14.11.1973
Efri deild: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Lögfesting þess frv., sem hér liggur fyrir, er nauðsynleg vegna þess bráðabirgðasamkomulags, sem gert hefur verið í fiskveiðideilunni við Breta. Eins og kunnugt er og hér þarf ekki að rekja, er það samkomulag með þeim hætti, að tilteknum skipum, sem eru á skrá, sem Ísland hefur samþ., er veittur réttur til veiða á tilteknum svæðum á svæðinu á milli 12 og 50 sjómílna frá grunnlínum, með þeim undantekningum, sem í samkomulaginu segir, og þetta gildir meðan samkomulagið stendur, þ. e. a. s. í tvö ár. Veiðar af hálfu þeirra veiðiskipa, sem fara í bága við ákvæði samkomulagsins, varða þeim viðurlögum, að það skip eða þau skip sem það brjóta, verða felld niður af skránni og missa þar með að fullu og öllu réttinn til þess að stunda fiskveiðar á þessu svæði.

Þessi viðurlög, sem þarna er mælt fyrir í samningnum, eru undantekning frá íslenskum lögum, sem gilda um viðurlög við brotum á l. um bann við botnvörpuveiðum, þar sem slík brot almennt varða þeim viðurlögum, eins og kunnugt er, að skipstjóri er sektaður, afli og veiðarfæri eru gerð upptæk. Þeim viðurlögum á ekki að beita fyrir brot á þessu samkomulagi, heldur á að svipta skip leyfi til þess að stunda veiðarnar.

Ég held, að það þurfi ekkert um það að ræða, hvort eru þyngri viðurlög. Það er engum blöðum um það að fletta, að slík réttindasvipting sem hér er um að tefla er margfalt þyngri sem viðurlög heldur en þau viðurlög, sem almennt eru lögð við þessum brotum, þó að þau séu í sjálfu sér mjög veruleg. En til þess að megi beita þessum — ég vil segja: ströngu viðurlögum, sem hér er gert ráð fyrir til bráðabirgða, er nauðsynlegt að taka heimild til þess upp í íslensk lög, sem að sjálfsögðu kveða á um það, hvaða viðurlögum skuli beitt fyrir brot á íslensku yfirráðasvæði, einhliða og án þess að þar komi annað til.

Annað, sem nauðsynlegt er að ákveða í þessu sambandi, er það, hvaða aðili íslenskur skuli svipta skipin leyfinu. Auðvitað væri það í samræmi við almennar reglur íslenskra laga, að það væru dómstólar. En þar sem hér er um bráðabirgðaskipun að ræða og undantekningu að öðru leyti frá almennum reglum, er líka horfið frá því í þessu frv. Ástæðan er sú, að meðferð fyrir dómstólum tekur alllangan tíma, en það er æskilegt, að hér sé skjótt skorið úr og það liggi fyrir án tafar, að skip skuli missa réttinn. Þess vegna er mælt svo fyrir í þessu frv., að það sé framkvæmdavaldshafi, dómsmrn., sem fer með þetta ákvörðunarvald og ákveður leyfissviptingu, eftir að það hefur fengið í hendur gögn Landhelgisgæslunnar. Með þessum hætti á að vera unnt að fá mjög skjóta úrlausn um þetta atriði.

Það var aðeins hugleitt að taka jafnframt upp í frv. heimild til þess, að ákvörðun rn. mætti bera undir dómstóla. En að athuguðu máli var horfið frá því, m. a. af því að mönnum virtist, að þá gæti komið til greina, að það yrði þá að byrja á því að hafa sjópróf, sjódóm, ef gert væri ráð fyrir því í lögum, að málið gæti komið til dómstóla, og þá gæti það orðið til þess að tefja heldur afgreiðslu málsins, þannig að horfið var frá því að setja nokkuð um þetta í lög. Þrátt fyrir það býst ég við því, að eftir almennum íslenskum reglum geti sá aðili, sem ekki vill við þetta una, borið mál sitt undir íslenska dómstóla, vegna þess að það er einu sinni almenn regla, að þeir eru opnir mönnum, ef svo má segja.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um efnisatriði þessa frv. Þau eru alveg skýr. Efni þess bar líka á góma í sambandi við umr. um þáltill. Ég held, að það geti ekki nokkur lifandi maður deilt um það, eftir að þetta frv. hefur verið samþ. og er orðið að l., hvaða aðili það sé, sem fer með ákvörðunarvaldið í þessum efnum. Og ég held, að því verði ekki heldur haldið fram, að það sé hætta á því, að það dragist úr hömlu, að ákvörðun verði tekin um þessi efni, sem þarna er um að ræða. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það hefði verið vandfundið annað skipulag, sem hefði veitt þeim skipum, sem hér eiga hlut að máli, styrkara og öruggara aðhald heldur en þetta. Ég býst satt að segja við, að ef einhverjum skyldi detta í hug að setja hliðstæð lög varðandi íslensk skip, þá mundi það vera nokkuð sterkt aðhald að þeim um að gæta sín vel í þessum efnum. En slíkt kemur auðvitað ekki til mála, að kveða þannig á gagnvart þeim.

Þetta samkomulag, sem gert hefur verið, er í raun og veru ekki hægt að framkvæma fullkomlega, fyrr en þessi ákvæði eru komin í íslensk lög. Það er ekki hægt að fara að beita þeim ákvæðum fyrr. Dómsmrn. hefur ekki heimild til þess að beita þessum aðgerðum fyrr en búið er að fá þessa heimild í íslenskum lögum. Þar sem nú er búið að undirrita samninginn, liggur auðvitað á því að fá þetta frv. afgreitt. Með tilliti til þess, að það hefur nú legið fyrir og verið gerð grein fyrir því í þeim almennu umr., sem fram fóru um þáltill., og ég vona, að öllum þm. sé nokkuð ljóst efni þess, um hvað það fjallar, þá vil ég nú leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta og hv. þd., að hún hraði þessu máli svo, að það sé hægt að afgreiða það í gegnum þessa d. á þremur fundum nú í dag. Ég vil gera það að till. minni, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til allshn. Þar sem hér er um að ræða ákvæði um viðurlög og um það, hver ákveði þau viðurlög, þá sýnist mér það helst eiga heima í þeirri n., og að hæstv. forseti gæfi þá, ef hann vildi fallast á það, stutt hlé, til þess að n. gæti athugað frv. Ég vil vonast til þess, að það taki ekki langan tíma fyrir hana að komast að niðurstöðu um það.