13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

353. mál, bygging Seðlabankans

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fsp. fram til hæstv. viðskrh. um byggingu Seðlabankans. Hafa orðið nokkrar deilur á opinberum vettvangi um byggingu þessa bankahúss á undanförnum mánuðum, og þótt núv. ríkisstj. hafi í upphafi ferils síns sett á stofn allviðamikla stofnun, sem átti að hafa með að gera röðun stórra verkefna í okkar þjóðfélagi, hefur sú stofnun, Framkvæmdastofnunin, ekki getað látið fresta byggingu þessa hanka, og hæstv. viðskrh. hefur ekki talið sig hafa vald til þess að stöðva bygginguna heldur. Hins vegar mun að frjálsri ákvörðun bankastjórnar nokkurt lát hafa orðið á byggingarframkvæmdum. En til þess að gera okkur þm. nokkra grein fyrir, í hvað er þarna verið að ráðast og hve margir starfsmenn eru, hef ég leyft mér að leggja þær tvær fsp. fram, sem eru á þskj. 34. Ég vil þó taka fram, að það er ekki vegna þess, að ég sé, ef Seðlabankinn telur nauðsynlegt að byggja hús yfir starfsemi sína, að amast við því. Hins vegar er ég sammála mörgum aðilum um það, að slíkar byggingarframkvæmdir megi bíða á tímum sem þessum og aðrar nauðsynlegar byggingar ganga fyrir. En fsp. mínar til hæstv. viðskrh. eru á þessa leið:

„Hver er áætlaður rúmmetrafjöldi í fyrirhugaðri byggingu Seðlabankans norðan Arnarhóls, og hver er fjöldi starfsmanna þessa banka nú?

2. Hver er áætlaður kostnaður þessarar bankabyggingar pr. m3?“