12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. utanrmn. hefur fjallað um till. þá til þál., sem hér liggur fyrir um heimild fyrir ríkisstj. til að ganga frá bráðabirgðasamkomulagi við ríkisstj. Breta um veiðar breskra togara, og reynist vera algerlega á einu máli um að samþykkja þessa till. Engu að síður gerast þeir furðulegu atburðir, að n. skilar tvískiptu nál. Minni hl. n., fulltrúar Sjálfstfl. skila sérstöku nál., þó að þeir komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu og aðrir nm., og það hefur nú þegar komið í ljós, af hverju þetta undarlega háttalag stafar. Það stafar af því, að þessum fulltrúum Sjálfstfl. er mikið í mun að koma á framfæri árásum á ríkisstj., ekki síst árásum á Alþb.

Hér hefur verið vitnað mikið í það, að við ráðh. og þm. Alþb. og stofnanir okkar flokks höfum lýst óánægju okkar og andstöðu við þann samning, sem gera á við bresku ríkisstj., og menn hafa talið þetta vera með eindæmum, þessi framkoma hafi verið yfirgengileg, slíkt hafi aldrei gerst fyrr í íslenskum stjórnmálum. Ég held, að formaður Sjálfstfl. hafi komist svo að orði, að við Alþb.-menn höfum heitt kommúnistiskri ógnaraðferð, og við höfum fengið að heyra margt annað af þessu tagi. Ekki hef ég neitt á móti því, að hv. þm. Sjálfstæðisfl. haldi áfram að vitna í það, sem við ráðh. höfum sagt, eða það, sem Þjóðviljinn kann að hafa skrifað um þessi mál. Þeim er heimilt að vitna í allt það, sem ég hef um þetta sagt, eins og þeir vilja. En ég hef í sjálfu sér engan áhuga á því að skattyrðast við þá um þá atburðarás, sem hér hefur verið að gerast að undanförnu. Hún á að vera mönnum í fersku minni. Hins vegar finnst mér dálítið athyglisvert þetta sjónarmið, sem kemur fram hjá þeim, að það sé óeðlilegt að gera opinberlega grein fyrir ágreiningi, sem upp kann að koma innan ríkisstj. eða innan flokks. Þeir telja það annarlegt, óeðlilegt, óskynsamleg vinnubrögð.

Þarna er komið að ákaflega veigamiklu atriði, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur í öllum þingræðisríkjum, — atriði, sem hefur orðið æ meira vandamál að undanförnu. Og það er það, hvernig á að taka ákvarðanir, hvernig á að gera grein fyrir afstöðu til stórmála og hvernig á að ræða þau á opinberum vettvangi? Það er uppi krafa meðal almennings um það að opna stjórnmálaumræður miklu meira en gert hefur verið. Fólk er orðið ákaflega þreytt á því háttalagi, að það sé tekist á hak við luktar dyr, en fólkið í landinu fái ekkert að vita um það, sem gerist. En það hefur verið háttur í flestum þingræðisþjóðfélögum að vinna þannig að málum. Þegar flokkar hafa verið saman í ríkisstj., hafa þeir tekist á að tjaldabaki og ekki sagt fólkinu í landinu neitt um það, um hvað er deilt, um hvað er að ræða, en síðan komið fram með einhverja gervieiningu á eftir og sagt: Nú er allt í besta lagi. — Andstaða gegn þessu hefur verið að vaxa um allan heim, eins og menn hafa væntanlega tekið eftir, þeir sem eitthvað hafa fylgst með stjórnmálaþróun, því að afleiðing af þessu háttalagi, þessari leynd, þessari hræðslu við að ræða hlutina opinskátt við almenning, — afleiðing af því hefur orðið sú, að það hefur komið upp vaxandi gjá á milli stjórnmálamanna og almennings. Fólk telur sig verða fjarlægara og fjarlægara stjórnmálamönnunum, og það myndast þarna sívaxandi glufa á milli. Við sjáum þessa þróun, við þekkjum hana hér hjá okkur og við sjáum hana í löndunum umhverfis okkur. Ég þarf ekki annað en minna á ástandið í Bandaríkjunum um þessar mundir, hversu óhemjuleg gjá þar hefur myndast á milli fólksins í landinu og á milli þeirra manna, sem þar eiga að hafa pólitíska forustu, ein mitt vegna þess að þessir pólitísku forustumenn hvorki vildu né þorðu að gera opinherlega grein fyrir sínum málum. Þeir töldu sér henta að taka ákvarðanir sínar að tjaldabaki og í leynum. Og einmitt þetta pukur hefur svo leitt þá til hinna furðulegustu hluta, eins og allir vita, til beinna lögbrota og til þess, að í Bandaríkjunum er komið upp ástand, sem á naumast nokkurn sinn líka.

Hið sama hefur verið að gerast t. a. m. á Norðurlöndum. Menn hafa tekið eftir því, hvað hefur verið að gerast í Danmörku nú að undanförnu. Þar er hreinlega um að ræða pólitíska upplausn. Og þessi pólitíska upplausn stafar alveg tvímælalaust af þessu, að það er orðið of langt bil á milli stjórnmálamannanna og fólksins. Stjórnmálamennirnir eru ekki nógu hreinskilnir. Þeir þora ekki að segja frá því, hvað þeir eru að takast á um. Þeir kjósa heldur að fela sig á bak við luktar dyr. Held ég, að það sé einhver mesta hætta, sem steðjar að þingræðisskipulaginu, ef þetta á að ganga svona áfram. Þá er mjög hætt við því, að þar gætu gerst mjög alvarlegir atburðir.

Við Alþb.-menn erum fylgjandi opnum stjórnmálaumr. og við höfum reynt að miða okkar stjórnmálastarfsemi við það, að stjórnmálaumr. séu opnar og ákvarðanataka fari fram fyrir opnum tjöldum. Við höfum reynt að skipuleggja flokk okkar með tilliti til þessa. Við höfum gert hér sérstakar ráðstafanir til þess, að þar endurnýist menn í áhrifastöðum, við höfum reynt að dreifa valdinu og við höfum reynt að tryggja sem mest samband við óbreytta flokksmenn. Við viljum, að skoðanahópar eigi aðild að stofnunum flokksins, og við viljum hafa þennan sama hátt á í samskiptum við aðra flokka.

Sjálfstfl. er hins vegar ákaflega lokaður flokkur. Þar takast valdaklíkur á bak við luktar dyr án þess að sjá ástæðu til þess að gera fólki grein fyrir því, um hvað er tekist á. Um þetta þekkjum við eitt ákaflega skýrt og einfalt dæmi. Við vitum, að nú um tveggja ára skeið eða lengur hafa tveir af helstu forustumönnum Sjálfstfl., hv. þm. Gunnar Thoroddsen og hv. þm. Geir Hallgrímsson, tekist harkalega á um það, hvor eigi að hafa forustu fyrir þessum flokki. En hvar hefur komið fram ágreiningur þessara tveggja manna? Hafa þeir gert grein fyrir því í Morgunblaðinu eða annars staðar, hvaða málefni það eru, sem þeir heita sér fyrir? Hafa menn séð það nokkurs staðar? Það er síður en svo. Þessi átök fara fram að tjaldabaki, þau eru falin, almenningur má ekki vita um þau, almenningur má ekki taka þátt í þeim átökum. Og hvers vegna er Sjálfstfl. svona lokaður flokkur? Hvers vegna verður hann svona hneykslaður, þegar aðrir leyfa sér að koma fram á opinberum vettvangi og gera grein fyrir ágreiningi um einstök mál? Það er vegna þess, að Sjálfstfl. er tvískiptur í eðli sínu. Hann hefur uppi lýðræðislegt kerfi, hann heldur sína landsfundi, það er kosið þar á eðlilegan hátt í áhrifastöður o. s. frv. En það er einnig annað kerfi í Sjálfstfl., og það er peningakerfið. Ég vænti þess, að margir þm. hafi hlustað á form. Sjálfstfl., hv. þm. Geir Hallgrímsson í beinni línu hér á dögunum. Hann var þar með getsakir um fjármál Alþb., sem lýstu betur drengskap þessa hv. þm., en því málefni, sem hann var að tala um. En hann sagði um fjármál Sjálfstfl., að Sjálfstfl. hefði styrktarmannakerfi. Það er rétt, Sjálfstfl. hefur styrktarmannakerfi. Það gerðist hér í tíð viðreisnarstjórnarinnar, að það var haldin einu sinni á ári vegleg samkoma í ráðherrabústaðnum, þar sem styrktarmönnunum var boðið til veislu til að þakka þeim fyrir þá fjármuni, sem þeir höfðu lagt til flokksins. Þarna komu helstu gróðamenn þjóðfélagsins, ýmsir helstu fjárplógsmenn þjóðfélagsins, og mannvirðingar þeirra voru metnar eftir því, hversu mikið þeir hefðu lagt fram til flokksins. Þarna voru efstir á blaði fulltrúar frá verktakafyrirtæki, sem heitir Sameinaðir verktakar og hefur m. a. það verkefni að tryggja ágóða af hernámsframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli handa einkaaðilum og handa Sjálfstfl. Þessir menn greiða ekki styrki til Sjálfstfl. skv. þessu styrktarmannakerfi af hugsjón, heldur er þetta greiðsla fyrir veitta umbun af hálfu flokksins og trygging fyrir því, að þeir geti haldið áfram gróðaiðju sinni. Og í Sjálfstfl. er þetta peningakerfi miklu sterkara en lýðræðiskerfið. Þess vegna er unnið bak við luktar dyr í Sjálfstfl. Það, sem þar er ákveðið, þolir ekki dagsins ljós, og þess vegna verða forustumenn Sjálfstfl. ákaflega undrandi, þegar aðrir hafa djörfung til þess að skýra frá því fyrir opnum tjöldum, að þá greini á um eitt og annað.

Þetta á ekki aðeins við um Sjálfstfl., heldur einnig um ríkisstj., sem Sjálfstfl. á aðild að. Það var dæmigert, hvernig staðið var að málum í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Þar unnu saman tveir flokkar, Sjálfstfl. og, Alþfl. Þetta eru ákaflega ólíkir flokkar, ekki aðeins að upphaflegri lífsskoðun, heldur einnig voru þeir það, þegar þeir byrjuðu samstarf sitt. Þeir reyndu að halda því fram, að í þeirri ríkisstj., gerðist ekki neitt nema í fullri einingu. Við, sem fylgdumst með, vissum miklu betur. Við vissum, að það kom ákaflega oft upp mjög harkalegur ágreiningur í þessari ríkisstj. En stefnan var sú, að um þetta mátti þjóðin ekkert fá að vita, þetta átti allt saman að gerast að tjaldabaki. Fólkið sem kaus Alþfl., og fólkið, sem kaus Sjálfstfl., mátti ekkert vita um þessi vandamál, og hvernig úr þeim yrði leyst. Þetta er að sjálfsögðu fyrirlitning á lýðræðislegum vinnubrögðum. Þeir héldu, þessir tveir flokkar, að þeir mundu styrkjast á þessu, og kannske styrktust þeir á þessu fyrst í stað. En síðan urðu þessi vinnubrögð að alvarlegum veikleika, og það hitnaði sérstaklega á minni flokknum, Alþfl., sem aldrei mátti skýra frá því, hvers vegna hann hefði látið undan, og aldrei mátti skýra frá því, hvernig honum tókst þrátt fyrir allt að ná málum fram. Afleiðingarnar komu skýrt fram í síðustu kosningum. Það kom greinilega í ljós, að fólkið í landinu leit orðið á Alþfl. og ekki síst formann hans, hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason, sem halaklepp af Sjálfstfl., og hann galt meira afhroð en nokkur íslenskur flokkur hefur goldið í kosningum.

Núverandi ríkisstj. hefur tekið upp önnur vinnubrögð á þessu sviði. Það kom þegar fram í málefnasamningi ríkisstj. Í honum var t. a. m. tekið fram, að þeir flokkar sem að stjórninni stæðu, hefðu mismunandi afstöðu til aðildar Íslands að Atlantshafshandalaginu. Og það voru rekin upp mikil hróp af forustumönnum Sjálfstfl. og Morgunblaðinu, þegar þeir sáu þetta. Þeir töldu þetta firn mikil, að menn skyldu viðurkenna það opinberlega, að þeir væru ósammála um jafnveigamikið atriði og þetta, og það væri ekki hægt að standa saman að ríkisstj., ef menn hefðu ekki hreina skoðun á þessu máli. Við höfum rætt ýmis ágreiningarefni fyrir opnum tjöldum, síðan þessi ríkisstj. var mynduð. Við höfum gert grein fyrir þeim ágreiningi, sem upp kom í okkar röðum í sambandi við gengislækkunina á s. l. ári. Við höfum gert grein fyrir ágreiningi, sem upp kom hjá okkur um það, hvernig við skyldi brugðist, þegar hin miklu áföll dundu á í Vestmannaeyjum. Og það hefur verið ágreiningur um meðferð landhelgismálsins, ekki aðeins nú að undanförnu, heldur einnig áður, m. a. skiptar skoðanir um það, hvernig ætti að bregðast við hugmyndum að senda fulltrúa til Haag. Um þetta hefur þjóðin öll fengið að vita.

Að mínu mati er þetta ekki veikleiki, heldur mikill styrkur. Vissulega hefur þetta gefið Sjálfstfl. og Morgunblaðinu tækifæri til þess að henda þennan ágreining á lofti og nota hann á þann hátt, sem þessir aðilar heita í stjórnmálabaráttunni. Ég held, að menn eigi ekki að gleyma því, að haustið 1971 birtist boðarðalisti frá ungum sjálfst.- mönnum um baráttuaðferðir Sjálfstfl. 15. boðorðið hljóðaði svo orðrétt: „Ala jafnt og þétt á innbyrðis tortryggni vinstristjórnarflokka og stuðningsmanna þeirra.“ Þetta eru þau vinnubrögð, sem farið hefur verið eftir af Sjálfstfl. Og Sjálfstfl. hefur ímyndað sér, að þegar við höfum verið það hreinskilnir að gera grein fyrir ágreiningi í okkar röðum, þá væri hægt að nota þetta til að egna okkur, stuðningsmenn stjórnarinnar, upp hvern gegn öðrum. Aðferðin hefur verið vinnubrögð rógsins, sem Íslendingar hafa alltaf fyrirlitið hvað mest, eins og bókmenntir okkar eru gleggst sönnun um. Þessu verður að taka. Og það þarf raunar ekki mikla mannsparta til þess að taka vinnubrögðum af þessu tagi. Ef við, sem að núv. ríkisstj. stöndum, ættum að framkvæma þau ætlunarverk, sem við höfum tekið að okkur, þá hljótum við að hafa manndóm og drengskap til þess að standa af okkur þær árásir, sem lágkúrulegastar eru, ögranir, skjall og níð til skiptis um tiltekna forustumenn, þær Leitis-Gróu aðferðir, sem Sjálfstfl. og Morgunbl. beita dag hvern.

En í þessu sambandi er þetta algert meginatriði og til skýringar á þeim umr., sem hér hafa farið fram í dag, að hér er um að ræða grundvallarágreining um það, hvernig á að haga stjórnmálastarfsemi, hvernig á að taka pólitískar ákvarðanir hvort það á að vera frammi fyrir fólkinu í landinu með þátttöku þess eða bak við luktar dyr.

Ég þarf ekki að endurtaka það, sem sagt hefur verið um afstöðu okkar Alþb.-manna til landhelgissamninganna, sem hér eru til umræðu. Þá afstöðu þekkja allir, og skoðanir mínar á þeim samningi, hafa ekki breyst vitundarögn. Hitt skulum við muna í því sambandi, að ef núv. stjórnarflokkar hefðu ekki unnið sigur sinn 1971, hefði landhelgin ekki verið stækkuð, þá væri landhelgin enn 12 mílur, og þá væri ekki um það að deila að semja um eitt eða neitt af veiðum utan 12 mílnanna.

Við getum einnig fagnað því, að það var ekki Sjálfstfl., sem átti kost á því að gera samning við Breta. Ég hygg, að margir muni eftir því, að 4 dögum eftir að landhelgin var stækkuð kom grein í Morgunblaðinu eftir formann Sjálfstfl., þar sem hann bar fram þá kröfu, að samið yrði tafarlaust við Breta, vegna þess að það bæri sáralítið á milli. Því var sem sagt lýst yfir í Morgunblaðinu, að það væri hægt að fallast á kröfur Breta um veiðar innan 50 mílna landhelginnar með sáralitlum breytingum, eins og þær voru þá. Og hvers konar samningar hefðu það orðið í samanburði við þann, sem nú er verið að gera? Þessi afstaða Sjálfstfl. hefur auðvitað veikt aðstöðu okkar til allrar samningsgerðar við Breta í þessari deilu. Og það er fleira, sem hefur veikt samningsaðstöðu okkar, þ. á m. hinar sífelldu ferðir forustumanna Sjálfstfl. og þ. á m. formanns Sjálfstfl. til aðalstöðva NATO í leyniviðræður, sem aldrei hafa verið gefnar neinar skýrslur um.

En sem sagt, um þennan samning sjálfan þarf ég ekki að ræða, það hefur verið gerð ítarleg grein fyrir afstöðu okkar til hans, og er óþarfi að endurtaka það. Engu að síður langar mig til að víkja að einu grundvallaratriði, sem fram kom í ræðu hv. þm. Bjarna Guðnasonar og raunar hefur komið fram í öðrum ræðum, og dagblaðinu Vísi, þegar borinn er saman þessi samningur og samningurinn frá 1961. Mér finnst röksemdafærsla hv. þm. Bjarna Guðnasonar um það atriði vera eitt með því afglapalegasta, sem ég hef heyrt hér á Alþingi. Við skulum muna eftir því, að landgrunnslögin frá 1948, sem samþykkt voru einróma hér á Alþingi, hafa til þessa verið grundvöllur okkar í allri landhelgisbaráttunni. Með þeim l. þá tókum við okkur rétt, lýstum yfir rétti okkar til alls landgrunnshafsins. Við vissum vel, að við voru ekki menn til að ná þeim rétti í raun þá, en við lýstum yfir, að þetta væri réttur okkar, og þá var það grundvallaratriði, að frá þessum rétti yrði ekki hvikað.

Þegar samningarnir voru gerðir 1961, voru þeir í tveimur hlutum. Það var gerður samningur um veiðiheimild til Breta innan 12 mílna, og það var vel hægt að fella sig við þann samning. En það var gerður viðbótarsamningur. Og viðbótarsamningurinn kvað svo á, að Íslendingar mættu ekki stækka landhelgina út fyrir 12 mílur nema með leyfi Breta og V.-Þjóðverja eða eftir úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag. Með þessum samningi var verið að rjúfa lögin frá 1948. Það var verið að svíkja ákvæði þeirra. Það var verið að lýsa yfir því, að landgrunnshafið utan 12 mílna væri ekki eign Íslendinga, eins og áður hafði verið tiltekið í íslenskum lögum, heldur orðið alþjóðahaf. Þarna var um að ræða mjög alvarlegt afsal landsréttinda, sem við beittum okkur réttilega mjög harkalega á móti. Og þetta var meginástæðan til þess, að við snerumst þannig við þeim samningum, að við heimtuðum m. a. um þá þjóðaratkvgr., vegna þess að þegar verið er að gera samninga, sem skerða réttargrundvöll þjóðarinnar, þá á þjóðin heimtingu á að fá að greiða um það atkvæði í almennri atkvgr.

Í þeim samningum, sem nú verða gerðir, er ekki um neitt slíkt að ræða, heldur algerlega gagnstætt. Við eigum mjög auðvelt með að gagnrýna ákvæði þessara samninga og benda á, að Bretar fá þarna miklu meiri réttindi en við höfum kosið. En við skulum einnig líta á þessa samninga frá dálítið stærri sjónarhóli. Hvað er að gerast með þessum samningum? Það er að gerast, að breska ríkisstj. sér sig til knúna til að semja um það við íslendinga, hvernig bresk skip megi haga veiðum sínum innan 50 mílna umhverfis Ísland. Breska ríkisstj. verður að undanskilja frystiskip og verksmiðjutogara. Breska ríkisstj. verður að skera niður 30 togara af öðru tagi, þ. á m. 15 þá stærstu. Breska ríkisstj. verður að virða ekki aðeins friðunarsvæði, heldur viss bátasvæði. Og breska ríkisstj. verður að fallast á að haga veiðum sínum eftir hólfum, sem að vísu aðeins eitt er lokað í senn, en engu að síður, hún verður að færa sig eftir tilteknum dagsetningum.

Hvað merkir samningur af þessu tagi? Auðvitað merkir hann raunverulega, de facto, viðurkenningu Breta á landhelgi okkar. Bretar mundu aldrei láta sér til hugar koma að gera slíkan samning, ef þeir teldu, að um alþjóðahaf væri að ræða. Með þessum samningi eru þeir að lýsa yfir, að þeir virði landhelgi okkar í raun. Þegar þeir segja, að þetta sé ekki lögfræðileg viðurkenning, þá er það náttúrlega rétt. En það er ekki annað en gaspur. Með því að semja við okkur um það, hvernig þeir megi veiða innan 50 mílnanna, eru þeir að viðurkenna landhelgina. (Gripið fram í). Þetta er tveggja ára samningur, þar sem þeir semja um það við Íslendinga, hvernig þeir megi veiða innan 50 mílna. Eftir tvö árin höfum við sjálfsagt einir allan rétt á þessu svæði, nema Sjálfstfl. komist að völdum, þá breytast náttúrlega viðhorfin á svipstundu, af því við höfum stórfellda reynslu. Þá fáum við svipaðan samning og 1961, þar sem Bretum verður afhentur lögsöguréttur yfir svæði, sem við teljum okkur hafa einkarétt á.

Þetta er vitanlega meginatriði þessara samninga, að í þeim er fólgin mjög stórfelld, raunveruleg viðurkenning á landhelgi okkar. Í samanburði við það eru þau atriði, sem ágreiningur er um, minni háttar, — í samanburði við þetta stórfellda atriði. Ég var að sjálfsögðu samþykkur þjóðaratkvgr. um samninga 1961, vegna þess að þeir fólu í sér skerðingu á sjálfstæði okkar. En það er móðgun við heilbrigða skynsemi og dómgreind að telja þennan samning slíka skerðingu. Hann er það ekki, heldur er hann aukning á yfirráðarétti okkar. Og ég á þess vegna ákaflega auðvelt með að greiða atkv. gegn þessari brtt. hv. þm. Bjarna Guðnasonar.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með þessari till., sem ríkisstj. flytur, og ég vil taka það skýrt fram í tilefni af því, sem menn hafa sagt hér, að með því að greiða atkv. er ég að taka á mig nákvæmlega sömu ábyrgð og hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson og aðrir ráðh. Ágreiningur um málið hefur verið skýr, og við höfum verið hreinskiptnir í samskiptum um þetta, en í þeim deildum felst engin tilraun til þess að firra mig þeirri ábyrgð, sem ég hef á mig tekið.

Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hélt því fram í ræðu sinni hér áðan, að við Alþb-menn hefðum gert landhelgismálið og hernámsmálið að einhverjum verslunarvarningi. Ég vil taka það skýrt fram, að þetta er uppspuni með öllu. Við höfum alltaf lagt á það mikla áherslu, að hér er um tvö aðskilin mál að ræða og verður ekki samið um annað á kostnað hins. Við Alþb.-menn höfum aldrei litið á landsréttindi sem verslunarvöru, hvorki pólitíska verslunarvöru né verslunarvöru, þar sem hægt er að reikna andvirðið í dollurum eða krónum. Þessi mál eru algerlega aðskilin.

Út af fsp., sem þessi hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, beindi til hæstv. forsrh., — ég ætla að vísu ekki að fara að taka ómakið af hæstv. forsrh., — vil ég mjög gjarnan taka skýrt fram, að það hefur ekki af okkar hálfu verið farið fram á neinar yfirlýsingar frá hæstv. forsrh., hvorki nú né áður, um neitt annað en það, sem öll þjóðin þekkir og hefur verið gert fyrir opnum tjöldum. Ákvæði málefnasamningsins um það, að herinn eigi að fara burt af Íslandi í áföngum og að því skuli stefnt, að þeim brottflutningi verði lokið á kjörtímabilinu, — þetta ákvæði þekkja allir. Þetta ákvæði hafa menn heyrt, frá því að stjórnin var mynduð og það hefur ekki verið um að ræða neinar aðrar yfirlýsingar um það alla tíð, sem við höfum rætt þetta mál, en að við þetta verði staðið. Og ég vil mjög gjarna lýsa yfir því, að ég er ekki í neinum vafa um það, að allir þm. stjórnarflokkanna munu líta á það sem drengskaparskyldu sína að standa við þetta fyrirheit.

Það hefur komið fram í ræðum manna, að ágreiningur um bráðabirgðasamninginn hafi veikt ríkisstj. Ég held, að þessu sé öfugt farið. Ég held, að við höfum gengið í gegnum talsverða eldraun þessa daga, og ég held, að við höfum styrkst við þessa eldraun. Ég hef a. m. k. orðið ákaflega áþreifanlega var við, að það er mjög einhuga afstaða vinstri manna um allt land og raunar ekki aðeins vinstri manna, heldur einnig manna, sem kosið hafa Alþfl. og Sjálfstfl., að þeir óska mjög eftir því, að þessi ríkisstj. haldi áfram störfum. Ég er þeirrar skoðunar, að við komum út úr þessari eldraun samstæðari og traustari en við höfum verið áður, einmitt vegna þess, að við höfum haft djörfung og manndóm til þess að ræða vandamál okkar fyrir opnum tjöldum. En mér er forvitni á að vita, hvernig Sjálfstfl. kemur út úr þeirri eldraun, sem hann er nú búinn að standa í meir en tvö ár.