12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég held, að það megi leita lengi að jafnundarlegri ræðu og þeirri, sem verið var að ljúka hér áðan. Ég held, að þó að sami maðurinn hafi flutt þessa ræðu, hafi þurft a. m. k. fjóra persónuleika til þess að leggja efni til í ræðuna, svo oft fór hann í gegnum sjálfan sig. Ég get ósköp vel skilið eftir alla þá eldraun, sem átt hefur sér stað í heimilislífi Alþb. að undanförnu, að taugar þessa hæstv. ráðh. séu ekki upp á það allra besta. Og hann getur ekkert að því gert. Maður verður auðvitað að finna til með mönnum, sem eru lasnir, hvort sem það er til líkama eða sálar. Langur kafli þessarar ræðu fjallaði um það, á hvern hátt Sjálfstfl. efndi til veisluhalda. Og hann hreinlega laug því, þessi hæstv. ráðh., að Sjálfstfl. hefði á viðreisnarárunum haldið veislu fyrir styrktarmenn sína í ráðherrabústaðnum. Ég hef oft komið í þessa tveggja tíma veislu, sem haldin hefur verið. Hún hefur aldrei verið haldin í ráðherrabústað, og hún hefur ekki endilega verið miðuð við það, að flokkurinn væri í stjórnaraðstöðu, hún hefur alveg jafnt verið haldin, þótt flokkurinn hafi verið í stjórnarandstöðu. Hitt get ég skilið, að Alþb. og þessi hæstv. ráðh. sé kannske nokkuð öfundsjúkur yfir því, að sjálfstæðismenn skuli koma saman einu sinni á ári, en þeir í Alþb. ná ekki til sinna stuðningsmanna af þeirri einföldu ástæðu, að þeir munu flestir hverjir vera erlendis og erfitt til þeirra að ná.

Það er gömul saga um mann, sem hafði framið afbrot og þurfti að beina athyglinni í aðra átt, — mann, sem varð á að stela smávegis, það var ekki stórt, og var farið að elta hann. Hann hljóp í aðra átt og kallaði: Grípið þjófinn. — Og auðvitað litu allir í þá átt, sem hann benti. Það er þannig með suma menn, þegar þeir eru komnir í mikla erfiðleika, þegar þeir hafa gersamlega orðið að snúa öllum staðreyndum við og standa uppi málefnasnauðir og allsberir, ekki spjör til þess að skýla þeirra málefnafátækt, þá grípa þeir til þessa sama ráðs, eins og pörupilturinn gerði, sem ég nefndi hér áðan.

Þessi hæstv. ráðh. sagði: Það vita allir, hver afstaða mín er, og hún er óbreytt. — Það vita allir, hver afstaða Magnúsar Kjartanssonar og Alþb. var í októbermánuði, eftir að forsrh. kom heim. Hún var sú, að um tillögur Breta, sem hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson flutti hingað heim frá þeim fræga íhaldsmanni Mr. Heath, sögðu Þjóðviljinn og hv. síðasti ræðumaður: Tillögur Breta reyndust vera úrslitakostir. Ég er með úrklippu hér úr Þjóðviljanum. Og þetta er 18. okt. Svo segir hann: Það vita allir, hverjar mínar skoðanir hafa verið í þessu máli, og mín afstaða er óbreytt. — Og svo rétt áður en hann lýkur máli sínu segir hann: Ég ætla að greiða atkv. með úrslitakostum Mr. Heaths. Ég ætla að liggja hundflatur fyrir breska íhaldinu og breska ljóninu. — Svo segist hann vera með alveg óbreytta afstöðu til málsins. Það er orðið erfitt að skilja suma menn og þ. á m. þennan hæstv. ráðh. Þetta er greindur og gegn maður, en greindir menn geta líka orðið óskiljanlegir. Skal ég svo ekki eyða lengri tíma að þessari ræðu.

Hér liggja fyrir tvö nál. í þessu máli. Annars vegar er nál., sem er ákaflega stutt. Ég verð að segja það, að stuðningsflokkar stjórnarinnar og Alþfl., sem hefur, frá því að þessi ríkisstj. var mynduð, verið oftast nær á rúmstokknum hjá þessari stjórn, þeir skila hér nál., sem er hálf önnur lína: „Undirritaðir nm. mæla með því að till. verði samþ. óbreytt.“ Ég hefði nú talið, að í stórmáli eins og þessu hefði átt að vera í þingsögunni eitthvað skráð um þetta mál, um gang málsins, annað eins hefur komið fram í þskj. þeirra manna, sem undir þetta nál. skrifa. Þeir hafa margir hverjir verið ósparir fyrr á árum að tala og skrifa, og þá á ég síst við frsm. n. og þó jafnvel allra helst form. n., sem talaði hér meira en flestir aðrir þm., til samans í 12 ár, en hefur eiginlega ekki látið heyra í sér, síðan núv. ríkisstj. var mynduð. En til þess að ekki valdi neinum misskilningi, tek ég fram, að ég á hér við Þórarin Þórarinsson aðalritstjóra Tímans. Hann hefur verið algerlega mállaus, síðan þessi ríkisstj. kom að völdum.

Nál. fulltrúa Sjálfstfl. í utanrmn. hefur verið gert að umræðuefni af hv. 2 þm. Reykv. og sömuleiðis af hinum nm. flokksins í utanrmn. hv. 1. þm. Reykn. Ég get verið sammála þeim um margt í því nál., en þó kemst ég ekki að sömu niðurstöðu og þeir í sambandi við afstöðu til þessa máls. Að vísu segir í nál., að einstakir þm. Sjálfstæðisfl. geti ekki fellt sig við þessa till., eins og hún liggur hér fyrir, og er mér bæði mjög ljúft og skylt að segja í upphafi, áður en ég fer að ræða það, að ég tel mér heiður að því að vera einn í þeim hópi, sem mun greiða atkv. á móti þeim vanskapnaði, sem hér liggur fyrir. Skal ég síðar koma að þessu.

Í hinum margumtalaða stjórnarsáttmála, sem hæstv. forsrh. hvatti okkur þm. til þess að lesa bæði kvölds og morgna, — ég hugsa, að það séu nú flestir hættir að lesa hann bæði kvölds og morgna og kannske sumir lesi hann ekki einu sinni í viku og kannske sjaldnar, — en í þessum stjórnarsáttmála segir um landhelgismálið, að ríkisstj. muni um landhelgismálið hafa samráð við stjórnarandstöðuna og gefa henni kost á að fylgjast með allri framvindu málsins. Ég ætla ekki að þreyta menn á því að fara að rifja í öllum smáatriðum upp hvað gerst hefur í landhelgismálinu, það hafa aðrir gert á undan mér, en hins vegar get ég ekki látið hjá líða að stikla aðeins á því helsta.

Þegar náðist samkomulag hér á Alþingi um till. um útfærslu landhelginnar í 50 mílur, sem samþ. var með 60 shlj. atkv., var því lýst yfir af ríkisstj. eða talsmönnum stjórnarliðsins, að náið samstarf skyldi verða haft við stjórnarandstöðuna um framkvæmd þessa máls. Ég fyrir mitt leyti, hef ekki orðið var við, að það hafi verið staðið við þetta fyrirheit. Ég veit ekki annað en að 3 ráðh. hafi talað hvað eftir annað við lafði Tweedsmuir og hennar föruneyti, án þess að stjórnarandstaðan hafi nokkuð verið þar höfð með í ráðum. Ég veit ekki til, að þau sáttaboð, sem Íslendingar hafa boðið, hafi verið borin undir stjórnarandstöðuna. A. m. k. veit ég ekki til þess, að það hafi verið borið undir Sjálfstfl. Alþfl. getur vel svarað fyrir sig. Í öll þessi skipti, sem hér hefur verið rætt við erlendar þjóðir, hefur stjórnarandstöðunni ekki verið tilkynnt, fyrr en kannske hálfum mánuði eða þremur vikum eftir á, hvernig málin hafa staðið. Þetta er ekki að standa við stjórnarsáttmálann frekar en svo margt annað. Svo kemur hæstv. forsrh. hér á, fimmtudaginn og segir, að það hafi verið einróma eining Alþ. um málið, síðan Alþ. ákvað útfærsluna í 50 mílur með 60 atkv., þeir, sem þá einingu ryfu, ynnu ekki gott verk. Við ætlum nú að rjúfa þá einingu. Þá er ég sennilega einn í þeirra hópi, sem eru að vinna mjög slæmt verk, af því að ég vil ekki taka og éta ofan í mig þá till., sem forsrh. Íslands kemur með frá forsrh. Bretlands. Þá vinnur maður ekki gott verk. En það eru aðrir, sem eru kokvíðari og hafa sporðrennt stærri bitum en ég treysti mér til.

Það hefur ekki staðið á núv. hæstv. stjórnarsinnum að ræða um samninginn frá 1961 og láta að því liggja, að þá hafi verið framin landráð. Ég minnist þess, að boðberar frelsis, sem héldu hæst kyndli frelsisins, töluðu ekki þannig fyrir síðustu kosningar eins og þessi samningur segir til um. Ég man bara eftir úr mínu eigin kjördæmi, hvað þeir héldu frelsiskyndlinum hátt á loft. Þá hefði ekki verið sagt, að það ætti eftir að ske friðarins vegna að liggja hundflatir fyrir Bretum. Og þar gekk enginn lengra en fyrrv. sálufélagi og flokksbróðir Bjarna Guðnasonar, Hannibal Valdimarsson. Skal ég koma nánar að því síðar.

Við skulum líta aðeins á samninginn frá 1961, á þennan landráðasamning, sem þeir hafa mest talað um í öll þessi ár. Hvað gerðist þar? Það var vinstri stjórn, sem færði landhelgina út 1. sept., en hún var hlaupin frá í des. Þarna er einn af þeim, sem köstuðu sér fyrir borð, hlupu frá öllu saman. Af hverju? Það var ekki út af landhelgismálinu, það var vegna þess, að efnahagsmálin voru komin í mestu óreiðu, þau voru komin í sjálfheldu, alveg eins og þau eru komin núna. Það er ekkert eftir nema hlaupa frá núna, þau eru komin þannig. Það má aldrei hleypa sumum mönnum að því, sem heita peningar. Þess vegna er komið sem komið er. Og það er þetta, sem greindir menn í þessu stjórnarliði sjá og vita, hvað er fram undan, þó að séu þar menn, sem ekkert skilja. Hvað gerðist, þegar þessi samningur var gerður? Þá var gerð sú breyting frá útfærslunni 1. sept. 1958, að landhelgin var með samningi við Breta stækkuð um hvorki meira né minna en 5065 ferkm. Um það náðist samkomulag. Það hafði mikið að segja á svæðinu út af Húnaflóa að stækka landhelgina vegna breytinga á grunnlínupunktum um rúmlega 970 ferkm. Það hefur líka mikið að segja út af Vestfjörðum að stækka landhelgina um 1030 ferkm. Það hafði líka mikið að segja að gera breytingu hér í Faxaflóa og stækka landhelgina um 860 ferkm. Og það hafði mjög mikið að segja að stækka landhelgina í nánd við Vestmannaeyjar um 2200 ferkm. Þetta skiptir verulegu máli.

Svo ætla ég að koma að veiðiheimildum Breta, sem voru samkv. þessum samningi í 3 ár. Þegar ákvæðið um heimild Breta til veiða milli 6 og 12 mílna er athugað, verður að taka tillit til þriggja atriða, sem þá skiptu meginmáli.

1) Grunnlínubreytingarnar, sem ég hef áður getið um.

2) Þau svæði, sem algerlega eru undanskilin og bresk skip gátu aldrei stundað veiðar á.

3) Hinn takmarkaði tími á hverju ári, sem veiðarnar voru leyfðar.

Þetta er töluvert annað eða það, sem er boðið upp á nú í þessum samningi.

Á svæðinu frá Horni að Langanesi var gerð mikilvæg grunnlínubreyting á Húnaflóa, og enn fremur var svæðinu milli Grímseyjar og lands öllu lokað. Sama gilti um svæðið umhverfis Kolbeinsey, en þar var oft mikið magn af smáfiski. Um þriggja ára skeið eða meðan samningstímabilið stóð var breskum skipum hins vegar leyft að stunda veiðar annars staðar á þessu svæði á milli 6 og 12 mílna, en þó aðeins 4 mánuði á ári hverju á tímabilinu júní-september, þannig að samanlagður tími þeirra innan 12 mílna markanna var eitt ár, þó að samningstímabilið tæki þrjú ár. En nú í þessum samningi, sem um er að ræða, eru veiðar breskra togara leyfðar umhverfis allt landið upp að 12 mílum, að undanskildu hafsvæðinu frá Bjargtöngum að Horni, þar að 20 mílum og á meginhluta Austfjarðasvæðisins að 20 mílum, að undanskildum tveimur mánuðum. M. ö. o.: það eru öll svæði opin í 10 mánuði á ári eða samtals 20 mánuði, á móti einu ári, eins og þessi svæði, sem ég var að nefna hér áðan á samningstímabili, sem tók 3 ár.

Á veiðisvæði Austfjarðabáta frá Langanesi að Meðallandssandi hafði grunnlínubreytingin sunnan Langaness mikla þýðingu. Fyrir Austfjörðum og Suðausturlandi voru veiðar breskra skipa leyfðar milli 6 og 12 mílna misjafnlega langan tíma á tímabilinu maí til desember. Samanlagt var þessi tími 2 ár. En vegna grunnlínubreytingarinnar var verulegur hluti svæðisins á milli 6 og 12 mílna utan við núverandi 12 mílna mörk. Á miðsvæðinu milli Glettinganess og Setuskers við Reyðarfjörð voru veiðar breskra skipa leyfðar á milli 6 og 12 mílna í 6 mánuði á ári hverju, mánuðina janúar til apríl og júlí og ágúst. Og samanlagður tími á þessu svæði var 11 ár. Á syðsta svæðinu, sem nær frá Setuskeri að Meðallandsbug, var breskum skipum heimilað að veiða milli 6 og 12 mílna í 5 mánuði, mars til júní.

Þegar komið var að svæðinu frá Mýrnatanga austan við Vestmannaeyjar, var breskum skipum heimilað að veiða í 5 mánuði á ári, apríl til ágúst. En þegar komið var að miðunum umhverfis Vestmannaeyjar og Selvogsbanka, þá gætti fyrst hinnar stórkostlegu breytingar, sem gerð var á grunnlínunum. Fengust við það 2200 ferkm, og var breskum skipum heimilað að veiða á þessu svæði á tímabilinu mars til maí á ári hverju um 3 ára bil. Samanlagður tími á því svæði nam því samtals 9 mánuðum á þessum þremur árum.

Frá Geirfugladrangi að Bjargtöngum hafði grunnlínubreytingin mikið að segja fyrir veiðar í Faxaflóa og á Breiðafirði. Þar voru þrjú svæði algerlega lokuð til verndar þorsknetaveiðum: í fyrsta lagi út af sunnanverðum Faxaflóa, í öðru lagi út af Snæfellsnesi og í þriðja lagi út af Breiðafirði. Öll voru þessi svæði og eru þýðingarmikil vegna þorskanetaveiða. Utan þessara lokuðu svæða var breskum skipum heimilað að stunda veiðar á milli 6 og 12 mílna um 3 ára skeið á tímabilinu mars til maí eða samanlagt í 9 mánuði.

Svo kemur loks svæðið undan Vestfjörðum frá Bjargtöngum að Horni. Þar var breskum skipum bannað að veiða innan 12 mílna marka. Því svæði var algerlega lokað með þessum landráðasamningi, sem oft hefur verið kallaður svo.

En hvað er aftur nú með þessi hólf? Hvernig er því varið nú í sambandi við afgreiðslu á þessu máli, sem hér liggur fyrir til umr? Jú, Lúðvík Jósepsson og Einar Ágústsson og Magnús Torfi lögðu fram síðast í vor samkomulagsgrundvöll við „lafðina“ margumtöluðu, þar sem þeir skiptu veiðum í 6 svæði umhverfis Ísland, og ég hef alltaf furðað mig á því, hvernig þessi svæði urðu til. Í raun og sannleika er eitt svæðið svo lítils virði, að það tók ekki að kalla það svæði. Það svæðið, sem þeir merktu E, þegar þeir fóru með þetta á fund lafðinnar. Það er svæðið frá Melrakkasléttu og austur fyrir Vopnafjörð. Stærsti hlutinn af þessu svæði er friðað svæði í mánuðunum apríl til júní, en lítill hluti er aftur opinn. Þeir lögðu til, að öll þessi svæði yrðu opin í 8 mánuði á ári, en lokuð í 4. Þetta eina svæði ætti í raun og veru að vera annað hvort með Austfjarða- eða Norðurlandssvæðinu, því að hér er ekki um nema sáralitla veiði breskra togara að ræða. En það kannske fer betur á því, þegar sagt er, að nú skuli loka í tvo mánuði, að mega loka þessu litla svæði, sem litla sem enga þýðingu hefur. Það má því segja, að allt sé opið fyrir Breta, — opið í báða enda eins og stjórnin.

En ef við lítum nánar á þessi svæði, þessi hólf, sem kölluð eru, þá vitum við það og þekkjum það vel, og það veit hæstv. sjútvrh. vel, að þar kemur fyrst og fremst ágengni breskra togara á tvö svæði. Í fyrsta lagi er svæðið, sem merkt er A, svæðið frá Bjargtöngum að Horni, svæðið, sem í samningnum 1961 var undanskilið, þar sem Bretum var ekki leyft að veiða, ekki einn einasta fisk innan 12 mílna. Þangað á nú að hleypa togurunum í 10 mánuði á ári í tvö ár. Það á að undanskilja 2 mánuði eins og önnur svæði að 20 mílum. Ríkisstj., sem stóð að samningunum 1961, viðurkenndi fullkomlega sérstöðu þessa svæðis.

Við vitum það, að við þá þróun, sem hefur orðið í landhelgismálunum, þegar landhelgin var færð út úr 3 mílum í 4 mílur, þegar lokað var fjörðum og flóum hér syðra, þegar landhelgin var færð út í 12 mílur, þá fengu fiskimenn á þessu svæði, þegar fært var út úr 3 mílum í fjórar, aðeins þessa 1 mílu, þegar fært var úr 4 mílum í 12, þá fengu þeir aðeins 2 mílur. Grunnlínupunktar breyttust ekki, það gerir legan á þessum skaga. Þess vegna var tekið fullt tillit til þess við þessa samninga, sem nú hefur ekki verið gert. En í vaxandi mæli er nú stefnt að því, að Bretar veiði sem mest á þessu tiltekna svæði. Ég þori að ábyrgjast, að það er ekki fjarri sanni að segja það, eftir að þessi samningur er orðinn að veruleika, að þá muni breskir togarar sækja um 50–55% af þeim afla, sem þeir veiða innan 50 mílna, á þetta svæði. Ég þori að fullyrða það. Mér þætti gaman að sjá hæstv. sjútvrh. koma með kenningu, sem afsannaði það, að þetta væri nærri sanni.

Svæði, sem fer næstverst út úr þessu, er Austfjarðasvæðið, D-svæðið, en það er ekkert nálægt því jafnstórt eða vegur jafnmikið og þetta svæði, sem ég var að nefna hér áðan.

B-svæðið frá Bjargtöngum og suður að Vestmannaeyjum hefur nokkuð að segja á tilteknu tímabili, sérstaklega fyrir mánuðina mars og apríl, þá er það mjög illt, að breskum togurum sé hleypt inn á þetta svæði.

Á árinu 1959 var aflamagn á Vestfjörðum komið niður í 12,2% af heildaraflamagni á landinu, þá var útgerðin þar algerlega að gefast upp. Bátarnir voru seldir í burtu hver af öðrum vegna þess, að við þær aðgerðir, sem áður voru gerðar í landhelgismálinu af eðlilegum ástæðum við það að loka fjörðum og flóum, þá sóttu erlend veiðiskip mest á þetta svæði og hreinlega skröpuðu upp fiskinn á miðum bátanna. En þannig hagar til á þessu svæði, að flest fiskimiðanna eru utan við 40 mílur á vetrarvertíð hjá stóru bátunum, svo að það kemur að litlu gagni, þó að útfærslan sé 20 mílur, nema þá á tilteknum tímum árs fyrir hina smærri báta, og þarf auðvitað að meta það.

En hvað hefur svo skeð síðan 1959? Það fer að lagast, þegar svæðið var friðað innan 12 mílna fyrir erlendum veiðiskipum. Það fer að hyggjast upp aftur útgerð á öllu þessu svæði. Og á síðustu vetrarveríð var landað á Vestfjörðum 21800 lestum af fiski, bæði af togurum og bátum, og um 98% af þessum afla var í 1. flokki og frystur að stærstum hluta í neytendapakkningar fyrir Ameríkumarkað, enda eru Vestfirðingar, sem eru um 4,7% af þjóðinni, nú með 26% af heildarframleiðslunni miðað við magn, en hærri, ef miðað er við verðmæti, að undanskildum loðnuafla. Hvað verður, þegar togurunum verður aftur hleypt inn 10 mánuði á ári? Ætla þm. Vestf. virkilega að gleypa þetta í einu lagi? Ætla þeir að svíkja það fyrirheit, sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar, þegar þeir þá voru að biðla til kjósenda um að kjósa sig, því að engir menn væru harðari í landhelgismálinu og mundu standa betur og fastar á rétti vestfirskra sjómanna en þeir? Það væri ekki hægt að treysta frambjóðendum Sjálfstfl. til þess, þeir mundu engan veginn standa sig. Hvað ætla þeir að gera nú? Ætla þeir að kyngja þessum bita? Hvað sagðirðu, Hannibal? (Gripið fram í.) Þú hefur alltaf talið þig gera rétt, þó að þú hafir ekkert farið nema kollsteypur.

Það var samtal við einn af þm. Vestf., honum var gert svo hátt undir höfði í Alþýðublaðinu að birta við hann samtal á forsíðu 23. okt. Ég held, að fæstir af þm. kratanna komist á forsíðuna, nema þá ef það er Gylfi. Það var breytt út af vananum við þennan þm. Og hann segir, í þessu samtali: „Ég lít ekki á till. Heaths, sem nefndar hafa verið grundvöllur að lausn landhelgismálsins, sem úrslitakosti, eins og sumir hafa nefnt það .“ Þetta var Karvel Pálmason, Vestfirðinga þm. SF. Hann segir: „Aftur á móti hef ég ekki tekið endanlega afstöðu til þessa máls, en eins og grundvöllurinn liggur fyrir í dag, þá tel ég ekki rétt að samþykkja hann óbreyttan.“ Það er alveg eins og Magnús Kjartansson, það er óbreytt skoðun auðvitað. Þetta fara nú að verða kúnstugir karlar, þessir stjórnendur.

Ég held, að það sé útilokað annað en að segja, að á þennan samning, sem hér liggur fyrir, vanti bæði upphaf og endi, m. ö. o.: hann er opinn í báða enda, og ég harma það, að allir fulltrúar Alþingis í utanrmn. skuli mæla með samþykkt þessa samnings.

Ég er þeirrar skoðunar, að það hefði verið auðvelt að ná þessum samningi og betri samningi fyrir tæpu ári, og það hefði aldrei þurft til þess að koma, að herskipafloti hennar hátignar hefði siglt inn í íslenska landhelgi, ef rétt hefði verið á málum haldið og ef tekið hefði verið á málunum af festu frá hendi ríkisstj., en það hefur ekki verið gert. Það hefur ekki enn þá verið skýrt frá því, hvort Bretar ætla að viðurkenna 50 sjómílna fiskveiðilögsögu að samningstíma loknum, eða má búast við að floti hennar hátignar sigli aftur inn fyrir 50 sjómílur og verndi breska veiðiþjófa, eins og hann hefur gert nú undanfarna mánuði? Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. eða einhverjir undirsátar hans svari þessu. Og ég spyr einnig: Hvað verður gert við þá togara, sem brotið hafa íslenska fiskveiðilögsögu, frá því að hún var færð út 1. sept. 1972, og sagt er, að allir séu skráðir hjá Landhelgisgæslunni? Var gert um þetta raunverulegt samkomulag á einhvern hátt? Ef ekki, hver er þá skoðun hæstv. dómsmrh.? Á að taka í djöfsa, þegar þeir koma, og sekta þá eða á að sleppa þeim og láta eins og ekkert hafi í skorist? Ég vil fá að vita það. Við þm. eigum kröfu til að fá að vita hreinskilnislega og undanbragðalaust, hver er skoðun hæstv. forsrh. og ríkisstj. á þessu máli. Hvað um frekari friðunarsvæði? Hæstv. núv. sjútvrh. er ósköp lítill friðunarmaður. Hann hefur staðið sig illa í þeim efnum. Ég er ekki að segja, að hann standi sig illa í öllum efnum, en hann hefur staðið sig illa þar. Hvað er búið að gera núna með þessum samningum? Verður ekki að leita á náðir Breta, ef það á að fara út í frekari friðunaraðgerðir innan 50 mílna? Verður ekki að fara þá aftur og spyrja þá, hvort það megi, hvort þeir ætli að virða nýjar friðunaraðgerðir eða ekki? Hvað er með lokuðu hólfin? Ég á sæti í stjórn L. Í. Ú., sem samþykkti með yfirgnæfandi meiri hluta, því miður, að mæla með þessum samningi. Var sagt, að Landssambandið ætti að gera till. um það, hvaða hólf skyldu vera opin á hverjum tíma þessa tvo mánuði. Svo kemur það á daginn, að þetta er allt ákveðið úti í London. Þetta er eitt af því, sem hæstv. forsrh. kemur heim með í bréfinu frá Mr. Heath. Hver bar fram þetta tilboð um hólfin 6 lokuð í 2 mánuði í maí í vor? Voru allir ráðh. í samninganefndinni sammála um það boð? Voru þessi hólf búin til að frumkvæði hæstv. sjútvrh., eða átti einhver annar aðild að því?

Það er líka furðulegt, finnst mér, þegar slíkur samningur er gerður sem þessi, að það er ekki minnst á, að Bretar falli frá mótmælum sínum varðandi tollaívilanir innan EBE. Það er þó gert í sambandi við samninginn við Belgíu. Það var um það talað, að Belgíumenn hreyfðu ekki mótmælum við beiðni íslendinga. Það er ekkert um það hér gagnvart Bretum. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel mig einn í þeirra hópi, sem hefðu viljað semja við Breta, en ekki hlíta afarkostum. Ég tel þennan samning vera afarkosti. Ég tel hér vera komið með samning, sem sé engan veginn hægt að ganga að. Hann teflir lífi og starfi manna á ákveðnum svæðum í hreinan voða. Hæstv. forsrh. segir í Landshorninu í sjónvarpinu að 4 af hverjum 5 á Vestfjörðum séu samþykkir þessum samningi. Ég efast ekkert um, að hæstv. forsrh. getur fundið 4 taglhnýtinga, sem séu sammála því, að þessi samningur sé gerður, en ekki, að 80% Vestfirðinga séu með samningnum. Þá vil ég segja. Ef hæstv. forsrh. hefur verið jafnauðtrúa úti í London og hann er á þessar sögusagnir, þá skil ég vel, hvers vegna ekki er um betri samning að ræða en hér liggur fyrir.

Hæstv. sjútvrh. er sennilega hraustasti maður, sem situr í ráðherrastól, ekki aðeins á Íslandi, heldur sennilega í allri veröldinni. Maður, sem er búinn að tala jafndigurbarkalega, frá því að hann kom í ráðherrastól og raunar áður, maður, sem búinn er að gefa jafnmargar yfirlýsingar og hann hefur gefið, - ég skil ekki það ofboðslega kok að geta komið þessu öllu niður. Þetta kok er alveg einstakt fyrirbrigði.

Ég hygg, að það fari ekki á milli mála, af hverju það er, að ég er á móti þessum samningi. Það er sérstaklega fyrir það, að ég tel það mikla vanvirðu fyrir Ísland og Íslendinga, að þegar íslenskt varðskip tekur breskan togara innan 50 mílnanna, þá á íslenski lögreglumaðurinn að kalla á breskt eftirlitsskip til þess að láta það sannprófa, að þeir kunni að stinga út á korti. Þetta finnst mér vera mesta óhæfan af öllu. Og hvað sem líður túlkun hæstv. forsrh. á því, tek ég alveg undir orð Bjarna Guðnasonar hér áðan um þessi efni. Ég tel það fráleitt og í rauninni til skammar að bjóða Alþ. Íslendinga upp á það að samþykkja slíkt ákvæði. Hitt er svo stórt mál og mikið, hvernig á að haga veiðum innan þessarar margumtöluðu fiskveiðihólfa. Hvað sem líður störfum byggðanefndar og öðrum verkefnum til þess að efla byggð landsins, þá má mikið gera á móti til þess að vega upp á móti þeim ósóma, sem á nú að framkvæma sérstaklega gagnvart þeim byggðarlögum, sem verst eru sett hvað það snertir að halda fólkinu þar heima og hafa goldið mest afhroður á liðnum árum. Þetta er ekki sú byggðastefna, sem var lofað, þegar þessi ríkisstj. var mynduð, að horfa engan veginn á það, sem kemur til með að gerast á þessum svæðum. Þrátt fyrir allt, sem þið hafið sagt um samninginn frá 1961, þá hefðuð þið átt að taka hann þó til fyrirmyndar hvað þetta snertir.