12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Áður en ég vík að því málefni, sem hér liggur fyrir til umr., vil ég aðeins segja örfá orð út af ræðu hæstv. iðn.- og orkumrh., sem fór upp í stólinn og fór mikinn og kom víða við. Minnst ræddi hann landhelgismálið, en þeim mun meira um Sameinaða verktaka, síðdegisboð hjá Sjálfstfl. og stjórnmálabaráttu fyrir opnum tjöldum. Hann taldi, að Alþb. hefði fyrst og eitt flokka á Íslandi tekið upp stjórnmálabaráttu fyrir opnum tjöldum, þar sem öll mál, innanflokksmál sem önnur, væru rædd svo, að allur almenningur mætti heyra. Það var fyrir rúmri viku flokksráðsfundur hjá þessum flokki. Hann var haldinn suður í Kópavogi, og eftir því sem hlerast hefur, hafa verið þar töluverð átök og skiptar skoðanir, og ekki hefur okkur alþm. eða alþýðu manna í landinu verið skýrt frá því, sem þar gerðist innan veggja. Ætla sumir, að þar hafi verið átök mikil og mjög skiptar skoðanir. Að lokum voru þar unnir Kópavogseiðar hinir nýju, og ætla sumir, að eins og gerðist fyrir röskum 300 árum, þá hafi nú sumir látið grátandi undan hótunum höfuðsmannsins. Nú væri ákaflega fróðlegt að heyra eitthvað nánar af þessum fundi, og má ætla, að á svo merkum fundi hjá svo merku bandalagi hafi ræður manna verið teknar upp á segulband, og ég býst við, að það yrði ákaflega vinsælt útvarpsefni, ef eitthvað af því yrði birt í útvarpinu.

En þó að hæstv. ráðh. segi, að allt sé nú fyrir opnum tjöldum um skoðanamyndun og þá líka um skoðanaskipti í þeirri merkingu að skipta um skoðun, tókst okkur ekki að fá vitneskju um, hvað hafi valdið breyttri afstöðu hæstv. orkumrh. Hann lýsir því yfir aðeins, að hann styðji þennan samning eindregið og af heilum hug, og það efa ég ekki, alveg eins og hann fyrir 3–4 vikum eindregið og af jafnheilum hug krafðist þess, að hafnað yrði þessum gersamlega óaðgengilegu úrslitakostum.

Hæstv. sjútvrh. hefur einnig reynt að skýra þetta. M. a. í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu var hann að skýra, hvers vegna hann ákvað að greiða atkv. með og flytja þennan undanhaldssamning, og skýringin var sú, að hann yrði og þeir ráðh. bandalagsins að styðja og flytja undanhaldssamninginn til þess að hindra, að undanhaldsmenn kæmust í stjórn. Já, mikil er nú rökvísin og „dialektiken“ í lagi enda hefur hann verið þar í fræðslu frá unga aldri, allt frá því hann var fyrst 1937 frambjóðandi fyrir Kommúnistaflokk Íslands og síðan raunar fyrir tvo aðra flokka, Sameiningaraflokk alþýðu-sósíalistaflokkinn og svo Alþýðubandalagið. En kannske er þetta allt sami grauturinn í sömu skál.

Það er aðeins eitt atriði enn, sem ég vildi minnast á í ræðu hæstv. iðn.- og orkumrh. Hann sagði, að ef viðreisnarstjórnin hefði sigrað og Sjálfstfl. og Alþfl. hefðu farið áfram með stjórn, þá byggjum við Íslendingar enn við 12 mílna landhelgi. Hér fór hæstv. ráðh. fullgeyst fram hjá sannleikanum. Sannleikurinn er auðvitað sá, að ef Sjálfstfl. og Alþfl. hefðu verið í stjórn tvö síðustu ár, þá liggur fyrir, að við hefðum nú stærri landhelgi en í dag, þ. e. a. s. miðað við 400 m dýptarlínu, en þó hvergi nær en 50 mílur, eins og báðir þessir flokkar lögðu til á sínum tíma. Í annan stað væri nú hafinn undirbúningur að útfærslu í 200 mílur, en ekki á þá lund, sem hæstv. sjútvrh. vill þar við hafa og hefur lýst því yfir, að 200 mílur komi ekki til greina fyrr en einhvern tíma í framtíðinni, þegar að breyttum alþjóðalögum sé heimilt að gera það.

En svo að ég víki að þeirri till., sem hér liggur fyrir, þá er ljóst, að við mat á kostum og ókostum þessa samnings er rétt aðeins í örfáum orðum að gera grein fyrir efni hans í aðalatriðum. Það er í fyrsta lagi, að Bretar fá veiðirétt milli 12 og 50 mílna, með þremur undantekningum þó, þannig að það er bannað að veiða í einu hólfi af sex tvo mánuði á ári, en 5 hólf eru opin í senn. Enn fremur er bönnuð veiði á bátasvæðum fyrir Vestur-, Norður- og Austurlandi. Í þriðja lagi heita Bretar því að virða hin 3 friðunarsvæði, sem nú eru í gildi. Í fjórða lagi fækkar breskum togurum, skv. samningnum um 30 frá 1971. Verða þá 139 skip, sem mega fá heimild til að veiða hér, en engir frystitogarar eða verksmiðjuskip, og gerður listi yfir þessi skip, og verði skip staðið að veiðum í bága við samkomulagið, getur íslenskt varðskip stöðvað það og ríkisstj. eða dómsmrn. strikað það skip út af lista. Loks er miðað við, að ársafli verði um 130 þús. tonn og samningurinn gildi í tvö ár. — Þetta eru meginatriði samningsins.

Ég skal þá fyrst ræða, hvað það er, sem mælir með þessum samningi í mínum augum.

Það er í fyrsta lagi, að ég tel ákaflega mikilvægt að leysa alvarlega deilu við gamla og nýja viðskiptaþjóð og nágranna, ef það getur gerst með þolanlegum hætti, þannig að eðlileg viðskipti og menningartengsl geti hafist að nýju.

Það er í öðru lagi ljóst, að ef ekki verður samið, er viðbúið, að skapist að nýju það hættuástand, sem verið hefur hér að undanförnu á miðunum og því miður hefur þegar kostað mannslíf. Það er mikið að sjálfsögðu gefandi fyrir að koma í veg fyrir eða afstýra slíku hættuástandi. Ef ekki verður samið, skal ég ekkert fullyrða um það, hvort freigátur kæmu inn í landhelgina að nýju, það er vel hugsanlegt. En jafnvel áður en freigáturnar komu 19. maí s. l., var engu að síður hættuástand hér og óþolandi, þar sem varðskipum okkar hafði ekki tekist að taka neina brotlega togara og færa þá til hafnar til að refsa þeim. Það er einnig ljóst, að ef ekki yrði samið og ef herskipin kæmu inn að nýju, má búast við því eftir viðhorfi hæstv. ríkisstj., að slit á stjórnmálasambandi væru óhjákvæmileg, og að mínu mati mundi það hafa hinar alvarlegustu afleiðingar á marga lund.

Meðal þess, sem mælir með þessum samningi, er það, að talið er, að hann muni draga úr sókn á miðin. Meðalafli s. l. 10 árin mun hafa verið um 185 þús. tonn. Sá afli, sem Bretar fengu hér á fyrsta ári eftir að fært var út í 50 mílur, mun hafa verið milli 160 og 170 þús. tonn, eftir því sem Bretar hafa gefið upp. Sumir hafa dregið í efa, að þær tölur séu alls konar réttar, en bæði hæstv. forsrh, og utanrrh. hafa, að því er virst hefur, byggt á þeim tölum eða tekið þær trúanlegar. Hvað sem um það er, virðist, að með þeim takmörkunum, sem eru í samningnum, og fækkun og útilokun skipa séu allar líkur til þess, að afli Breta á Íslandsmiðum minnki verulega, ef samningurinn er gerður.

Þá er það nokkurs virði, að markaður fyrir okkar afurðir í Bretlandi mundi opnast að nýju. Ég er ekki sammála því, sem komið hefur fram hér stundum, sérstaklega frá hæstv. sjútvrh., að markaður fyrir afurðir okkar í Bretlandi og Þýskalandi skipti engu, það sé auðvelt að fá jafngóða markaði annars staðar fyrir þær afurðir. Ég tel, að það sé mikilvægt, og ég held, að útgerðin íslenska og fiskiðnaðurinn meti það nokkurs.

Enn fremur er það mikils virði, að allar líkur eru til þess, að ef samið verður, muni þær tollalækkanir, sem fyrirheit eru gefin um hjá Efnahagsbandalaginu, koma til framkvæmda um næstu áramót, og er það mikill hagur fyrir íslenskan útveg og íslenskan iðnað.

Enn má nefna það, að íslenskir bátar hafa aflað vel að undanförnu í Norðursjó, veitt síld, sem er mjög mikils virði og hefur fært okkur mikinn gjaldeyri. Fram undan munu vera samningar og kannske allerfiðir samningar um Norðursjávarsíldina.

Allt þetta beinist í þá átt, að æskilegt sé að reyna að ná samkomulagi um þessi mál.

Loks vil ég nefna það, að ný átök milli okkar og Breta, ef þau yrðu svipuð því, sem verið hefur undanfarna mánuði eða síðan í vor, eða kynnu að magnast, gætu haft mjög skaðleg áhrif á ýmis stórmál, sem fram undan eru. Er enginn vafi á því og ástæða til að nefna það, sérstaklega þar sem óskað er eftir, að allt sé nú gert fyrir opnum tjöldum og ekki töluð nein tæpitunga, að ný átök mundu auðvitað hafa að mínu viti skaðleg áhrif varðandi varnarmálin og á viðhorf landsmanna til Norður-Atlantshafsbandalagsins.

Hins vegar þarf að virða fyrir sér, hvaða ókostir eru við þennan samning, og þeir eru ýmsir, eins og hér hefur komið fram.

Ég tel, að fyrsti ókosturinn sé sá, að við þurfum að láta fullmikið í staðinn. Það er hvorki meira né minna en að jafnaði 5/6 hlutar landhelginnar, sem eru opnir til veiða fyrir Breta á næstu tveimur árum, að sjálfsögðu að undanteknum bátasvæðum og friðunarsvæðum. Einnig hefur það valdið vonbrigðum, að lokunartími hólfanna hefur orðið annar en útvegsmenn óskuðu eftir, og kemur það sér allilla fyrir suma landshluta, eins og hér hefur komið fram. Æskilegt hefði verið t. d. að því er Suðvesturlandið snertir, að það hólf yrði lokað fyrir Bretum, eins og gert var ráð fyrir í upphafi, í mars og apríl, á aðalvertíðinni, en ekki eins og samningarnir gera ráð fyrir, að það sé opið þá, en lokað í nóv.-des., sem skiptir minna máli.

Það er ókostur við þennan samning, að lögsagan yfir 50 mílunum er skert m. a. á tvo vegu. Annars vegar er ekki heimilt að taka brotleg skip og færa til hafnar, sækja þau til sakar og fá þau dæmd, skipstjórann sektaðan, afla og veiðarfæri gerð upptæk, eins og íslensk lög gera ráð fyrir. Þetta er ekki heimilt. Enn fremur má segja, að það sé óviðfelldið a. m. k., ef maður vill kalla það beina skerðingu á lögsögunni, að íslensk varðskip skuli eiga að kalla til erlent eftirlitsskip til þess að sannreyna það, sem þar fer fram.

Hins vegar kemur þarna á móti, að heimilt er að svipta hinn brotlega togara veiðirétti, strika hann af skrá, og er það vissulega alvarleg hegning. Hæstv. forsrh. hefur látið í ljós, að hann teldi, að það sé kannske jafnalvarleg refsing fyrir togara eða togaraskipstjóra eins og hitt, þó að hann væri sóttur til saka og dæmdur að venjulegum hætti.

Út af sviptingu veiðiheimilda, þá er ég alveg sammála hæstv. forsrh. um, að auðvitað er það eftir samningnum rétt skilið, að íslensk stjórnvöld, dómsmrn. íslenska tekur ákvörðun um, hvort togari skuli strikaður af skrá, og tek ég hæstv. forsrh. fyllilega trúanlegan í því efni. Er það meira en sumir samráðh. hans gera, sem segjast hafa knúið fram, að skilningur ráðh. yrði staðfestur með lagafrv., sem nú yrði lagt fyrir þingið, en er út af fyrir sig óþarft.

Þá hefði auðvitað verið æskilegt, eins og 12 mílurnar voru viðurkenndar af Bretum í samningnum 1961, að fá nú viðurkenningu á 50 mílunum. Um það liggur ekkert fyrir. Enn fremur hefði verið æskilegt, að fram hefði komið skýlaus yfirlýsing í samningnum um það, að Íslendingar stefndu lengra en 50 mílurnar, ætluðu sér að taka allt landgrunnið, eins og lýst var yfir 1961, og/eða við stefndum að 200 mílum á næstunni.

Í samningnum er ekkert minnst á málareksturinn fyrir Haag, og væntanlega heldur hann þá áfram og dómstóllinn kveður upp dóm í því máli, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ef við vinnum það mál, — sem við gerum, ef rétt er á haldið af Íslands hálfu, það er ég sannfærður um, — þá er spurningin, hvað gerist. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. gerir þá ráð fyrir, að engu að síður haldi Bretar öllum sínum veiðirétti innan 50 mílna samningstímann út. Það er enn fremur athugandi, ef við sigrum á hafréttarráðstefnunni, áður en samningstíminn er á enda, þannig að 200 mílur verði að veruleika, hvort þá er ætlunin, að Bretar haldi einnig veiðiheimildum sínum innan 50 mílna eftir sem áður.

Ég kem svo að lokum að tveimur meginatriðum í þessu sambandi. Annað er friðunarmálin og hitt er framtíðin, þ. e. a. s. hvert við stefnum í landhelgismálunum framvegis. Nú er það svo, að með útfærslu landhelginnar er tvenns konar tilgangur: annars vegar, að Íslendingar sitji einir að fiskimiðum okkar, og hins vegar, að við verndum og friðum og gætum fiskstofna, þannig að ekki sé um ofveiði eða rányrkju að ræða. Eru talin í samningnum þrjú svæði, sem nú eru friðuð og Bretar lofa að veiða ekki á. Það er Selvogsbanki, það er Þistilfjörður og það er svæðið norður af Vestfjörðum.

Nú er það þannig, að það hefur verið brýn þörf á því undanfarin ár að hafa friðunar- og verndaraðgerðir miklu meiri og róttækari en gert hefur verið, og hefur með réttu verið deilt harðlega á hæstv. sjútvrh, fyrir deyfð og framtaksleysi í þeim efnum. Það er t. d. fráleitt, að svæðið, sem friðað er á Selvogsbanka, þessar þýðingarmiklu hrygningarstöðvar, skuli aðeins friðaðar í einn mánuð eða frá 20. mars til 20. apríl, þá er hrygningu ekki lokið og hefði auðvitað þurft að vera lengri friðun. Í upphafi var ekki einu sinni friðað fyrir öllum veiðarfærum, og lýsti Hafrannsóknastofnunin því yfir í skjali til Alþingis eða fiskveiðilaganefndar, að þessar ráðstafanir varðandi Selvogsbanka væru sýndarmennskan ein. Eins er það með friðun ungfisks út af Þistilfirði eða Norðausturlandi, hún stendur í tvo mánuði og hefði þurft að vera miklu lengri tíma til að koma að fullu gagni. Það hefur verið brýn þörf á því að hafa víðtækari og róttækari friðunar- og verndaraðgerðir en verið hefur, og það er brýn þörf á því einnig á næstu tveimur árum, sem samningurinn á að standa, að aukin sé friðun og vernd. Það kemur til af mörgum ástæðum og m. a. af þeirri, að fiskstofnarnir eru á hreyfingu, ungviðið er ekki alltaf á sama stað, smáfiskurinn færir sig til. Þegar af þeirri ástæðu getur verið nauðsynlegt að breyta til. En jafnvel þótt svo væri ekki, er brýn nauðsyn að stækka svæðin, fjölga þeim, lengja tímann.

Nú er það mikill galli á þessum samningi, að ekkert er á það minnst, hvort Íslendingar hafi heimild eða ekki heimild til þess að auka friðun frá því, sem nú er. Það hefði verið æskilegt, að það kæmi skýrt fram. Nú skil ég samninginn þannig, að hann geti ekki, þó að hann þegi um þetta, útilokað okkur frá því að fara í frekari friðunaraðgerðir, og ég vil ekki fallast á annan skilning. Ég tel víst, að ef önnur stjórn kemur eða t. d. annar sjútvrh., — og sem betur fer er ekki samið um það í þessum samningi, að hæstv. sjútvrh. skuli vera tímabilið út, — en ef skipt er um stjórn og ef a. m. k. sjálfstæðismenn fá aðstöðu til þess að ráða einhverju, þá munum við að sjálfsögðu auka friðunar- og verndaraðgerðir á þessum tveimur árum. Ég lít svo á, að við hljótum að hafa rétt til þess, og þjóðarnauðsyn, held ég, að krefjist þess.

Í sambandi við friðunar- og verndarmálin er nauðsynlegt að minnast á eftirlit með veiðarfærum. Nú hefur það komið upp hér á undanförnum mánuðum oftar en einu sinni, að freklega hafi verið brotnar alþjóðareglur um veiðarfæri, möskvastærð o. fl. Hefur af hálfu hæstv. ríkisstj., að því er virðist, ekkert verið í þessu gert eða hún ekki talið sig hafa aðstöðu til þess. En á þetta atriði er ekki minnst í samningnum, hvort íslensk varðskip megi hafa og geti haft eftirlit með og skoðun á veiðarfærum hinna erlendu togara. Þetta er þeim mun bagalegra vegna þess, að í þeim drögum, sem Íslendingar skiluðu í maímánuði, var sérstaklega á þetta minnst, en það er fellt niður nú. Engu að síður lít ég svo á, að Íslendingar hafi tvímælalausan rétt til þess að stöðva skip innan 50 mílnanna og láta eftirlitsmenn sína fara þar um borð og skoða veiðarfærin. Í alþjóðasamningi um fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi frá 1959 er lagður grundvöllur að þessu, við settum síðan lög um þetta og núgildandi reglugerð er frá 1970, þar sem beinlínis segir í samræmi við þennan alþjóðlega samning, að varðskipsmenn geti krafist þess að fara um borð í veiðiskip og skipstjóri sé skyldur til þess að gera þeim kleift að framkvæma skoðun bæði á afla, netum og öðrum veiðarfærum. Og þetta á ekki aðeins við um sjálfa fiskveiðilögsöguna, heldur einnig utan hennar, þannig að jafnvel þótt Bretar hafi ekki viðurkennt lögsögu okkar innan 50 mílna, þá er tvímælalaus réttur fyrir eftirlitsmenn frá Landhelgisgæslunni til að krefjast þess að fara um borð í hina bresku togara og skoða þar veiðarfæri. Ég tek þetta fram vegna þess, að ég tel alveg nauðsynlegt, að þessi skilningur komi glögglega fram, sérstaklega þar sem ekkert er á þetta minnst í samningnum. Má vera, að ýmsir þeir, sem eru enn þá gagnrýnni á samninginn en ég er, vilji telja, að jafnvel þetta hvort tveggja, auknar friðunaraðgerðir og skoðun veiðarfæra, sé ekki heimilt samkv. samningnum, verði að gagnálykta svo vegna þess, að ekkert er á þetta minnst. En ég held, að það verði hiklaust að halda fram þeim skilningi, sem ég hef hér nefnt, byggja á honum og framkvæma hann.

Ég vil þá að lokum minnast á það, sem framundan er, og þá fyrst og fremst 200 mílurnar. Vonandi er nú svo komið, að Íslendingar eru allir sammála um það, að stefnan skuli vera 200 mílur. Spurningin er hins vegar hvenær. Við sjálfstæðismenn höfum lagt til, að fært verði út í 200 mílur fyrir lok ársins 1974. Við höfum fært fyrir því rök, sem ég tel ekki ástæðu til að rekja hér, en við teljum þetta aðkallandi mál vegna þeirrar hættu á ofveiði og rányrkju, sem mörg mikilvæg fiskimið milli 50 og 200 mílna eru i. Við teljum líka, að pólitískur og lagalegur grundvöllur sé fyrir hendi til að gera þetta á næsta ári. Þá er spurningin: Er nokkuð í þessum samningi, sem kemur í veg fyrir, að fært verði út í 200 mílur á samningstímabilinu? Ég svara því hiklaust neitandi. Ég lít svo á, að þessi samningur fjalli aðeins um svæðið milli 12 og 50 mílna, en segi ekkert um það og sé á engan hátt því til fyrirstöðu, að við tökum okkur lögsögu, fiskveiði- eða auðlindalögsögu, yfir svæðinu milli 50 og 200 mílna. Þessi samningur getur ekki komið í veg fyrir það. Ef og þegar það verður gert, þá auðvitað stendur þessi samningur áfram í gildi, þannig að á þessu tveggja ára tímabili hafa Bretar heimild til þess að veiða milli 12 og 50 mílna, en engar veiðiheimildir milli 50 og 200 mílna, eftir að við höfum fært út, nema til komi nýir samningar eða nýjar veiðiheimildir þeim til handa.

Ég skal svo aðeins draga saman niðurstöðuna af máli mínu. Ég tel mikilsvert, að hæstv. forsrh. skyldi taka málið í sínar hendur og gera tilraun til að leysa það. Og við mat á því, sem mælir með og móti, er niðurstaða mín sú að greiða atkv. með samningnum. Ég geri það m. a. á þeim forsendum, sem ég greindi um friðun og útfærslu í 200 mílur.