13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

57. mál, fiskileit úti fyrir Austfjörðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika það, ef það hefur farið fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að það, sem ég las upp hér frá Hafrannsóknastofnuninni, varðaði allt saman fiskileit og fiskirannsóknir fyrir Austurlandi. Þetta var engin almenn skýrsla um allar þær rannsóknir, sem stofnunin hefur haft með höndum, heldur eingöngu varðandi Austurland. Þar var um að ræða skeldýrarannsóknir, rækjurannsóknir, loðnurannsóknir, síldarrannsóknir, flatfiskrannsóknir, þorskrannsóknir, grálúðurannsóknir og ýsurannsóknir á þessu árabili. Ég efast ekkert um, að það eru uppi á Austurlandi og víðar óskir um, að gert verði meira að, en mér sýnist, að það hafi verið unnið að þessum málum, og ég ætla, að það verði gert, eftir því sem tök eru á. En rannsóknaverkefnin eru mörg, eins og ég sagði. Sem sagt, ég get ekki séð annað en það hafi verið af hálfu stofnunarinnar unnið í meginatriðum að því, sem henni hafði verið falið.