13.11.1973
Sameinað þing: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þess máls, sem nú er til atkvgr., á þessum stað um kl. 4 í nótt. En með tilliti til þess, að þá sváfu, að ég hygg, allflestir hv. þm. og að ég vona a. m. k. svefni hinna réttlátu, þá tel ég rétt að koma á framfæri skoðun minni varðandi þetta mál.

Ég er í þeirra hópi, sem telja ýmislega ágalla samfara þessu samkomulagi, hef ég ekki dregið neina dul á það og geri það ekki nú. Ég er þó þeirrar skoðunar, að eins og málum er háttað í dag, þá sé affarasælla að ganga til samninga, stiga þetta skref í átt til fullra umráða yfir íslenskri landhelgi, því að ég tel og raunar veit, að það, sem nú er gert, er aðeins skref í þeim áfanga, að við náum fullum réttindum yfir íslenska landgrunninu, og með tilliti til þess segi ég já.