13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

353. mál, bygging Seðlabankans

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Svör við þessari fsp. hefur rn. fengið frá Seðlabankanum, og þau eru á þessa lund:

1. Rúmmetrafjöldi í fyrirhugaðri byggingu Seðlabankans er áætlaður þannig: Rúmmál byggingar ofanjarðar 10 þús. rúmmetrar og rúmmál kjallara undir aðalbyggingu 8 þús. rúmmetrar. Auk þess er kjallari, sem ætlaður er fyrir bílageymslur, áætlaður 12 þús. rúmmetrar.

Nýting á þessu húsrými er hugsuð þannig, að í kjallara undir aðalbyggingu verða verðmætageymslur bankans og allt, er tilheyrir öryggisvörslu, svo og ýmis þjónustuaðstaða fyrir starfsfólk. Enn fremur verður í kjallara vélasalur fyrir sameiginlega rafreiknimiðstöð hankanna, en samstarf er hafið milli allra bankanna um að koma upp slíkri miðstöð. Í aðalbyggingunni ofanjarðar verða skrifstofur allra deilda bankans og þeirra sjóða, sem hann hefur umsjón með eða eru tengdir honum, og enn fremur skrifstofur hinnar sameiginlegu rafreiknimiðstöðvar bankanna, í kjallara þeim, sem ætlaður er fyrir bílageymslur, og á lóð hússins er gert ráð fyrir um 160 bílastæðum, og verða þar af um 150 til afnota fyrir almenning. Hefur Reykjavíkurborg óskað eftir að fá til umráða allt að 100 bílastæði umfram þær kvaðir, sem hvíla á byggingunni í því tilliti, og mun borgin standa straum af þeim kostnaði, sem af því leiðir.

Ekki er gert ráð fyrir fullri nýtingu alls húsrýmis hinnar nýju byggingar bankans þegar í upphafi, og verður því hluta húsrýmisins ráðstafað til annarra þarfa fyrst í stað, en endanlegar áætlanir hafa ekki verið gerðar um það. Starfsmannafjöldi Seðlabankans er nú 103.

2. Á s. l. sumri, er áætlun var gerð um kostnað við bygginguna, var gert ráð fyrir, að heildarkostnaður mundi nema um 328 millj. kr., og eru þar innifaldar allar bílageymslur. Samsvarar þetta því, að kostnaður á hvern rúmmetra yrði 10900 kr.

Þetta voru sem sagt þær upplýsingar, sem rn. bárust frá Seðlabankanum.