12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. kom hér að sinni grg, í sambandi við stjórnmálaslit. Það kann að vera rétt, að þau hafi haft þau áhrif, að til þess dró, að samningar tókust milli Breta og Íslendinga. Allt um það, þegar sú ákvörðun var tekin um slitin, þá var það að mínum dómi heimskan einber. Úr því sem komið er, er of seint um það að ræða. Ég hygg þó, að það hafi ekki haft slík úrslitaáhrif sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns.

Ég hef ekki átt þess kost að hlýða á ræður manna hér í kvöld um þessi mál, þar sem ég var veðurtepptur austur á landi. En alla tíð, frá því að þessi hæstv. ríkisstj. tók við þessu máli, hefur það verið mín skoðun, að hún hafi haldið heldur slaklega á því. Héðan af er of seint að halda því fram, enda fást engar sönnur á því, að við hefðum getað fengið betri samninga eða jafngóða í upphafi þrætunnar, en mér er nær að halda það.

Þessi samningur, sem hér liggur fyrir, er afar slakur, þótt ekki sé meira sagt. Í honum felast engin réttindi okkur til handa, engin viðurkenning á réttindum. Þó vil ég álíta, að þessi samningur feli það í sér, sem okkur má verða um hríð til góða, og þess vegna er það, að ég mun g:eiða honum atkvæði.

Ég varð fyrir stórkostlegum vonbrigðum, sér í lagi vegna þess, sem komið hefur í ljós um tímaákvarðanir um veiðisvæði. Fyrst, þegar okkur voru kynnt þessi samningsdrög, stóð ég í þeirri trú, að við ættum valkosti, — ef við féllumst á 5 opin og 1 lokað svæði, þá væri okkur nokkurn veginn í sjálfsvald sett, hvernig tímamörk um veiðitíma yrðu ákvörðuð í þeim 5, sem opin væru. Útvegsm. og forustumenn þeirra héldu því fram, að ef á þetta yrði fallist, ættum við valkosti um þetta og sjálfsákvörðunarvald. En þetta reyndist með allt öðrum hætti. Það má segja, að tímamörk um veiðisvæði séu næstum því eftir því, sem maður skyldi halda að kæmi breskum veiðimönnum best að gagni. Þetta virðist mér eftir íhugun, að komi í ljós.

Marga fleiri galla má á þessu finna. Mér er ekki ljóst, að lögsagan nái þeim tilgangi og því, sem við ætlum okkur. Því fer víðs fjarri.

En eitt er alveg ljóst og varð mér ljóst þegar í upphafi, þegar þessi samningsdrög voru lögð fyrir, það var, að Bretar gengu að íslensku tilboði. Á lokastigi umr. í London 15. okt. bar hæstv. forsrh, fram málamiðlunartill., sem Bretar og forsrh. þeirra gengu nákvæmlega að. (Gripið fram í.) Utan þess, að hæstv. forsrh. setti fram tvö hólf lokuð. (Forsrh.: Engin ákvæði um tímalengd samningsins.) Utan þess, að hæstv. forsrh. hafði í sínu lokatilboði það ákvæði, að 2 hólf yrðu lokuð og 4 opin, og sem hann segir nú, að ekkert hafi verið ákveðið um tímalengd samningsins. Ég verð að segja, að Bretar hafi gengið að lokatilboði okkar hæstv. forsrh. (Forsrh.: Er þá eitt hólf til viðbótar einskis virði?) Ekki hef ég sagt það.

Eigum við að líta á hólfin sérstaklega. Ég hef heyrt þá skilgreiningu, að 5 opin og 1 lokað væru gjarnan hagstæðari fyrir okkur, af því að minni áníðsla yrði á þau, sem opin yrðu. Þetta finnast mér öfug rök. Af hverju ekki þá að hafa öll opin? Og ég þykist hafa séð á einhverjum stað, að það, að fá þessu framgengt, að eitt sé lokað, þýði aðeins 3% veiðiminnkun til handa breskum veiðimönnum.

Um tímalengdina skal ég ekkert segja, en ég hlýt að rifja það upp, sem ég lagði mest upp úr.

Á fyrsta stigi þessa máls, eftir að hæstv. forsrh. kom frá Bretaveldi, þá skildist mér málið standa þann veginn, að gegn því, að við féllumst á 5 opin og 1 lokað, þá hefðum við nokkurt sjálfdæmi um það, hvaða tímamörk yrðu á veiðihólfunum. Þetta reyndist alrangt. Það hafði þegar verið um það samið. (Gripið fram í.) Það hafði þegar verið um það samið. (Forsrh.: Þetta er rangt.) Hafði ekki verið um það samið? (Forsrh.: Nei, nei.) Hv. forsrh. kom til landsins 16. okt. Fiskimálastjóri skilaði 18. okt., álitsgerð um það, hvernig veiði Breta yrði háttað, hvaða afla þeir mundu ná í 5 hólfum opnum og 1 lokuðu. Þetta hef ég séð. Hvaðan fékk hann þá skilmála, fiskimálastjóri, að reikna út, hvernig veiði Breta yrði háttað, þannig að hann gæti skilað því tveimur dögum seinna? Hvernig má það vera? (Gripið fram í.) Ég bið þá um, að þær skýringar verði endurteknar. (Gripið fram í.) Þessi þm. gat ekki sótt þingfund af ástæðum, sem eru löglegar.

Hæstv. forsrh., að því er útvegsmönnum skildist á fundi með honum, fullyrti, að við hefðum nokkurt sjálfdæmi um það, hvernig veiðisvæðin yrðu opin. Þeir sögðu á fundi með mér, að þeir hefðu ítrekað spurt hæstv. forsrh. um þetta og hann hefði fullyrt þetta. Ég dró þetta þá í efa, þar sem ég var staddur á þessum fundi. En á þingflokksfundi Sjálfstfl. var fullyrt, að embættismenn ættu eftir að ræða þessi mál og ganga frá því, hvaða tímamörk yrðu sett um veiðihólfin og hvaða veiðihólf yrðu í senn opin.

Sannleikurinn er sá, hæstv. forsrh., að það, sem mér er ógeðfelldast í þessum samningi, er, með hvaða hætti tímamörkun og veiðisvæði eru ákveðin, af því að mér sýnist af þeirri þekkingu, sem ég hef og þeirra manna, sem mér standa næstir, að það sé næstum því nákvæmlega eins og Bretar sjálfir gætu óskað sér. Þann veginn er þetta, og dreg ég enga dul á það. Fylgi við sættir og frið í þessu máli byggðist í upphafinu, eftir að hæstv. forsrh. kom frá Bretlandi, sér í lagi á þessari von, að við kynnum að hafa um þetta atkvæði, hvernig veiði og sókn Breta yrði háttað á okkar miðum.

Ég skal ekkert um það fullyrða, hvernig til tekst um lögsöguna. Þau lagaákvæði, sem hafa verið borin hér fram, tel ég óþörf. Við höfum í okkar lögum þegar öll ákvæði, sem duga í þessu máli. Það fer eftir því, hvernig þessi samningur reynist og samskipti okkar við breska þjóð, hvernig okkar lögsögu fleytir fram. Þó liggur alveg ljóst fyrir, að þeir hafa ekki okkur til handa gefið neinn rétt. Þeir halda því fram, að þeir hafi jafnan rétt. Ég verð að segja, að mér er óskaplega óskapfellilegt þetta ákvæði, að íslenskt lögregluskip skuli verða til þess skyldað að kalla fulltrúa bresks veiðiþjófs á vettvang til þess að staðreyna, að lögregluvaldið fari með rétt mál.

Ég hef gagnrýnt nú og hér ákvæði þessa samnings, en hlýt þó að draga fram það, sem að mínum dómi horfir til rétts vegar, t. a. m. það, að ég hygg, að í þessum samningi felist meiri vernd fyrir íslensk fiskimið en verið hefur í boði nú um hríð, vegna þess að svo má segja, að a. m. k. frá því að landhelgin var færð út í 50 mílur höfum við enga vernd haft. Þeir hafa komið sínu fram, níðst á íslenskum fiskimiðum án eftirlits, drepið ungfisk að sínum vilja. Ég álít, að í þessu samkomulagi felist mikilsverð vernd, alveg ný og nauðsynleg fyrir okkar fiskimið. Einnig álít ég, eins og virðist liggja ljóst fyrir, að bægt sé lífsháska frá íslenskum sjómönnum, um það hljóta allir menn að vera sammála.

Einnig er til viðbótar þessu eitt atriði, sem ég hlýt að meta nokkurs. Þegar hæstv. forsrh. er mættur í London, og á lokastigi málsins, eins og hann hefur lýst sjálfur, ber fram sáttaboð, sem gengið er að af hálfu Breta, — sem gengið er að, — þessi samningur, sem hér liggur fyrir, er sáttaboð, lokatilboð hæstv. forsrh. okkar, næstum því nákvæmlega, — þá hlutu, þegar hann er mættur, okkar forsrh., — þá hlutu Bretar, eftir það sem áður hafði fram farið, að geta reiknað með því, að hann væri fulltrúi allrar íslensku þjóðarinnar, einhuga þjóðar í þessu máli. Þeir höfðu leyfi til að álykta svo. Þeir gengu að boði hans utan þessa, 5:1 og 4:2. Það skiptir engu máli héðan í frá, betra væri að hafa allt opið, allt hitt er fáfengilegheit og skiptir engu máli. Þeir gengu að hans lokaboði í þeirri góðu trú, að hann væri fulltrúi samhuga þjóðar. Þess vegna er það fyrir mig mál, að við stöndum við orð okkar. Það varðar næstum því heiður íslensku þjóðarinnar, að við stöndum við það tilboð, sem hæstv. forsrh. gaf og gengið var að í London 15. okt. s. l. Það stendur: „Icelandic proposal 15th október 1973: Að því var gengið af Bretum. Og spurningin er næstum því orðin sú, hvort við erum menn til þess að standa við okkar orð, úr því að Bretar hlutu að líta svo á, að einhuga þjóð stæði að baki þeim fulltrúa, sem mætti og hefði leyfi til að bjóða þessi boð. Hæstv. sjútvrh. hefur dregið það í efa, að hæstv. forsrh. hafi haft leyfi til þess að bjóða þetta. Þetta hefur hæstv. forsrh. hrakið og sýnt með manndómi sínum, að ekki á sér stað, rekið þetta öfugt ofan í hann, þannig að hann á sér engrar hjálpar von. Við hæstv sjútvrh. eigum eftir að tala um þetta, þótt síða verði. En ég átti ekki á því von, að hæstv. sjútvrh. ætti eftir að bíða slíkan ósigur sem dæmin sanna í þessu máli. Á öllu öðru átti ég von, og þess vegna mun ég í þessu máli hafa töluvert hlýjar taugar til hæstv. forsrh. Það hafa ekki aðrir gert rösklegar en hann.

Á þessu máli hefur verið haldið með þeim hætti, sem mér hefur ekki verið skapfelldur lengstum. En þegar ég met þá galla, sem á þessu eru, og þá kosti, sem þetta ber í skauti sínu, þá hlýt ég að greiða þessu samkomulagi atkv.