13.11.1973
Sameinað þing: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera grein fyrir atkv. mínu með eftirfarandi hætti :

Sjálfstæðismenn lögðu grundvöllinn að baráttunni fyrir réttindum Íslendinga á landgrunninu öllu, sbr. setningu landsgrunnsl. frá 1948, sem síðari útfærslur fiskveiðilögsögunnar hafa ætíð verið grundvallaðar á. Þeir hafa alla tíð lagt megináherslu á samstöðu þjóðarinnar í þessu lífshagsmunamáli hennar og miðað aðgerðir sínar við það. Hið sama verður ekki sagt um núv. stjórnarflokka í stjórnarandstöðu fyrir alþingiskosningarnar á árinu 1971 né eftir þær, er þeir hafa haft uppi síendurtekinn svika- og landráðabrigsl í garð sjálfstæðimanna, þegar þeir hafa reynt að leiða landhelgismálið til sátta og fram á við á þeirri grundvallarstefnu, sem samstaða hefur ríkt um meðal þjóðarinnar.

Það var einróma álit alþm. 15. febr. 1972, að þess skyldi freistað að leita áfram samkomulags við deiluaðila í málinu, Breta og Vestur-Þjóðverja. Því miður hefur ríkisstj, verið sjálfri sér sundurþykk í þessu máli eins og mörgum öðrum. Málið hefur dregist á langinn til mikils tjóns fyrir Íslendinga. Hitt er svo jafnaugljóst, að sérstaklega Bretar hafa sýnt sérstaka óbilgirni, og er framkoma þeirra á Íslandsmiðum með öllu óafsakanleg.

Þegar borin er saman fyrirhuguð samningsgerð við Breta nú varðandi landhelgismálið og samningsgerðin frá 1961, er augljóst, hversu samningsgerðin er á marga lund óhagstæðari íslendingum nú. Kemur þar að sjálfsögðu fyrst af öllu til álita sjálft deiluatriðið, að víðátta fiskveiðilögsögunnar er ekki viðurkennd afdráttarlaust af hálfu Breta, svo sem raunin varð á 1961. Enn fremur eru engar yfirlýsingar í fyrirhuguðu samkomulagi nú um áframhaldandi ráðagerðir Íslendinga um útfærslu fiskveiðilögsögunnar á landgrunninu öllu. Ágalla slíkrar yfirsjónar er nú bægt frá með því, að fyrir Alþ. liggur till. til þál. frá sjálfstæðismönnum um rétt Íslendinga til að færa út auðlindalögsöguna allt að 200 mílum frá grunnlínum, og einnig till. ríkisstj. um heimild Íslendinga til þess. Hvort tveggja er byggt á þróun mála á alþjóðavettvangi Íslendingum í vil að loknum undirbúningsfundum Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem nú er fram undan. En fyrir liggur, að mikill meiri hluti þjóða muni á ráðstefnunni fylgja þeirri stefnu, að sérstakur réttur strandríkjanna sé viðurkenndur. Þegar svo horfir, munu sjálf deiluatriðin í landhelgismálinu milli Íslendinga og annarra þjóða leysast á sjálfri Hafréttarráðstefnunni og innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Á þetta var ætíð lögð megináhersla af hálfu sjálfstæðismanna.

Ég tel það liggja í hlutarins eðli, að deilur milli þjóðanna fyrir Alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna hljóta að frestast, og verður að sjá til þess, að dómur verði á þeim vettvangi eigi upp kveðinn um deilur þjóðanna, meðan sáttagerðir standa milli þeirra. Þetta er þeim mun þýðingarmeira þar sem því hefur verið lýst yfir af íslensku ríkisstj., að hún muni ekki taka þátt í málflutningi fyrir Alþjóðadómstólnum, og þar með koma ekki að svo stöddu fram þau rök, sem Íslendingum er nauðsynlegt að fram komi og fyrir liggi í málinu. Síðan þurfa Íslendingar einskis að óttast að eiga málsúrslit sín og endanlega lausn landhelgismálsins undir þeirri þróun, sem nú blasir við á alþjóðavettvangi, en Íslendingar voru einmitt meðal þeirra þjóða, sem lögðu á það áherslu, að auðlindalögsagan yrði ákveðin á fyrirhugaðri Hafréttarráðstefnu.

Þótt gagnrýna megi ýmis ákvæði þessarar samningsgerðar harðlega, einkum frá sjónarmiði þeirra, sem harðast fordæmdu samningsgerðina við Breta árið 1961, er að mínum dómi ótvíræður vinningur að samningsgerðinni frá því, sem ella mundi vera. Ég er því eindregið hlynntur því, að bundinn sé endir á hina hættulegu deilur, sem þróast hefur á Íslandsmiðum, og af þeim sökum er ég samþykkur því að veita ríkisstj. umbeðna heimild til bráðabirgðasamkomulags við Breta og segi já.