12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég skal reyna að koma umbúðalaust að kjarna þessa máls, þar sem ég talaði nokkuð rækilega um þetta efni s. i. fimmtudag.

Frá mínum bæjardyrum séð liggur þetta mál þannig fyrir: Samkomulag tveggja aðila hlýtur að miðast við það, að báðir aðilar hljóta að slaka nokkuð á. Ef við lítum á þetta frá sjónarmiði Breta, á hverju hafa þeir slakað? Það liggur nokkuð ljóst fyrir, að þeir mundu veiða hér næsta ár, árið 1974, um 150 þús. tonn, það er gert ráð fyrir því í samningnum, eða í fylgiskjali með honum, að Bretar hyggist veiða um 130 þús. tonn. Það, sem Bretar fórna í deilunni eða slaka á, er, að þeir gefa eftir veiði um 20 þús. tonna. Ég hygg, að þetta sé milli 18% og 19% af heildarmagninu. En hver er þá hlutur Íslendinga í samkomulaginu? Markmið þeirra eru tvö! Annars vegar verndun fiskistofnanna og hins vegar útfærsla lögsögunnar í 50 mílur. Þá er hlutur Íslendinga þannig, að veiði Breta minnkar aðeins um 18–19% og varðandi fiskveiðilögsöguna veiða Bretar enn næstu tvö ár nálega kringum allt landið upp að 12 mílum. Þetta er hin ömurlega staðreynd, og það fer ekki á milli mála, að ef menn vega þetta með nokkurri sanngirni, blasir við, hvað hlutur Íslendinga er slæmur í þessu samkomulagi.

Eitt hefur þó vakið sérstaka athygli mína. Það eru þau orð, sem forustumenn þjóðarinnar hafa látið falla um framkvæmd samkomulagsins. Ég tel mjög óheiðarlegt að halda því að þingmönnum og þjóðinni, að Íslendingar fari með eftirlit eða framkvæmd samkomulagsins. Ég vil leyfa mér að vísa til 6. tölul. í samkomulaginu, þar sem segir orðrétt: „Sé skip staðið að veiðum í bága við samkomulagið, getur íslenskt varðskip stöðvað það, en skal kveðja til það aðstoðarskip breskt, sem næst er, til að sannreyna málsatvik“. Hvað merkir þetta frá sjónartniði Breta? Bretar eru með þessu ákvæði að tryggja sér aðild að eftirlitinu, að framkvæmdinni. Og þeir þurfa að sannreyna málsatvik, þ. e. að sannreyna, á hvern hátt íslenska varðskipið hefur tekið á málum breska togarans. Svo á sér stað sá óheiðarlegi málflutningur manna á meðal að halda því fram, að með þessu hafi Íslendingar tryggt sér framkvæmd samkomulagsins. Gengið er frá þessu á þá lund, að það er ekkert sagt frá því í samningnum hvað gerist, ef Bretar eru á annarri skoðun en Íslendingar varðandi brot togarans. Það er ekkert sagt um það. Það er beinlínis hlaupið fram hjá vandanum. Þetta er haft svo óljóst og loðið sem verða má. En hitt nær ekki nokkurri átt, að bjóða þm. og þjóðinni upp á þá fullyrðingu, að Íslendingar fari einir með framkvæmdina. Þetta er óleyfilegur málflutningur. Eða hvers vegna skyldu Bretar leggja áherslu á það að skylda íslenska varðskipið að kveðja til breskt aðstoðarskip? Það liggur í augum uppi. Þeir vilja hafa aðild að framkvæmdinni og hafa hana skv. textanum.

Hæstv. forsrh. kveðst hafa sérstakan skilning á þessu, og fer vel á því, og er boðað núna að leggja fram frv. til að lögfesta þennan skilning. Og Alþbl. ætlar nú að styðja samkomulagið á skilningi Ólafs. Er í raun og veru verið að hafa þm. að fíflum hér með því að bjóða upp á þessi vinnubrögð? Hvaða gildi hefur það, þó að við samþykkjum eitt eða annað um skilning einhvers manns hér í þinginu? Það skiptir ekki nokkru máli. Ef hins vegar sá háttur hefði verið á að lögfesta þennan ágæta skilning hæstv. forsrh. og leggja hann fram með þessu bráðabirgðasamkomulagi og senda það samtímis til Lundúna, þá væri það annað mál. Þá yrðu Bretar að fallast á þann skilning, sem fram kemur. En það er ekkert gagn að gera einhverja ályktun um stuðning hæstv. forsrh, á þessu. Þetta er hlægilegt og gagnslaust.

En þarna er náttúrlega verið að reyna að brúa það bil, sem erfiðast er í samningunum. Þetta liggur ljóst fyrir. En ég er ekki viss um, að það hafi tekist vel. Það fer eftir því, hve mikið Íslendingar vilja gefa eftir. Með þessu eru þeir að hlaupast frá meginatriðinu þ. e. a. s. að þeir ráði framkvæmdinni og lögsögunni að 50 mílum. Þetta er meginatriðið. Og höfum við nú ekki þá reynslu af viðskiptunum við Breta hér á miðunum, að við ættum að hafa lært af þeirri reynslu að hafa allt á hreinu í samkomulagi af þessu tagi? Ég hygg, að það væri óskemmtilegur vitnisburður fyrir ráðamenn þjóðarinnar, ef hér hæfust von bráðar einhver átök út af skilningi á meintum veiðiþjófnaði bresks togara.

Þó að það kæmi ekki til annað en þetta eina atriði, er ég andvígur þessum samningi. Ég tel, að Íslendingar hafi hvikað svo verulega frá málstað sínum, að þetta sé ótækt. Og ég tek undir það, aldrei þessu vant, því miður, það sem sjálfstæðismenn segja í þessu máli, að þessi samningur er skrattakornið litlu betri en samningurinn frá 1961, því miður. Það var þó í þeim samningi, að lögsagan út að 12 mílum var viðurkennd. En eins og ég sagði s. l. fimmtudag, er ástæðan sú, að nú eru þeir menn, sem gagnrýndu mest samninginn frá 1961, í ráðherrastólunum. Það er ekkert að marka, þó að minn gamli samherji, Hannibal Valdimarsson, segi um þennan samning: „Framkvæmdin er tryggð, ég vil heldur frið en stríð“. Þetta eru stórkostleg rök, sérstaklega hjá þeim manni, sem barðist af einurð gegn samningnum frá 1961. Nú, Karvel Pálmason, minn gamli samherji, lýsti því yfir í Alþýðublaðinu, að hann gæti ómögulega samþykkt þetta samkomulag. Svo réðst hann á mig s. l. fimmtudag fyrir það, að ég skyldi vera gegn þessu, en sjálfur er hann búinn að gefa yfirlýsingu í blaði, að hann sé andvígur samkomulaginu. En það er nú eðlilegt hjá SF, að þetta sé óljóst, hjá þeim, því að þeir berjast bara fyrir einum málstað, þ. e. að leggja sig niður. Það er því ástæðulaust að hafa nokkra trausta skoðun í einu máli eða öðru. Þetta er ólífisflokkur. Sérstaklega er ég undrandi á því að þeir menn, sem börðust heiftúðlegast gegn samningnum frá 1961, skuli ekki hafa reynt að krefjast þess, að Bretar viðurkenndu, að sá samningur væri úr gildi fallinn. Hér er verið að semja ofan í þann samning, sem þessir menn kölluðu landráðasamning 1961. Þetta er reisnin á köppunum.

Ég skal nú ekki að vera að orðlengja þetta, en ég tel, að þetta sé afsláttur. Þetta er frestun, undansláttur, uppgjöf, niðurlæging. Og ég tel þennan samning nauðungarsamning, ég sagði það á fimmtudaginn s. l., saminn með byssukjafta breskra herskipa fyrir utan 60 mílur. Ég tel, að það sé rokið í þennan samning til þess að varðveita aðild að NATO. Forustumenn þjóðarinnar meta meira vestræna samvinnu, eins og þeir kalla það, og aðild að NATO heldur en að standa á rétti þjóðarinnar til þess að koma á 50 mílum, og þá er rokið til í ofvæni, jafnvel þó að Bretar sjálfir, helstu blöð þeirra, eins og Manchester Guardian, The Times o. fl. blöð, hafa viðurkennt, að málstaður þeirra sé tapaður. Ástralíumenn, Ný-Sjálendingar, Kanadamenn o. s. frv. eru að færa út í 200 mílur á næstu árum. Svo voru þessir kappar hér í þinginu, sem töluðu um lögsögu út af 50 mílum, aldrei að hvika, einkamál Íslendinga, lífshagsmunamál Íslendinga. Eftir eitt ár og tveimur mánuðum betur gáfust þeir upp, þegar sigurinn var kominn í greipina. Ekki er vel á málum haldið.

Ég hef leyft mér til þess að reyna að taka fyrir mesta ósómann í þessu samkomulagi með því að bera fram brtt. á þskj. 112, sem hljóðar svo: „Aftan við tillgr. komi: Þó með þeirri breytingu, að í stað orðanna í fskj. I, 6. tölul.: „Sé skip staðið að veiðum í bága við samkomulagið, getur íslenskt varðskip stöðvað það, en skal kveðja til það aðstoðarskip breskt, sem næst er, til að sannreyna málsatvik“. komi: Íslendingar hafi fulla og óskoraða lögsögu að 50 mílna fiskveiðitakmörkunum“. Ég sé ekki betur, en þessi till. mín komi alveg heim við álit forsrh. og Hannibals Valdimarssonar og annarra forustumanna um það, að við höfum alveg eftirlit og framkvæmd að 50 mílum, svo að það er ágætt að staðfesta þetta. Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir, að þetta verði samþykkt.