13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

74. mál, fiskiðnaðarnámskeið sjávarútvegsráðuneytisins

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. sjútvrh. þriggja spurninga varðandi fiskiðnaðarnámskeið sjútvrn.

Fyrsta spurningin hljóðar svo:

„Hvað veldur auglýsingu Fiskmats ríkisins um fiskiðnaðarnámskeið í sömu greinum og kenndar eru í Fiskvinnsluskólanum og á sama tíma og hann starfar?“

Í öðru lagi: „Munu þeir, sem námskeiði þessu ljúka á 2–4 vikum, njóta sömu réttinda, t. d. við mat á frystum og ferskum fiski, og þeir, sem námi ljúka frá Fiskvinnsluskólanum eftir 3 vetra nám?“

Og í þriðja lagi: „Telur ráðh. slíka ráðstöfun æskilega fyrir hinn unga Fiskvinnsluskóla og íslenskan fiskiðnað í heild?“

Ég held, að allir hljóti að gera sér grein fyrir því, ef t. d. annarri spurningunni væri svarað játandi, að þá mundi það þýða dauðadóm yfir skóla þessum, því að að sjálfsögðu mundu nemendur skólans þá leita á námskeið þetta til þess að hljóta þau réttindi, sem þeir eru annars að leita eftir í skólanámi sínu.

Ég skal taka það fram, að ég hef heyrt þess getið og heyrt haft eftir hæstv. ráðh. að gefnu tilefni vegna fsp. nemendanna sjálfra, að hann hafi tekið vel undir fsp. þeirra og gefið þeim fyrirheit um, að mál þeirra yrði athugað og hagsmunir þeirra. En ég hef talið rétt að fylgja þessum fsp. eftir hér á hv. Alþ., til þess að Alþ. fái að heyra svör hæstv. ráðh. við þessum fsp. og þau séu þá skjalfest hér á hæstv. Alþ.