12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það kom berlega í ljós og staðfestist í umræðunum hér í dag og í kvöld, að varnar- og öryggismálin hafa verið til umræðu í sambandi við samninga innan ríkisstj. um framgang þess máls, sem hér er til umræðu. Án þess að ég beindi fsp. til hæstv. iðnrh., sagði hann í ræðu sinni í dag að eigin hvötum, að ekki hefði verið farið fram á yfirlýsingu um neitt annað í varnarmálunum en það, sem í stjórnarsáttmálanum stæði. Hann staðfesti með þessum orðum sínum, að um yfirlýsingu hafði verið beðið af hálfu Alþb.-ráðherranna.

Hæstv. forsrh. kom svo hér í kvöld og svaraði fsp. minni. Hann vildi hins vegar sem minnst úr þessu gera. Hann hætti því þó við, að næðist ekki samkomulag í þeim samningsumræðum, sem nú fara fram varðandi varnarsamninginn, samkvæmt stjórnarsáttmálanum, þá yrði flutt till. á Alþ. í vor um uppsögn samningsins. Ég vil vekja athygli á þessari yfirlýsingu forsrh. og benda á, að hér er enn ein ný yfirlýsing ráðh. í varnarmálum, og er ekki nokkur vafi á því, að hún hefur verið gefin til þess að friða Alþb.-ráðherrana, þegar þeim var neitað um fulltrúa í samninganefnd um varnarmálin. Er hér vissulega um alvarlegt mál að ræða.

Þá mátti mjög vel heyra á ræðu hv. 1. þm. Austf., frsm. meiri hl. utanrmn., að það fer nú mjög í fínu taugar þeirra sú óviturlega afstaða, sem meiri hl. utanrmn. tók á fundinum 26. sept., er þeir lögðu til, að slitið yrði stjórnmálasambandi við Breta þá þegar, eins og ég gerði að umtalsefni í ræðu minni hér í dag. Vildi hv. þm. mjög gjarnan gefa hagstæðari skýringar á afstöðu þeirra en raunin varð á. Ég vil þess vegna í mjög fáum orðum rifja upp það, sem gerðist á fundinum. Þegar fram höfðu verið lögð gögnin frá sjóprófum þeim, sem haldin voru vegna árekstra, sem átt höfðu sér stað 26. sept. milli breskrar freigátu og íslensks varðskips, skýrði utanrrh., sem sat fundinn, frá því, að forsrh. hefði borist bréf frá forsrh. Bretlands, og hann las upp bréfið. Utanrrh. bætti því svo við, að forsrh. áliti það koma til greina að fresta slitum á stjórnmálasamskiptum, en þó ekki nema í örfáa daga og einnig með því skilyrði, að utanrn. samþykkti það einróma. Það voru hreinar linur um vilja n. Aðeins við fulltrúar Sjálfstfl., Jóhann Hafstein og ég, töldum rétt að athuga nánar, hvað fyrir forsrh. Breta vekti. Meiri hl. vildi láta slíta stjórnmálasambandinu strax, og eins og það var orðað af einum nm. meiri hl.: „Ef við frestum slitunum, mundi enginn botna í okkur.“ Sem betur fer fór hæstv. forsrh. ekki að till. meiri hl. utanrmn., og einmitt þess vegna sjáum við e. t. v. fram á lausn deilunnar við Breta, enda þótt hún hefði getað verið mun hagstæðari.