13.11.1973
Sameinað þing: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Að mínum dómi er samkomulagsgrundvöllur þessi á mörkum þess, sem hugsanlegt er að samþykkja, og þess, sem er með öllu óaðgengilegt. Kostir samkomulagsins eru fólgnir í eftirfarandi:

1) Útilokun á hluta af afkastamestu fiskiskipum Breta og þar með nokkurri minnkun á afla þeirra.

2) Óbeinni viðurkenningu Breta með samningsgerð þessari.

3) Friði á miðunum og eðlilegum samskiptum milli þjóðanna.

Ókostirnir eru aftur ámóti þeir að mínum dómi:

1) Dagsetningar varðandi hólfaskiptingu virðast sniðnar við hæfi Breta.

2) Lítillækkandi framkvæmd á lögsögu innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

3) Ekki er að finna neinar yfirlýsingar eða fyrirvara um framhald aðgerða okkar Íslendinga í landhelgismálinu, hvorki á samningstímabilinu né að því loknu.

Samkomulag þetta er eins konar vopnahlé, sem að ýmsu má kalla uppgjöf. Nærri lægi að sitja hjá við slíka atkvgr., en ég kýs ekki þann hlut að taka ekki afstöðu í slíku máli, og í mínum huga vega ókostirnir þyngra heldur en kostirnir, og segi ég því nei.