22.10.1973
Sameinað þing: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. þær upplýsingar, sem hann hefur gefið hér, og þó sérstaklega fagna ég því, að gæslan úti fyrir Vestfjörðum skuli nú aukin, og jafnframt þeirri skýlausu yfirlýsingu, að henni verði fylgt eftir og að friðlýsta svæðið verði varið fyrir ágangi erlendra veiðiskipa og auðvitað öllum skipum, því að það skiptir miklu máli að virða það fullkomlega, sem friðlýst er.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það þarf auðvitað að safna gögnum frá báðum hliðum, þegar bornar eru jafnþungar sakir á gæsluna og gert er í umræddri grein. Ummæli eru höfð eftir innan tilvitnunarmerkja í blaðinu, svo að það geta ekki verið orð blaðsins, heldur skipstjórans, og það var mjög á sömu lund hjá þeim mönnum, sem við mig töluðu yfir helgina. Ég ætla fyrir mitt leyti að óska eftir því frá þessum mönnum, að þeir sendi skýrslu um þetta mál, um þessa atburði, og þá til dómsmrn.