12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ekki kæmi mér á óvart, ef það birtist í blöðum og útvarpi á morgun andlátsfrétt, sem hljóðaði eitthvað á þá leið: Þjóðareining Íslendinga í landhelgismálinu andaðist í Sameinuðu þingi 12. nóv. (MÁM: Hver á að skrifa undir?) Það áttu að verða mín næstu orð, að ég væri ekki viss um það, hver skrifaði undir, en ég vona að Fjallkonan fengist til þess, ef enginn annar vildi gera það.

Við höfum talað mikið um þjóðareiningu undanfarna mánuði og höfum flest trúað því, að í raun og veru væri hún fyrir hendi og væri mikils virði fyrir okkur í landhelgisbaráttunni. Heilir stjórnmálaflokkar ekki síður en hópar manna og einstaklinga hafa tekið tillit til þessarar þarfar á einingu og hagrætt nokkuð skoðunum sínum til þess að samræma þær því, sem samkomulag virtist vera hugsanlegt um. En nú hefur farið svo, að það verður erfitt fyrir nokkurn okkar, sem hér hafa varið í dag, að tala mikið eða hátt um einingu þjóðarinnar í þessu máli eftir þær umr., sem hér hafa farið fram.

Enda þótt við séum ýmsu vanir á Alþ. Íslendinga og stjórnmálin í landi okkar, bæði flokkar og menn, geti gert ýmsar töfrakúnstir, þannig að stundum virðist maður frekar vera í hringleikahúsi en á löggjafarsamkomu, þá hygg ég, að sjaldan hafi farið fram aðrar eins umr. og hér hafa orðið í dag. Hver hefði trúað því fyrir örfáum dögum, að þeir hæstv. ráðh., sjútvrh. og iðnrh., mundu standa uppi í ræðustól á Alþ. og halda uppi vörnum fyrir samning við Breta um landhelgismálið? Og hver hefði trúað því, að þeir hefðu þurft að verja sig fyrir þm., sem réðust á þá eins og grimmir úlfar og voru gallharðir sjálfstæðismenn? Það má mikið vera, ef eitthvað af fyrrv. leiðtogum Sjálfstæðisfl. hefur ekki snúið sér við í gröfinni í dag.

Það mætti halda áfram að gera sér grein fyrir því, hvers konar umr. þetta hafa verið, Hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, hefur haldið hér uppi skemmtun öðru hverju og stundum gert það vel. En innan um allan vaðalinn og alla vitleysuna, sem hann hefur flutt, hafa stundum verið sannleiksperlur, eins og þegar hann henti á, að ein megin breytingin, sem hefði orðið hér hjá okkur, væri sú, — er við ræðum nú landhelgissamningana við Breta og berum saman við aðra slíka samninga, sem voru gerðir fyrir rúmum áratug, — að þeir, sem þá voru stjórnarandstæðingar, sitja nú í ráðherrastólum. Við þetta er allt saman gjörbreytt.

Samningarnir eru náskyldir, þó að einstök atriði beri á milli. Það er ekki óeðlilegt, að þeir séu ræddir saman og eldri samningarnir dragist inn í umr. En ég verð að segja, að það er ekki hátt risið á mönnum, þegar hver einasta sál í þessu húsi veit, að ef sjálfstæðismenn hefðu verið í ríkisstj., hefðu gert þennan samning eða lagt hann fram, þá er það öruggt, að stjórnarflokkarnir þrír hefðu barist eins og hetjur á móti því. En nóg um það.

Svona ern íslensk stjórnmál. Vegna þess að Alþb.-menn telja sér nauðsyn að halda í þetta skiptið völdum meira en í 2½ ár og láta ekki hrekja sig úr stólunum, hafa þeir látið það yfir sig ganga, sem þjóðin hefur séð og við þurfum ekki að lýsa með frekari orðum, en það er einhver hörmulegasta útreið, sem nokkur stjórnmálaflokkur og nokkrir stjórnmálamenn hafa fengið. En við vitum, hvað að þeim er.

Íslenskir kommúnistar, hvaða nafni sem þeir hafa siglt undir hverju sinni, hafa þrisvar sinnum komist í samsteypustjórnir á Íslandi, og þeir hafa venjulega enst í þessum stjórnum dálítið yfir tvö ár. Þá hefur það komið í ljós aftur og aftur, að þeir eru ekki hæfir í samsteypustjórnum, þeir eru ekki samstarfshæfir á íslenskum, lýðræðislegum grundvelli, og þeir hafa hrakist út. Það hefur venjulega tekið þjóðina svona 10 ár að gleyma þessari reynslu, þangað til hún hefur veitt þeim þá náð að hleypa þeim í ríkisstj. á nýjan leik. Og nú eru þeir staðráðnir í því að gera ekki aftur mistök, eins og þeir telja í sinni flokkssögu, að Brynjólfur Bjarnason hafi gert, þegar hann sprengdi stjórn Ólafs Thors út af Keflavíkursamningnum, eða þá vitleysu, sem þeir gerðu haustið 1958. Nú ætla þeir að halda í völdin, sitja á meðan sætt er.

Það mætti raunar benda á fjöldamörg önnur mál, sem hafa þróast á sama hátt og landhelgismálið. Fyrrv. ríkisstj. þurfti oft að taka erfiðar ákvarðanir og leysa erfið mál á óvinsælan hátt. Þá stóð ekki á núv. stjórnarflokkum, sem þá voru í andstöðu, að ráðast á ríkisstj. En á þessum stutta tíma, sem ríkisstj, hefur setið, höfum við, sem studdum fyrrv. ríkisstj. fengið að upplifa það, að hún hefur gleypt ofan í sig stóryrðin í hverju málinu á fætur öðru, hvort sem varðar gengislækkanir, afskipti af vinnudeilum, kukl með vísitöluna, verðbólgufjárlög, almenna verðbólgu eða hvað annað. En kórónan á þessu öllu saman er, hvernig þeir hafa gleypt ofan í sig fyrri afstöðu í sambandi við samningana við Breta. Og það er ekki að furða, þó að mönnum verði tíðrætt um kokvídd í þessum umr.

Báðir ráðh. Alþb., hæstv. iðnrh. Magnús Kjartansson og hæstv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson, hafa lýst því yfir afdráttarlaust í dag, að þeir beri fulla ábyrgð á þessum samningum, og þeir munu aldrei geta þurrkað það af sér eða flokki sínum héðan í frá, að þeir hafi staðið að slíkum samningum. Verða þeir fyrir það ómerkari hvað snertir fyrri baráttu þeirra gegn öðrum, sem þurftu að leysa svipuð vandamál og gerðu það á ekki ósvipaðan hátt.

Ég endurtek, að það er óhjákvæmilegt að gera samanburð á samningnum frá 1961 og þeim, sem nú hafa verið gerðir. Ég held því fram, að mörg atriði samninganna frá 1961 séu augljóslega miklu hagkvæmari fyrir Íslendinga en samningarnir, sem nú hafa verið gerðir, enda var þar um víðtækari samninga að ræða. Það hét till. um lausn á landhelgisdeilunni“ þá, en nú er það „till. um bráðabirgðasamninga:“ Þá fékkst bein viðurkenning, nú aðeins óbein. Bein viðurkenning er mun betri, þó að óbein viðurkenning sé góð. Þá var grunnlínupunktum breytt. Má vel vera, að við hefðum getað það sjálfir, en það var mikils virði að fá þá staðfesta í því samkomulagi. Grunnlínupunktar voru þá mikið deilumál. m. a. í deilunum milli Norðmanna og Breta, og ákvarðanir um þá voru grundvöllur undir einni mestu útfærslunni, sem var frá þremur í 4 mílur, þegar dregnar voru línur fyrir fláa og firði. Í samningnum 1961 fengu Bretar aðeins hlunnindi á veiðisvæðunum milli 6 og 12 mílna, en nú eru þeir, eins og margir hafa bent á, mestallt árið allt inn að 12 mílum. Í fyrri samningunum var tekin inn yfirlýsing um grundvallarstefnu Íslendinga um áframhaldandi starf að útfærslu, og hafa ýmsir glöggir menn í þessum efnum bent á, að með því að fallast á að taka þá yfirlýsingu inn í samningana 1961 hafi Bretar í raun og veru fyrir fram viðurkennt, að það yrði að reikna með því sem eðlilegum hlut, að Íslendingar færðu út á nýjan leik. Allt er þetta augljóslega betra í samningunum 1961 en nú.

Þá er eftir það eina atriði, sem mest er um deilt, sem er málskotið til dómstólsins í Haag. Matið fer þá eftir því, hvernig menn líta á það atriði. Sumir hafa hatast við þetta atriði og talið, að það hafi verið réttindaafsal. Aðrir hafa talið, að þetta atriði samninganna hafi einnig verið réttur til handa Íslendingum, og að það sé ekki undir neinum kringumstæðum hægt að segja, að málskot til alþjóðadómstóls sé neitt réttindaafsal. Ég skal láta það kyrrt liggja, en þessi upptalning ætti einu sinni enn að minna á, að fyrri samningarnir voru mun betri en þeir, sem nú eru til boða.

Í sambandi við afstöðu til samninganna nú þurfa menn að gera upp við sig, hvort þeir telja hagkvæmara fyrir Íslendinga að gera slíkan samning eða að gera engan samning. Þingflokkur Alþfl. fékk fréttir af fundi í utanrmn. fyrir rúmlega 10 dögum með upplýsingum um endanlegt útlit á því plaggi, sem nú er til umr. Við höfðum því rúmlega vikutíma til að skoða málið, ræða um það og taka afstöðu til þess. Okkur var ekkert að vanbúnaði að lýsa þeirri afstöðu, sem við höfðum orðið sammála um, við fyrrihluta þessarar umr., og það gerði formaður Alþfl. s. l. fimmtudag, þegar hann sagði, að Alþfl. mundi styðja till. um að heimila ríkisstj. að gera þessa samninga. En hann tók einnig fram, að þrátt fyrir þessa lokaniðurstöðu værum við mjög óánægðir með ýmis atriði, sem í samningunum eru, og ég skal í stuttu máli nefna nokkur þeirra.

Okkur þótti það súr biti, að aðeins eitt svæði skyldi vera lokað af 6 hverju sinni. Okkur þótti það einnig súr biti, og kannske enn þá súrari, að friðunarsvæðin skuli vera bundin og að því er menn telja takmarkaðir möguleikar á, að við getum komið við frekari friðun eða breytt friðunarsvæðunum með breyttum fiskigöngum á næstu tveimur árum. Nú hefur að vísu komið fram í umr. í kvöld frá mönnum, sem vel þekkja til laga, að þrátt fyrir þennan samning ættum við að geta gert frekari friðunarráðstafanir, og vil ég mjög fagna því, ef það reynist rétt. Þar á eftir talaði hæstv. sjútvrh., sem er annálaður úrtölumaður í öllum friðunarmálum íslensks sjávarútvegs og hefur þvælst fyrir því, er jafnvel Alþ., sem þykir ekki of fljótvirkt á stundum, hefur verið að því komið að gera. En hæstv. ráðh. kom samt hér upp og lofaði öllu fögru um það, að hann mundi vinna að áframhaldandi friðun og frekari friðunaraðgerðum. Ég vil láta í ljós sterka von um, að ef Íslendingar taka fyrir ákveðin verkefni, sem sannarlega eru nauðsynleg á þessu sviði, þá verði hægt að koma við slíkri viðbótarfriðun eða breytingu á friðunarreglum þrátt fyrir samninginn eða innan ramma hans, ef menn líta svo á.

Mikið hefur verið rætt um ákvæðin um lögsögu, og skal ég litlu við það bæta öðru en því, að við Alþfl.-menn höfum tekið orð forsrh. í þeim efnum trúanleg og teljum okkur ekki eiga annars úrkosta. Ég skal ekki segja neitt um það, hvort ástæða er til þess að festa þau frekar í lög, en varla getur það sakað.

Þá er okkur nokkur þyrnir í augum, hver tímasetningin er til veiða í hinum ýmsu hólfum, og hefur það raunar valdið allmiklum deilum í kvöld. Forsrh. hefur lýst gangi þess máls, og er ekkert við því að segja. Hann hefur sjálfsagt reynt það, sem hann gat, en ekki náð neinum árangri. Það er e. t. v. ekki von, að hann næði miklum árangri við að fá fram breytingar á samningnum, eftir að hann var búinn að lýsa því yfir, að hann ætlaði að standa og falla með því, sem fyrir lá.

Hér hefur einnig verið minnst á það, að ekkert væri nefnt um möskvastærð eða veiðarfæri. Það er að sjálfsögðu rétt, að um það gilda önnur lagaákvæði, sem gefa okkur í raun og veru heimildir til þess að fylgjast með þeim hlutum. En ástandið hefur verið þannig, eins og hæstv. forsrh. lýsti, að við höfum ekki getað fylgst með þessum hlutum. Við vitum, að bæði sjómenn og útvegsmenn hér á landi hafa af þessu vaxandi áhyggjur. Það er líka ástæða til að ætla, að það sé meira en nokkru sinni fyrr um brot á þessum ákvæðum af hálfu erlendra togara, sem hér eru, þ. á m. breskra.

Þá er að nefna sitthvað, sem jákvætt er við samninginn og vegur á móti því, sem menn hafa ástæðu til að vera óánægðir með. Ég vil telja þar fyrst af öllu, að með gerð þessa samnings tel ég, að Bretar hafi á óbeinan hátt í reynd viðurkennt 50 mílurnar. Þeir hafa viðurkennt, að þeir þurfi að semja við okkur um það, hvernig þeir megi haga fiskveiðum sínum á þessu svæði, og ég hygg, að það sé ekki nokkur maður, sem efast um, að þetta sé stórt skref niður á við fyrir Breta í baráttu þeirra í þessum efnum fyrir sínum gamla og úrelta hugsunarhætti.

Ég legg mjög mikið upp úr ákvæðunum um verksmiðjuskip. Það hefur að vísu verið bent á, að Bretar sjálfir eigi ekki mörg verksmiðjuskip, þó að þeir eigi allmarga frystitogara og séu að byggja fleiri. En með því að fá ákvæðið um verksmiðjuskipin inn í samning við Breta, styrkjum við málstað okkar á þessum viðkvæma punkti í samningunum við Þjóðverja, og ég vænti þess, að með því að móta þessa stefnu um að útiloka verksmiðjuskip frá veiðum í kringum þennan verksmiðjuhólma, sem við búum á, höfum við algerlega komist fram hjá því að þurfa að hugsa um samninga við hinar nýju fiskveiðiþjóðir, Austur-Þjóðverja, Pólverja, Rússa og kannske fleiri, sem veiða fyrst og fremst með verksmiðjuskipum. Þetta er mjög mikils virði.

Það verður ekki um það deilt, að sókn Breta á Íslandsmið mun minnka, skipum þeirra fækka. Veiðar eru takmarkaðar, tíminn er takmarkaður, og hvort sem um er að ræða 20, 30 eða 40–50 þús. tonn, þá er það allt í rétta átt fyrir okkur og mikils virði. Að lokum vil ég nefna það á hinni jákvæðu hlið varðandi samningana, að friðsamleg lausn deilumála hlýtur ávallt að vera keppikefli þjóðar eins og Íslendinga. Allar deilur verða að enda í einhvers konar samkomulagi. Þær geta að vísu tekið langan tíma margar hverjar, en samkomulag verður að koma að lokum. Hvað það snertir, tel ég, að þessir samningar séu tvímælalaust jákvæðir og nokkur áfangasigur fyrir Íslendinga.

Á þessum grundvelli höfum við Alþfl.-menn tekið þá afstöðu að fylgja því, að ríkisstj. fái heimild til að framfylgja þeirri stefnu sinni að gera umræddan samning við Breta. Enda þótt eitthvað hljóðni á miðunum í kringum Ísland á næstunni, er landhelgismálið svo sannarlega ekki úr sögunni. Það mun halda áfram, og verður um næg verkefni að ræða. Hafréttarráðstefnan hefst á næsta ári, og þar hefst baráttan fyrir 200 mílunum. Undanfarna mánuði hefur verið talað um 200 mílur hér á Íslandi meira en nokkru sinni fyrr, ekki síst vegna þess að Sjálfstæðisfl. hefur tekið það mál upp og hafið fyrir því mikinn áróður, eins og öllum er kunnugt. Alþfl. er eindregið fylgjandi því, að við eigum að vinna að 200 mílna auðlindalögsögu, þar með talið 200 mílna fiskveiðilögsögu, á hvern þann hátt sem við eigum kost á. En í sambandi við hinn mikla áróður sjálfstæðismanna út af þessu máli vil ég vara þá við því að sýna ekki of mikla bjartsýni um horfur á þessu sviði. Ég vil vara þá við því að fylgja sínu máli fram af þeim áhuga, að þeir fari að telja þjóðinni trú um, að málið sé svo gott sem unnið, það sé öruggur meiri hluti o. s. frv. og þetta verði tvímælalaust komið í höfn í lok ársins 1974. Ég vildi, að svo væri, en því miður hef ég ekki trú á því, en ég hef haft aðstöðu til að fylgjast nokkuð með þessu máli. Ég vil benda mönnum á, að það er ekki nóg að hrópa 200 mílur. Við getum ekki fært út í 200 mílur nema á sumum stöðum við ströndina, þegar þar að kemur. Þar sem minna en 400 mílur eru til næsta lands, verður málið að vera samningsatriði. Þá erum við komnir út í allt aðra tegund af útfærslu en þegar við færðum beint út á opið haf. Ég vil einnig benda á það, sem er e. t. v. alvarlegast í þessu máli, en það er veruleg hætta á, að það verði sett einhver skilyrði fyrir alþjóðasamþykkt um 200 mílur. Segjum nú svo, að 200 mílur yrðu samþykktar af meira en 2/3 þeirra þjóða, sem sitja Hafréttarráðstefnuna. Segjum svo, að það gerist innan tveggja ára. Ef það skilyrði væri samþykkt um leið, að þær þjóðir, sem taka sér 200 mílur, verði að virða sögulegan rétt annarra fiskveiðiþjóða, hvað gerum við Íslendingar þá? Náttúrlega pökkum saman pjönkum okkar og förum heim af ráðstefnunni. En það getur vel verið, að öll þessi mál standi þá galopin með ný viðhorf hér á miðunum í kringum okkur. Við skulum sýna raunhæft mat á þessu og reyna að forðast að vekja tyllivonir hjá þjóðinni, því að það getur líka verið hættulegt.

Herra forseti. Við höfum heyrt margar furðulegar ræður hér í dag, þ. á. m. um eldraun ríkisstj., sem hafi gert hana sterkari en nokkru sinni, að því er hæstv, iðnrh. sagði okkur. Ég er ekki trúaður á, að stjórnin sé sterkari eftir þessa eldraun. Ég hef miklu frekar trú á því, að þessi eldraun sé byrjunin á endinum. Ég trúi því, að ríkisstj. hafi lifað þessa eldraun af fyrir náð stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstöðuflokkarnir gátu hæglega sýnt sama ábyrgðarleysi og núv. stjórnarflokkar sýndu, þegar fyrri samningarnir voru gerðir, slegið málinu upp í pólitískt kæruleysi og ráðist allir með fulltingi hv. 3. landsk. Bjarna Guðnasonar á ríkisstj. Ég er ekki viss um, að hún hefði staðist það áhlaup. Ég er ekki viss um, að hæstv. iðnrh. hefði hlotið slíkan pólitískan og heimspekilegan þroska af málinu, ef það hefði farið á þá lund. En í yfirgnæfandi meirihl. stjórnarandstöðuflokkanna ríkir það mikil ábyrgðartilfinning, að þessi kostur var ekki valinn, og stjórnin situr því áfram. En hún hefur nóg verkefni til að snúa sér að, þó að annir hennar við landhelgismálið verði örlítið minni á næstunni. Við sjáum til, hvenær endirinn kemur og hvar.