22.10.1973
Sameinað þing: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans við þessari fsp. Mér sýnist þó á þeim svörum, sem þar komu fram og eru, að því er mér skildist, frá yfirstjórn landhelgisgæslunnar, að þar beri margt í milli varðandi þessa atburði, annars vegar í svari landhelgisgæslunnar og hins vegar í því, sem fram kemur í nefndri grein. Ég tek undir það hjá hæstv. ráðh., að það er æskilegt, að þegar slíkir hlutir gerast, þá séu mál könnuð ofan í kjölinn, og ég tek undir það, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, að ég geri ráð fyrir því, að það verði beðið um, að viðkomandi aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, gefi skýrslu um atburði. En ég vil ekki ætla neinum manni það, ekki að svo stöddu eða að óreyndu, að hann láti hafa eftir sér nafngreindur í blaðaviðtali neitt um slíka hluti, sem ekki standist að fullu. Að óreyndu geri ég það ekki fyrr en annað kemur í ljós.

Í þessu nefnda viðtali segir orðrétt, með leyfi í forseta :

„Það er sama, hvað við biðjum landhelgisgæsluna um, það er aldrei stuggað við togara.“ Þetta eru stór orð. En ég ætla þessum skipstjóra ekki, að hann geti ekki við það staðið. Síðar í þessari sömu grein segir orðrétt: „Okkur tók það sárt að sjá varðskipið Ægi láta reka inni í miðjum togarahópnum í gær,“ þ. e. a. s. á síðasta laugardegi.

Ég ætla ekki heldur, að þessi einstaklingur, sem þarna um getur, sé með slíkar aðdróttanir, án þess að hann geti fært rök fyrir sinu máli.

Ég skal ekki fjölyrða öllu frekar um þetta. Af minni hendi verður a. m. k. þess óskað, að þessi aðili eða aðilar, ef fleiri eru, gefi skýrslu um málið. Og ég vil gjarnan óska þess við hæstv. dómsmrh. þá um leið, að hann gangi frekar úr skugga um, að það sé allt með felldu innan landhelgisgæslunnar, þannig að þeim yfirlýsingum, sem gefnar hafa verið, verði alveg treyst og við þær verði staðið.

Ég fagna því, að hæstv. ráðh. lýsti því yfir hér, að það stæði, sem hann hefði sagt um þetta mál í fyrri yfirlýsingum, — því fagna ég mjög, — og ég skal, eins og ég sagði áðan, ganga úr skugga um, hvort þessir aðilar í títt nefndu viðtali eru ekki reiðubúnir til þess að skjalfesta það, sem þeir hafa látið frá sér fara í sambandi við, að ég hygg, blaðamann þessa dagblaðs.