12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Svo er að sjá á þingbekkjum, að þm. almennt séu gengnir til náða, en eigi að síður er ástæðulaust að hlífa mönnum neitt við því að vaka a. m. k. eina nótt á ári.

Eitt er mér ljóst eftir þær umr., sem hér hafa farið fram í dag, sem sé það, að afstaða stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, Sjálfstfl., er, ef marka má það, sem fram hefur komið hér í umr., í þrennu lagi. Afstaða stærsta stjórnmálaflokksins í landinu til landhelgismálsins er í þrennu lagi. (Gripið fram í.) Það kemur á daginn. Og er það heldur ófögur lýsing fyrir hv. 2. þm. Reykv., nýviðtekinn formann þess flokks, að slík sé niðurstaða fyrsta stórmálsins, sem honum er ætlað að leysa innan Sjálfstfl. Heldur er það óhöndulegt. Og ég tek undir það, sem sagt var hér í dag, að það má mikið vera, ef fyrrv. leiðtogar Sjálfstfl., merkismenn á margan hátt, eins og ég held, að 8. landsk. þm. orðaði það, sneru sér ekki við í gröfunum.

Það má segja um afstöðu hv. þm. Sjálfstfl., að manni kæmi í hug undir ýmsum ræðum þeirra, að þeir litu svo á, að fjarlægðin gerði fjöllin blá og mennina mikla. Það er engu líkara en a. m. k. hluti þessara hv. þm. Sjálfstfl. liti svo á, að almenningur í landinu sé búinn að gleyma því, sem gerðist 1961. Það var sagt hér áðan, ekki bara af einum, heldur mörgum þessara hv. þm., að núv. þm. stjórnarflokkanna væru kokvíðir. Þetta var m. a. sagt af hv. 2. þm. Vestf., að ýmsir stjórnarþm. núv. væru kokvíðari en hann. Það má vera, að hans kok hafi skroppið saman síðustu rúm tvö árin, en æðimörgum fannst það kok vítt þau 12 ár, sem hann sat undir viðreisn. Og ég er ekkert hissa á því um mann með skapferli hv. 2. þm. Vestf., þó að það væri ýmsum örðugleikum háð fyrir hann að sitja undir því fargi, sem á hann var lagt í tíð fyrrv. ríkisstj. Hann er ábyggilega þannig skapi farinn, sá hv. þm., að hann vill a. m. k. hafa uppi tilburði til þess að vera með sjálfum sér, ef svo má segja, og fylgja sinni sannfæringu. En því miður kom það æðioft fyrir á því 12 ára tímabili, sem hans fl.okkur fór með völd hér á landi, að litið bæri á þeirri sannfæringu, sem hann er nú að tala um hjá öðrum.

Hið sama mætti í raun og veru segja um hv. 5. þm. Vestf. Og það er raunar tímanna tákn, þegar það gerist nú, sem ekki hefur gerst um árabil, að einstaka þm. innan þingliðs Sjálfstfl. virðast hafa fengið leyfi til þess að vera á annarri skoðun en forustan í flokknum. Og það er tímanna tákn, sem tekið verður eftir, þegar þeir koma hér upp, þessir hv. þm., og deila ekki bara á núv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokka, heldur ekki síður á forustumenn síns eigin flokks, bæði núv. formann flokksins og formann þingflokksins.

Ég þarf ekki að taka það fram, að ég er sjálfsagt í þeim hópi þm., sem hefðu kosið, að það samkomulag, sem hér er verið að ræða, væri að nokkru á annan veg en það liggur fyrir. Ég hygg, að allir hv. þm. hefðu óskað þess, að Íslendingar fengju meira út úr því samkomulagi en raun her vitni. Eigi að síður tel ég, að þeir hv. þm. stjórnarandstöðunnar og þá Sjálfstfl., þegar þeir bera saman samkomulagið frá 1961 og það, sem nú er til umr., og meira að segja taka svo stórt upp í sig og segja, að það samkomulag hafi þó verið mun betra en það, sem nú er til umr., — þeir ættu, þessir hv. þm., að fara 12 ár aftur í tímann og hugleiða viðbrögð íslensku þjóðarinnar, bæði útvegsmanna, sjómannasamtaka og annarra launþegasamtaka, til þess samkomulags, sem þá var gert. Ég er ekki í neinum vafa um það, þó að ýmsa galla megi finna á þeim samkomulagsgrundvelli, sem hér liggur fyrir, þá er hann í meginatriðum mun hagstæðari en sá, sem var gerður 1961. Og það, sem sköpum skiptir að því er þennan samanburð varðar, er það, að í þeim samningi, sem oft hefur verið kallaður nauðungarsamningur, var um það að ræða, að Íslendingar afsöluðu sér landsréttindum. Það er í rauninni aðeins eitt, sem hefur komið í veg fyrir það, að við höfum getað haldið á eðlilegan hátt á landhelgismálinu, það er samningurinn frá 1961 og málskotið til Haag-dómstólsins.

Því hefur talsvert verið velt fyrir sér hér af sumum hv. þm. og þá sem eðlilegt er ekki síst af hv. þm. Vestf., þeim hv. 2. þm. og hv. 5. þm. Vestf., hver afstaða vestfirskra kjósenda til þessa samkomulags væri. Og það gengur svo langt, að báðir þessir hv. þm. fullyrða, að samningurinn frá 1961 hafi verið mun hagstæðari Vestfirðingum heldur en sá grundvöllur, sem hér er nú til umr. Ég er viss um það, að báðir þessara hv. þm. heyrðu þá og hafa heyrt það æ síðan, að sá samningur var Vestfirðingum og íslendingum í heild ekki hagstæður. Menn segja nú: Þá fengust viðurkenndar 12 sjómílur úti fyrir Vestfjörðum. — Og það er rétt. En nú er einskis metið af báðum þessum hv. þm. 20 sjómílna landhelgi úti fyrir Vestfjörðum og auk þess opinn möguleiki á því, ef menn vilja því heita, að friða ákveðin svæði fyrir línuveiðum úti fyrir Vestfjörðum, sem á er að meginstofni a. m. k. og hefur verið á ákveðnum tímum vertíðarinnar mikil útgerð á línu.

Hv. 2. þm. Vestf. og hv. 3. landsk. þm. viku að því í ræðum hér í dag, hver afstaða mín hafi á sínum tíma verið til þess grundvallar, sem fyrir lá, og vitnuðu þar í og með til viðtals, sem Alþýðublaðið átti við mig. Það var ekki annað að skilja á þessum hv. þm. en að ég hefði a. m. k. að einhverju eða jafnvel verulegu leyti skipt um skoðun frá þeim tíma. Ég man vel, hver orð mín voru í þessu viðtali. Ég lýsti því yfir, að ég liti ekki á þann grundvöll, sem þá lá fyrir, sem úrslitakosti og ég vildi sjá heildarmyndina af samkomulagsgrundvellinum, áður en ég tæki afstöðu. Ég vil m. a. benda á það, að þá var ekki vitað um tímasetningu lokunarsvæðanna, þá var hámarksaflamagnið ekki inni, og það var ekki komin nánari skilgreining á lögsagnaratriðinu af hálfu Íslendinga. Allt þetta vantaði þá inn í myndina. Ég tel því, að ég hafi á engan hátt breytt gegn því, sem ég þá sagði, þó að ég vildi ekki taka endanlega afstöðu, fyrr en heildarmyndin á dæminu lægi fyrir. Og mér er það til efs, að það sé rétt, sem hv. 5. þm. Vestf. fullyrti hér áðan, að sú tímasetning, sem sett er á svæðið úti fyrir Vestfjörðum, sé sú lakasta, sem hugsast gat. Mér er tjáð, að þær till., sem uppi voru af hálfu Landssambands ísl. útvegsmanna um lokunartíma hólfsins úti fyrir Vestfjörðum, væru nóv. og des. Sé það rétt, að svo hafi verið, þá dreg ég í efa stórlega, að rétt sé sú fullyrðing hv. 5. þm. Vestf., að sú tímasetning, sem nú er á því svæði, sé sú lakasta, sem hægt var að fá. Sannleikurinn er sá, að ef við litum til fyrri ára, þá hefur það verið svo, að vísu fer það eftir tíðarfari, — að a. m. k. des., jan. og febr. eru lokaðir mánuðir fyrir breska togaraflotann á Vestfjarðamiðunum og jafnvel nóv. líka. Komi síðan sept. og okt. til viðbótar, þá má segja, að það sé tiltölulega mikil friðun á miðunum úti fyrir Vestfjörðum af Breta hálfu á sex mánaða tímabili. Með þessu fullyrði ég ekki neitt um það, að ekki hefði mátt finna hagstæðari dagsetningar á Vestfjarðahólfið en raun ber vitni. En mér sýnist eftir þeim tölum, sem ég hef fengið af talningu Landhelgisgæslunnar á Vestfjarðamiðum síðustu 3 árin einmitt á þessu fjögurra mánaða tímabili, að það sé ekki hægt að slá neinu ákveðnu eða föstu um, hvað af þessu væri tiltölulega verst eða hest.

Mér finnst það hálfhlálegt, að nú skuli heyrast enn einu sinni hér í þingsölum tal um ágæti samningsins frá 1961, þegar þessir hv. þm., sem þannig tala, eru búnir að heyra dynja á sér allt annað álit en þeir nú halda fram á þeim samningi. Ég minnist þess a. m. k., og ég hygg að það geri fleiri, ef þeir rifja upp, að það voru ekkert síður sjálfstæðismenn, sem gagnrýndu harkalega samninginn frá 1961, og það fengu frambjóðendur Sjálfstfl. á Vestfjörðum vissulega að heyra á framboðsfundum í Vestfjarðakjördæmi sumarið 1971, og því eru þeir áreiðanlega ekki búnir að gleyma.

Í mínum augum er samningurinn frá 1961, samanborið við þann, sem nú er talað um að gera, þó að ég sé ekki alls kostar ánægður með hann, eins og svart og hvítt. Hér er ekki um nein afsláttaratriði eða afsölu lands að ræða, og það er í raun og veru meginmunurinn.

Skyldu þeir hv. þm. Sjálfstfl. á Vestfjörðum hafa haft það að leiðarljósi, þegar þeir tóku sína ákvörðun með samningnum 1961, að sú afstaða byggðist á vitund og vilja þeirra kjósenda þar? Ég hygg, að fæstir kjósendur þm. Sjálfstfl. á Vestf. hafi lýst yfir ágæti þess samnings, sem þeir greiddu atkv. með á þeim tíma. Og með tilliti til þess getur það einnig verið spurning nú, sem hv. 2. þm. Vestf. lýsti hér yfir áðan. Hann sagði, að sín afstaða byggðist á sínum vilja og vilja þeirra kjósenda, sem hann færi með umboð fyrir, þ. e. a. s. andstaða hans við það samkomulag, sem nú liggur fyrir.

Ég skal ekkert um það segja, hver almennur vilji kjósenda á Vestfjörðum er í þessu máli. En hitt þykist ég vita, að ættu þeir að velja á milli þess samnings, sem gerður var 1961, og þess, sem nú er talað um að gera, þá væri yfirgnæfandi meiri hl. vestfirskra kjósenda og ekki siður kjósenda Sjálfstfl., sem veldu þann samning, sem nú er umtalaður. Ég hygg nefnilega, að þegar menn tala um viðhorf Vestfirðinga til þessa máls, verði þeir að hafa í huga það, sem verið hefur að gerast á Vestfjarðamiðum að undanförnu, og það er að mínu viti óeðlilegt ástand, sem þar hefur átt sér stað, og hefur ekki orðið til þess, að menn væru jákvæðir í afstöðunni til samninga við Breta. Og það er skiljanlegt. En ég er ekki viss um, að það sé yfirgnæfandi vilji Vestfirðinga, að ekki verði samið. Minn grunur er sá, að sú andúð, sem kann að heyrast gegn þessu samkomulagi við Breta, sé fyrst og fremst runnin frá því, sem verið hefur að gerast á Vestfjarðamiðum undanfarinn mánuð. Og það er mál, sem sérstaklega verður rætt hér síðar og ég ætla ekki að fara út í að ræða nú.

Hv. 2. þm. Vestf, vitnaði til yfirlýsingar eða samþykktar, sem Alþýðusamband Vestfjarðar gerði á nýafstöðnu þingi sínu, og lét í það skína, að a. m. k. hann vildi ekki ganga gegn þeirri samþykkt, sem þar var gerð. Það hefði farið betur, að bæði þessi hv. þm. og hv. 5. þm. Vestf. hefðu tekið til greina þau kröftugu mótmæli, sem komu ekki bara frá Alþýðusambandi Vestfjarða, heldur fjöldanum öllum af samtökum sjómanna, sjómannafélaga og verkalýðsfélaga á Vestfjörðum, svo og útvegsmanna, gegn samningunum 1961. Þá var þetta ekki haft að leiðarljósi af þessum hv., þm., óskir þessa fólks. En það vill nú svo til, að í þeirri samþykkt, sem hér var vitnað til frá Alþýðusambandi Vestfjarða, er ekki kveðið fastar að orði en það, að varað er við samningunum, það er varað við þeim. Þeim var mótmælt kröftuglega 1961, og þá voru þau mótmæli ekki tekin til greina af þessum hv. þm.

Það væri vissulega full ástæða til þess að gera fleiri aths. við það, sem fram hefur komið í ræðum manna í dag. Ég held þó, að hvað sem menn segja eða hvað sem menn greinir á um samkomulagið út af fyrir sig, þá verði menn, hvort sem þeim líkar betur eða verr, að gera það upp við sig, hvort með samkomulaginu eru líkur á því, að það verði tryggð frekari minnkandi sókn á tiltekin svæði heldur en ef við hyggjum við áframhaldandi óbreytt ástand.

Hv. 3. landsk. þm. hóf ræðu sína á því hér s. l. fimmtudag að lýsa því yfir, að hann væri lítt undir það búinn að ræða þetta mikilsverða mál, vegna þess að hann hefði ekki kafað djúpt í það mál á þeim tíma, sem hann hefði haft til þeirra hluta. Mér sýnist nú, að á þeim tíma, sem liðinn er síðan, frá fimmtudegi, sé þessi hv. þm. kominn litið dýpra í sínu köfunarstarfi að því er þetta mál varðar. Ég heyrði ekki betur en í báðum þeim ræðum, sem hann flutti hér í kvöld, væru gegnumgangandi slagorð, — slagorð, sem ég tel, að ekki sæmi þm. á löggjafarsamkomu Íslendinga, ekki einu sinni, eins og ég sagði hér siðast, hv. 3. landsk. þm., og er þá mikið sagt. Það er því ekki ástæða til þess að fara út í að gera aths. eða svara því, sem hann var með í dag frekar en raunar var ástæða til þess s. l. fimmtudag, þó að það væri þá gert.

En ég vil að síðustu minna menn á það, eins og raunar hefur verið rakið í umr. í dag og kvöld, hver ferill Sjálfstfl. í landhelgismálinu er. Sá ferill er hvorki fagur né mikill, hvað sem hv. 2. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Vestf. segja nú um það mál. Þeir voru ekki reiðubúnir til þess vestur á Ísafirði fyrir kosningarnar 1971, á fundum þar, að lýsa yfir einu eða neinu, sem þeir vildu standa að í sambandi við landhelgismálið að kosningum loknum. Þeir voru þá með sömu undansláttarstefnuna og þeir voru með, meðan þeir áttu aðild að ríkisstj. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að vestfirskir kjósendur ekki síður en kjósendur annarra landshluta á Íslandi, treysta kannske hvað síst Sjálfstfl. til þess að ráða farsællega fram úr landhelgismálinu, og ég er sammála vestfirskum kjósendum í því.