14.11.1973
Efri deild: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég tel, að í því, sem fram kom hjá mér í sambandi við þetta mál, hafi ekki verið um neinn misskilning að ræða, enda segir hæstv. ráðh., að það sé meiningin með því að kalla breskt eftirlitsskip að sannreyna málsatvik. Til hvers á að sannreyna málsatvik? Og síðan segir hæstv. ráðh., að þessir aðilar geti sótt það eftir diplómatískum leiðum að fá leiðréttingu mála sinna. Segjum nú svo, að það komi fyrir, sem er ekkert nýtt í landhelgissögunni, það hefur átt sér stað, að varðskip hefur tekið togara og komið hefur í ljós, að það hafi ekki reynst réttar mælingar, og togari, sem hefur verið tekinn, verði sýknaður. Þetta hefur átt sér stað áður, og þetta getur vitanlega átt sér stað aftur í sambandi við þau málsatvik, sem þarna er um að ræða. þess vegna getur það vitanlega komið upp, að það verði tekið skip, sem að nánar athuguðu máli er ekki brotlegt. Það er hugsanlegt, að slíkt eigi sér stað, eins og dæmi eru til um áður varðandi töku togara, sem hafði verið staðinn að meintu broti. En ég var alls ekki að halda því fram, að mér dytti í hug, að það gilti ekki, sem okkar varðskip ákveða í þessum efnum, og það þyrfti að bíða neitt eftir því. Þeir tilkynna töku umræddra togara vitanlega í land til dómsmrn., og það gefur út úrskurð um, að þetta skip verði strikað út. Mér er ljóst, að sú ákvörðun hlýtur að standa, nema því aðeins að því verði hnekkt. Mér er það fyllilega ljóst. En það, sem ég meinti og endurtek og kom greinilega fram hjá fjölmörgum ræðumönnum undir afgreiðslu þessa bráðabirgðasamkomulags í Sþ., er sá háttur, sem mönnum þykir miður, að skuli hafa verið settur inn í samkomulagið, að þessi kvöð er sett á íslensku varðskipin.