12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er eins og það séu álög á hv. 5. þm. Vestf., að hann stendur uppi eins og berskjaldaður, ef hann hefur ekki sinn elskulega vin, hv. 2. þm. Vestf., til þess að taka af sér fallið. Hygg ég, að þeir hv. þm., sem hér hlustuðu á hans mál áðan, séu reynslunni ríkari um það. Það er ósköp auðvelt að afgreiða menn með því að segja: Það tekur ekki að svara því. En það er í raun og veru of auðvelt að láta þennan hv. þm. sleppa með slíkt. Hans frammistaða á þingi þau fáu þing, sem hann hefur setið, er ekki slík, að ástæða sé til þess. En ég ætla ekki frekar að fara að skattyrðast við þennan þm. Það gefast væntanlega nóg tækifæri til þess, þótt síðar verði, og ég kvíði ekki þeim viðskiptum, hvað sem viðkemur þeirra skyldleika, hv. 5. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Vestf., því að þeir eru, að mér skilst, náskyldir. Og þá má kannske vera, að margt sé líkt með skyldum.