22.10.1973
Sameinað þing: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af þessari fréttagrein, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, sneri ég mér til Landhelgisgæslunnar og óskaði skýringa og fékk svofellda skýringu frá henni eða frétt:

Þar til 12. okt. s. l. voru engir breskir togarar á Vestfjarðamiðum, en þann dag komu nokkrir þangað, og síðan fluttu þeir sig svo til allir þangað að austan, þannig að hinn 20. þ. m. voru þeir þar um 50 að tölu, allir að veiðum norður af Horni ásamt íslenskum, þýskum og færeyskum skipum. Fyrstu dagana eftir 12. okt. sóttu bresku togararnir ekki inn á friðaða svæðið út af Kögri, en hinn 16. okt. barst kvörtun til landhelgisgæslunnar um, að þar væru þýskir og breskir togarar að veiðum. Athugaði varðskip þetta strax, og reyndist hér vera um sex breska togara að ræða, er allir nema einn drógu strax upp og fóru út fyrir svæðið, en hinn síðasti með semingi nokkru síðar.

Næsta dag, 18. þ. m., var kvartað undan einum togara þar, og var honum einnig stuggað burt. Hinn 19. þ, m. var svo almennt kvartað til varðskips á þessum slóðum um ágang breskra togara, en ekki nefnd nein sérstök tilfelli og þess alls eigi getið, að þeir væru á hinu friðaða svæði út af Kögri. Seinast var flogið yfir veiðisvæði norður af Horni s. l. laugardag, hinn 20. þ. m., og voru þar þá að veiðum beint norður af Horni um 60 fiskiskip, þar af 47 breskir togarar og 6 færeysk skip. Einn þýskur togari var þá að veiðum aðeins vestan við friðaða svæðið, en öll hin skipin voru fyrir austan það, hið næsta 8 sjómílur frá því. Almennt um ástandið í dag segir svo í skeyti frá skipherra varðskipsins Þór: Íslensku togskipin hafa ekki kvartað yfir því, að breskir togarar séu innan friðaða svæðisins, 2–3 síðustu daga.

Allan þennan tíma hefur eitt stórt varðskip verið við gæslu við Vestfirði og nú síðustu dagana annað minna. Og eftir daginn í dag verða á þessum slóðum tvö stór varðskip til eftirlits. Og ég vil í þessu sambandi geta þess, að Hvalur, fyrra leiguskipið, er rétt um það bil að verða tilbúið til þess að leggja frá landi, og með því bætist aðstaða til þess að fylgjast með í þessu efni.

Það stendur auðvitað, sem ég hef sagt, að landhelgisgæslan verður með eðlilegum hætti og hefur verið með eðlilegum hætti, og það hefur verið reynt að stugga togurunum út fyrir. Það má vera, að þeir hafi misjafnlega hlítt fyrirmælum, en ég hygg þó, að í flestum tilfellum hafi þeir híft upp, þegar þeir sáu varðskip eða þegar varðskip skipaði þeim að gera það. En það er mjög mikilsvert um svona kvartanir, að þær séu fyllilega rökstuddar, og ég vil mælast til þess við hv. þm., að þeir kynni sér þetta betur og safni gögnum um þetta og fái þau landhelgisgæslunni í hendur, þannig að það sé hægt að ganga úr skugga um, hvað rétt er í þessu efni.

Ég hef auðvitað enga ástæðu til þess að vefengja orð þessara skipstjóra. En hitt veit ég, að við höfum áður fengið fregnir frá skipstjórnarmönnum, m. a. í gegnum útvarp, en þegar þeir hafa verið teknir fyrir sakadóm og átt að gera nánar grein fyrir þessu, þá hefur reynslan, a. m. k. stundum, orðið sú, að þeir hafa farið eftir sögusögnum annarra í þessu efni, en ekki sjálfir séð þá hluti, sem þeir voru að segja frá. Þannig var það t. d. með eitt tilvik út af Austfjörðum, sem mér er í minni, þannig að það verður vitaskuld að styðja það allgildum rökum og eigin sjónarvætti, en ekki fara eftir því, sem einhverjir aðrir segja.

En út af því, sem hv. 7, landsk. þm. sagði, þá eru fyrirmæli mín til landhelgisgæslunnar þau sömu og þau hafa verið, og það er reynt að halda á þeim málum þannig að reka togarana út. Hitt getur vel verið, eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði, að menn skilji, að það sé forðast að efna til stórárekstra einmitt þessa dagana.