13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

364. mál, rekstrargrundvöllur skuttogara

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans. Fyrra svarið virðist benda til þess, eftir þeim tölum að dæma, sem þar eru nefndar, að halli togaraútgerðarinnar það ár hafi verið allgeigvænlegur miðað við þann fjölda togara, sem í gangi var, og miðað við, að þá eru ekki komnir til nema sárafáir, ef þá nokkrir, hinna nýju og dýru togara, en afskriftir af þeim eru a. m. k., hvað sem rekstrinum líður, miklum mun hærri en hér er um að ræða. Og þrátt fyrir það, að orðið hafi að mæta hallanum með styrk úr ríkissjóði og úr öðrum áttum, svo sem ráðh. gerði grein fyrir, hefur ekki verið neitt til afskrifta, sem að sjálfsögðu er til langframa mjög erfitt og vandasamt og raunar óviðunandi mál.

Varðandi aðra fsp. er kannske erfitt að ræða hana miklu nánar, vegna þess, eins og hæstv. ráðh. sagði, að hér er önnur fsp., þar sem vikið er að sama máli. En ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. sér sér fært að svara því nú í sambandi við þá fsp, eða yfir höfuð að svara því, — það hefur verið áður rætt um það hér á Alþ., hvort ekki megi ganga út frá því, að hæstv. ríkisstj. líti á málefni þeirra fjölmörgu skuttogara, sem eru að koma til landsins og því miður eru ekki glæsilegar horfur um útkomu á, og mæti þeim vanda með einhverjum hætti af opinberri hálfu, svo sem vanda hinna eldri togara. Ég spyr að þessu vegna þess, að þegar þetta hefur verið rætt hér áður, hefur komið fram, að ég hygg hjá þessum hæstv. ráðh., að hann teldi mjög vafasamt a. m. k., að hægt væri að ganga út frá því, að til álita kæmi að veita þessum togurum aðstoð, því væri ástæða til þess að fá að vita, hvort ráðh. hefur þá skoðun eða hvort hann vill, þegar þessar niðurstöður liggja fyrir, beita sér fyrir því, ef nauðsynlegt reynist, að veita þeim aðilum, sem eiga skuttogarana og eru fjölmargir og margir þeirra ekki mikils megnugir, aðstöðu til þess að reka þá togara með eðlilegum hætti.