæmi þar um, sem raunar eru einstök.

Í forustugrein Þjóðviljans 3. nóv. er rætt um landhelgisgæsluna og minnt á, að forsrh. Ólafur Jóhannesson hafi svarað spurningum Þjóðviljans, hvort fyrirskipaðar hafi verið mildari aðgerðir gegn breskum landhelgisbrjótum, og sagt þá skýrt og skorinort: „Það er bara bull.“ En þessi forustugrein dregur í efa, að þetta sé rétt, miðað við starfsemi landhelgisgæslunnar, og lýkur ummælunum með því að segja: „Er ekki rétt, að komi í dagsljósið, hver það er, sem bullar?“ Það fer ekki milli mála, að þetta svokallaða stuðningsblað ríkisstj. gefur lesendum sínum til kynna, að það sé forsrh. Íslands, sem bullar.

Annað dæmi: Þjóðviljinn segir í forustugrein 4. nóv. sl.: „Það er full ástæða til, að menn velti því fyrir sér, hvers vegna Ólafur Jóhannesson gaf þá yfirlýsingu aðeins þremur dögum eftir heimkomuna og án samráðs við samráðherra sína, að hann gæti fyrir sitt leyti fallist á breska tilboðið óbreytt, — tilboð, sem hann hafði tekið að sér að leggja fyrir ríkisstj. Íslands og lýst yfir, að hann væri óbundinn af.“ Þjóðviljinn heldur áfram og segir: „Hitt liggur svo auðvitað í augum uppi, að eftir yfirlýsingu íslenska forsrh. um sitt persónulega samþykki, hlaut það að vera æðiveik von, að hægt yrði að fá Breta til að fallast á einhverjar lagfæringar, enda þótt sjálfsagt væri að reyna þær til þrautar“

Hæstv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson var ekki heldur myrkur í máli um forsrh. á flokksráðsfundi Alþb., þar sem hann sagði: „Við höfum nokkuð almennt hér í Alþb. orðið býsna reiðir yfir því, hvernig hér var haldið á málum. Við teljum, að við höfum að vissu leyti verið svikin. Vinnubrögðin hafa ekki verið eðlileg og þar að auki verið leikið niður fyrir okkur góðri stöðu í þýðingarmiklu máli.“ Þetta voru orð sjútvrh., sem segja í raun, að forsrh. hafi svikið, ekki viðhaft eðlileg vinnubrögð og leikið niður fyrir okkur góðri stöðu í þýðingarmiklu máli. Það er vandséð, hvernig unnt er að taka upp heilshugar samstarf í ríkisstj. eftir slík orðaskipti eða hvernig forsrh. getur látið sér það lynda.

En eftir öll stóru orðin samþykkti flokksráð Alþb. að fela miðstjórn að taka afstöðu til málsins og gaf þetta vegarnesti: „Flokksráð Alþb. telur ástæðulaust að hvika frá þessari stefnu (þ. e. a. s. í landhelgismálinu) og veita tilslakanir á borð við þær, sem ráð er fyrir gert í fyrirliggjandi drögum að samkomulagi við Breta.“ Miðstjórnin samþykkti síðan, að þm. samþ. samninginn með einu skilyrði þó: „enda komi ljóslega fram á Alþ. afstaða Alþb. til málsins.“

Fyrst er sem sagt samþykkt, að samningurinn sé óaðgengilegur, síðan er sagt, að ástæðulaust sé að gera óaðgengilegan samning, og loks er veitt heimild til að gera óaðgengilegan samning að ástæðulausu. Þetta eru furðuleg vinnubrögð hjá stjórnmálaflokki, sem telur sig vera ábyrgan. Og hér er lík ný kenning á ferðinni. Á Alþ. skal tala á móti málinu, en greiða atkvæði með því. Segir ekki í stjórnarskránni, að þm. séu bundnir af sannfæringu sinni.

Herra forseti. Ég skal þá víkja að efni sjálfrar orðsendingar utanrrh. Íslands til sendiherra Bretlands, sem í raun er efni þeirra samninga, sem á dagskrá er. Í formála þessarar orðsendingar segir: „Er miðað við, að ársafli breskra skipa verið um 130 þús. smálestir.“ Af því, sem áður er tekið fram í formálanum, er ljóst, að átt er við hið umdeilda svæði, þ. e. milli 12 og 50 mílna. Á fundinum í vor féllust Íslendingar á að bjóða Bretum 117 þús. tonna hámarksafla á ári. Bretar voru formlega búnir að lofa að takmarka ársafla sinn við 145 þús. tonn, en það vissu allir samningamenn og miklu fleiri, að Bretar mundu verða reiðubúnir að fara niður í 130 þús. tonna hámarksafla, ef Íslendingar hefðu hreyft sig og samþykkt það.

Í till. forsrh. í London er rætt um 130 þús. tonna ársafla, en í lokasamkomulagstill. frá Bretum er ákvörðun um hámarksafla sleppt. Forsrh. gaf þó þá skýrslu frá viðræðunum í London, að Bretar hefðu ekkert á móti því, að þessi hámarksafli yrði tilgreindur. Við sjálfstæðismenn lögðum á það áherslu í utanrmn., að hámarksaflinn yrði tilgreindur. Menn geta að vísu haft skiptar skoðanir á því, hvort unnt sé að fylgjast með heildarafla breskra togara hér við land nógu nákvæmlega. En engum blöðum er um að fletta, að hér er um viðbótartryggingu að ræða fyrir okkur Íslendinga, að heildarafli breskra togara fari ekki yfir ákveðið mark, hvað sem liður öðrum ákvæðum samningsins og takmörkunum. Auk þess er það skoðun þeirra, sem fjalla um aflaskýrslur hér á Íslandi, svo sem starfsmanna Fiskifélagsins og L. Í. Ú., að mjög erfitt sé að breyta, hvað þá heldur að falsa aflaskýrslur. Bent er á í því sambandi, að raunar ætti að vera lítil hvöt til þess hjá Bretum að draga úr afla á Íslandsmiðum í skýrslum, þar sem nú er komið á kvótakerfi í fiskveiðum bæði við Grænland, Nýfundnaland og Færeyjar, en ein mitt á þeim miðum væri helst unnt að víxla á afla milli þeirra miða og Íslandsmiða. Þannig eru ekki líkur til, að þeir vildu nýta fiskikvóta sinn við þessi lönd til þess að draga úr afla samkvæmt skýrslum frá Íslandsmiðum, svo að maður ætli þeim allt hið versta.

Hæstv. sjútvrh. og ýmsir aðrir stjórnarsinnar hafa lítið lagt upp úr því að hafa ákvörðun um hámarksafla í samningunum, og kom í ljós, þegar við Íslendingar vildum aftur setja hámark inn í samningana, og fyrirstaða varð á því hjá Bretum. Þetta er skýringin á því, að ákvæðið er ekki ákveðnara orðað en svo, að miðað er við, að ársafli breskra skipa verði um 130 þús. tonn á hinu umdeilda svæði.

Þá tel ég miður, að hámarksaflinn er eingöngu miðaður við hið umdeilda svæði, þ. e. a. s. fiskimiðin milli 12 mílna og 50 mílna, en ekki allt svæðið, sem Norðaustur-Atlantshafsnefndin, sem samstarfsnefnd um fiskveiðimál, nefnir 5A, en það er 75% stærra en 50 mílna lögsagan. Að vísu munu Bretar veiða mjög lítinn hluta afla síns utan 50 mílnanna, en ljóst er, að eftirlit með þessum hámarksafla er langtum erfiðara, ef veiðisvæðið er annað en í venju- og samningsbundnum skýrslum veiðiskipa. Auk þess gæti þetta haft þýðingu, þegar við færum út fiskveiðilögsögu okkar í 200 mílur, en að því kem ég síðar.

Í 1. tölulið orðsendingarinnar er getið um fjölda breskra togara, sem eiga að vera að veiðum hér við land, og er þar gengið út frá því, að fylgt verði till. forsrh. Íslands í London. Í vor var tilboð Íslendinga, að engir frystitogarar eða verksmiðjuskip væru á veiðum á svæðinu, en auk þess fengju ekki 30 af stærstu togurum Breta að veiða hér við land, og var þá miðað við samsetningu togaraflotans eins og hann var 1971. En Bretar voru í vor komnir að því að viðurkenna, að 20 breskir togarar auk frysti- og verksmiðjuskipa yrðu útilokaðir frá veiðum. Eins og ég gat um áðan, gerði forsrh. það að till. sinni í London, að 15 stærstu og 15 aðrir togarar yrðu útilokaðir auk verksmiðju- og frystiskipa, og hafa Bretar gengið að því, þannig að ljóst er, að ekki hefur borið mikið á milli að þessu leyti heldur, ef miðað er við stöðuna frá því í vor og tilboð forsrh. í London.

Í 2. tölulið er rætt um friðunarsvæðin, sem breskir togarar munu virða. Hæstv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson hefur í viðtali við Þjóðviljann 24. okt. sagt, að ein af þeim lagfæringum, sem ríkisstj. vildi fá á samningnum, væri, að það standi opið fyrir íslensk stjórnvöld að ákveða friðunarsvæði og friðunartíma.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að friðunarsvæðin tvö: á Selvogsbanka og fyrir Norðausturlandi, voru fyrst ákveðin eftir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur samkvæmt reglugerðinni, er tók gildi 1. sept. 1972. Lúðvík Jósepsson var sem sagt búinn að vera sjútvrh. nokkuð á annað ár, áður en hann gaf út reglur um friðunarsvæði, og þá gerði hann ekki meiri ráðstafanir en að loka Selvogsbankasvæðinu í einn mánuð og Norðausturlandssvæðinu í tvo mánuði á ári. Það er fyrst nú í sumar, sem þriðja friðunarsvæðið er ákveðið, eftir viðræðurnar við Breta í maí. En Bretar hafa, að því er virðist, orðalaust eða orðalítið viðurkennt það svæði einnig.

Það er því fyrst og fremst sjútvrh. sjálfum að kenna að vera ekki búinn fyrir löngu að ákveða fleiri friðunarsvæði, að þeirra er ekki fleiri getið í samkomulaginu.

En vegna þessa látalætis sjútvrh., að hann hafi í raun áhuga á fleiri friðunarsvæðum, er e. t. v. rétt að íhuga, hvort Íslendingar og samningamenn þeirra, þ. á m. Lúðvík Jósepsson, hafi gert um það kröfu í samningnum í maímánuði. í yfirliti yfir kröfur Íslendinga í maí kemur ekki fram annað en að virða skyldi þau tvö friðunarsvæði, sem þá voru í gildi og fyrr eru nefnd.

Þess skal þó getið, að út frá því hefur í raun verið gengið í samningaviðræðunum, að friðunarsvæði, sem Íslendingar ákvæðu og tækju eins til þeirra og annarra þjóða, mundu Bretar virða. Þetta er mjög mikilvægt, ef það er réttur skilningur. Hinu skulum við ekki loka augunum fyrir, að ætlunin var, að í samkomulaginu yrði nánar greint frá þessu. En Bretar töldu þá nauðsynlegt að tilgreina, að slík ákvörðun yrði að eiga sér stað á grundvelli vísindalegra rannsókna og með samþykki samningsaðila. Þótt við Íslendingar viðurkennum ekki slíka aðild Breta og eigum að taka einhliða ákvarðanir í þessum efnum, verður að treysta því, að ekki leiði til ágreinings að þessu leyti á samningstímabilinu.

Í 8. tölul. samningsins er getið um smábátasvæðin fyrir Vestfjörðum og Austfjörðum milli 12 og 20 mílna og fyrir Norðurlandi. Eru þau ákvæði í samræmi við afstöðu Íslendinga í maímánuði s. l.

Í 4. tölul. er getið um skiptingu fiskimiðanna við landið í 6 veiðisvæði, og skal eitt þeirra vera lokað 2 mánuði í senn. Í tilboði Ólafs Jóhannessonar forsrh. í London tekur hann í samræmi við afstöðu Íslendinga í maímánuði s. l. fram, að tvö svæði af 6 skuli lokuð. Afstaða Breta var, eins og kunnugt er, í maímánuði s. l., að þeir vildu annaðhvort viðurkenna smábátasvæðin eða lokun tveggja af sex veiðisvæðum, en ekki hvort tveggja. Í lokatilboði Breta í London gengu þeir inn á, auk smábátasvæða og friðunarsvæða, að hafa eitt af sex svæðum lokað. Þegar grein var gerð fyrir þessu við heimkomu forsrh., var tekið fram, að ákvörðun um, hvenær þetta eina svæði ætti að vera lokað, yrði að vera bundin frekari samningum milli aðila. Það kom og fram síðar í fréttum af fundi forsrh. með forsvarsmönnum L. Í. Ú., að hann teldi, að tímaákvörðunin yrði í höndum Íslendinga og gæti farið að vild þeirra. Hins vegar lagði forsrh. fram á fundi utanrmn. þegar 18. okt., að mig minnir, útreikning um aflamagn Breta á grundvelli þess samkomulags, sem varð niðurstaða Lundúnaumræðnanna, gerðan af fiskimálastjóra, Má Elísyni, sem byggði á ákveðnum forsendum, hvenær hin einstöku svæði væru lokuð, — forsendum, sem voru hagstæðari Bretum en Íslendingum, og hafði sú tímaákvörðun verið rædd í London.

Hér er því ástæða til að gera athugasemd um málsmeðferð. Í ljós hefur komið, að það, sem talið var opið og eigi búið að semja um, var í raun fastmælum bundið og varð ekki breytt. Þótt sagt sé, að með annarri tímaákvörðun en þeirri, sem nú er gert ráð fyrir, væri vonlaust fyrir Breta að ná þeim afla, sem samningurinn er byggður á, þá er hér um að ræða ámælisverð vinnubrögð.

Í 6. tölul. er rætt um framkvæmd samkomulagsins og lögsögu. Um þetta atriði hafa verið allmiklar umræður, og sérstaklega hefur sjútvrh. og Alþb.-menn gert sér tíðrætt um það. Þannig er þetta eitt af þeim atriðum, sem ráðh. segir í viðtali við Þjóðviljann 24. okt. s. 1. að lagfæra þurfi.

Það er því forvitnilegt, að kanna, hvernig þessi ráðh. vildi haga þessu í samningaviðræðunum í maímánuði í vor. Í frásögn af þeim viðræðum er fyrst sagt: „Íslensk yfirvöld verða að hafa rétt og möguleika til að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins“. Og þetta er síðan skilgreint þannig: „Það verður að vera ljóst, að íslensk varðskip geti í framkvæmd stöðvað breska togara og litið eftir veiðarfærum þeirra, stöðvað veiðar þeirra, ef þeir brjóta í bága við samkomulagið“. Annað er ekki sagt af hálfu hæstv. sjútvrh. í maímánuði s. l.

6. liður samkomulagsins er fremur hagstæðari okkur Íslendingum en Lúðvík lagði til í maí, þótt ég sé þeirrar skoðunar, að æskilegra hefði verið, að ákvæðin um lögsöguna samkv. 6. lið hefðu verið skýrari, og m. a. eðlilegra, að breskur togari, sem staðinn er að veiðum í bága við samkomulagið, hefði rétt til þess að kalla á breskt eftirlitsskip til að sannreyna málsatvik, í stað þess að leggja þá skyldu á íslensk varðskip. Ég tel hins vegar, að þótt lögsöguákvæðið í 6. tölul. eins og ég hef greint frá, sé viðunandi, þá sýnir það best, að um sérreglu er að ræða, að forsrh. hefur gert það fyrir sjútvrh. að flytja sérstakt frv. um breyt. á íslenskum l. til þess að skýra einmitt þetta ákvæði. Með engum öðrum hætti gat hæstv. sjútvrh. viðurkennt, að hér væri í raun um sérreglur að ræða varðandi lögsöguna. Hitt er svo allt annað mál, hvaða þýðingu það lagafrv. hefur gagnvart gagnaðila. Ég vænti þess hins vegar, að lögsöguákvæði samkomulagsins sé það skýrt, að við Íslendingar höfum það í hendi okkar, hvernig það verður framkvæmt, þótt frábrugðið sé venjulegri lögsögu í landhelgismálum.

Af því, sem ég hef rakið sérstaklega um samkomulag það, sem hér er til umræðu og Alþ. á að fjalla um, hygg ég, að það sé ljóst, að unnt hefði verið að ná jafngóðu eða betra samkomulagi í s. l. maímánuði og jafnvel fyrir meira en ári. Ég hygg, að samdóma og sammála mér í þessu efni séu flestir þeir menn, sem hafa farið með samninga af hálfu Íslendinga við Breta. Og þá er auðvitað spurningin, hvað valdi. Ég held, að það sé misskilið sjálfsálit, ef hæstv. sjútvrh. túlkar það, að hann hafi persónulega staðið í vegi fyrir samningum, vegna þess að hann vildi betri samninga, að því er deiluna við Breta varðar. Nei, því miður. Þótt ég efist ekki um, að hæstv. sjútvrh. vilji tryggja Íslendingum sem víðáttumesta fiskveiðilögsögu, hefur hann og annað sjónarmið, annað takmark, sem hann sýnist álíta mikilvægara, og það er að slíta þau samstarfsbönd, sem við Íslendingar höfum við vestrænar þjóðir í öryggis- og varnarmálum okkar. Það er e. t. v. skýringin á því, hvernig framkoma hæstv. sjútvrh. hefur verið háttað, og skal ég ekki fara fleiri orðum um það.

Tilefni hefur gefist til að fara nokkrum orðum um þennan samning og landhelgissamninginn við Breta 1961, sem stjórnarsinnar ávallt síðan hafa jafnvel jafnað til landráðasamnings. Í umr. um þetta mál s. l. fimmtudag vék hv. 3. landsk., Bjarni Guðnason, og að þessu máli.

Fyrst og fremst er rétt að vekja athygli á því, að hvorki varð útfærslan 1958 virk né útfærslan 1972, fyrr en búið var að gera samkomulag við Breta, annars vegar með samningnum 1961 og nú væntanlega með þessum samningi. En þó blandast mönnum væntanlega ekki hugur um, að samningurinn 1961 var mun hagstæðari. Hann hefur, eins og kunnugt er, verið kallaður mesti stjórnmálasigur Íslendinga, og því getur sá samningur, sem hér er til umr. verið viðunandi, þótt hann komist ekki í samjöfnuð við samninginn 1961. Ég vil benda á nokkur atriði máli mínu til sönnunar.

Í fyrsta lagi fékkst með samningnum 1961 full viðurkenning Breta á útfærslu landhelginnar í 12 mílur. Með þeim samningi, sem nú er til umr., er beinlínis tekið fram, bæði í formála og lokaorðum, að hann hafi ekki áhrif á lagaskoðanir aðila eða réttindi varðandi efnisatriði deilunnar. Eftir tvö ár getur því sama ástand upphafist aftur og verið hefur nú í sumar, með þeim hættum, sem því hafa fylgt. Að vísu erum við sjálfstæðismenn svo bjartsýnir að álíta, að Hafréttarráðstefnan hafi þá leitt í ljós, ekki eingöngu rétt okkar yfir 50 sjómílna landhelgi, heldur og yfir 200 mílna auðlindalögsögu. Við höfum líka að okkar leyti með þáltill. okkar á þingi um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur fyrir árslok 1974 gert ljóst, hvert við stefnum. Sömuleiðis er til bóta frv. ríkisstj., þar sem kveður svo á um, að landgrunn samkv. l. frá 1948, sem sjálfstæðismenn áttu frumkvæðið að því að setja, skuli miðast við 204 mílur. Þá er ekki heldur fjarri lagi, þótt merkilegt kunni að virðast, að telja töluverða möguleika á því, að Bretar muni á samningstímanum snúast jafnvel á sveif með þeim þjóðum, sem styðja 200 mílna fiskveiðilögsögu, þótt það þurfi að eiga sinn aðdraganda. Þeir geta haft töluverða hagsmuni af því. En hvað sem því líður, ætti sigur okkar að vera öruggur. Það, sem úrslitum ræður um það, er Hafréttarráðstefnan, sem nú er ákveðið að haldin verði í Venezúela á næsta ári eftir samhljóða samþykkt stjórnmálanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem ekki verður dregið í efa að staðfest verði á Allsherjarþinginu sjálfu, og á næsta ári er strax búist við ákveðinni stefnuyfirlýsingu af hálfu ráðstefnunnar. Sá annmarki þessa samnings, að ekki er greint frá, hvað við taki eftir 2 ár, hefur þannig vonandi ekki neikvæðar afleiðingar.

Í öðru lagi var það alveg ljóst samkvæmt samningnum 1961, að engin sérregla gilti um lögsögu íslenskrar landhelgisgæslu, að því er varðaði framkvæmd samningsins eða viðurlög við brotum á honum, eins og óneitanlega var um að ræða samkvæmt þeim samningi, sem nú er til umræðu. Leiddi þetta þegar af því, að samningurinn frá 1961 fól í sér fulla viðurkenningu gagnaðila á útfærslu fiskveiðilögsögunnar, sem núgildandi samningur gerir ekki, eins og áður er sagt.

Í þriðja lagi vil ég benda á það, að samkvæmt samningnum frá 1961 voru grunnlínur leiðréttar okkur í hag, og jók það fiskveiðilögsögu okkar mjög verulega. Sú aukning var í raun og veru mun meira virði heldur en þær takmörkuðu veiðiheimildir, sem gert var ráð fyrir í samningnum og að verður vikið síðar. Samkvæmt þessum samningi er ekki um neina aukningu íslenskrar fiskveiðilögsögu að ræða, og ekki hefur heldur verið eftir slíkri aukningu leitað í samningaviðræðunum.

Í fjórða lagi er rétt, að það komi fram, að þær veiðiheimildir, sem veittar voru samkvæmt samningnum 1961, voru hlutfallslega mun takmarkaðri en þær veiðiheimildir, sem nú eru veittar. Þá var hvergi farið inn að gömlu fiskveiðimörkunum, en nú er aðalreglan að fara nær alls staðar inn að 12 mílunum. Þá var um mjög miklu tímabundnari veiðiheimildir að ræða en nú, þar sem aðeins eitt svæði er í senn lokað 2 mánuði í einu.

Í fimmta lagi skal þess getið, að þá var bein yfirlýsing um það, að við mundum færa út fiskveiðilögsögu okkar frekar í framtíðinni, en ekki er á það minnst einu orði í þessum samningi, að til þess skuli koma. Þetta verður þó vonandi ekki ásteytingarsteinn síðar, vegna þess að við sjálfstæðismenn höfum, eins og áður er sagt flutt þáltill. um útfærslu í 200 mílur og ríkisstj. frv. um breyt. á landgrunnsl., sem hnígur í svipaða átt. Þess vegna má viðsemjendum okkar vera ljóst, að hverju við stefnum, og kann raunar að vera, eins og um var getið áðan, að við eigum í þeim efnum samleið í framtíðinni.

Í sjötta lagi var samkv. samningnum 1961 ákvæði um, að ef ágreiningur yrði um útfærslu, skyldi þeim ágreiningi vera skotið fyrir Alþjóðadómstólinn. Um þetta ákvæði hefur staðið mikill styrr, eins og kunnugt er, og skal ég út af fyrir sig ekki rifja þær deilur upp. En þar sem talið hefur verið þessum samningi til gildis, að ekki væri gert ráð fyrir neinum yfirdómi eða gerðardómi, er rétt að geta þess, að hæstv. sjútvrh. hefur ekki verið fráhverfur gerðardómi. Á Genfarráðstefnunni fyrri, 1958, þegar Lúðvík Jósepsson var sjútvrh., var lögð fram till. um rétt strandríkis til ráðstafana utan við sjálfa fiskveiðilögsöguna af hálfu íslensku ríkisstj., þar sem hann átti sæti. Í þeirri till. var það eitt meginatriðið, að gerðardómur skyldi skera úr, ef ágreiningur yrði. Sú till. náði þó ekki samþykki, en var á ný flutt á ráðstefnunni 1960, að tilhlutan viðreisnarstjórnarinnar þá, en með samþykki allra íslensku fulltrúanna, þ. á m. Lúðvíks Jósepssonar. Þannig hefur það verið tvívegis gert að beinni till. af Íslands hálfu á alþjóðavettvangi, að ráðstafanir utan 12 mílna yrðu ekki gerðar, nema ágreiningur út af þeim væri borinn undir dóm.

Ég hef aldrei talið það annmarka á samningnum frá 1961 að skjóta málum okkar fyrir Alþjóðadómstólinn og vitna í því sambandi til víðfrægra orða hæstv. forsrh. um það, að við ættum að undirbúa hvert það skref, sem við tækjum í landhelgismálinu, svo vel, að það stæðist fyrir alþjóðadómstóli. Ég tel, að réttur okkar sé svo ótvíræður, að engin hætta sé á ferð, ef við höfum trú á málstað okkar og erum þeir menn að þora að standa fyrir máli okkar á þeim vettvangi, þannig að dómstóllinn kveði upp úrskurð sinn á réttum forsendum.

Hæstv. sjútvrh. ræðir þetta mál töluvert í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Alþb. og segir um þetta: „Það var síður en svo fýsilegt fyrir okkur að eiga nokkuð á hættu í sambandi við álit dómaranna í Haag, vegna þess að það lá alveg skýrt fyrir, að það væri uppi mikill ágreiningur milli þjóðréttarfræðinga um það, hvað teldist vera alþjóðalög varðandi víðáttu landhelgi. Við vissum það líka, að þeir höfðu m. a. í sínum höndum yfirlýsingar frá háttsettum manni hér úr okkar röðum, sem voru okkur síður en svo hagstæðar um það það efni, hvað væru lög í þessum efnum.“ Vantrúin á hinn íslenska málstað kemur þarna berlega í ljós hjá sjútvrh. Hann er að gefa í skyn, að það sé vafamál, að alþjóðalög heimili okkur útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Og það væri æskilegt, að hann upplýsti, hvaða yfirlýsingar frá háttsettum manni á Íslandi gætu verið hagstæðar andstæðingum að þessu leyti og okkur til dómsáfellis fyrir Alþjóðadómstólum. Það væru þá e. t. v. helst ummæli hans sjálfs og vissra stjórnarsinna, sem hafa gert því skóna og talið, að aðgerðir okkar í landhelgismálinu stæðust ekki fyrir Alþjóðadómstólnum.

Hitt er svo annað mál, að leggi stjórnarsinnar sjálfir svona mikla áherslu á, að samningurinn frá 1961 sé að þessu leyti Íslendingum óhagstæður, þá er furðulegt, að þeir skuli ekki hafa fengið inn í þennan samning viðurkenningu Breta á því, að samningurinn frá 1961 sé niður fallinn, eða a. m. k. loforð Breta um að fella niður málarekstur fyrir Haag-dómstólnum. Í því sambandi kemur það eitt fram í viðræðunum í London, að Ólafur Jóhannesson hefur sagt: Ef við getum útkljáð deilu okkar, sem ég vona að við getum, þá mætti e. t. v. hætta málaferlunum í Haag. Hér er kurteislega farið að hlutunum, ekki vantar það. En furðulegt er, að það skuli ekki vera nánar skilgreint, ekki nákvæmar gengið eftir svörum við þessu hjá Bretum.

Eins og áður segir, er ég ekki smeykur við málaferli fyrir Alþjóðadómstólnum, ef við sækjum og verjum mál okkar þar. En miðað við þá fyrirætlan stjórnarinnar, ef hún breytist ekki, að taka þar ekki til andsvara, þá er óneitanlega hætta á því, að dómur geti gengið okkur á móti og hann væri jafnvel kveðinn upp fyrir Hafréttarráðstefnuna. Við höfum því sameiginlegra hagsmuna að gæta, bæði þeir, sem telja, að flytja skuli mál okkar fyrir Haag-dómstólnum, og hinir, sem telja, að það komi ekki til greina. Við ættum þá að geta sameinast í því, að æskilegt væri, að það væri gengið svo frá málum, að Alþjóðadómstóllinn alla vega kvæði ekki upp úrskurð sinn fyrir Hafréttarráðstefnuna, og það hefði verið tækifæri og tilefni til þess í þessum samningum og samningsgerð að ganga svo frá. Það er því að mínu viti sjálfskaparvíti, ef dómur gengur okkur á móti, því að það stafar af því, að við höfum ekki sinnu á því að mæta eða sjá um, að dómsúrskurði verði frestað, þar til Hafréttarráðstefnan verður haldin, með þeim samningum, sem hér liggja fyrir.

Ég tel þessu næst alveg nauðsynlegt að víkja að þeirri skoðun, sem óneitanlega hefur komið fram mjög oft í sambandi við samninga við Breta og V-Þjóðverja, að í kjölfar þeirra hlytu að fylgja samningar við aðrar fiskveiðiþjóðir. Þessar raddir hafa komið sérstaklega fram úr hópi Alþb: manna. Ég vil eindregið mótmæla þessari skoðun og leggja áherslu á það, að við Íslendingar erum í engu skuldbundnir að ganga til samninga við aðrar þjóðir, þótt samningar takist við Breta og V.-Þjóðverja. Hæstv. sjútvrh. hefur á stúdentafundi sérstaklega hrósað ýmsum þjóðum fyrir það að hafa haldið sér utan við 50 sjómílna fiskveiðilögsöguna, síðan henni var lýst yfir. Ég tel, að það sé lítið hrósvert, ef þessar þjóðir hafa aðeins gert það í því skyni að geta síðar í skjóli hervalds Breta náð samningum við Íslendinga um forréttindi innan 50 sjómílna lögsögunnar. Ég vil enn fremur benda á það, að samningarnir við Breta og V.-Þjóðverja byggjast á því, að við viljum veita þessum þjóðum umþóttunartíma vegna þess, að þær hafa haft verulega hagsmuni um langt tímabil af veiðum hér við land, og sérstaklega höfum við í því sambandi viljað líta á vandamál ákveðinna staða og íbúa ákveðinna borga í öðrum löndum, sem þurfa tíma til að skipta um atvinnu og sjá sér fyrir lífsafkomu. En engu slíku er til að dreifa varðandi þær þjóðir, sem Alþb.-menn hafa sérstaklega nefnt í þessu sambandi og verið umhugað um, að fengju þá einhverja samninga, en það eru t. d. Sovétríkin, en þau hafa veitt skv. skýrslum mest 1967 og 1968 22 þús. tonn og 17 þús. tonn, en 1970 1400 tonn og 1971 700 tonn. Pólland er flest árin ekki á blaði, en hefur veitt hér 1970 3000 tonn og 1971 1300 tonn. A-Þýskaland hefur ekki gefið miklar skýrslur um sín aflabrögð, en eftir því sem best er vitað, veiddi það 1969 10900 tonn og 1970 26200 tonn, en 1963, 1964 og 1965, 2000 tonn hvert ár um sig. Þess vegna er alveg ljóst, að það er engin ástæða til að gera sérstaka samninga við erlendar þjóðir, sem hafa haft í hyggju í framtíðinni að auka sókn sína á Íslandsmið.

Við getum um það í nál. okkar, að ein af þeim ástæðum, sem liggja til þess, að við teljum rétt að gera þennan samning, er, að meiri líkur séu þá til þess, að við njótum fullrar hagkvæmni af samningum okkar við EBE, en slík hagkvæmni felst í senn í tollalækkunum skv. viðskiptasamningi okkar við það, svo og að markaðir nýtast okkur betur þar fyrir sjávarafurðir okkar. Í því sambandi er rétt að geta þess, skv. þeim samningi mun tollur af sjávarafurðum lækka úr 15% og væntanlega í 9% af ísfiski í Þýskalandi og í Bretlandi úr 10% í 7%. Þetta getur munað allt að ½ millj. kr. af togarasölu í Þýskalandi, ef vel selst, og það er ekki ástæðulaust að ætla, að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að skapa skilyrði fyrir slíkri sölu ísfisks vegna vinnslu loðnu í frystihúsunum, þegar loðnuvertíðin hefst og afkastageta frystihúsanna kann að vera takmörkuð. Tollalækkanirnar á freðfiski eru sömuleiðis umtalsverðar, og við getum átt von á því, að tollar muni hækka, ef samningar takast ekki, eins og t. d. á rækju, en umtalsverður útflutningur er á rækju til Bretlands.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, taka það fram, að þrátt fyrir þá annmarka, sem ég hef hér getið um, að við nm. Sjálfstfl. í utanríkismn. teljum vera á þeim samningi, sem lagður er nú fyrir Alþingi, þá teljum við þó margar ástæður mæla með því að gera þennan samning.

Fyrst og fremst er sú meginástæða, að með honum er bundinn endir á hættulega deilu og friði komið á.

Í öðru lagi viljum við treysta því, að Bretar taki hér minna en 130 þús. tonna ársafla í stað 160–170 þús. tonna ársafla, eins og þeir hafa gert fyrsta árið eftir útfærsluna, en það telur forsrh. erfitt að vefengja, að þeir hafi gert, eins og fram kom í ræðu hans á Alþingi á fimmtudaginn var.

Í þriðja lagi teljum við lífsnauðsyn að stemma stigu við smáfiskadrápi hér við land og gera eftirlit með veiðarfærum og veiðum Breta skv. samningum, sem eiga að vera í gildi þar um, virkt. Þeir samningar, sem gilda meðal aðildarríkja Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar að þessu leyti, hafa engan veginn verið virkir gagnvart þeim þjóðum, sem við höfum átt í deilu við vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Með samningum við þær geta þessir samningar orðið virkir á ný. Og á það verður að leggja áherslu, að framkvæmd þeirra af okkar hálfu sé haldið fram óhikað og í því efni efldur aðbúnaður annað tveggja landhelgisgæslunnar eða þá hafrannsóknarskipa okkar í þeim tilgangi, að þessir aðilar geti í raun sinnt þessu eftirliti og komið í veg fyrir smáfiskadrápið, sem hér hefur tíðkast í stórum stíl og mestum mæli nú síðustu mánuði, meðan þessi deila hefur átt sér stað.

Ég vil ekki ljúka máli mínu svo, að geta ekki um afstöðu okkar nm. Sjálfstfl. í utanrmn. til till. Bjarna Guðnasonar um þjóðaratkvgr. Við erum þeirrar skoðunar, að það sé skylda Alþingis og Alþingismanna að taka ákvörðun í því máli, sem hér um ræðir. Alveg eins og við voru þeirrar skoðunar, þegar sams konar tillaga kom fram varðandi samningana við Breta 1961, að það væri skylda alþingismanna að bera ábyrgð á þeirri samningagerð, þá erum við sama sinnis nú. Og ég vænti þess, að þm. stjórnarliðsins, sem þá greiddu till. um þjóðaratkvgr. atkvæði sitt, hafi nú séð sig um hönd og gert sér grein fyrir skyldum alþingismanna að þessu leyti.

Ég vil þó ekki ljúka máli mínu án þess að geta um e. t. v. aðalástæðuna fyrir því, að ég tel nauðsynlegt að koma á samningum og friði í deilum okkar við Breta, og það er sú ástæða, að við Íslendingar verðum núna að einbeita kröftum að því að vinna sigur á Hafréttarráðstefnunni, sigur í því máli að tryggja Íslandi og Íslendingum 200 mílna fiskveiðilögsögu. Það liggur í augum uppi, að meðan færustu menn okkar á þessu sviði eru uppteknir af því að ræða um lausn þessarar deilu, sem hefur að því leyti til takmarkaða þýðingu, að hún tekur aðeins til 50 mílna fiskveiðilögsögu, þótt ég vilji ekki gera lítið úr því út af fyrir sig, þá geta þeir ekki einbeitt sér sem skyldi og hafa ekki samstöðu þjóðarinnar eins og þeir eiga skilið að baki sér til þess að vinna að sigri 200 mílnanna á Hafréttarráðstefnunni, sem fyrir höndum er. Það er brýnasta mál okkar Íslendinga nú á næstunni, og að því takmarki eigum við að einbeita okkur og sameinast, svo að sigur vinnist, öldnum og óbornum til gæfu í þessu landi.