12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Pétur Sigurðsson:

Það má reyndar segja, að með orðum hv. þm. Jónasar Árnasonar hafi verið hraktar allar þær fullyrðingar, sem hafa komið fram í ræðu hæstv. ráðh. í kvöld, þegar þeir hafa ráðist, — mér liggur við að segja froðufellandi, eins og hæstv. sjútvrh. gerði, — að þeim þm. Sjálfstfl., sem fylgja sannfæringu sinni og telja sig ekki geta fylgt þessu fyrirkomulagi hæstv. forsrh. og stóra bróður í Downing Street. Það má segja, að þau orð, sem hann notaði, þessi hv. þm., um þetta samkomulag, sem er meingallað og að sumu leyti grábölvað, séu rétta lýsingin á því. Ég vil ekki taka jafndjúpt í árinni og hann um þetta samkomulag. Eins og hér hefur þegar verið drepið á af hv. þm. Benedikt Gröndal, hafa furðulegar ræður verið fluttar hér í kvöld af mörgum hv. þm., en þó allra frekast hæstv. ráðh., að það hefur verið farið fram hjá meginefni málsins ítrekað af ræðumönnum og ráðh. og ekki komið inn á efnispunkta samkomulagsins sjálfs, þótt við þá sé margt að athuga.

En áður en ég kem að því að ræða þetta efnislega, get ég ekki stillt mig um að víkja aðeins að orðum hæstv. forsrh., sem hann viðhafði hér um hv. 2. þm. Vestf., sem ekki var í salnum, og ég tel, að hafi nú nálgast það að slá undir beltisstað. Að vísu veit hæstv. forsrh., að þótt einhver reyndi slíkt dónabragð við hann, þá gæti hinn sami alveg eins átt það á hættu að hitta hæstv. ráðh. á barkakýlið, og það er jafnólöglegt. En hann vitnaði til samþykkta, sem gerðar voru hjá L. Í. Ú. og Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda sínu máli og ágæti samkomulagsins til stuðnings. En ég get skýrt honum frá því, að eftir að þessar samþykktir voru gerðar kom formaður L. Í. Ú. á fund, þar sem ég var, og skýrði bæði mér og fleirum þm. Sjálfstfl. frá því, að í þessu samkomulagi, eftir upplýsingum hæstv. forsrh., ættu Íslendingar að ráða dagsetningum, hvenær hólfin væru opin. Þetta voru orð formanns L. Í. Ú. við okkur, og voru þau byggð á upplýsingum frá hæstv. forsrh. Er ég ekki viss um nema þær samþykktir, sem fengust frá þessum hagsmunasamtökum, hafi m. a. fengist vegna þessara blekkinga, sem komu fram í máli hans, hvort sem þarna hefur verið um vísvitandi blekkingar að ræða eða ekki.

Hann gat réttilega um það, og inn á það kom hæstv. sjútvrh. líka, að ýmis samtök sjómanna hefðu látið fara frá sér samþykktir um það og á þann veg, að þau öll óskuðu þess, að samkomulagið gæti tekist. Sjálfur hef ég gengið kannske lengst fram í því á undanförnum árum í mínum samtökum, hæði Sjómannafélagi Reykjavíkur og Sjómannasambandinu, að mæla með því, að samkomulag gæti tekist. Ég var líka samþykkur því, að halda yrði áfram, þegar forsrh. kom heim, að leita samkomulags, sem báðir gætu unað við. Ég taldi, að það vantaði ekki svo mikið á, við fyrstu skoðun á þessum samkomulagsdrögum, enda boðið upp á, að það mætti fá fram breytingar, það væri ekki, eins og Þjóðviljinn og hæstv. ráðh. Alþb. héldu fram, um úrslitakosti að ræða, heldur væri hér samkomulagsgrundvöllur, sem mætti fá nokkrar leiðréttingar á, ef óskir kæmu þar fram um. Ég kom m. a. fram með slíkar óskir og lét bóka fyrirvara í mínum hagsmunasamtökum um fylgi mitt við þetta samkomulag, ef slíkar breytingar fengjust fram. Formaður Sjálfstfl. lofaði mér því, að þegar hæstv. utanrrh. færi af stað til svokallaðs frekara samkomulags við bresku stjórnina, þá skyldi komið á framfæri vissum óskum, sem m. a. komu fram frá mér. Ég tek eftir því í nál. sjálfstæðismanna í utanrmn., sem hér var útbýtt í kvöld, að þar minnast þeir m. a. á þrjú þessara atriða sem æskilegar breytingar á samkomulaginu. En það kemur réttilega fram í því jafnframt, að það eru nokkrir þm. Sjálfstfl. sem munu ekki geta fylgt þessu samkomulagi í atkvgr. hér á Alþ., og hafa 3 þegar lýst yfir, að þeir muni ekki gera það, máske koma fleiri á eftir.

Það er eftirtektarvert, að þegar hæstv. sjútvrh. talar hér langt mál, eyðir hann 3/4 hlutum ræðutíma síns til að tala um samninginn frá 1961. Og ég vil leyfa mér að taka undir þau orð hæstv. forsrh., sem hann viðhafði, eftir að sjútvrh. hafði talað, að þetta mál væri auðvitað búið og gert fyrir löngu. Sá samningur hefði fyrir löngu náð tilgangi sínum. M. a. á honum, — það eru ekki orð forsrh., ég tek það fram, — m. a. á gerð hans og viðurkenningunni, sem við fengum með þeim samningum, var hægt að fara út í þá útfærslu, sem farið var af hæstv. núv. ríkisstj.

En það er hlægilegt, að um leið og verið er að tala um þá framkvæmd, vill hæstv. sjútvrh. láta liggja að því, að tillöguflutningur hans á þeim árum, þegar 12 mílna reglan var að ná fótfestu í okkar nágrannalöndum í Vestur-Evrópu og víðar, hafi mótað þá þróun, sem síðar hefur orðið á alþjóðavettvangi í landhelgismálum. Ég nenni ekki að eyða orðum og rekja alla þá sögu allt frá því að fastafulltrúi Möltu hjá Sameinuðu þjóðunum flutti till. sína um rannsókn og hagnýtingu auðæfa hafsbotnsins, sem samþ. var, eða þá sögu, sem fylgir skoðunum mannkyns á mengunar- og umhverfismálum o. s. frv., að ég tali ekki um, til þess að við förum í okkar næsta nágrenni, þegar skipt er upp hafsbotninum í Norðursjónum af þeim þjóðum, sem eiga land að Norðursjó, sem ég held að kannske hafi styrkt okkar málstað í þessu máli hvað frekast, a. m. k. í Englandi. Og ég held, að það hafi frekar styrkt okkar mál heldur en aðgerðir „Den farende svend“, sem hæstv. sjútvrh. sendi nokkrum sinnum á þær vígstöðvar.

En það, sem ég er óánægður með hjá flokksbræðrum mínum og svokölluðu flokksmálgagni, er það, að hæstv. forsrh. skuli vera gerður að einhverjum þjóðardýrlingi, þó að hann reyni í fyrsta skipti á forsætisráðherraferli sínum að standa nokkuð í ístaðinu og gegna skyldu sinni. (Sv.H.: Þetta er reginhneyksli.) Það er reginhneyksli, Sverrir Hermannsson. Ég hef aldrei vitað það, að skipstjóra, sem strandar ekki skipi bæri eitthvert sérstakt hrós. Og því síður tel ég það honum til nokkurs hróss, þótt hann hafi reynt að leiða ríkisstj. sína og þjóðina út af þessum eyðimerkurvegi, sem sjútvrh. hæstv. var hersýnilega búinn að koma henni inn á í sambandi við alla þessa samningagerð. Og það þýðir auðvitað ekkert fyrir Lúðvík Jósepsson hæstv. að standa hér uppi í pontu á Alþ. og halda öðru fram en því, að hann vildi aldrei semja í landhelgismálinu við lafðina vinkonu sína, þótt vel færi á með þeim.

Ég skal verða við þeirri áskorun, sem óbeint kom fram í orðum hæstv. forsrh., að fara frekar efnislega í till. þær, sem hér liggja fyrir, heldur en vera að stíga einhvern darraðardans við þá um það, sem liðið er fyrir löngu og faktískt kemur ekki þessu máli við, sem hér er verið að tala um. En ég held samt sem áður, áður en ég kem að mínum efnislegu aðfinnslum, að grunur minn sé nokkuð réttur í því, að þeir þm., sem nú eftir öll stóru orðin, eftir landráða- og svikabrigslin gagnvart okkur, sem stóðum í þessum sporum fyrir nokkrum árum, þá megi þeir hinir sömu, sem nú standa að slíku samkomulagi, en gagnrýndu þá búast við sama stimplinum, eftir að samningar hafa verið gerðir. Og það er líka trú mín, að margir af þeim, sem nú rétta upp hönd sína með þessum samningum, muni ekki ganga hlæjandi til sængur, þegar talningu lýkur eftir næstu alþingiskosningar.

Í aths. við þáltill. segir m. a. og hefur verið talið þessu samkomulagi einna helst til gildis, að þar sé um að ræða útilokun breskra frystiskipa og verksmiðjuskipa og fækkun annarra skipa. Síðan kemur sú fullyrðing, sem ég fæ ekki séð, að standist á nokkurn hátt, að þessi skerðing jafngildi 25% niðurskurði á fjölda breskra veiðiskipa á Íslandsmiðum, miðað við samsetningu flotans á árinu 1971, en 36% minnkun að tonnatölu. Þá er gengið út frá þeirri vissu eða þeirri trú, að frystiskipin og hin stærri skip muni algerlega hverfa af Íslandsmiðum. Ég held, að það sé ákaflega mikil hjartsýni að ætla, að svo verði. Ég hef miklu frekar trú á því, að er þau hafa verið hrakin af miðum, sem þau hafa nýtt, ekki mjög oft, eins og hæstv. sjútvrh. orðaði það, heldur þó nokkrum sinnum, þegar þau hafa verið hrakin út fyrir 50 mílurnar af sínum fyrri miðum, þá muni þau sækja á ný mið, sem þau geta nýtt hér við Íslandsstrendur. Og hvar eru þessi mið? Þau eru að sjálfsögðu undan vesturströnd landsins og suðvesturströnd og reyndar víðar í kringum landið. Verksmiðjuskipin geta togað á miklu meira dýpi en þekktist fyrir nokkrum árum jafnvel. Og við þekkjum það vel, að vestur af landinu eru okkar þýðingarmestu og dýrmætustu togaramið, sem við Íslendingar eigum og höfum nytjað um áratugaskeið. Þegar þessi floti kemur þangað, er ég hræddur um, að þröngt verði fyrir dyrum a. m. k. hjá einhverjum Auðunsbróðurnum, sem þar stundar veiðar, ef ekki fleiri íslenskum togaraskipstjórum. Auk þess skulum við ekki gleyma því, að af 24 mánuðum, sem samkomulag þetta á að standa, er leyfilegt að hleypa jafnvel öllum flotanum án nokkurrar skerðingar inn á takmarkað svæði í jafnvel takmörkuðum hluta eins hólfsins. Ef fiskur er þar fyrir hendi, geta þeir tæknilega sótt þangað. Þeir mundu kannske ekki allir vera að í einu, en það er ekki heldur getið um það, að þeir geti aukið nýtingarmöguleika sinna togara eftir þessa fækkun gífurlega mikið, t. d. þegar gott veður er, með því að umskipa úr einu skipinu í annað, úr togurunum í flutningaskip, á svæðinu milli 12 og 50 mílnanna. Þetta er náttúrlega ekki alltaf hægt, en er tæknilega mögulegt, og í þessu samkomulagi segir ekkert um, að það megi ekki.

Þar sem um er talað viðmiðun við 130 þús. tonn, harma ég það, að þar skyldi ekki vera föst og ákveðin tala, því að auðvitað getur þessi tala farið langt upp úr þessu marki. Mér kæmi ekkert á óvart, þó að hún gæti farið upp í 140 eða 150 þús. tonn. Það er ekkert, sem getur stöðvað það samkv. samkomulaginu. Það er ekkert annað en trú manna, að þetta muni ekki nást. En í sjálfu sér hef ég aldrei haft sem einhverja aðaltrúarskoðun þennan svokallaða hámarksafla. Ég hef miklu frekar haft þá trú, að við ættum að reyna að sjá svo um, að samsetning aflans væri af hinni heppilegustu stærð fyrir okkur Íslendinga. Við vitum, að 130 þús. tonn af smáfiski geta verið eftir nokkur ár eða nokkur misseri 150 þús. tonn af fullvöxnum fiski. Og það er dálítill munur á, hvort við getum fyrirbyggt það, að sótt verði í hinn smærri fisk enn þá frekar, beint skipum bæði okkar og þeim, sem eru samningsbundin, á hinn fullvaxna fisk. Eins má reyndar tala um annan dýran fisk eins og flatfiskinn hér fyrir Vesturlandinu, sem gengur út á haustin, bæði úr Faxaflóa og Breiðafirði, og eins má reyndar tala um marga firði og uppeldisstöðvar fyrir flatfisk fyrir Norðurlandi.

Nú hefur því verið haldið fram af sérfræðingum, að einmitt þessar aðgerðir mundu fyrirbyggja ásóknina í smáfiskinn. En þegar við horfum á það, sem er auðvitað fyrst og fremst vanræksla sjútvrh., þá sorglegu staðreynd, sem kemur fram í friðunarsvæðum og við getum séð á kortinu, sem fylgir þskj. þessu, sem við erum að ræða efnislega, þá kemur í ljós þar, að það er eitt friðarsvæði, tiltölulega lítið svæði við Suðurlandið, sem er til friðunar hrygningarfiskinum yfir háhrygningartímann, og er þar um fullorðinn fisk að ræða, og kemur ekki inn í sambandi við þetta mál.

Það, sem nýtt er, er að sjálfsögðu 8 mílna beltið í hólfi A fyrir Vestfjörðum og í hólfi B fyrir Austfjörðum. Hólfið við Norðausturland er aðeins lokað í tvo mánuði einnig. Segi ég hiklaust, að mér þykir það eitt það alversta í sambandi við þetta samkomulag og gerir það að verkum, að ég get ekki fylgt því, að það er algerlega lokað fyrir frekari friðunaraðgerðir, þótt íslensku þjóðinni væri það lífsnauðsynlegt. Við eigum, ef við teljum, að við þurfum að friða frekari svæði, allt undir Bretum þar um. Þeir verða að samþykkja það. Við verðum að koma til þeirra á hnjánum og biðja þá: Viljið þið friða þessi svæði, sem við þurfum lífsnauðsynlega að friða til þess að viðhalda fiskstofninum, sem íslenska þjóðin á að lifa af, ekki á næstu tveimur árum, heldur um alla ókomna framtíð? — Við skulum ekki heldur gleyma því, að smáfiskurinn finnst ekki endilega nærri landi. Ég held, að allir, sem hér eru inni, þekki þessi mörgu dæmi, allt frá sinni bernsku og til dagsins í dag, að allt uppi í landssteinum fáum við fullvaxinn bolfisk, bæði þorsk og ýsu, en smáfiskurinn getur verið djúpt úti, hann getur verið langt fyrir utan 50 mílna mörkin. Haldið þið virkilega, að smáfiskurinn á friðaða svæðinu norður af Kögri viti nokkuð um þetta samkomulag, sem Ólafur Jóhannesson hæstv. hefur verið að gera við stóra bróður í Downing Street? Haldið þið virkilega, að það sé ekki hægt að toga meðfram þessari línu, og haldið þið, að fiskurinn sé ekki alveg eins þar? Enda kom það á daginn nú fyrir skömmu, þegar erlendir togarar höfðu hamast á þessu svæði í nokkra daga, án þess að Landhelgisgæslan skipti sér þar af, þá var litli fiskurinn horfinn undan. Hann hafði fært sig um set, farið kannske langt austur með landinu. Það hefði kannske þurft að fylgja honum eftir og friða þau svæði, sem hann kannske stöðvaðist aftur á. En á þetta sama svæði glæptust því miður nokkrir Íslendingar á skipum sínum til þess að fara yfir, jafnbrotlegir og ekki síður en hinir, en þá bara var enginn smáfiskur þar, heldur fullvaxinn fiskur. Og það er ekkert einhlítt að setja í samkomulag og festa um tveggja ára skeið: Þarna skal vera smáfiskur, og því friðum við þetta svæði. — Ég endurtek það, að þessi blessaður fiskur veit ekkert um það, hvað okkar forsrh. er skynsamur.

Fleiri atriði eru auðvitað í þessu samkomulagi, sem full ástæða er til að gera aðfinnslur við. Ég skal ekki endurtaka það, sem hefur þegar komið fram í gagnrýni á hólfin. Í sjálfu sér er rétt, sem fram hefur komið, að skipting þeirra er furðuleg, og það hefur ekki enn þá komið svar við því, hver fann upp þessa Salómonslausn. Ég held, að hæstv. sjútvrh. hafi ekki tekið þetta afkvæmi á sig, þótt það hafi orðið til í innilegum viðræðum hans og lafði Tweedsmuir. En einhver á þetta, og má segja, að við hefði mátt notast, ef tímasetningin hefði verið þannig, að að gagni hefði komið fyrir okkur Íslendinga. Því miður er ekki svo.

En það er eitt atriði til viðbótar, sem ég get ekki annað en staldrað aðeins við og haft nokkur orð um. Hagsmunasamtök sjómanna og útgerðarmanna, Alþ. Íslendinga, ríkisstj. Íslands og einstakir ráðh. hafa keppst við um það á undanförnum misserum að hrósa Landhelgisgæslu okkar að verðleikum fyrir hennar starf. En með þessu samkomulagi er þeim rétt það kjaftshögg, með kærri þökk fyrir síðast að sjálfsögðu, sem er á þann veg, að starf þeirra er einskis metið. Þessir okkar glæstustu og bestu löggæslumenn, sem við eigum hér á landi, verða að una því, ef þessi samkomulagsgrundvöllur verður að samningi, að kalla á erlendan aðila inn í íslenska landhelgi til þess að láta hann dæma um það, hvort þeir hafi farið rétt að í sínum mælingum. Enn þá á ég eftir að fá frekari skýringu á tæknilegri framkvæmd þessa. Sjálfur var ég með till. um það, af því að ég vissi, að á þessu stigi mundu Bretar aldrei fást til að viðurkenna þá lögsögu, sem við vildum helst hafa innan þessara marka, en til að firra þetta löggæslulið okkar þessari smán, var ég með þá till., að í staðinn skyldi hinn breski sökudólgur, sem staðinn væri að broti, hafa heimild til þess að kalla sjálfur á eftirlitsskip til þess að staðfesta sína mælingu, en að varðskipið þyrfti ekki að vera sett í þetta. Þetta taldi ég svo lítið atriði, að ég taldi sjálfsagt, að þetta mundi fást fram. En þegar það fékkst ekki fram, kom auðvitað enn berlegar í ljós, um hvers konar úrslitakosti var að ræða, sem reyndar eru ekki úrslitakostir, eins og Alþb.-menn sögðu, heldur skýr krafa um skilyrðislausa uppgjöf.

Það hefur ekki enn þá komið fram, ekki að mér áheyrandi, — og breytir þá engu um það, þótt ég hafi lent í veislu í Noregi með uppgjafaframsóknarþm. og ráherra bróður og farið með upplýsingar þar í ræðu, sem ég hélt, sem ég fékk frá fyrrv. þm. Framsfl., — að ráðherrabróðirinn grét strax við stekkinn, þegar hann heyrði þessa frétt, að ríkisstj. væri fallin, og sneri sér strax til Matthíasar Bjarnasonar og bað hann um hjálpa sér að kaupa það skip, sem á að kaupa. En ég fæ ekki enn þá skilið, til hvers er ætlast af varðskipinu, þegar það hefur staðið breskan togara að broti. Það á að kalla á breskt eftirlitsskip. En á það að bíða eftir um ómældan tíma að breska eftirlitsskipið komi? Á að taka það úr leik við eftirlitið innan lögsögunnar, á það að bíða, þangað til eftirlitsskipið kemur, þar sem það er statt, og er alveg sama hvar það er statt og hvar varðskipið er statt? Við vitum, að það er þýðingarlaust fyrir varðskipið okkar íslenska, þar sem slíkir fantar eiga í hlut, að setja út baujur, þeir hafa verið staðnir að því að taka þær upp og flytja þær um langa vegalengd. Þetta er eitt atriði. En meginatriðið í sambandi við þetta er að okkar varðskip eigi að þurfa að kalla á erlendan aðila til þess að sannprófa gerðir þeirra. Þetta finnst mér vera hin freklegasta móðgun, sem einni ágætustu stétt okkar lands hefur verið sýnd, og þar á ég að sjálfsögðu við okkar íslensku landhelgisgæslu. Er þetta önnur meginástæðan fyrir því, þótt ég sé mjög fylgjandi því, að samkomulag takist, að ég mun ekki greiða þessum samkomulagsgrundvelli atkv.

Nú hefur því verið haldið fram, og það hefur komið fram sem hótun, ekki aðeins hér hjá hæstv. ráðh., heldur og hjá fleiri aðilum, að slíkt ástand mundi skapast á miðunum, ef þetta yrði ekki samþykkt, að voðinn sjálfur væri vís. Ég hef allt aðra skoðun á þessu máli, og þótt reynt hafi verið að hræða menn til fylgis við þetta samkomulag með því að segja, að flotinn komi strax inn aftur, hef ég enga trú á því, að hann mundi gera það, enda mundi hann þá ekki gera það fyrr en eftir að okkar landhelgisgæsla hefði á ný tekið eiginlega landhelgisgæslu, en ekki þetta sportframhjáhlaup, sem þeim hefur auðsjáanlega verið fyrirskipað, að öllum líkindum af æðsta manni landhelgisgæslunnar, sjálfum hæstv. dómsmrh. En þeir halda nokkuð að sér höndum í líkindum við það, þá þurfum við auðvitað ekki að óttast, að flotinn kom inn aftur.

Það liggur nú þegar fyrir, að síðasti undirbúningsfundur að Hafréttarráðstefnunni verður í des. í New York, og að öllum líkindum mun sjálf Hafréttarráðstefnan hefjast á næsta ári, næsta sumar, jafnvel þegar í mars. Ég held, að það hefði verið miklu betra, að bíða. Jafnvel þótt við stöndum frammi fyrir því að þurfa að fara í nauðsynlega samninga vegna Norðursjávarveiðanna, þá sé ég ekki enn þá, hvað kallar á um þá rétt núna. Það má vel vera, að svo sé, þótt ég sé ekki kunnugur því. Ég tel þó, að það hefði verið betra að fara út í þá samninga, ef það hefði verið hægt að fresta þeim, um það leyti sem Hafréttarráðstefnan væri komin í gang, og ég óttast ekki, þótt hv. þm. Benedikt Gröndal geri það um niðurstöðu Hafréttarráðstefnunnar. Ég er það trúaður á, að 200 mílna efnahagslögsagan muni sigra, að ég er satt að segja farinn að reikna með henni. Ég skal þó taka til greina alla þá fyrirvara og aðvaranir, sem hann hafði til okkar bjartsýnismannanna þar um.

En sem sagt, ég hef ekki trú á, ef skynslega er á haldið, að flotinu komi inn aftur og valdi þeim voða, sem sumir óttast. En auðvitað verður þá að hafa nokkuð tögl og hagldir á því, hvernig gæslan vinnur sín störf á þessu tímabili. Það er spurningin um það, hvort við getum staðið af okkur 1—1½ ár í viðbót. Ég trúi, að það sé hámarkið. En hitt er spurningin um það að vera bundinn Bretum í næstu tvö ár með þessum afarkostum, að hafa allan flota þeirra inn að 12 mílna mörkunum með örfáum undantekningum, bæði tímanlegum og mælanlegum í sjómílum.